25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

189. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Landbn. þessarar deildar hefur haft frv. þetta til meðferðar. N. hefur rætt frv. á þremur fundum og kvatt á fund sinn veiðistjóra, Svein Einarsson, sem gaf n. upplýsingar varðandi þessi mál og skýrði sín sjónarmið snertandi frv.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 540, leggur nefndin til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem fram kemur á sérstakri brtt. n. á þskj. 541. Einn nm., formaðurinn, hv. 11. landsk., skrifar þó undir með fyrirvara, en tveir nm. voru fjarstaddir, er málið var afgreitt, þeir hv. 5. þm. Vesturl. og hv. 2. landsk. þm. Með lögum um eyðingu refa og minka frá 1957 var sem kunnugt er sveitarstjórnum lögð sú skylda á herðar að láta eitra fyrir refi og minka eftir fyrirmælum Búnaðarfélags Íslands og nánari ákvörðun veiðistjóra. Heimild til eitrunar var síðan afnumin með lögum 1964 til 5 ára. Frv. það, sem liggur fyrir, er, eins og fram kom við 1. umr. þess, flutt til þess að framlengja það eitrunarbann í næstu 5 ár.

Með brtt. þeirri, sem hv. landbn. flytur á þskj. 541, er lagt til, að veiðistjóra og sérstökum trúnaðarmönnum hans verði að fengnu leyfi landbrn. heimilt að eitra fyrir yrðlinga inni í grenjum, þar sem sérstaklega erfiðar aðstæður torvelda eyðingu þeirra með öðrum hætti.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að miklu er kostað til eyðingar refa og minka hér á landi og ekki að ófyrirsynju, slíkum skaða sem vargdýr þessi valda. Oft getur reynzt sérlega erfitt að vinna yrðlinga í grenjum þó tekizt hafi að fella bæði fullorðnu dýrin. Gildir það ekki sízt, þar sem greni eru í hraungjótum, þar sem gangar liggja víðs vegar og síðustu yrðlingarnir hafa hvekkzt, þegar hinir fyrri hafa náðst. Af þessum sökum getur það hent, þegar greni liggja fjarri byggð og akfærum leiðum, að grenjavinnslumenn neyðist til að yfirgefa þau áður en vinnsla hefur tekizt að fullu. Það má að mínu viti ekki koma fyrir, að greni þurfi að yfirgefa þannig, áður en yrðlingar hafa náðst, jafnmiklum skaða og dýr þessi valda, þegar þau vaxa upp, og jafnmikill kostnaður sem lagður er í vinnslu þeirra.

Verði till. n. samþ. og eitrun leyfð inni í grenjum fyrir yrðlinga, ef þeir nást ekki með öðrum hætti, er það talið nokkuð öruggt, ef verk þetta er unnið af samvizkusemi og kostgæfni, að þá verði það yrðlingunum að grandi. Varðandi það sjónarmið fuglaverndunarmanna, að eitrun sé samfara of mikil hætta fyrir arnarstofninn, sem vissulega er nauðsyn að vernda í landinu, þá virðist ekki hægt að koma auga á það með nokkrum rökum, að erninum geti stafað hætta af þeirri mjög takmörkuðu eitrunarheimild, sem hér er lagt til, að gerð verði.

Ákvæði frv. þessa gilda einungis næstu 5 ár, og ég tel, að það sé æskilegt að fá reynslu af þessum takmörkuðu eitrunaraðgerðum á því tímabili, og þegar l. um eyðingu refa og minka verður væntanlega breytt, að þeim tíma liðnum, sé sú reynsla til hliðsjónar við þær breytingar, sem þá verða gerðar.

Ég vil vænta þess, að með tilliti til þeirra ástæðna, sem ég hef hér rakið, þá sjái hv. d. sér fært að fallast á þá brtt., sem n. hefur hér gert, og tel, að af því muni ekki geta hlotizt skaði fyrir önnur þau dýr, sem okkur vissulega ber að vernda í þessu landi.