14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

117. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins fyrir hádegi á laugardegi í það að kappræða við hv. þm. um mannasiði, en aðeins taka það fram, að á því eru skýringar, að þetta frv. er ekki borið fram fyrr en núna. Það hafa farið fram víðtækar umr. við Háskólann og innan Háskólans um það, hvernig heppilegast væri að skipuleggja þetta starf, sem nú er meiningin, að Háskólinn taki að sér, en æviskrárritari hefur hingað til haft með höndum. Það hefur farið fram víðtæk vísindastarfsemi á vegum Háskólans á hliðstæðu sviði og því, sem æviskrárritari hefur haft með höndum. Það, sem hér er um að ræða, er að endurskipuleggja flókna vísindastarfsemi, og það hefur kostað miklar umr. innan Háskólans og við menntmrn. og við Þjóðskjalasafnið. Það er þetta, sem hefur tekið tíma. Ég skal fúslega játa, að það hefur tekið lengri tíma en ég upphaflega gerði ráð fyrir og ég hefði kosið. Hins vegar leyfði ég mér að flytja þetta frv. eingöngu vegna þess, að ég gerði ráð fyrir, að um það mundi ekki verða efniságreiningur hér á hinu háa Alþ. Ef um það er efniságreiningur, þá óska ég alls ekki eftir því, að málið verði afgreitt fyrir þinghlé og skal fúslega fallast á það, að 2. gr. frv., sem er um það, að það taki gildi 1. janúar, falli niður og að frv., hin nýja skipan, taki gildi, þegar Alþ. hefur afgr. frv.

Sem sagt, ég flutti það í góðri trú um það og þóttist hafa ástæðu til þess að ætla það, ég hafði rætt málið við formenn stjórnarandstöðuflokkanna í haust og var í góðri trú um það, að um þessa nýskipan væri enginn efniságreiningur milli flokka á Alþ. Komi það í ljós, að svo sé, þá skal ég fúslega fallast á breytingu á frv. í þá átt og á það, að frv. geti fengið alveg venjulega meðferð hér á hinu háa Alþ. Ég hef ekki ætlað að þröngva neinni niðurstöðu, neinum úrslitum, upp á nokkurn aðila, hvorki þingflokk né þm., í þessu máli. Mín vegna má málið gjarnan bíða þangað til þing kemur saman aftur eftir nýár.