17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

117. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég get ekki orða bundizt út af ummælum hv. 4. þm. Reykv., sem hann viðhafði um tölu embætta, sem óskipað væri í við Háskólann. Ég get ekki orða bundizt vegna þess, að hann sagði mér fyrir tveim dögum, að hann hefði fengið vissar upplýsingar á skrifstofu Háskólans, sem ég sagði honum þá, að mundu vera á misskilningi byggðar. Og ég sendi hv. þm. skýrslu gerða af rn. í samráði við Háskólann um málið eins og það er satt og rétt. Ég veit ekki betur en hann hafi fengið þessa skýrslu frá mér, sem er um sama efni. Hafandi þessa skýrslu á skrifstofunni hjá sér á Tímanum eða heima hjá sér eða í skúffunni hér segir hann ósatt í þessum ræðustól, beinlínis ósatt. Hann segist hafa fengið þær upplýsingar á skrifstofu Háskólans, að óveitt væri í ein 7-8 prófessorsembætti. Þetta var sú upplýsing, sem hann sagði við mig hér utan þd. fyrir nokkrum dögum. En sú skýrsla, sem hann fær og er óyggjandi rétt vegna þess, að hún er samin af embættismönnum í rn. og háskólaritara, er svona: „Það hefur verið frestað framkvæmd lagaákvæðis um stofnun prófessorsembættis í lagadeild 1967 með sparnaðarlögum.“

Frestað var framkvæmd eins embættis, sem þegar hefur verið lögfest. Það var frestað að leggja fram frv. um stofnun prófessorsembættis í guðfræðideild 1968. Þetta embætti hefur ekki verið lögfest, en frestað að leggja fram frv. um það. Embætti í nútímasagnfræði í heimspekideild var lögfest 1966, án þess að það væri í áætlun Háskólans, og því var frestað með sömu lögum, lögum frá 1968. M.ö.o. það hefur verið frestað framkvæmd tveggja embætta, og þar af er annað ekki samkv. háskólaáætluninni, þannig að aðeins eipu embætti samkv. henni hefur verið frestað. Hins vegar hefur verið frestað að leggja fram frv. um embætti í guðfræðideild, sem áætlunin gerði ráð fyrir. Við skulum telja það með, þá eru embættin orðin þrjú. Það er óskipað í embætti í Norðurlandamálum í heimspekideild vegna þess, að enginn umsækjandi hefur fengizt þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar. Embættið hefur enn verið auglýst. Hins vegar lætur hann þess ógetið, sem kom fram í skýrslunni, sem hann fékk, að tveimur dósentsembættum í læknadeild hefur verið breytt í prófessorsembætti með l. 1967, þannig að í læknadeildinni hafa verið stofnuð tvö ný prófessorsembætti.

Sannleikurinn í málinu, sem hann þekkir af skjali, sem hann hefur í sínum fórum, er m.ö.o. sá, að tveim lögfestum embættum hefur verið frestað, öðru samkv. áætluninni, sem þingið samþykkti án till. frá Háskólanum, og það hefur verið frestað að leggja fram frv. um eitt, og í eitt er óskipað vegna skorts á hæfum umsækjanda. En auk þess hafa tvö embætti verið stofnuð í læknadeild og enn fremur eitt embætti í verkfræðideild, sem ekki var á áætlun Háskólans, þ.e.a.s. embætti Sigurðar Þórarinssonar. Embættin, sem hefur verið frestað lögum samkvæmt, eru því þrjú. Í eitt er óskipað vegna skorts á umsækjanda, en hins vegar hafa þrjú ný embætti verið stofnuð, þ.e. eitt utan við áætlunina og tvö má segja í samræmi við áætlunina, þó að beinlínis hafi ekki verið skýr ákvæði um það. M.ö.o. nýju embættin við Háskólann eru jafnmörg á þessum sama tíma og þau, sem frestað hefur verið framkvæmd á, og óskipað er í eitt vegna þess, að umsækjanda vantar. Ég get ekki stillt mig um að skýra frá þessu, af því að þetta er dæmi um þann málflutning, sem beitt hefur verið í þessu máli hér á hinu háa Alþ. og því miður allt og oft er beitt af hálfu þessa hv. þm.