25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

117. mál, Háskóli Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er aðeins í sambandi við þann vísdóm, sem hér hefur verið lesinn um það, að í þýzkum háskólum séu ekki prófessorar í ættfræði, þá vil ég láta þess getið, að ég átti viðræður ekki alls fyrir löngu í Winnipeg við Harald Bessason prófessor þar, sem tjáði mér, að í fjölmörgum kanadískum og bandarískum háskólum væru prófessorar í ættfræði. Og auk þess, þótt það væru hvergi í heiminum prófessorar í ættfræði, þá ætti það fullan rétt á sér á Íslandi.