06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Ég skal nú ekki nema með fáum orðum svara einstökum atriðum í þeirri ítarlegu og löngu framsöguræðu, sem nú hefur verið flutt fyrir minnihlutaáliti menntmn.

Ég vil í upphafi geta þess af tilefni þess, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um það, að sú eðlilega lausn málsins, sem hann mæli fyrir, sé sú, að sá maður, sem frv. er bundið við, Einar Bjarnason, yrði skipaður í starf æviskrárritara, að það var upplýst í umr. í Nd., að Einar Bjarnason mundi ekki sækja um starf æviskrárritara.

Hv. síðasti ræðumaður taldi það eðlilegt, að þessi starfsmaður eða sá, sem gegndi því embætti, sem nú er lagt til, að verði prófessorsembætti við lagadeildina, yrði frekar starfsmaður í Þjóðskjalasafninu. þar sem hans rannsóknir hlytu að grundvallast á þeim gögnum, sem þar liggja fyrir. Nú er það svo, að þau gögn, sem í Þjóðskjalasafni eru geymd, eru grundvöllur rannsóknastarfa ýmissa aðila, sem ekki eru í neinum tengslum við safnið. Já, ég vil nú í fljótu bragði t.d. varpa því fram, að ég get ímyndað mér, að ýmis rannsóknastörf prófessora við lagadeild Háskólans hljóti að vera þess eðlis, að þeir þurfi að leita til Þjóðskjalasafns, t.d. í embættisbækur, sem þar eru varðveittar. Ég sé ekki, að þetta sé röksemd, sem fyrir það girði, að stofnað sé prófessorsembætti í ættfræði við Háskólann.

Um störf æviskrárritara, sem hv. síðasti ræðumaður ræddi allmikið, er það að segja, að í frv. er gert ráð fyrir, að prófessornum verði falin störf æviskrárritara samkvæmt ákvörðun menntmrn. og í samráði við Háskólann, ef ég man orðalagið nokkurn veginn rétt. En ég ætla, að það muni þó vera þannig, að það sé ekki ætlunin, að hann taki við öllum þeim störfum, sem æviskrárritara eru ætluð samkvæmt l., en að honum verði sköpuð aðstaða til þess að helga sig ættfræði einvörðungu.

Þá vil ég aðeins í sambandi við það, sem hv. þm. sagði um afstöðu heimspekideildar, vekja athygli á því, að umsögn heimspekideildar um frv. var eiginlega þannig, að deildin var þar tvískipt. Hluti prófessoranna við heimspekideild lagði aðaláherzlu á það, að eðlilegt væri, að stofnun annarra prófessorsembætta, sem deildin hefði óskað eftir, gengi fyrir stofnun þess embættis, sem hér er um að ræða í frv., en hinn hlutinn hins vegar lagðist á móti því, að prófessorsembætti í ættfræði væri stofnað og rökstuddi það með því, að það þekktist ekki við neinn háskóla, sem þessi hluti heimspekideildar þekkti til. Síðan, eins og hv. þm. vék að, eftir að hv. menntmrh. hafði vitnað í alfræðiorðabók, Encyclopædia Britannica, þar sem sagt er, að prófessorsembætti í ættfræði muni vera til m.a. við þýzka háskóla, hafa þessir prófessorar í heimspekideildinni, sem lögðust gegn stofnun embættisins, tekið sig fram og athugað skipan kennarastóla við þýzka háskóla. Ég las í blaðagrein grg. frá þeim, þar sem þetta kemur fram, og þar er sagt, ég held, að ég muni það áreiðanlega rétt, að tími hafi verið það naumur, að ekki hafi verkið unnizt til fulls, þannig að tæmandi athugun hefði ekki farið fram um þetta atriði í öllum þýzkum háskólum.

Nú legg ég út af fyrir sig ekki svo mikið upp úr deilum um þetta atriði, annars vegar er vitnað í alfræðiorðabókina, hins vegar er heimspekideildin með sínar athuganir, sem ekki eru tæmandi, og það má segja, að málið sé að því leyti ekki vefengt varðandi það, sem í alfræðiorðabókinni stendur. Hvað mig áhrærir, þá finnst mér það ekki skipta ýkjamiklu máli. Ég persónulega verð að taka undir ýmislegt af því, sem hv. 4. þm. Reykn. sagði hér við 1. umr. málsins. Ættfræðin skipar svo alveg sérstakan sess hér á Íslandi. Það hvað hún er lifandi áhugamál almennings má auðvitað að verulegu leyti rekja til þess, hve okkar þjóðfélag er fámennt, hér hverfa ekki einstaklingarnir í mannhafið eins og hjá hinum stærri þjóðum, þannig að feril þeirra er erfitt að rekja og ættartengsl þar með. Og þó að hvergi fyndist við neina háskóla annars staðar, að prófessorsembætti í ættfræði væru fyrir hendi, sé ég ekki annað en að við gætum auðveldlega og getum auðveldlega sett á stofn slíkt embætti hér hjá okkur. Og ég er ekki í vafa um það, að það mun fjöldamörgum þykja. að það sé gagnráðið.

Þá vil ég að lokum aðeins árétta það, sem kom fram að ég ætla í minni framsöguræðu fyrir nál. meiri hl., að það er á engan hátt ætlunin að stofnun þessa prófessorsembættis skerði eða raski fyrri áætlunum um stofnun prófessorsembætta við deildir Háskóla Íslands.