28.04.1969
Neðri deild: 82. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á l. um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu, sem nú er tekið fyrir hér í hv. þd., er allviðamikið frv., og með réttu má segja, að það sé nokkuð margslungið, og sé það kannske af þeim ástæðum nokkuð seint fram komið á þinginu, þegar menn hugsa nú til þess, að óðum styttist starfstími þess. En hv. þm. er öllum kunnugt um, að þetta mál á sér verulegan aðdraganda, og hefur verið unnið að undirbúningi frv. í allan vetur af svo kallaðri landhelgismálanefnd, en sú n. hefur unnið að málinu af elju og dugnaði og haft auk þess samráð við þmn. eða þm. úr einstökum kjördæmum, og jafnframt hefur n. lagt land undir fót og ferðazt kringum landið og hlýtt þar á og rætt við sjómenn og útgerðarmenn um þau sjónarmið og viðhorf, sem mótuð eru í þessu frv. Þegar leið að páskum, þótti sýnt, að landhelgismálanefndin, sem skipuð var á s.l. hausti, mundi bráðlega geta gengið frá sínu nál., en þessi n. var skipuð 2. október 1968, og áttu sæti í henni, eins og fram kemur í grg. n., Guðlaugur Gíslason alþm. og Sverrir Júlíusson alþm. tilnefndir af Sjálfstfl., Jón Skaftason alþm. tilnefndur af Framsfl., Lúðvík Jósefsson alþm. tilnefndur af Alþb. og Jón Ármann Héðinsson alþm. tilnefndur af Alþfl., en hann var jafnframt skipaður form. n. Jón Arnalds deildarstjóri í atvmrn. var ráðinn ritari n. En þegar þangað var komið störfum n., sem ég vék að áðan, var hafizt handa um það sameiginlega í dómsmrn. og atvmrn. að færa tillögur nefndarinnar í það frumvarpsform, sem hér liggur fyrir. Unnu ráðuneytisstjórar í dómsmrn. og atvmrn. að því, þeir Baldur Möller og Gunnlaugur Briem, auk Jóns Arnalds deildarstjóra í atvmrn. og Gizurar Bergsteinssonar hæstaréttardómara, sem ég kvaddi til ráðuneytis í sambandi við að útbúa þetta frv.

Ég veit ekki betur en innan landhelgismálanefndarinnar ríki ekki ágreiningur um þann búning, sem frv. hefur verið valinn, jafnvel þó að eitthvað þurfi kannske að færa til betri vegar við nánari athugun í nefndum þingsins. Það er að vísu svo, að sérfræðingar, sem hafa undirbúið málið af hálfu ráðun., hafa orðað við mig ýmis atriði önnur í l. um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu, sem ástæða væri til að taka til endurskoðunar. Ég á þar sérstaklega við sektarákvæði, varðhaldsákvarðanir og upptökuheimildir á skipum, en að því er ekki vikið að þessu sinni, og bíður það seinni tíma, og geri ég ráð fyrir, að enda þótt þetta hafi verið rætt innan landhelgismálanefndarinnar og henni þannig um þessi sjónarmið kunnugt, þá vilji hún síður blanda öðrum atriðum inn í málið nú en þeim, sem lúta að frekari hagnýtingu heldur en hingað til hefur verið leyfð á fiskveiðilögsögunni. Það kemur fram í stuttum aths. við lagafrv. á bls. 7, meginatriði frv., þ.e.a.s. þeirra breytinga á heimildum til togveiða frá því, sem heimilað var með reglugerðum frá 1958 og 1961. Ég sé ekki ástæðu til að lesa það upp. Hv. þm. er fullkunnugt um það af margháttuðum fundahöldum og hafa einnig málsskjölin fyrir framan sig í þessu sambandi.

Ég tel, að í grg. landhelgismálanefndarinnar sé það einna markverðast og marki tímamót í þessum málum, þegar talað er um, eins og þar segir, að alls staðar hafi komið skýrt fram, að menn spyrðu ekki nú: Á að auka togveiðar, heldur hvernig á að auka togveiðar innan fiskveiðilögsögunnar. En það hefur alltaf verið í hugum okkar Íslendinga, þó að kannske lítið hafi miðað að hagnýta sér fiskveiðilögsöguna eða fiskveiðilandhelgina, að það væri okkar ótvíræði réttur, Íslendinga, að hagnýta hana og beinlínis skylt að hagnýta hana, enda má segja, að rétt og eðlileg hagnýting fiskveiðilandhelginnar sé ein af meginundirstöðunum og grundvöllurinn undir efnahagsafkomu þessa litla eyríkis.

Ég vil vekja athygli á því, að þær till., sem hér eru gerðar, og einnig önnur veiðileyfi með dragnót og til humarveiða sem veitt hafa verið áður í íslenzkri landhelgi, hafa verið byggð á áliti sérfræðinga og vísindamanna, sem unnið hafa að þessum málum, og þá fyrst og fremst Hafrannsóknastofnuninni, eins og hún er nú kölluð. Það er mjög athyglisvert og veigamikið, sem fram kemur í áliti Hafrannsóknastofnunarinnar, sem fylgir grg. landhelgismálanefndarinnar, þar sem segir með leyfi hæstv. forseta:

„Af því, sem að ofan greinir, er ljóst, að enginn verulegur munur er á lengdardreifingu fisks, sem fæst í hin einstöku veiðarfæri á Íslandsmiðum hvort sem er fyrir innan landhelgi eða utan.“

Hafrannsóknastofnunin telur því, að hér sé ekki um að ræða fiskifræðilegt vandamál, heldur öllu frekar fjárhagslega og þjóðfélagslega hagkvæmni sjálfra veiðanna, svo og skiptingu veiðisvæðanna á milli þeirra, sem eiga hlut að máli.

Þá vil ég einnig vekja athygli á niðurlagi grg. landhelgismálanefndarinnar, þar sem þeir telja rétt að undirstrika, að þessar till. séu niðurstaða um samkomulag meðal nm. og þm. hafi verið kynnt höfuðsjónarmið í till. N. leggur svo í framhaldi af þessu til, að þessar till. eigi að gilda, um hin auknu veiðileyfi til ársloka 1971 og skuli endurskoðast fyrir þann tíma. Þá gefst tækifæri á því að lagfæra það, sem reynslan sýnir, að betur má fara. Grundvallaratriðið er, og það vil ég taka undir, segir n., að allir landsmenn virði fiskveiðilög sem önnur lög og hlíti dómi reynslunnar varðandi það, hvernig æskilegt er að hagnýta fiskimiðin. Eins og kunnugt er, voru gefnar upp sakir fyrir brot á fiskveiðilögunum 1. desember s.l., og Alþ. afgreiddi síðan í desembermánuði bráðabirgðabreytingu á I. um bann gegn veiði með botnvörpu og flotvörpu. Ég tel, að málin hafi þá þegar skipazt í miklu betra horf, og það er von mín, að þær breytingar, sem hér eru lagðar til, megi einnig verða til góðs í þessum málum. Ég geri mér að vísu fyllilega grein fyrir því, að það er sjálfsagt sitthvað, sem hv. þm. greinir á um í þessu frv. og þeim veiðiheimildum, sem hér eru veittar. Við öðru er ekki að búast, en ég tel, að það sé þm. til mikils sæmdarauka, að þeir hafa tekið hreinskilnislega höndum saman á þeim vetri, sem nú er liðinn, til þess að vinna að endurbótum á þessari löggjöf hjá okkur, sem hefur því miður ekki verið til fyrirmyndar á undanförnum árum, hvorki að efni til né framkvæmd. Ég geri svo ráð fyrir því, að þeir hv. nm. úr landhelgismálanefndinni, sem hér eiga sæti í deildinni, og aðrir þm. muni efnislega fjalla miklu meira um einstök atriði heldur en ég nú geri, og skal láta mér nægja að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.