09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef nú ekki tafið tíma þessarar hv. d. eða hv. Nd. í umr. um þessi mál og skal heldur ekki gera nú. En ég vildi þó ekki láta þessar umr. fara svo fram, að ég segði ekki mína afstöðu til málsins.

Það ber ötlum í báðum deildum Alþ. saman um, að sá undirbúningur þessa frv., sem átti sér stað, og aðdragandi þess, hafi verið óvenju vandaður og mikil vinna af mörkum lögð, til þess að svo mætti verða. Og er mér bæði ljúft og skylt, þar sem það féll í minn hlut á sínum tíma að skipa hina margnefndu landhelgisnefnd, að þakka henni hennar störf.

Ég hygg, að það sé ekki lengri tími en 2–3 ár síðan vonlaust hefði verið vegna almennrar andspyrnu í landinu að auka togveiðar eða fara inn á nýjar leiðir í togveiðum með aukningu á veiðisvæðunum, þá hefði það verið vonlaust fyrir ekki lengri tíma, sem þó náðist þarna um samkomulag, þó að ólíkra sjónarmiða gætti. Og það er alveg rétt hjá hv. 2. þm. Vesturl., að meiri hl. var ekki mikill í hv. Nd. fyrir framgangi málsins. Tölurnar voru 15 og 19 og 20 svona til skiptis og skiptist þó mjög eftir því, hvaða till. voru til afgreiðslu hverju sinni. En það er einmitt þessi naumi meiri hl. í Nd., sem setur að manni kvíða um, að verði gerðar verulegar breytingar á frv. hér, muni það geta stöðvað málið, og hvar stöndum við þá? Jú, við stöndum í nákvæmlega sömu sporum og í því ófremdarástandi, sem ríkti, áður en lagasetningin var gerð hér á s.l. hausti, sem okkur stóð öllum stuggur af og var okkur til vansæmdar. Nú hygg ég, að flm. þeirra brtt., sem hér liggja fyrir, hyggist ekki koma á slíku vandræðaástandi og mundu gjarnan, ekkert síður en ég, vilja við það losna. En ég leyni ekki þeim ótta mínum, að verði gerðar breytingar á frv. hér, sem orsaka það, að það þurfi enn á ný að fara til Nd. í þann nauma meiri hl., sem þar var fyrir, þá stöndum við upp af þessu þingi án þess að hafa komið okkur saman um neina nýja stefnu til prófunar. Hér er einungis um það eitt að ræða að prófa sig áfram í 2–21/2 ár. Lengri er nú tíminn ekki og ég hygg, að það sé nú með því skemmsta, sem hægt sé að fá nokkra reynslu á. Reynsla einnar eða tveggja vertíða segir okkur ákaflega lítið um þessa hluti. Fiskigengd er misjöfn hér á öll veiðarfæri, jafnt í troll sem önnur veiðarfæri, og ein eða tvær vertíðir segja manni ekki mikið um reynsluna eða heildarútkomuna. Þess vegna held ég, að það sé málinu ekki til bóta að stytta sjálfan gildistímann.

Nú er sjálfsagt fært, ef einhver vildi leggja í það vinnu, að finna álit mitt og afstöðu til dragnótaveiða. Ég hef aldrei verið hrifinn af því veiðarfæri og alltaf talið það skaðvald og fór ekkert dult með mínar skoðanir í þeim efnum. Hins vegar gilda um það veiðarfæri ákveðin lög, sem rétt er hjá hv. 2. þm. Vesturl., að við í þessari hv. d. höfum tekið afstöðu til, sem er samþykkt á frv. því, sem hann var flm. að, um bann við botnvörpuveiðum í Faxaflóa. Mér er sagt nú, að meiri hl. a.m.k., ég veit ekki, hvort það er n. öll, en meiri hl. sjútvn. Nd. hafi lagt til eða ákveðið að leggja til, að því frv. verði vísað til ríkisstj. Ef meiri hl. Nd. er sömu skoðunar og sá nefndarmeirihl., sem enginn veit að sjálfsögðu um enn þá. meðan málið er ekki komið til afgreiðslu þar, þá hefur málið fengið endanlega afgreiðslu þar, og nú á þetta út af fyrir sig ekki að hafa áhrif á skoðanir Ed.-manna. Þeir eru óbundnir af því. En eigi að síður yrði sú staðreynd fyrir augum okkar, að þetta álit okkar nær ekki fram að ganga, þannig að það verður ekki raunhæft.

Um dragnótaveiðarnar, eins og ég áðan sagði, gilda ákveðnar reglur, sem ég hirði nú ekki um að fara út í hér, en það er skylt að leita umsagnar sveitarfélaga, og um þessar reglur hafa verið ákaflega miklar deilur. Það hefur m.a. verið talið, að afstöðu til þess máls tækju sveitarfélög, sem engra hagsmuna hefðu að gæta við sjávarsíðuna, og væri alrangt að láta þau hafa þar minnstu áhrif o.s.frv., það sé of jafnt metin afstaða sveitarfélaga án tillits til þess, hve mikið þau eiga undir sjávarafla komið o.s.frv. Þessar reglur þurfa tvímælalaust endurskoðunar við. Ég hef sjálfur fengið að kenna á því, eins og börnin segja, kenna á agnúum þessara laga. Þetta hefur verið eitt af erfiðari vandamálum sjútvmrn. í þau 4 ár, sem ég hef verið þar, og með alviðkvæmustu og erfiðustu málum til úrlausnar, svo að ég tel, að tvímælalaust eigi að endurskoða þau ákvæði, en ég legg samt sem áður ekki svo mikla áherzlu á þá skoðun mína, sem ég hef haft í sambandi við dragnótaveiðar almennt, að ég vilji stofna í hættu öllum þeim mikla undirbúningi og allri þeirri vinnu, sem í þetta frv. hefur verið lagt, með því að styðja að brtt. hér, ef það sýnir sig, að það álit er ekki fyrir hendi hjá meiri hl. hv. Ed. og málið af þeim sökum verður ekki praktískt eða raunhæft í framkvæmd. Ég hjó eftir því, að hv. 2. þm. Vesturl. lýsti yfir fylgi sínu við þá breytingu, sem lögð hefur verið fram á þeirri línu, sem hugsað er að draga um fiskveiðitakmörkin í Húnaflóa, og mér er þá spurn, er ekki nákvæmlega sami réttur þeirra, sem við Breiðafjörð búa? Þar er mikill ágreiningur manna á meðal um það hólf, sem þar er gert ráð fyrir, að veiða eigi í á tilteknum tima. Þannig getum við farið bókstaflega kringum landið. Það verður ekki einhugur á einum einasta stað. Það er e.t.v. höfuðkostur frv., að svo er ekki, því að það hefur verið reynt að sigla bil beggja og út á það skapaður sá meiri hl., sem fyrir málinu hefur verið til þessa. Ég óttast það, að þurfi málið nú á síðustu dögum þingsins að hendast á milli deilda á ný, þá sé árangur af því mikla starfi, sem þegar hefur verið fram lagt, fyrir gýg unninn, og að því vil ég ekki stuðla. Ég vil, að úr því að þessi ljósglufa hefur skapazt til lausnar því ófremdarástandi,sem var, eigi að nýta hana þann stutta tíma, sem frv. gerir ráð fyrir, og gera síðan málin upp að nýju, þegar við höfum þá reynslu, sem af því tímabili fæst. Ég legg því mikla áherzlu á það, alveg án þess að segja hug minn til einstakra brtt., sem fyrir liggja, að menn hafi þetta virkilega í huga, að það er ekki ástæðulaus ótti, að málið kunni að stranda endanlega. Eftir daginn á morgun eru útrunnin þau lög, sem sett voru til þess að ljá okkur nokkra daga til umr. um þetta mál, og ef við höfum ekki með einhverjum ráðum komizt að niðurstöðu fyrir dagslok á morgun, erum við komnir í sömu óheillahjólförin og við vorum í um þessi mál, algera upplausn og glundroða, og að því veit ég, að enginn okkar vill stefna að koma málinu í þann farveg.