02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm., að ég hafi verið látinn flytja einhverjar skýringar, því að eftir 1. umr. málsins óskaði ég eftir grg. sem formaður útvarpsráðs, enda þótt fjárhagsmálin heyri nú ekki beint undir útvarpsráð. En mér er annt um stofnunina og ég vil sem þm. reyna að gæta orðstírs hennar hér. Ég harma það mjög, ef afgreiðsla á þessu máli hefur ekki verið á viðunandi hátt af útvarpsins hendi til yfirskoðunarmanna ríkisreiknings, og ég er sannfærður um, að það hlýtur að stafa af einhverjum misskilningi. Þó vil ég benda á það, að einmitt á þessu tímabili, undanförnum missirum, hafa verið mannaskipti á æðstu stöðum, og kann það að eiga einhvern þátt í því. Ég vil vona, að það komi ekki fyrir aftur, að yfirskoðunarmenn fái ekki umyrðalaust allar þær skýringar, sem um er beðið.

Hins vegar gerðu yfirskoðunarmenn eina aths., sem ekki er umdeild hér á þessu stigi núna, sem var á þá lund, að þeir virtust hafa skilið reikninga svo, að það væri verið að gefa útvarpsnotendum eftir skuldir sínar í stórum stíl. Þetta leiðrétti útvarpið. Þarna var um veigamikinn misskilning að ræða, svo ég hygg, að ef útvarpið hefur notað orðið misskilning, þá hafi það fyrst og fremst átt við um það atriði. Það er ekki verið að velja úr einhverja skulduga útvarpsnotendur og gefa þeim eftir, heldur er verið að reyna að haga þessu reikningshaldi þannig, að það gefi sem sannasta og réttasta mynd af raunverulegum hag stofnunarinnar. Það, sem hér er deilt um, er, hvort það hefði átt að hafa í bókum stofnunarinnar sem eign yfir 4 millj. kr. í óinnheimtum afnotagjöldum frá 1967. Í árslok 1968 hefur það komið í ljós, að þessi tala stendur enn óinnheimt. M.ö.o.: á bókhaldið að vera þannig, að bókhaldið sé að burðast með tölur, sem það veit af reynslu og eflaust allir vita að eru háðar þessum annmörkum? Að þessu leyti er útvarpsgjaldið mjög sérstætt, því þegar einhver borgari hér kaupir hljóðvarps- eða sjónvarpstæki af einhverrí verzlun, þá er hann þegar skráður og þá fær hann reikning. Það geta verið ýmsar ástæður, eins og t.d. að menn eru fljótir að kaupa sér sjónvarpstæki, en endurvarpsstöðvarnar, sem ná til þeirra, koma kannske ekki fyrr en löngu seinna. Við eigum við að stríða mörg hundruð notendur, ef ekki þúsundir. sem þannig er ástatt um núna, en þeir fara óhjákvæmilega inn í bókhald Ríkisútvarpsins sem nýir notendur, þó að skýringarnar á því, hvers vegna þeir geta ekki orðið greiðendur strax, komi ekki fyrr en löngu seinna.

Ég vil vona, að það takist í framtíðinni það gott samstarf á milli yfirskoðunarmanna og Ríkisútvarpsins að það verði hægt að leiðrétta allan misskilning og það verði unnið að því að koma þessu reikningshaldi þannig fyrir, að það geri stofnuninni og ríkinu sem mest gagn með þessu og gefi sem sannasta og réttasta mynd af því, hvernig fjárhag stofnunarinnar raunverulega er hagað.