09.12.1968
Neðri deild: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

100. mál, þjóðminjalög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er síðasta frv. í flokki frv. um endurskoðun á gildandi löggjöf um íslenzk söfn, sem lögð hafa verið fyrir hið háa Alþ. Þetta frv. er raunar langveigamesta frv. og í því flest nýmæli, og það var raunar nauðsyn á nýrri löggjöf um íslenzkar þjóðminjar og íslenzka þjóðminjavörzlu, sem var ástæða þess, að efnt var til þeirrar endurskoðunar á löggjöfinni um söfnin, sem Alþ. hefur nú fengið til meðferðar.

En sannleikurinn er sá, að þó að Þjóðminjasafn Íslands sé ein af elztu stofnunum landsins og hafi starfað í 106 ár, hafa aldrei verið til um þá stofnun sérstök lög. Segja má, að það hafi ekki komið að verulegri sök, vegna þess að smám saman hafa myndazt fastar starfsvenjur varðandi Þjóðminjasafnið, en engu að síður verður það þó talið með öllu óeðlilegt, að ein elzta og mikilvægasta menningarstofnun landsins skuli ekki starfa á föstum lagagrundvelli. Hins vegar eru um þessi efni til tvenn lög, þ.e.a.s. lög frá 1907 um verndun fornmenja og lög frá 1947 um viðhald fornra mannvirkja og byggðasöfn. En í þessu frv., sem nú er hér lagt fyrir hv. Nd., eru sett lagaákvæði um Þjóðminjasafnið, um fornminjar, sem greinast í fornleifar og forngripi, nýmæli um kirkjugripi og minningamörk, enn fremur mikilvæg nýmæli um friðun húsa og annarra mannvirkja, síðan ákvæði um byggðasöfn og enn fremur nokkur almenn ákvæði. Ekki er ástæða til þess að fara sérstökum orðum um lagaákvæðin um sjálft Þjóðminjasafnið. Þau eru hliðstæð þeim lagaákvæðum, sem nú eru sumpart í gildi eða gerð hefur verið till. um í hinum frv. um hin önnur söfn. Um kaflann um fornminjar er það að segja, að um flest efnisatriði er þar um að ræða svipuð ákvæði og gilda nú í l. frá 1907, nema hvað þau eru að orðfæri til miðuð við nútímaaðstæður og hliðstæð ákvæði í öðrum safnal. Í gildandi l., þ.e.a.s. l. frá 1907, eru hins vegar ýmis ákvæði, sem nú eru orðin algerlega úrelt og hafa í raun og veru aldrei komið til framkvæmda, og er ekki gert ráð fyrir því, að þau verði í væntanlegum l., ef þetta frv. nær fram að ganga. Þessi ákvæði eru t.d. um skýrslugerðir, um auglýsingu í Lögbirtingarblaði og fleira í sambandi við fund forngripa. Í gildandi l. eru einnig margþætt fyrirmæli um sameign ríkissjóðs eða landssjóðs, landeiganda og finnanda að forngripum. Frá upphafi hafa þessi lagaákvæði aldrei skipt neinu máli, en hins vegar er í þetta frv. tekin upp sú regla, sem nú mun vera í l. flestra menningarþjóða, að fundnir forngripir, sem liggja eða legið hafa í jörðu, séu eign ríkisins. Hins vegar er látin haldast sú regla, sem er í gildandi l., að þegar forngripir úr gulli eða silfri finnast, skuli landeiganda og finnanda greitt til jafnra skipta sín á milli málmverð hlutanna eftir mati að viðbættum 10%. Í gildandi l. eru einnig nokkur ákvæði um skráningu forngripa, sem séu í eigu einstakra manna, en þau ákvæði hafa aldrei komið til framkvæmda, og er því ekki gert ráð fyrir því, að þau verði látin haldast í l.

Í III. kafla frv. er rætt um kirkjugripi og minningarmörk, og eru ákvæði þessa kafla öll nýmæli. Hér er um að ræða friðun kirkjugripa, sem varðveittar eru í kirkjum landsins, og legsteina og annarra minningarmarka í kirkjugörðum, en skilyrði fyrir friðun er hér talið, að munir hafi sögulegt eða listrænt gildi að mati þjóðminjavarðar. Í gildandi l. frá 1907 eru að vísu ákvæði um skráningu fornra kirkjugripa, sem gert var ráð fyrir, að færi fram jafnframt skráningu forngripa í eigu einstakra manna. Þessi ákvæði hafa ekki heldur komið til framkvæmda frekar en skráning forngripa í eign einstakra manna, eins og ég gat um áðan. Vegna þess að þeir munir, sem hér er um að ræða og friðaðir eru samkv. þessum kafla, eru ekki í beinni vörzlu Þjóðminjasafns, er vernd þeirra falin forráðamönnum kirkna og kirkjugarðsstjórum, og hlýtur það að teljast eðlilegt, en yfirumsjón með friðuninni er þjóðminjaverði þó ætlað að hafa.

Í IV. kafla frv. eru ákvæði um friðun húsa og annarra mannvirkja, og er hér e.t.v. um að ræða merkilegasta nýmæli eða merkilegustu nýmæli þessa frv. Í öðrum löndum eru nú til fullkomin friðunarlög, sem hafa það að markmiði, að varðveitt séu hús og mannvirki, sem talin eru hafa sérstakt gildi, menningarsögulegt, listrænt eða sögulegt. Löggjöf um þessi efni í nálægum löndum er með nokkuð ólíkum hætti, en takmark þeirra allra er þó hið sama. Í þessu efni höfum við orðið á eftir öðrum þjóðum vegna skorts á lagaákvæðum um þetta efni. Þessu frv. er ætlað að bæta úr því.

Nú er það að vísu svo, að undir verndarvæng Þjóðminjasafns standa nú allmörg gömul og merkileg hús, einkum kirkjur og torfbæir, og eru þau, að ég held, öll í opinberri eign. Hingað til hefur hins vegar ekki verið farið inn á þá braut að friðlýsa hús í einkaeign, eins og þó er gert alls staðar í nálægum menningarlöndum. Er í þessum kafla þessa frv. gert ráð fyrir nauðsynlegum heimildum til þess, að slíkt geti orðið hér einnig. Því er ekki að leyna, að friðun húsa í einkaeign er vandasamt og viðkvæmt mál og getur hæglega valdið ýmiss konar árekstrum milli eigenda húsanna og friðunarvaldsins, og þess vegna er það mjög mikilvægt, að lagaákvæði um þetta efni séu skýr og ákveðin, en þó sett af hófsemd.

Í þessu frv. er höfð hliðsjón af erlendum lögum, sem raunar hafa tekið mjög miklum og örum breytingum í ýmsum löndum, vegna þess að reynsla hefur sýnt, að slík lagaákvæði hafa þarfnazt endurskoðunar hvað eftir annað, þannig að tekið sé tillit til þeirra reynslu, sem fengizt hefur. En yfirleitt er hér um að ræða nýjustu lagaákvæði í nálægum löndum, sem stuðzt hefur verið við í samningu þessa frv. Hér er farinn meðalvegur, ef ég mætti segja. Megintilgangur þessa kafla er sá að koma fram þeirri friðun, sem nauðsynleg er, án þess þó að ganga með óeðlilegum hætti á hagsmuni eigenda og ekki heldur að stofna til óhæfilegra útgjalda af hálfu hins opinbera nema að svo miklu leyti, sem algerlega óhjákvæmilegt verður að telja.

V. kaflinn fjallar um byggðasöfn, en um þau efni fjalla einmitt fyrst og fremst l., sem ég gat um áðan, að í gildi eru frá 1947. Þá var tiltölulega lítil reynsla komin á starfsemi byggðasafna. Nú er hins vegar fengin um þetta efni u.þ.b. tveggja áratuga reynsla og því fullkomlega tímabært að efna til endurskoðunar á lagaákvæðum um þetta efni. Sú grundvallarstefna er mörkuð í þessu frv., að byggðasöfn á Íslandi ættu fremur að vera færri og stærri en fleiri og smærri. Ekki hefur þó þótt skynsamlegt að lögbinda beinlínis, hversu stórt landssvæði byggðasafn skuli hafa að baki sér minnst til þess að vera styrkhæft samkv. þessum l. En í frv. er það lagt á vald menntmrh. að fengnum till. þjóðminjavarðar, hvort byggðasafn skuli teljast styrkhæft. Er með því vonandi tryggt, að ríkisstyrkt byggðasöfn verði ekki óhæfilega mörg, því að gera verður ráð fyrir því, að þjóðminjavörður geri það að skilyrði fyrir meðmælum með byggðasafni, að það sé sæmilega stórt. Sett eru síðan ýmis skilyrði fyrir því, hvað telja skuli styrkhæft byggðasafn.

Í 38. gr. frv. er ráð fyrir því gert, að geyma megi muni, sem byggðasafni heyra, í friðuðu húsi, ef til er, í eign ríkis eða sveitarfélags á byggðarsafnssvæðinu, og þarf þó þjóðminjavörður að samþykkja vörzlu gripanna þar. Þetta á við nú um tvo staði, Glaumbæ í Skagafirði og Grenjaðarstað í Þingeyjarsýslu. Gera má þó ráð fyrir, að skipunin sé ekki til frambúðar á hvorugum staðnum og stefnt verði að því, að sérstök hús rísi yfir byggðasöfnin, en rétt þykir þó að halda þessum ákvæðum í gildandi l., enda ekki vitað hvenær sérstakt húsnæði fyrir byggðasöfnin yrði komið upp á þessum stöðum.

Þá er nokkuð breytt í þessu frv. gildandi ákvæðum um þátttöku hins opinbera, þ.e.a.s. styrk hins opinbera, við byggingu safnahúsa fyrir byggðasöfn og rekstur byggðasafnanna. Núgildandi lagaákvæði gera ráð fyrir því, að ríkið skuli greiða allt að 1/4 byggingarkostnaðar húss yfir byggðasafn, eftir því sem fé er veitt í fjárl. En í gildandi l. ber ríkinu að greiða 2/3 hluta rekstrarkostnaðarins yfirleitt. Í þessu frv. er sú stefnubreyting mörkuð, að ríkið á í framtíðinni að greiða aukinn hluta stofnkostnaðarins, þ.e. 1/3 í stað 1/4, en nú er hins vegar ekki gert ráð fyrir því, að ríkið taki annan þátt í rekstri byggðasafna en þann, að það greiði gæzlumannslaun að hálfu. Reynsla þykir hafa sýnt, að stofnkostnaður við byggingu safnahúss er erfiður þröskuldur fyrir héruðin, og þess vegna er mörkuð sú stefna, að ríkishlutdeild í stofnkostnaðinum skuli aukin. Þegar hins vegar byggðasafn er komið upp, má gera ráð fyrir því, að áhugi heima fyrir á rekstri safnsins sé svo mikill. að héruðunum muni ekki vaxa það í augum, þótt þau þurfi að greiða annan kostnað en þann, sem svarar til hálfra launa gæzlumannsins. Segja má, að laun gæzlumanns séu skyld stofnkostnaðinum, þar sem byggðasafnið geti ekki starfað án þess að hafa ákveðinn gæzlumann, og þá rétt, að laun hans séu tryggð af hálfu ríkisins. Gera má ráð fyrir því, að byggðasöfn, sem stofnuð yrðu og rekin samkv. ákvæðum þessa frv., gætu varla orðið fleiri, en svo sem 15–20, enda má hiklaust segja, að tæplega sé æskilegt, að byggðasöfn yrðu fleiri hér á landi, ef þau eiga í reynd að verða meira en nafnið tómt. Um það bil 10 byggðasöfnum hefur nú verið komið á fót, og þau hafa verið opin almenningi að meira eða minna leyti nú um nokkurt árabil. Sum þeirra eru þegar í góðum, viðeigandi húsakynnum, en önnur eru mun verr á vegi stödd.

Í fjárl. á undanförnum árum hefur verið nokkur fjárhæð til þess að styrkja byggingar safnahúsa, og hefur þjóðminjavörður skipt fénu milli þeirra safna, sem komin hafa verið á nokkurn veginn traustan grundvöll með starfsemi sína. Ef þessi lög ná fram að ganga, er þess að vænta — og það væri heilbrigt og mjög æskilegt, að hægt væri að auka nokkuð fjárveitingar til þess að koma varanlegum húsum yfir þau byggðasöfn, sem nú starfa og eiga að hafa verðmæta muni að geyma, og stefna síðan að því, að byggðasöfn á Íslandi verði um 15–20. Þá mun mega telja, að sæmilega sé fyrir þörfum í þessu efni séð.

Eins og ég hef getið, hefur þetta frv. að geyma ýmis nýmæli, og ég endurtek að lokum, að í raun og veru var það nauðsyn þessa frv. eða lagasetningar um þessi efni, sem varð tilefni þess, að rétt þótti að endurskoða alla safnalöggjöfina, til þess að um nokkur grundvallaratriði yrði um samræmi í henni að ræða. Hin frv. öll, sem ég hef þegar lagt fram, hafa verið samin af embættismanni í menntmrn. og forstjóra hlutaðeigandi safns. Hér var hins vegar um svo vandasamt og viðamikið verk að ræða, hér þurfti að setja ákvæði um svo mörg nýmæli, að nauðsynlegt var talið að fela sérstakri n. að semja þetta frv., og skipaði menntmrn. hana fyrir 2 árum, ef ég man rétt. Í n. voru skipaðir dr. Kristján Eldjárn þáverandi þjóðminjavörður, Hörður Ágústsson listmálari, sem hefur sérþekkingu á verndun og friðun gamalla húsa og þvílíkra mannvirkja, og dr. Þórður Eyjólfsson, sem segja má, að sé sérfræðingur í eignarrétti, en ýmis ákvæði þessa frv. eru viðkvæm frá því sjónarmiði séð. Ég tel þessum þremenningum hafa tekizt verk sitt mjög vel, og er ríkisstj. sammála um, að þau ákvæði, sem í þessu frv. felast og lúta nýmælum, séu bæði hófsamleg og skynsamleg. En hitt gerði ég mér ljóst, að þetta frv. mun þurfa á að halda mun rækilegri athugun af hálfu Alþ. heldur en hin frv., sem ég hef þegar lagt fram og öll hafa hlotið mjög greiðan gang í gegnum þessa hv. d. og sumpart í gegnum hv. Ed. Er ég mjög þakklátur fyrir það. En þótt hér sé um mjög margvísleg nýmæli að ræða, vildi ég samt mjög mega óska þess, að hið háa Alþ. treysti sér til þess að afgreiða þetta frv. nú á þessu þingi, því að í sannleika sagt er hvorugt vandalaust, að ekki séu til lagaákvæði um stofnun eins og Þjóðminjasafn Íslands, og hitt, að engin ákvæði skuli nú vera í gildandi l. t.d. um friðun húsa og annarra mannvirkja í einkaeign, svo að ég nefni eitt mikilvægasta atriðið, sem þetta frv. inniheldur nýmæli um.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.