17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ekki alls fyrir löngu greindi hæstv. fjmrh. frá því að erlendar skuldir Íslendinga væru orðnar geigvænlega háar. Gjaldabyrðin, árlegir vextir og afborganir af erlendum skuldum, væru orðnar 15.8% af gjaldeyristekjum landsmanna. Hér er um að ræða einhverja þyngstu skuldabyrði, sem á nokkurri þjóð hvílir, svo að ég viti til, og hlýtur öllum að vera mikið áhyggjuefni. Síðan hæstv. ráðh. greindi frá þessari staðreynd, hafa verið lögð fram hér á þingi a.m.k. 3 frv., sem fela í sér heimild til erlendrar lántöku. Mér hefði því þótt hlýða, að hæstv. fjmrh. hefði gert nokkra grein fyrir þessari hlið málsins, t.a.m. áætlað fyrir okkur þm., hvernig þessi greiðslubyrði mun þróast á næstu árum. Hvaða spá er hægt að setja upp með tilliti til þeirra nýju lána, sem nú hafa verið tekin, og þeirra lána, sem fyrirhuguð kunna að vera á næstunni? Ég held, að þetta mál sé orðið það alvarlegt, að við verðum að gera okkur grein fyrir því af fullu raunsæi, að við verðum að vega og meta mjög nákvæmlega, hvaða erlend lán við tökum og í hvað við verjum þeim. Sá tími er liðinn, að það sé hægt að afgreiða slíka hluti þegjandi og hljóðalaust hér á þingi út frá einhverri almennri nauðsyn, sem kann að vera auðvelt að færa rök fyrir hverju sinni. Staða okkar er slík, að við verðum að skoða þessi mál af fullri gát.

Hæstv. fjmrh. lét þess getið í ræðu sinni hér áðan, að hann hafi verið vanur í sambandi við hliðstæð frv. áður að flytja yfirlitsskýrslu um efnahagsmál. Hins vegar taldi hann ekki ástæðu til þess nú, vegna þess að aðstæður allar í efnahagsmálum væru mjög óljósar, og erfitt að gera spár. Ég held að þessar forsendur hefðu einmitt átt að gera það ákaflega nauðsynlegt, að hæstv. fjmrh. hefði tekið þessa hlið málsins til umr. Ég held, að alþm. eigi raunar heimtingu á því að fá að vita, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að bregðast við þeim vandamálum, sem komin eru upp í þjóðfélaginu. Þeir atburðir hafa nú gerzt, sem aldrei áður hafa gerzt á Íslandi, að Vinnuveitendasamband Íslands hefur tilkynnt verkbann á verulegan hluta íslenzkrar framleiðslu. Þetta er mjög alvarlegur atburður, sem mun hafa áhrif á alla þróun efnahagsmála, ef þetta verður látið viðgangast, einnig á framkvæmdaáætlun hæstv. ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. hefur í vetur margsinnis lagt á það þunga áherzlu, að Íslendingar hafi orðið fyrir miklum skakkaföllum í efnahagsmálum, gjaldeyristekjur okkar hafi dregizt saman og þjóðartekjurnar lækkað. Hún hefur lagt á það þunga áherzlu að af þessum sökum verði að tryggja það, að framleiðslan geti haldið áfram óhindruð. Verkalýðshreyfingin hefur tekið á þessum málum af mjög mikilli varúð. Verkalýðshreyfingin hefur látið það ganga til félagsmanna sinna, að þeir séu sviknir um kaup, sem um var samið í fyrra, án þess að grípa til nokkurra alvarlegra ráðstafana ennþá. Þær ráðstafanir, sem fyrirhugaðar eru hjá verkalýðshreyfingunni, eru auðsjáanlega þannig hugsaðar, að þær eigi að raska sem minnst útflutningsframleiðslunni á Íslandi. Af hálfu verkalýðshreyfingarinnar hefur þannig verið beitt fullkominni ábyrgðartilfinningu, en slíkt hið sama verður ekki sagt um samtök atvinnurekenda, sem stefna nú að því, að því er virðist, að stöðva alla framleiðslu á Íslandi.

Ég held, að þetta sé mál, sem við alþm. ættum að hugleiða mjög gaumgæfilega og enn fremur verkalýðshreyfingin, vegna þess að við höfum hér í vetur margsinnis verið að fjalla um ráðstafanir til þess að aðstoða einmitt þessa atvinnurekendur. Í janúarmánuði í vetur var gert samkomulag á milli hæstv. ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar, sem síðan hefur verið staðfest hér á þingi. Þetta samkomulag fól það í sér, að stofnaður er sérstakur sjóður með 300 millj. kr. til þess að tryggja atvinnuöryggi á Íslandi, til þess að veita fé til atvinnufyrirtækja. Ég vænti þess, að frá því verði nú tryggilega gengið, að þeir atvinnurekendur, sem tilkynnt hafa verkbann, fái ekki einn eyri úr slíkum sjóði. Ég vænti þess einnig, að frá því verði gengið, að slíkir atvinnurekendur fái ekki eyri að láni úr Atvinnuleysistryggingasjóði, en í þann sjóð hafa þeir gengið á undanförnum árum. Ég vænti þess einnig, að frá því verði gengið, að þeir fái enga fjármuni úr Atvinnujöfnunarsjóði, og ég vænti þess, að bankastjórar ríkisbankanna gefi slíkum mönnum þau svör nú, að það sé ástæðulaust að veita lán til atvinnurekenda, sem ekki vilja starfrækja fyrirtæki sín á sama tíma og mikið veltur á því, að öll okkar framleiðslutæki séu hagnýtt. Hæstv. ríkisstj. getur auðveldlega komið vitinu fyrir þessa ofstækisfullu atvinnurekendur með slíkum ráðum sem þessum. En ef það ekki nægir til, þá virðist mér vera óhjákvæmilegt, að hér á þingi verði flutt frv. um leigunám á þessum fyrirtækjum. Aðgerð, eins og þessa, mega hvorki landsmenn né Alþ. Íslendinga þola. Ég taldi rétt að vekja máls á þessu, vegna þess að hugleiðingar okkar um almennar lántökur og almennar framkvæmdir eru háðar því, að ekki hljótist óbætanlegt tjón af þessu ofstækisfulla framferði Vinnuveitendasambandsins, og það er skylda Alþ. og ríkisstj. að grípa til sinna ráða til að koma í veg fyrir, að úr hinum boðuðu verkbannsaðgerðum verði.