25.02.1969
Neðri deild: 56. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta mál með neinu málþófi. Ég vil aðeins benda á það, að þegar þetta mál kom fyrir, — okkur barst það í fréttum um áramótin, að ríkisstj. hefði aflað sér heimildar til lántöku vegna Vestfjarðaáætlunar og Norðurlandsáætlunar — þá gerðum við okkur vonir um, að nú mundi Norðurlandsáætlunin loksins vera komin á lokastig og að hún yrði fljótlega birt þeim aðilum, sem þetta mál snertir sérstaklega. Ég vil rifja það upp, að Norðurlandsáætlunin hefur verið í undirbúningi alllengi, allt upp í 4 ár að ég hygg. Ég held, að það hafi verið 1965 frekar en 1964, að ríkisstj. gerði samkomulag við Alþýðusamband Norðurlands um það, að þess háttar áætlun yrði gerð. Og nú upplýsist það, þrátt fyrir þetta frv., sem hér liggur fyrir, sem er um heimild til þess að taka allmikil lán til þessarar áætlunar, þá upplýsist það nú í orðum hæstv. ráðh., að þessi áætlun er ekki enn þá tilbúin. Hæstv. ráðh. sagði áðan í ræðu sinni, að Norðurlandsáætluninni væri enn ekki lokið, en hins vegar væri atvinnumálakafli hennar kominn á lokastig, eða það skildist mér, að hann hefði sagt í ræðu sinni hér áðan, að atvinnumálakafli hennar væri kominn á lokastig, en hins vegar væri ýmsum öðrum þáttum áætlunarinnar, sem virðist hafa verið rætt um, ólokið, og minntist hæstv. ráðherra í því sambandi m.a. á menntamálakafla og samgöngumálakafla.

Í sambandi við þetta mál vil ég því benda á þetta, að það virðist skorta mjög á, að Norðurlandsáætlunin sé komin á lokastig, jafnvel þó að einn þáttur hennar megi nú teljast kominn á þetta lokastig, sem hæstv. ráðh. talar um. Og einnig vil ég benda á það, sem ég hef þegar gert, að þessi áætlun hefur tekið mjög langan tíma og það hefur, má segja, árlega frá því að fyrst var um þetta rætt fyrir um það bil 4 árum, sífellt verið lofað, að þessi áætlun skyldi verða til um hver áramót. En við þetta hefur engan veginn verið staðið. Ég man, að hæstv. fjmrh., sem hér var að tala áðan, lofaði því, eða a.m.k. hann lét svo um mælt á árinu 1967, alla vega fyrir kosningar, að þessari áætlun yrði lokið í árslok eða um áramótin 1967–1968. Það ár leið, án þess að Norðurlandsáætlun sæi dagsins ljós. Árið 1968 leið einnig, án þess að það yrði, og nú er komið fram á árið 1969, og enn má segja, að sömu orðin séu notuð, að áætlunin sé, eða hluti hennar, á lokastigi. Við skulum vona, að svo sé og að atvinnumálakafli þessarar áætlunar sjái dagsins ljós innan skamms.

En í þessu sambandi er líka vert að vekja athygli á því, að að sumu leyti hefur verið viss leynd yfir þessari áætlun, t.d. svo að þm. kjördæmanna á Norðurlandi hafa ekki haft aðstöðu til þess að fylgjast með því, hvað þarna er verið að vinna, og ég veit ekki til, að þeim hafi verið sýnt þetta sem slíkum. Og ég tel einmitt, að það væri mjög mikilvægt og sjálfsögð starfsregla af hálfu ríkisstj., að hún hefði samráð við þm. um þetta, a.m.k. að kynna þm. sérstaklega, hvernig þessi mál, standa, þm. þessara kjördæma. Og ég vil líka leggja á það áherzlu enn og aftur, að það er mjög nauðsynlegt að hraða þessum áætlunum, ekki bara þeim þætti eða kafla, sem nú er sérstaklega unnið að, heldur öðrum þáttum Norðurlandsáætlunarinnar.

Lengi vel mun ástæðan til þess, að seint gekk að vinna þetta verk hafa verið sú, að verkið var falið Efnahagsstofnuninni. En það fór þannig, að á Efnahagsstofnunina hefur sífellt verið hlaðið öðrum verkefnum og margvíslegum, þannig að gerð Norðurlandsáætlunar hefur orðið að víkja lengst af þar í stofnuninni. Á s.l. ári var ráðinn sérstakur maður til þess að hafa þetta verk með höndum. Ég hygg, að hann sé einn í þessu starfi og hafi tiltölulega litla aðstoð, og vitanlega er þetta ekki nægjanlegt. Reynslan sýnir, að það er ekki nægjanlegt, að við þetta starfi aðeins einn maður. Og það er áreiðanlega nauðsynlegt að efla starfslið Efnahagsstofnunarinnar, sem að þessu vinnur, og ég fæ ekki séð, að þess sé ekki kostur að finna slíkt starfslið. Að sjálfsögðu er það rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að við eigum fáa sérmenntaða menn í þessum efnum, en við eigum þó a.m.k. ýmsa menn, sem ættu menntunar sinnar vegna og af ýmsum öðrum ástæðum að vera færir um það að vinna að þessu verkefni, án þess þó að þeir teljist sérfræðingar í því. Og ég hygg, að ein meginástæðan til þess, hve lengi hefur dregizt að fullgera Norðurlandsáætlunina, sé sú, að það hefur ekki verið nægilegur mannafli, sem að henni hefur unnið. Og ef það er svo, að það vinni of fáir menn við þetta, finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að gera þá kröfu, að starfsliðið verði aukið, fleiri mönnum verði fenginn þessi starfi, að vinna að áætluninni, því að það er mikil nauðsyn, að henni verði hraðað. Þetta er greinilega yfirgripsmikið verk, og það viðurkenni ég með hæstv. ráðh., en það er varla við því að búast, að svo yfirgripsmikið verk verði unnið af mjög fámennu starfsliði.