17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

116. mál, skólakostnaður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þessar sérkennilegu umræður, sem fram hafa farið að undanförnu, ég vil aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ég held, að það sé algerlega augljóst, hvað í frv. felst. Í því felst það, að þær fjárveitingar, sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að verja til nýrra skóla á næsta ári, nægja ekki til þess að veita fé til þeirra skóla, sem nauðsynlegir eru, ef fylgt væri ákvæðum þeim, sem voru í skólakostnaðarlögunum. Hæstv. ráðh. lét mikið af því, að þessi upphæð væri fjarskalega há, 33 millj. rúmar, sagði hann. Sízt get ég kallað það háa upphæð á fjárl., sem nema í allt yfir 7 milljörðum kr. Enda þótt þessi upphæð sé hærri en verið hefur, er hún augljóslega allt of lág, og mér finnst það ákaflega undarlegt hjá hæstv. menntmrh., að þegar hann sem fulltrúi menntamála á Íslandi ætti að ýta á samstarfsmenn sína um auknar fjárveitingar til þeirra verkefna, kemur hann hér aftur og aftur upp í ræðustól fullur af sjálfumgleði og reynir að afsaka hluti, sem ekki er hægt að afsaka.

Hæstv. ráðh. talaði um nýja skóla, sem nauðsynlegt væri að hefja framkvæmdir við á næsta ári. Og hæstv. ráðh. hefði auðvitað átt að leggja áherzlu á það að fá þá fjármuni, sem dygðu til þess, að hægt væri að hefjast handa við alla þessa skóla, án þess að hverfa frá löggjöfinni um skólakostnað. En þetta er ekki hægt. Þær 33 millj., sem um er að ræða, nægja ekki til þess, að hægt sé að leggja fé til allra þeirra skóla, sem nauðsynlegir eru, og þess vegna er þetta frv. flutt um að lækka hlutinn til hvers skóla úr 1/3 niður í 1/4. Þarna er um að ræða skerðingu frá raunverulegum þörfum og hæstv. ráðh. ætti að líta á þarfirnar, þegar hann er að mæla fyrir slíkum málum hér á þingi. Þetta hefur oft komið fyrir áður hjá hæstv. ráðh. í vetur, þegar minnzt hefur verið á menningarmál, að hann hefur verið í stöðugri varnarstöðu og raunar í sjálfhólsstöðu. Þetta er sjúkdómur, sem vill leggjast á ráðh., þegar þeir eru búnir að vera nokkuð lengi í störfum, að þeir fyllast af ánægju með sjálfa sig og gerast næsta áhugalitlir um nýjar framkvæmdir.

Ég hef þá afstöðu, að átt hefði að halda við ákvæði skólakostnaðarlaganna og það hefði þurft að hafa fjárveitinguna það ríflega, að hún nægði til þess á næsta ári að leggja í þá nýja skóla, sem nauðsynlegir eru. Þetta er í fáum orðum sagt afstaða mín til þessa frv. Þetta er frv., sem á að réttlæta skerðingu á þeim áformum, sem menn höfðu í huga, þegar skólakostnaðarlögin voru samþykkt, og ég er á móti því, að sá samdráttur sé framkvæmdur. Ástandið í skólamálum er þannig, að það er ekki rétt að ráðast í slíkan niðurskurð.

En fyrst ég stend hér og tala um skóla, þætti mér vænt um, ef hæstv. ráðh. vildi svara fsp. um skóla af öðru tagi en hér er um að ræða. Ég minntist á það hér við 2. umr. fjárl., að vandamál Kennaraskólans væru orðin ákaflega alvarleg. Helmingi þess skóla komið upp 1962 og síðan hefur ekki verið haldið áfram byggingarframkvæmdum þar. Í þessum helmingi skólans áttu samkv. áætlunum arkitekta að vera um 150 nemendur. Fullgerður átti skólinn að rúma 250–300 nemendur. En í þessu húsnæði, sem ætlað er 150 nemendum, eru nú um 1000 nemendur, yfir 800 kennaraefni og yfir 100 börn, sem eru þar við æfingakennslu. Þrengslin eru orðin svo mikil, að það er ekki hægt að halda uppi neinu eðlilegu skólastarfi og hefur þó skólinn leigt sér húsnæði utan veggja þessa nýja skóla. Skólastjórinn hefur skýrt frá því í viðtali, að það þurfi 100 millj. kr. til þess að fullgera þennan skóla. Það er þrisvar sinnum hærri upphæð en sú tala, sem hæstv. ráðh. var að hæla sér af hér áðan. Mér er kunnugt um það, að skólastjórinn fór fram á það að fá fjárveitingu á fjárl., sem næmi 6 millj. kr. Við 2. umr. fjárl. sáust þess engin merki, að ætlunin væri að verða við þessari ósk skólastjórans. Ég bar þá fram till. um fjárveitingu, sem nam aðeins 5 millj. kr., vegna þess að ég vildi ekki ganga fram af hæstv. ráðh. eða fjvn. Ég dró þó till. til baka til 3. umr. og ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki megi vænta þess, að við 3. umr. verði gert ráð fyrir einhverjum fjárframlögum, til þess að hægt verði að undirbúa frekari byggingarframkvæmdir við Kennaraskólann?