17.05.1969
Neðri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

248. mál, vinnumiðlun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er ekki að undra, þó að þm. finnist það dálítið einkennileg skýring, að lagasetning fari eftir því, hvernig hjartanu er komið fyrir í brjóstinu á hæstv. félmrh. Þó má vel vera, að nokkuð sé til í þessari skýringu. Við vitum að sjálfsögðu, að ákvæðin um hækkun á atvinnuleysisbótum voru afleiðing af verkfalli, sem hér var háð í marz í fyrra. Þar gaf hæstv. ríkisstj. tiltekin loforð gegn því, að verkafólk gæfi eftir af kröfum sínum. Verkafólk keypti þennan rétt í þessum samningum. Hins vegar eru því miður dæmi um það, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki staðið við slíka samninga, þó að þeir hafi verið gerðir á þennan hátt og þó að verkafólk hafi keypt þá, þannig að það má vel vera, að það sé hið sérstæða hjartalag hæstv. félmrh., sem valdi því, að hann stóð þrátt fyrir allt við þetta ákvæði, þótt ákaflega seint væri að vísu, því að hann hafði ekki framtak í sér til þess að leggja það fyrir Alþ. og varð að setja um það brbl. á síðasta degi síðasta árs. En mér þætti fróðlegt að vita hjá hæstv. félmrh., hvort hið ágæta hjartalag hans kann ekki að hafa áhrif á fleiri sviðum. Þar á ég við skólafólkið og atvinnu þess. Það var einmitt eitt af því, sem lofað var hátíðlega í sambandi við samningsgerðina í marz í fyrra, að ríkisstj. hét því að gera ráðstafanir til þess að tryggja skólafólki fulla atvinnu. Þetta var í loforðayfirlýsingu hæstv. ríkisstj. Þetta var sérstakur afmarkaður liður, að ríkisstj. hét því að gera slíkar ráðstafanir. Hún sveik þetta algerlega í fyrra. Hún gerði engar slíkar ráðstafanir, með þeim afleiðingum, að verulegur hluti af skólafólki í fyrra fékk seint atvinnu og hluti þess fékk aldrei atvinnu.

Ástandið er miklum mun alvarlegra í ár. 8 þús. nemendur koma á vinnumarkað, og könnun í skólunum hefur leitt í ljós, að um það bil þriðjungur þeirra telur sig eiga vísa vinnu, en 2/3 ekki. Þetta er ákaflega alvarlegt mál. Ég spurði hæstv. félmrh. um það hér á þingi fyrr í vetur, hvað ríkisstj. hefði gert til þess að bæta úr þessu, og hann viðurkenndi það hér í þessum ræðustóli, að ríkisstj, hefði ekkert gert og hefði engin áform um að gera neitt annað en það að bæta skólafólkinu í hóp þeirra, sem gætu fengið atvinnuleysisbætur.

Nú þætti mér fróðlegt að vita, hvort hæstv. ráðh. hefur ekki hugleitt þetta mál síðan og hvort hið ágæta hjartalag hans segir ekki til sín á þessu sviði.

Lögin um atvinnuleysistryggingar eru ákaflega mikilvæg félagsleg löggjöf. Við sáum það í vetur, að þau hafa orðið til þess að bjarga hundruðum heimila frá mjög alvarlegu ástandi, en slík löggjöf á sér einnig hættulegar hliðar. Slík löggjöf getur leitt til þess, að stjórnvöld bregðist skyldustörfum sínum vegna þess, að þau telji að með bótum sé hægt að halda fólki rólegu, þannig að það láti það yfir sig ganga að verða að vera án atvinnu mánuðum saman. Það er ekki nokkur vafi á því, að atvinnuleysistryggingarnar, þessi mikilvæga, félagslega löggjöf, stuðlaði að því í vetur, að hæstv. ríkisstj. hélt að sér höndum í atvinnumálum, enda er svo ástatt enn þá eftir einhverja beztu vertíð í sögu þjóðarinnar, að hópur atvinnuleysingja er á Íslandi enn. Og nú á skólafólkið að bætast við. Ef leysa á vanda skólafólks á sama hátt og hæstv. ráðh. boðaði og eins og fólst í þessu frv., þegar það var lagt fyrir í upphafi, með því að segja, að skólafólk geti gengið í þennan sjóð, við höfum ekkert fyrir það að gera, þá er verið að stjórna þessu þjóðfélagi á mjög háskalegan hátt, og ég vil mótmæla því algerlega, að þannig sé snúizt við alvarlegum vandamálum.

Það gefur auga leið, að hvorki er verið að leysa vanda skólafólks með því að gefa því aðgang að atvinnuleysisbótum né heldur verið að leysa þann stóra, þjóðfélagslega vanda, sem þarna blasir við. Í þessu er aðeins fólgin alger uppgjöf af hálfu hæstv. ríkisstj. Og mér finnst á þessum degi, sem mér skilst, að eigi að vera síðasti dagur þingsins, að við alþm. eigum heimtingu á því, að hæstv. félmrh. komi aftur í stólinn og segi okkur frá því, hvað ríkisstj. hyggst fyrir á þessu sviði, hvort ekki megi vænta þess, að hæstv. ríkisstj. geri eitthvað til þess að bæta úr atvinnuskortinum meðal skólafólks.

Hvað viðvíkur þeim ákvæðum, sem í frv. standa, og breytingu þeirri, sem kemur frá meiri hl. heilbr.- og félmn., þá virðist mér sú breyting vera dálítið hæpin. Samkv. henni yrðu ákvæði í lögunum um það, að skólafólk, sem stundar vinnu að námi loknu, teljist hafa fullnægt ákvæðum þessa stafliðs, hafi það á s.l. 12 mánuðum stundað vinnu a.m.k. í 3 mánuði og skólanám í 6 mánuði. Nú vil ég biðja menn að minnast þess, hvernig ástatt var í fyrrasumar. Þá fékk aðeins hluti af skólafólkinu vinnu í 3 mánuði. Það skólafólk, sem var svo heppið að fá vinnu í 3 mánuði í fyrra, ætti möguleika á því að fá bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkv. þessu frv., en hinir, sem voru atvinnulausir í fyrra og geta ekki fært sönnur á það, að þeir hafi haft vinnu í 3 mánuði, mundu ekki geta komizt að. Þetta er auðvitað alger fjarstæða. Þarna verður að setja inn öðru vísi heimildarákvæði. Mér er kunnugt um það, að þetta hefur verið vandamál í vetur hér í Reykjavík t.d. Hér hefur verið hópur manna, sem útskrifaðist úr skólum og var á almennum verkamannamarkaði, en komst ekki á atvinnuleysisbætur vegna þess, að það skorti ákvæði í lög, sem tryggðu slíku fólki þennan rétt og slík ákvæði þurfa að vera. En sú lausn, sem þarna kemur frá meiri hl. heilbr.- og félmn., leysir ekki þennan vanda. Hann verður að leysa á einhvern annan hátt, það er alveg greinilegt. Hitt skiptir þó langsamlega mestu máli í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstj. geri þær ráðstafanir, sem ég talaði um áðan, til þess að atvinnuvegum þjóðarinnar og framleiðslugetu verði beitt á þann hátt í sumar, að skólafólki verði tryggð atvinna og þátttaka í framleiðslu þjóðarinnar og þannig þær tekjur, sem skólafólk þarf á að halda til þess að halda áfram námi sínu. Ég ítreka enn áskorun mína til hæstv. félmrh. að gefa svör um þetta efni.