14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Skaftason:

Herra forseti. Við, sem höfum setið hér á hv. Alþ. nokkuð lengi, minnumst þess, að annað veifið síðustu árin hafa verið flutt hér frv. nokkuð svipaðs efnis og það frv., er liggur frammi á þskj. 145 um breytingu á l. um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu innan landhelginnar. Við minnumst þess, að allajafna, þegar mál þessi á annað borð hafa komizt það langt að vera tekin til umr. á hv. Alþ., hafa upp hafizt miklar og harðvítugar deilur um efni frv. og öll hafa örlög þeirra orðið hin síðari árin, að þau hafa dagað uppi. Ég minni á þessa staðreynd, því að mér finnst rétt að ganga út frá vissum forsendum, þegar við ræðum þessi mál, og hafa þá reynslu í huga, sem við höfum fengið hér á hv. Alþ. síðustu árin. Ég verð að segja það, að ég varð dálítið hissa, þegar ég sá það frv., sem hér var lagt fram fyrir tveim dögum, fyrst og fremst vegna þess að starfandi var n. tilnefnd af þingflokkunum öllum og skipuð af hæstv. ríkisstj. einmitt til þess að athuga þessi mál. Í öðru lagi fannst mér það nánast furðulegt að flytja frv. um jafnmikið og viðkvæmt deilumál og hér er um að ræða 5–6 dögum fyrir jólaleyfi þm. — á tíma, þegar mörg önnur stórmál eru til meðferðar — mál, sem vitað er, að þarf að afgreiða fyrir áramót. Það gaf því auga leið, að lítill tími mundi verða til þess að sinna jafnvandasömu máli og þetta er, enda virðist fyrsta reynslan frá umr. hér í gær gefa vissar vísbendingar um, að ekki muni þetta frv. óbreytt fara í gegnum þingið án mikilla umr. og deilna með þeim afleiðingum, sem það kann að hafa á frekari framvindu málsins í n. þeirri, sem starfar, ef hún þá starfar mikið lengur eftir þetta.

Það er látið að því liggja, að það þurfi að vinda að því bráðan bug að finna lausn — bráðabirgðalausn, eins og það er orðað — á mjög viðkvæmu vandamáli og ástandi, sem komið er upp eftir 1. des. s. l. Nánast er að því látið liggja, að það sé óhæfa að standa í vegi fyrir slíkri bráðabirgðalausn. Vegna þessa langar mig til þess í nokkrum orðum að rekja gang þessara mála — landhelgismálanna — á hv. Alþ. í nokkrum stórum atriðum til þess að sýna fram á, að þeir, sem nú vilja halda því fram, að það sé nánast óviðeigandi, að staðið sé gegn þessari bráðabirgðalausn, hafa ekki fyrir allt of löngu verið, að því er virðist, áhugalitlir um það, að þessi mál yrðu krufin til mergjar og reynt yrði að finna einhverja lausn á þeim, sem samkomulag gæti tekizt um.

Ég vil þá í fyrsta lagi minna á, að ég ásamt nokkrum fleiri hv. þm. úr Framsfl. höfum flutt till. hvað eftir annað — í þrjú til fjögur skipti — um skipun nefndar til þess að gera till. til Alþ. um skynsamlega nýtingu fiskveiðilandhelginnar innan landhelgislínunnar. Þessar till. okkar hafa verið svæfðar á hverju einasta þingi undanfarin ár, þannig að á þessum árum virðist ekki hafa verið ýkja mikill áhugi hjá mörgum þeim, sem nú tala allt í einu um, að ekki megi dragast í mánuð að reyna að finna samkomulagslausnir í þessum viðkvæmu deilumálum. Ekki virðist hafa verið á þeim tíma allt of mikill áhugi hjá þeim til þess að vinna að þessu málefni, meðan góður tími gafst til.

Ég vil næst minna á, að í fyrra á síðasta þingi var fyrir frumkvæði þm. úr þremur kjördæmum, þ. e. Suðurlandskjördæmi, Reykjaneskjördæmi og Reykjavík, komið á fót viðræðunefnd þm. úr þessum kjördæmum til þess að reyna að finna einhverjar lausnir á þeim vandamálum, sem fyrir hendi voru vegna þeirra reglna, sem giltu um botnvörpuveiðar í landhelgi. Því er ekki að leyna, að þm. af þessu svæði hafa á undanförnum mánuðum orðið fyrir allmiklum þrýstingi frá ýmsum sjómönnum og útvegsmönnum, sem hafa viljað fá aukin veiðiréttindi til botnvörpuveiða innan landhelginnar. Þetta mál hefur mjög á okkur brunnið öllum. Við vitum líka, að á þessu svæði, sem við erum fulltrúar fyrir, er einnig að finna mjög harðvítuga andstöðu gegn nokkurri rýmkun heimilda í þessum málum. Þess vegna er málið ákaflega erfitt viðfangs fyrir okkur alla og brennur heitt á okkur öllum. Hins vegar var það okkar skoðun og er enn, að ég má segja allra, að það ástand, sem hér hefur ríkt í þessum málum undanfarna mánuði og undanfarin ár, sé algerlega óviðunandi. Um það vorum við sammála, og þess vegna vildum við leggja okkur fram um það að reyna, hvort við gætum orðið sammála um einhverjar breytingar og skynsamlegri reglur í þessum efnum en fyrir hendi eru núna. Hæstv. ríkisstj. vissi um þessa vinnu okkar þm. úr þessum þrem kjördæmum. Ég lagði það hvað eftir annað til að ríkisstj. gengi í það að skipa formlega n. til þess að annast þessi mál, svo að þetta væri tekið úr þeim farvegi, sem á ýmsan hátt var óeðlilegur, að einstakir þm. tækju sig saman um að skipa n. í málið til þess að vinna að því. En á það var ekki hlustað.

Ég vil þá næst minna á, að það var á síðasta Alþ., s. l. vor, að hæstv. sjútvmrh. skýrði þingheimi frá því, að nú hefði ríkisstj. loksins tekið á sig rögg í málinu og ákveðið að skipa í það nefnd frá öllum þingflokkunum og eftir tilnefningu þeirra til þess að athuga þessi mál í heild og gera till. um þau. Framsfl. og — ég held — raunar allir þingflokkarnir tilnefndu menn í þessa n. strax í vor. Hins vegar dróst það í marga mánuði hjá hæstv. sjútvmrh. að koma því í verk að skipa n. og það var fyrst með bréfi 2. okt. s. l., að n. var skipuð. Með leyfi hæstv. forseta langar mig til þess að lesa upp það verkefni, sem n. var ákvarðað af skipunarvaldinu í þessu bréfi, en þar segir svo:

Ríkisstj. hefur ákveðið að skipa 5 manna n. samkv. tilnefningu stjórnmálaflokkanna til þess að gera till. til ríkisstj. um fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi. Till. eiga að miðast við sem bezta hagnýtingu fiskveiðilandhelginnar fyrir sjávarútveginn í heild og einstök útgerðarsvæði, og skulu þær ná til allra skipastærða og veiðiaðferða. Við tillögugerð sína skal n. gæta sérstaklega, að nauðsynlegt er að forðast ofveiði nytjafiska.“

Þetta var það veganesti, sem n. hafði til þess að starfa eftir. En það var ekki eins og öllum steinum væri rutt úr vegi, þó að loksins hefði n. fengizt skipuð, því að af einhverjum ástæðum dróst það í heilan mánuð hjá formanni n. að kveðja hana saman til starfa. Ég rifja þetta upp til þess að sýna fram á það áhugaleysi og þann seinagang, sem hefur verið í þessu máli allt fram til allra síðustu daga, að allt á um koll að keyra og koma í gegnum hv. Alþ. í krafti flokkavalds mjög umdeildu frv. á einni viku. Ég minni á þetta, eins og ég sagði í upphafi, til þess að sýna það, hversu í raun og veru það er fráleitt, þegar því er haldið fram og látið í það skína, að við, sem erum ekki reiðubúnir til þess að samþykkja þetta frv. á stundinni óbreytt eins og það er, séum að standa í vegi fyrir einhverri bráðabirgðalausn, sem hafi skyndilega orðið til.

Það hefur verið áður frá því skýrt, að landhelgisnefndin kom saman 31. okt. s. l. og fyrstu fundirnir fóru mikið í umr. um það, hvernig eðlilegt væri að haga starfsháttum n. Mönnum varð það ljóst, að hér var um ákaflega viðkvæmt og vandasamt mál að ræða, og voru allir á því vegna fenginnar reynslu frá fyrri árum, að hér yrði að vinna varlega og í fullu samráði við þingflokka þá, sem tilnefnt höfðu nm. Það var um það fullt samkomulag í n. að kynna og skýra þingflokkunum frá gangi mála í n. jafnóðum og hlutirnir gerðust. Allir nm. voru sammála um, að umfram allt yrði að reyna að halda friðinn í n. og reyna að tengja saman ólík sjónarmið.

Það var svo, að okkur bárust um það fregnir nokkrum dögum fyrir 1. des. s. l., að til stæði, að hæstv. dómsmrh. veitti almenna sakaruppgjöf vegna landhelgisbrota og ákveðið væri frá sama tíma að breyta um framkvæmd í sambandi við réttargæzlu í landhelgismálum, en framfylgja þeim dómum, sem kynnu að verða kveðnir upp eftir 1. des. s. l. vegna brota, sem framin hefðu verið. Þetta var mikil breyting frá því, hvernig hlutirnir höfðu gengið til í þessum málum um nokkuð langan tíma. Þegar við í n. fréttum af þessum fyrirætlunum, slógu þær okkur alla jafnt mjög illa. Það var ákveðið og samþ. í n. að fela formanni n. að ganga á fund hæstv. ráðh. með einróma tilmæli nm. um það að hverfa frá þessari ráðagerð. Okkur þætti eðlilegra, fyrst n. væri starfandi í málinu, sem ætlaði sér að skila till. til ríkisstj. um mánaðamótin janúar-febrúar, að bíða með þessa breyttu framkvæmd, þar til séð væri, hver yrðu afdrif þeirra till., sem n. kynni að verða sammála um. En á það var því miður ekki hlustað með þeim afleiðingum, að nú stöndum við frammi fyrir miklu vandamáli í dag, sem er flutningur þessa frv., sem hér er verið að ræða og fyrst og fremst er til þess ætlað að skera hæstv. ráðh. niður úr snöru, sem hann hefur brugðið um háls sér, og þess er þá væntanlega vænzt, að við í stjórnarandstöðunni komum þar til hjálpar.

Þegar nm. varð það ljóst, að ætlun hæstv. dómsmrh. var sú að hvika í engu frá þessari ákvörðun sinni, leitaði formaður landhelgisnefndarinnar eftir því við nm., hvort þeir gætu orðið um það sammála að hverfa frá áður greindri vinnuáætlun um að skila till. um mánaðamótin janúar–febrúar og gætu orðið sammála um að skila einhverjum till. núna fyrir áramótin. Hann bað menn að kanna þetta hvern í sínum flokki, og ég hygg, að það hafi verið gert af okkur allflestum, en niðurstaðan varð sú, að með hliðsjón af þeim ráðstöfunum, sem þegar var búið að gera í málinu, m. a. það, að ýmsir þm. voru búnir að ákveða fundi í kjördæmum sínum t. d. á Austurlandi í janúarmánuði n. k. um þessi mál og önnur kjördæmi höfðu þegar kosið n. til þess að ræða við landhelgisnefndina um þetta og þar fram eftir götunum, varð það niðurstaðan a. m. k. í þeim flokki, sem ég tilheyri — og það var einróma álit allra, sem á þeim fundi voru, að sjálfsagt væri að halda fast við þá vinnuáætlun, sem gerð hafði verið í upphafi, enda sýndist mönnum það vera einasta vonin til þess að fá einhverja skynsamlega lausn á þessum málum, sem búin eru að vera deilumál í þinginu um margra ára bil. Það varð því úr, að n. gat ekki orðið sammála um að flytja till. eða till. svipaðs efnis og hér liggur fyrir einróma, en hins vegar hafa tveir menn í landhelgisnefnd tekið sig út úr og gerzt flm. að þessu frv.

Það má vafalaust halda því fram, að það þýði lítið að deila um það, sem gerzt hefur til þessa, þó að ég hafi rifjað þetta upp til þess að fá vissar forsendur. Aðalspurningin hlýtur náttúrlega að vera, hvað við getum gert nú í því vandræðaástandi, sem upp er komið. Mér sýnist, að hv. Alþ. eða hv. d. hafi um þrjá kosti að velja. Hún getur í fyrsta lagi reynt að hefja samninga um breytingar á frv., er gerðu það líklegt, að það mætti minni andstöðu í d. en það hefur þegar mætt og kemur til með að mæta. Þessi leið út af fyrir sig er æskileg að mínum dómi, og ég er reiðubúinn að ganga í það með öðrum að vinna að breytingum á frv., er gætu dregið úr þeirri andstöðu, sem fyrir hendi er í dag í d. Á þetta hefur lítillega reynt núna í gær og í dag, en það, sem ég hef heyrt um árangur af því, er harla lítið enn þá a. m. k. Þessi kostur, sem ég vil ekki útiloka, er að mínum dómi ekki nema sá næstbezti. Ég tel að úr því, sem komið er, sé tvímælalaust bezt að draga þetta frv. eins og það er til baka og setja allan kraft, sem hægt er, í störf landhelgisnefndarinnar, þannig að öruggt megi telja, að till. frá henni geti legið fyrir núna strax seinni partinn í janúar. Sá væri beztur kostur að mínu viti. Þriðji kosturinn er sá, að með flokkavaldi verði reynt að knýja þetta frv. óbreytt fram í deildinni, en ég vara þá við þeim afleiðingum, sem það kann að hafa fyrir allt þetta mál í heild í framtíðinni. Hér er einungis um bráðabirgðalausn að ræða, sem gilda á um ákveðinn tíma. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég tel, að slík bráðabirgðalausn knúin fram af meira eða minna handjárnuðu þingliði mundi marka djúp spor í meðferð og lausn landhelgismálsins, þegar fram líða stundir.

Frv. þetta gerir ráð fyrir, að ráðh. hafi að fengnum till. frá Hafrannsóknastofnuninni og Fiskifélaginu heimild til þess að leyfa togveiðar á tímabilinu frá 1. janúar til 30. apríl 1969 á bátum allt að 200 brúttórúmlestir að stærð upp að 4 mílum fyrir Norðurlandi og upp að 3 mílum fyrir Suðurlandi miðað við strandlengju. Mér er það alveg ljóst, að þessi lausn er nægjanleg fyrir sumar verstöðvar í landinu. Mér er það fyllilega ljóst, að Vestmanneyingar eiga við mikla erfiðleika að stríða, ef engar breytingar fást á þessum reglum núna um einhvern tíma. En ég vil benda á, að með þeirri lausn, sem frv. óbreytt tryggir, er verið á hróplegan hátt að gera upp á milli útgerðarplássa, sem eru sambærileg á allan hátt. Vestmanneyingar mundu samkv. þessu fá nærri því öllum óskum sínum framfylgt, en nágrannaþorp Vestmannaeyja, Grindavík, fengi með frv. enga lausn sinna sérmála. Þó er það staðreynd, að um 15–20 bátar í Grindavík — smáir bátar, sem geta tæplega notað sér það að fara langt austur með landinu til togveiða og hafa stundað togveiðar á svæði, sem liggur innan þriggja mílnanna — fá enga lausn. Enginn þessara báta fengi nokkra lausn. Og á þetta svæði hafa einnig komið smærri bátar frá Keflavík og öðrum stöðvum við Faxaflóa, þannig að sé allt talið, má segja, að fjöldi þeirra báta, sem þetta svæði hafa stundað frá Reykjanestá og að Selvogsvita, sé nálega jafnmikill og fjöldi Vestmannaeyjabáta. Með frv. á að leysa vandamál Vestmannaeyjabátanna, en skilja hina alla eftir í sömu vandræðunum — í þeim vandræðum, sem hin nýja framkvæmd landhelgismálanna hefur skapað. Ég finn ekki minnstu sanngirni í svona lausn — ekki nokkra.

Frv. er um það að veita hæstv. sjútvmrh. heimild til þess að leyfa þessar veiðar. Nú liggur ekkert fyrir hv. d. um það, hvernig hæstv. ráðh. hyggst nota þessar heimildir eða hvort hann yfirleitt mundi nota þær. Um það vantar allar yfirlýsingar enn þá og hefði þó verið eðlilegt, að þd. yrði gerð ljós grein fyrir því, hvernig hæstv. ráðh. hyggst nota þær, ef þetta frv. verður samþ. En ég vil minna á, að það er ekki lítill vandi, sem ráðh. er fenginn með því að veita honum þessar heimildir. Hann hefur nokkuð víðtækar heimildir þegar frá Alþ. um það að leyfa togveiðar allt inn að 4 mílum á vissum stöðum á vissum tímum við landið, en hann hefur ekki treyst sér — og ég vil ekkert lá honum það — til að nota þær nema að mjög litlu leyti.

Ég held, eins og ég sagði áðan, að bezti kosturinn sé sá úr því, sem komið er, að reyna að hraða störfum í landhelgisnefndinni. Hv. 1. flm. þessa frv. segir þannig sjálfur í þeirri grg., sem fylgir frv., að veigamestu rökin fyrir því, að það sé flutt, sé einmitt sú staðreynd, að á aðalveiðisvæðunum bæði fyrir Suður- og Norðurlandi verða bátar ekki gerðir út yfir sumartímann með neinum árangri nema á botnvörpuveiðar. En nú eru allar líkur á því og nærri því vissa, að yrði beðið eftir till. landhelgisnefndarinnar og þær kæmu inn í hv. Alþ. um mánaðamótin janúar — febrúar og gæti tekizt um þær samkomulag, eru allar líkur á því, að hér væri hægt að afgreiða á hv. Alþ. nýjar reglur um þessi mál e. t. v. í febrúarmánuði, þannig að ekki er þá komið fram á sumartímann. Ég vil líka benda á, að einmitt í janúar og febrúar er nokkuð mikið línuúthald stundað einmitt á þeim tíma og það hefur komið fram m. a. á fundi, sem haldinn var 8. des. s. l. suður í Stapa í Njarðvíkum, að menn þar töldu, að ákveða yrði línunni sérstök svæði, sem ekki mætti toga á einmitt í janúar og febrúar.

Því hefur verið haldið fram, að það hafi verið eðlilegt af hæstv. dómsmrh. að breyta til um framkvæmdina um viðurlög við landhelgisbrotum núna 1. des., því að það hefði orðið að knýja Alþ. til þess að leysa þessi mál. Hvað sem um þessa röksemd hefði mátt segja t. d. á s. l. ári og fyrri hluta þessa árs, þá held ég, að það sé mjög erfitt að finna henni stað einmitt núna. Ég held, að nú í fyrsta skipti hafi verið vegna starfa landhelgisnefndarinnar nokkur von um, að samkomulag gæti tekizt um lausn þessara mála. Ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að við eigum að hagnýta okkur landhelgina á eins skynsamlegan hátt og mögulegt er að beztu manna yfirsýn og hafa hliðsjón af búsetu manna víðs vegar um landið, þegar við ákveðum þau not. Að þessu stefna störf landhelgisnefndarinnar. Nú á að hleypa öllu í hnút í störfum landhelgisnefndarinnar. Það á að kljúfa hana með þessu frv. og hv. Alþ. líka í afstöðunni til þessa máls núna rúmum mánuði áður en búast má við því, að till. komi frá landhelgisnefndinni. Þetta tel ég mjög óviturlega aðferð og get því ekki tekið undir það, að að því liggi rétt rök, að hæstv. ráðh. ákvað þessa breyttu aðferð í sambandi við landhelgisbrotin einmitt núna. Hann hefði að mínu viti betur beðið með að breyta til þar til útséð var um nýjar till. um landhelgismálið.

Hv. 3. þm. Sunnl. hefur lagt fram hér brtt. við frv. sitt, sem ég fæ ekki séð, að skipti nokkru einasta máli. Þá heimild, sem hann þar leggur til að veita ráðh., er alla að finna í frv., þannig að hér er ekki um nokkurn nýjan hlut að ræða.

Ég vil svo að síðustu segja þetta: Mér er vel ljóst, að það er óhjákvæmilegt að veita einhver aukin fríðindi til togveiða innan landhelgi frá því, sem núna er á vissum svæðum og á vissum tímum ársins. Ég tel yfirgnæfandi hagsmuni bundna við það frá því, sem er. Ég trúi því líka og treysti, að með ítarlegri könnun verði unnt að koma þessum breytingum fyrir án þess að skerða lífshagsmuni sjómanna, er aðrar veiðiaðferðir nota, og án þess að ganga of nærri fiskistofnunum hér við land. Langlíklegasta leiðin til þess, að þessu marki verði náð, er sú að undirbyggja tillögugerð vel og kynna tillögurnar í þingflokkunum stig af stigi. Þessi er hugsunin að baki landhelgisnefndarinnar. Ef nú á að spilla þessum grundvelli með því að efna til harðvítugra deilna um þetta viðkvæma mál á síðustu dögum þinghaldsins fyrir jólaleyfið, þá tel ég, að meira tapist fyrir okkur, sem viljum auka réttindi togveiðibátanna, en vinnist auk þess óréttlætis, sem það skapar þeim, sem algerlega hliðstæða aðstöðu hafa og ég vék hér að rétt áðan.

Í fyrsta lagi er allsendis ólíklegt miðað við fyrri undirtektir á Alþ., að meiri hluti sé fyrir þessu máli eins og það ber nú að og í því formi, sem það er. Í öðru lagi tel ég mig hafa sýnt fram á, að hæstv. ríkisstj. hafi sýnt málinu fyllsta tómlæti til þessa og með síðustu skyndiaðgerðum sett málið í þann hnút, sem henni ber að leysa og hún hefur á sínu valdi að leysa, þannig að landhelgisnefndinni gefist tóm til þess að skila till. sínum á þeim tíma, sem í upphafi var ákveðinn. Á þennan hátt einan tel ég sæmilegt að vinna að þessu máli.