15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

120. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. 12. gr. núgildandi áfengislaga hefur orðið nokkurt umhugsunarefni, að mér virðist, hjá sumum hv. þm., ef marka má af þeim brtt., sem fram eru komnar nú þegar við hana. Mér sýnist því rétt að rifja upp fyrir hv. þm., hvað felst í þessari 12. gr. áfengislaganna, en það er í fáum orðum sagt þetta: Í fyrsta lagi, að í kaupstöðum, þar sem áfengisútsala er, er ráðh. heimilt að veita veitingahúsi vínveitingaleyfi, ef fullnægt er ákveðnum skilyrðum. Í öðru lagi, að utan kaupstaða getur ráðh. veitt sams konar leyfi með sömu skilyrðum að fenginni umsögn viðkomandi sýslunefnda, ef það er einkum í þágu erlendra ferðamanna. Í þriðja lagi, að ef áfengisútsala í kaupstað er lögð niður, — en það er á valdi bæjarbúa sjálfra að gera það með almennri atkvgr. hvenær sem er, — þá fellur vínveitingaleyfi veitingahúsa í þeim kaupstað úr gildi um leið. Í fjórða lagi: ef veitingamaður brýtur gegn settum skilyrðum, þá skal hann þegar í stað missa vínveitingaleyfi sitt, og í fimmta lagi, að löggæzlumönnum er skylt að hafa gætur á starfsemi vínveitingahúsa, og ráðh. getur sett eftirlitsmenn með starfseminni á kostnað veitingahúsanna. Þetta er efnið í 12. gr. áfengislaganna. Nú hefur hv. allshn. flutt brtt. við þessa gr. í frv. sjálfu, sem búið er að samþ. í þessari hv. deild. Síðan flutti hv. n. aðra brtt. við þessa sömu gr., og hana er líka búið að samþykkja í þessari hv. deild, og nú flytur hv. allshn. þriðju brtt. við sömu gr., og hún er hér til umr. og er á þskj. 396.

Ég tel rétt að vekja athygli hv. þm. sérstaklega á þessari brtt., sem ekki hefur komið til umr. hér fyrr að þessu sinni. Efnið í þessari brtt. er það, að það á að afnema þá reglu, sem hefur frá upphafi verið í gildi, að því aðeins megi leyfa veitingahúsi vínveitingar í kaupstað, að þar sé áfengisútsala. Þessi regla er byggð á því, að íbúar hvers kaupstaðar eiga að ráða því sjálfir með atkvgr., hvort þeir vilja hafa áfengissölu í bæjarfélaginu, hvort sem hún er frá verzlun eða veitingahúsi. Þess vegna er óheimilt að koma upp vínveitingahúsi, þar sem ekki er áfengisútsala, og jafnframt er því aðeins hægt að setja á áfengisútsölu, að íbúar kaupstaðarins hafi samþykkt það með almennri atkvgr. Þetta er sú regla, sem hefur gilt og gildir enn, að íbúar hvers kaupstaðar ráði þessu sjálfir, hvort áfengissala eigi sér þar stað, hvort sem hún er frá verzlun eða veitingahúsi, en með þessari brtt. á þskj. 396 á að afnema regluna, þ. e. ráðh. á að vera heimilt að leyfa vínveitingahús í kaupstað, ef bæjarstjórn eða meirihluti bæjarstjórnar fellst á það, jafnvel þó að íbúar kaupstaðarins hafi fellt það við atkvgr. að hafa þar áfengissölu. Þetta er efnið í till. Það liggur auðvitað í augum uppi, að áhugamönnum um áfengisneyzlu mundi að sjálfsögðu veitast það léttara að fá vínveitingahús í kaupstaðnum, ef þeir þurfa ekki að hafa nema meiri hluta bæjarstjórnar sér hliðhollan, heldur en að eiga undir högg að sækja um meiri hluta allra atkvæðisbærra manna í bæjarfélaginu. Þetta er aðferð til þess að koma á vínveitingahúsum, þar sem fólkið vill þau ekki.

Í 13 kaupstöðum utan höfuðborgarinnar eru nú vínveitingahús aðeins í einum þeirra, það er á Akureyri. Hins vegar eru áfengisútsölur í 6 kaupstöðum af 13. Það má telja líklegt, að í hinum 7 kaupstöðunum sé engin áfengisútsala, af því að bæjarbúar kæra sig ekki um áfengissölu þar í neinu formi. En með samþykkt þessarar till. á þskj. 396 gæti áhugamönnum um vínveitingar auðveldlega tekizt að koma á vínveitingahúsum í öllum kaupstöðum landsins, hvað sem fólkið segði þar, ef þeir hafa tök á meiri hluta viðkomandi bæjarstjórnar. Þetta er efnið í tillögunni. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 422, þar sem ég legg til, að þessi fyrsti töluliður á þskj. 396 falli niður. Ég vil ekki opna þá möguleika, að verið sé að koma á áfengissölu í bæjarfélögum gegn vilja fólksins, þó að meiri hluti bæjarstjórnar hafi fallizt á það. Þeir, sem hins vegar kunna að samþykkja þessa brtt. hv. n., eru með því að svipta kaupstaðarbúa þeim rétti, sem þeir hafa haft, að geta ráðið þessum málum, og ég vona, að hv. þm. hugsi sig um, áður en þeir gera það. Þótt nú sé áfengisútsala í 6 kaupstöðum af 13, þá geta íbúarnir losað sig við þær með atkvæðagreiðslu hvenær sem er, og slíkt hefur verið gert, en vínveitingahús, sem búið er að leyfa í skjóli þessarar lagabreytingar, sem hér á að koma, geta þeir ekki losað sig við, ef þessi till. verður samþykkt.

Ég held ég hafi tekið rétt hér eftir áðan hjá hv. frsm. 10. þm. Reykv., nei, það mun hafa verið hv. 4. þm. Vestf., að þetta sé sérstaklega gert vegna Hafnarfjarðar. Ég missti af því, hver það er í Hafnarfirði, sem er að óska eftir vínveitingahúsi þar. Ég held, að það sé ekki bæjarstjórnin samt, en einhver er að óska eftir því, og það eru engar fréttir, þó einhver finnist í Hafnarfirði svipaðs sinnis og þessir fimm hv. þm. En það hefur átt sér stað, að Hafnfirðingar hafa fellt með atkvgr. að hafa hjá sér áfengissölu í neinu formi. Nú á að ganga fram hjá því. Ég sé ekki ástæðu til þess að tala lengur um þessa till., ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir öllum, hvað er meint með henni. En þá kemur till. á þskj. 419. Hún er ekki flutt af allshn„ hún er flutt af fimm hv. þm. Þar er lagt til að heimila bruggun og sölu á áfengum bjór, ef meiri hl. alþingiskjósenda, sem greiða atkv., samþykki það við þjóðaratkvgr., sem á að fara fram að ári. Sams konar till. kom fram í frumvarpsformi fyrir 3 árum, nema að þar var ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvgr. Það frv. var fellt hér í hv. deild með 23 atkv. gegn 16, að viðhöfðu nafnakalli þá. Þegar slík till. sem þessi kemur fram, þá hlýtur maður að spyrja að því, enda hefur oft verið um það spurt, í hvaða tilgangi er hún flutt, tillagan um áfenga bjórinn? Því að varla er hún tilgangslaus. Og ég vil spyrja hv. flm. þessarar till. nú, í hvaða tilgangi flytja þeir tillöguna? Ég held, að það geti ekki verið um nema tvenns konar tilgang að ræða, annaðhvort er hún flutt til þess að draga úr áfengisneyzlu í landinu eða hún er til þess að auka hana. Annar tilgangur getur ekki verið með henni. Og verði þessi till. samþykkt, þá er það öllum ljóst, að afleiðingin verður annaðhvort aukin áfengisneyzla eða minnkuð áfengisneyzla. Hingað til hafa þessar till., sem hvað eftir annað hafa verið fluttar, strandað á því, að alþm. hafa ekki talið það vera til bóta að samþykkja slíkt. Alfreð Gíslason læknir og fyrrv. alþm. hefur kynnt sér þessi mál sérstaklega, hvaða áhrif neyzla áfenga bjórsins hefur haft í nágrannalöndum okkar. Hann hefur skrifað um þetta mjög fróðlega ritgerð, sem er óprentuð enn, og hann hefur leyft mér að lesa yfir þessa ritgerð og taka upp úr henni, ef mér sýndist svo. Ég vil nú leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér stuttan kafla úr þessari ritgerð læknisins um þetta efni. Hann segir:

„Árið 1959 voru að tilhlutun Norðurlandaráðs skipaðar nefndir, er athuga skyldu áfengismálin í norrænum höfuðborgum, öðrum en Reykjavík. Nefndirnar létu þegar fara fram rannsókn á drykkjuvenjum unglinga, hver í sinni höfuðborg, og eru niðurstöður fróðlegar á marga lund. Áfengisneyzla ungmenna reyndist misjöfn í hinum ýmsu höfuðborgum, og mest í Kaupmannahöfn. Þegar tekið var meðaltal. voru 60% drengja á aldrinum 14 ára farnir að neyta áfengis, 80% 16 ára pilta og 90% þeirra, er voru 18 ára. Það kom fram, að flestir drengjanna byrjuðu með öldrykkju, tóku síðan til við vínið og enduðu á sterkum drykkjum. Í Osló drekka 14 ára áfengisneytendur nærri eingöngu bjór, en í Kaupmannahöfn reynist helmingurinn þegar kominn í kynni við brenndu drykkina. Við 18 ára aldur hafa um 20% áfengisneytenda í Osló, Stokkhólmi og Helsingfors aldrei bragðað sterka drykki, en í Kaupmannahöfn aðeins 8%. Þar er bjórdrykkjan meiri og almennari en í öðrum höfuðborgum Norðurlanda, og þar sem annars staðar byrja börnin á öli, en lenda fyrr í neyzlu vína og sterkra drykkja.“

Enn fremur segir í þessari ritgerð:

„Víða í bæjum og borgum þykir mikið kveða að drykkjuskap um helgar. Þá ganga ölóðir menn berserksgang og valda spjöllum á almannafæri, svo og í heimahúsum, og fangageymslurnar yfirfyllast af drykkjurútum. Þannig er þetta í Svíþjóð og talið vandamál. Þar var það margra álit, að orsök ófarnaðarins væri einhliða neyzla sterkra drykkja og að ráðið til úrbóta væri að fá menn til að drekka létt vín og bjór í stað brennivíns. Þessi skoðun hlaut hljómgrunn hjá ráðamönnum þar í landi. Í samræmi við þennan skilning á vandamálinu var í Svíþjóð gerð mikil rýmkun á bjórsölu fyrir liðlega 3 árum. Síðan hafa matvöruverzlanir mátt selja áfengt öl. að vissum skilyrðum uppfylltum, og þessi mikla rýmkun ásamt verðlækkun á léttum vínum átti að verða til þess, að úr drægi neyzlu brenndra drykkja og þá um leið úr ofurölvun. Áhrif þessara ráðstafana eru nú tekin að koma í ljós. Bjór- og vínneyzla hefur aukizt til muna þessi síðustu ár, en gagnstætt von manna dregur ekki úr neyzlu sterku drykkjanna. Drykkjulæti eru jafnmikil um helgar og áður var, hin aukna öl- og víndrykkja dreifist á alla daga vikunnar. Þeir, sem fyrr drukku sig fulla í vikulok, gera það enn og hafa einungis bætt ölinu á sig aðra daga vikunnar. Þá vekur það athygli, hversu fyrrverandi drykkjumönnum reynist erfiðara en áður að standast áfengisfreistingar, og er því um kennt, að áfengt öl blasi nú við, svo að segja í hverri búð. Loks er þess getið, að nú eftir aðeins 3 ár frá því rýmkað var um bjórsölu, er í Svíþjóð tekið að brydda á hreinni bjórofdrykkju, sem áður þekktist þar lítt. Frá þessari dapurlegu reynslu segir sænskur læknir nýlega í tímaritsgrein, Alkohol-frågan, 9. hefti, 1968. Þessi læknir segir: Ölalkoholism visar ökning senare dren, — en þessi læknir, sem Alfreð Gíslason vitnar til, er Klaus Sjöberg, sem er læknir við geðsjúkrahús í Svíþjóð. — Áfengi bjórinn kemur þannig ekki í stað brennivínsins, heldur til viðbótar því. Í Svíþjóð eru fáanlegar öltegundir mismunandi að áfengismagni. Sú tegund, sem leyfð var frjáls sala á síðustu árin og hér er getið um, hefur 3½% vínanda miðað við rúmmál. Hins vegar er sterkur bjór þar 5,6%, og er sala hans takmörkunum háð.

Fyrir nokkru ákváðu sænsk stjórnvöld að gera staðbundna og tímabundna tilraun með frjálsa sölu þessa sterka öls. Tilraunin hófst í nóv. 1967 og skyldi standa þangað til í des. 1968 og takmarkast við tvö lén, Gautaborg, Bohus og Värmland. Í júní 1968, hálfu ári fyrr en til stóð, var tilrauninni snögglega hætt, svo slæm varð reynslan. Drykkjuskapur magnaðist á þessum stöðum og horfði til vandræða vorið 1968. Það var bjórdrykkja unglinga, sem einkum olli áhyggjum og beinlínis knúði ríkisstj. til að kippa að sér hendinni.

Í maí 1965 bar það til tíðinda í Danmörku, að ölgerðarmenn gerðu verkfall og stóð það í 6 vikur. Reynt var að bæta fólki þetta upp með innfluttu öli, en samt dró mikið úr bjórneyzlu í landinu þennan tíma. Afleiðingin varð minnkandi drykkjuskapur og kom m. a. fram í því, að tala umferðarslysa af völdum ölvaðra ökumanna lækkaði um þriðjung fyrstu verkfallsvikurnar.“

Þetta er það, sem ég hef tekið upp úr hinni óprentuðu ritgerð Alfreðs Gíslasonar læknis. Hér er ekki um að villast, að neyzla áfenga bjórsins, sem átti að draga úr neyzlu sterkra drykkja, gerði það ekki, heldur varð neyzlan hrein viðbót við fyrri áfengisneyzlu. Ekki er hitt síður athyglisvert, að í höfuðborgum þessara nágrannalanda okkar hefur neyzla áfenga bjórsins komið því til leiðar, að 60% af 14 ára drengjum eru orðnir áfengisneytendur og 80% þeirra, sem eru orðnir 16 ára að aldri. Nú kunna menn að segja, að í þessum löndum sé miklu frjálsari sala á áfengum bjór en gert er ráð fyrir í till. á þskj. 419, en því frjálsari sem salan á áfenga bjórnum er, því meir hefði hún þá átt að draga úr neyzlu sterku drykkjanna, en hún dró ekkert úr neyzlu þeirra. Allt varð þetta viðbót. Auðvitað mundi reynslan hér á landi verða alveg sú sama, ef þá ekki verri. Það vantar svo sem ekki, að með áfengislögunum, sem hér eru til umr., er bannað að selja eða veita unglingum áfengi, samkvæmt till. allshn., sem þessi hv. deild er búin að samþykkja, ætla ég, að það sé ekki ofmælt, að þeir, sem mestu áhrifin hafa á það, hvort unglingar neyta áfengis, séu vínsalarnir sjálfir, vínveitingahúsin og vínverzlanirnar. Þessir aðilar eiga að dæma um það, hvort unglingarnir sýna nokkur eða engin skilríki fyrir því, hvort þeir hafa leyfi eða heimild til að kaupa áfengi. Þeir eiga að meta það sjálfir, sem selja áfengið. Þannig er nú búið að breyta frv. Ég held, að áfengi bjórinn verði ekki síður unglingunum tiltækur en sterka vínið er nú, og mér dettur í hug, að næturklúbbarnir muni nú ekki láta sitt eftir liggja.

Ég get ekki látið hjá líða, þegar ég minnist á þessi mál að minna á frv. sem flutt var á Alþ. 1932 um sama efni, um bruggun og sölu á áfengu öli. En um það frv. sagði þáv. forsrh., Tryggvi Þórhallsson, í þingræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. ætti að geta fengið fulla afgreiðslu nú þegar við þessa umr., því að mínu áliti er ekki um margt að ræða í sambandi við það. Það er ástæðulaust að fara út frá því að tala um kreppuráðstafanir og öflun ríkistekna og því um líkt. Það eina, sem hér er um að ræða, er hinn aukni drykkjuskapur í landinu, sem af því mundi leiða, ef leitt yrði í lög, að brugga skuli og selja áfengt öl. Sumpart mundi það auka drykkjuskapinn strax og sumpart leggja grundvöll að vaxandi drykkjuskap í framtíðinni. Þessi afleiðing yfirgnæfir svo allar aðrar ástæður með og móti frv., að um þær ætti ekki að þurfa að ræða. — Ölið mundi vekja drykkjufýsnina hjá ungum mönnum, verkamönnum og skólapiltum. Eins og Spánarvínið hefur reynzt kvenfólkinu hættulegt, mundi ölið reynast unglingum og öðrum, sem lítil peningaráð hafa.“

Þetta voru orð hins merka manns, en það hafa fleiri merkir menn látið til sín heyra um, hvaða áhrif mundu verða af sölu og bruggun á sterkum bjór hér í landinu. Síðast í morgun birtist merk grein eftir einn af mætustu borgurum þessa þjóðfélags, að ég ætla, Helga Ingvarsson, fyrrv. yfirlækni á Vífilsstöðum. Ég hygg, að hv. þm. muni virða orð hans í þessu máli a. m. k. eins mikils og ýmissa annarra, svo mikils virtur er hann og vandaður á allan hátt, og að það megi treysta honum til nokkurrar leiðsagnar í þessu máli, ekki síður en þjóðin treysti honum til leiðsagnar í að útrýma berklaveikinni á Íslandi. Ég vil lesa stuttan kafla úr þessari grein, með leyfi hæstv. forseta, sem Helgi Ingvarsson skrifar og birt er í morgun. Hann segir:

„Að undanförnu hafa till. um sölu áfengs bjórs ýmist verið felldar eða dagað uppi á Alþ. Sennilega hefur meiri hl. alþm. þótt viðurhlutamikið að bera persónulega ábyrgð á því, að einu viðbrögð Alþ. í áfengismálum væru þau að auka á fjölbreytni áfengistegunda, sem eingöngu gæti orðið til þess að fjölga áfengisneytendum og auka drykkjuskap í landinu. Margir óttast líka og ekki að ástæðulausu, að bjórinn yrði tálbeita fyrir unglinga og þá drykkjumenn, sem eru að berjast við að reyna að hætta allri áfengisneyzlu. Gamlir drykkjumenn fúlsa heldur ekki við bjórnum. Af 130 mönnum, sem handteknir voru vegna ölvunarafbrota á tilteknu svæði í Englandi, neyttu 18% eingöngu bjórs og léttra víntegunda. Nú hafa nokkrir alþm. fundið upp á því klókindabragði að bera fram till. um þjóðaratkvgr. um bruggun bjórs. Með þessu yrði ábyrgðinni af afköstum bjórsins velt af einstökum þm. yfir á þann ópersónulega fjölda, sem ljær bjórnum lið sitt. Úrslit í almennri atkvgr. um hömlur á áfengissölu í Keflavík og Vestmannaeyjum geta gefið bjórmönnum nokkra von um framgang þessa áhugamáls þeirra. Mér er óskiljanlegt, að ábyrgir aðilar skuli leggja kapp á að knýja fram þá breytingu á áfengislöggjöfinni, sem líkleg er til að auka á drykkjuskap. Sannast að segja er hér eins og víðast annars staðar slíkt sinnuleysi og öngþveiti ríkjandi í áfengismálum, að full þörf er á, að sem flestir legðust á eitt til að reyna að finna ráð til útbóta.“ Þetta voru orð Helga Ingvarssonar yfirlæknis.

Nú kunna menn að segja, að í þessum löndum, nágrannalöndunum, sem ég hef vitnað til og birt upplýsingar um, að í þessum löndum sé frjálsari sala á áfengum bjór heldur en gert er ráð fyrir í þeirri till., sem liggur fyrir á þskj. 419. En ég ætla, eins og ég sagði áðan, að það breyti harla litlu vegna þess, að ástandið er almennt svo, að þeir, sem ætla sér og vilja ná í þennan drykk, hvort sem er bjór eða sterkt vín, geta það eins og löggjöfinni er háttað og á að verða háttað eftir þessa meðferð að þessu sinni hér á Alþ.

Að sjálfsögðu verður því á lofti haldið og hefur þegar verið gert, að samkv. till. á þskj. 419 um áfenga ölið eigi að fara fram þjóðaratkvgr. og það sé sannarlega réttmætt, að þjóðin fái að ráða. En þrír af fimm flm. þessarar till. fluttu fyrir þremur árum frv. um bruggun og sölu á áfengu öli, og ekki hugkvæmdist þeim þá, að þörf væri á þjóðaratkvgr. Þeir höfðu ekkert við það að athuga þá, að Alþ. réði úrslitum þessa máls eins og annarra þingmála. En það frv. var, eins og áður er sagt, fellt með miklum atkvæðamun, og þess vegna er nú gripið til þess ráðs að reyna að koma málinu fram með till. um þjóðaratkvgr. eins og yfirlæknirinn frá Vífilsstöðum bendir á, af því sennilega, að hv. flm. hefur ekki þótt líklegt, að þeim tækist að koma málinu fram hér á Alþ., án þess að slíkt ákvæði væri. En sé þörf á þjóðaratkvgr. um þetta mál. hversu oft hefði þá ekki átt að fara fram þjóðaratkvgr. um mikilsverð og afdrifarík mál á undanförnum árum og áratugum? Þjóðaratkv. getur verið nauðsynlegt eða réttmætt, ef um sérstök stórmál er að ræða. En því aðeins er réttmætt að leggja spurningu fyrir þjóðina, sem á að svara játandi eða neitandi, að hverjum og einum sé gert sem allra auðveldast að gera sér grein fyrir, hvað er þjóðinni fyrir beztu í málinu. Hér á þjóðin að svara, hvort brugga eigi og selja áfengan bjór í landinu. Er þá ekki viðbúið, að fjöldi manna hugsi sem svo: Vonandi minnkar drykkjuskapurinn og þá sérstaklega hjá unglingum, þegar þeir geta valið sér þetta saklausa öl í staðinn fyrir sterku vínin, og þess vegna svara ég játandi. Ég ætla, að svo geti farið um mikinn fjölda manna. Og svona hugsuðu Svíar líka og ekki aðeins almennir borgarar, heldur yfirvöldin sjálf. En hvernig fór? Reynslan hjá þeim varð dýrkeypt. Eiga svo Íslendingar að falla í sömu gröfina? Eða er það eitthvað betra að gera það með þjóðaratkvgr., ef illa á að fara? Og þá er aðalatriðið fyrir mér í þessu máli það, að mig hryllir við, ef íslenzkir foreldrar eiga von á því, áður en langt um líður, að 60% af 14 ára drengjunum þeirra verði orðnir áfengisneytendur eins og er í höfuðborgum nágrannalandanna. Eða hvaða ástæðu höfum við til að ætla, að betur fari hér?

Þjóðaratkv. hefur ekki farið fram á Íslandi í 25 ár eða síðan þjóðin greiddi atkv. um endurreisn lýðveldisins og fullveldi 1944. Í þessi 25 ár hefur Alþ. haft mörg stórmál og jafnvel örlagarík mál til meðferðar. Samt hefur engin þjóðaratkvgr. farið fram um þau. En nú á 25 ára afmæli fullveldisins kemur fram mál á Alþ., sem flm. þykir svo mikilsvert, að því hæfi ekki lakari eða óvirðulegri meðferð en ákvörðuninni um fullveldið. Og málið er áfengur bjór. Ég verð að segja það, að mér er forvitni á að sjá, hverjir verða sammála flm. í þessu efni.

Ég gat þess hér áður, að tilgangurinn með flutningi till. á þskj. 419 um áfengt öl hlyti að vera annaðhvort sá að draga úr áfengisneyzlu í landinu eða auka hana. Það getur ekki verið neinn tilgangur þar á milli. Ég hef sýnt fram á, að reynsla nágrannaþjóðanna er sú, að áfenga ölið auki hana og það svo mikið sem bjórdrykkjunni nemur, að meiri hl. 14 ára skólapilta í höfuðborgum fjögurra Norðurlanda eru orðnir áfengisneytendur vegna áfenga ölsins, og í Kaupmannahöfn t. d. eru 9 af hverjum 10 18 ára piltum, sem höfðu vanið sig á öldrykkju, orðnir neytendur sterku drykkjanna. Og nú liggur fyrir till. á þskj. 419 um áfengan bjór á Íslandi. Hvernig á þá að svara spurningunni: Er till. flutt til þess að draga úr áfengisneyzlu í landinu eða til að auka hana? Getur það verið, að reynsla nágrannaþjóðanna hafi farið fram hjá flm. þessarar till.? Ég ætla mér ekki að bera þeim það á brýn. Þvert á móti hygg ég, að þeim sé ekki síður kunnugt um reynslu nágrannaþjóðanna í þessum efnum en mér. Og af þessu dreg ég þá ályktun, að till. sé ekki flutt til þess að draga úr áfengisneyzlu í landinu. Hv. flm. munu gera sér það ljóst, að áfengisneyzlan muni aukast sérstaklega meðal æskufólks. Ég geri ráð fyrir, að þeir líti svo á, að það geri þjóðinni ekkert til ef þeir líta þá ekki svo á, að það sé til bóta, því að annars flyttu þeir ekki þessa till. Alþm. er að sjálfsögðu frjálst að hafa hvaða skoðun, sem þeim sýnist í hverju máli og fylgja henni fram. Hér eru skiptar skoðanir um það, hvort aukin áfengisneyzla, sérstaklega æskufólks, verði þjóðinni til góðs eða ekki. Ég mun síður en svo harma það, að þjóðin fái ótvíræða mynd af því, hvernig alþm. líta á það mál. Niðurlag till. á þskj. 419 er ákvæði til bráðabirgða svo hljóðandi, með leyfi forseta:

Ríkisstj. er skylt að láta á árinu 1970 fara fram þjóðaratkvgr. meðal alþingiskjósenda um, hvort þeir vilji leyfa tilbúning og sölu áfengs öls samkv. því, sem segir í 7. gr. Ef meiri hl. þeirra, er atkvæði greiða, er samþykktur, öðlast 7. gr. gildi. Við þjóðaratkvgr. skal fara eftir lögum um kosningar til Alþingis, eftir því sem við á.“

Þarna stendur „ef meiri hl. þeirra, er atkvæði greiða, er samþykktur“. Ég veit ekki, hvað þetta er. Ég held, að þetta hljóti að vera prentvilla og eigi að vera „samþykkur“. Eða hver ætti að samþykkja meiri hl.? Þetta hlýtur að vera prentvilla og eigi að vera „samþykkur“. Og þá lít ég svo á, að mgr. sé svona: „Ef meiri hl. þeirra, sem atkvæði greiða, er samþykkur, öðlast 7. gr. gildi“.

Ég vona, að hv. flm. leiðrétti þetta, ef það er röng tilgáta hjá mér, að þarna sé um prentvillu að ræða. En nú vil ég spyrja: Ef meiri hl. þeirra, sem atkvæði greiða, er ekki samþykkur, hvað þá? Það er svo sem augljóst. 7. gr. öðlast þá ekki gildi. Hún öðlast aðeins gildi, ef meiri hl. þeirra, er atkvæði greiða, er samþykkur áfenga bjórnum. Annars öðlast 7. gr. ekki gildi. Ég vil vekja athygli hv. þm. á þessu orðalagi þarna í till. Þetta er nefnilega alveg óvenjulegt. Það er talsvert meira í 7. gr. en það, sem stendur í þessu plaggi. Það stendur m. a. í 7. gr., að hannað skuli að brugga eða selja áfenga drykki á Íslandi. Þá fellur þetta niður. Ekki veit ég, hvort þetta bráðabirgðaákvæði er orðað svona af ásettu ráði eða ekki. Ég ætla ekkert að dæma um það. Ég ætla ekki einu sinni að gizka á það. En sé þetta orðað svona af ásettu ráði, þá fer nú till. að verða viðameiri en mönnum hefur kannske dottið í hug. Þá verður niðurstaðan þessi: Ef þjóðin samþykkir við almenna atkvgr. bruggun og sölu á áfengum bjór, þá fær þjóðin hann. En ef þjóðin samþykkir hana ekki, þá er ekki lengur bannað að brugga áfenga drykki, og þá mun heldur ekki standa á áfenga bjórnum. Niðurstaðan verður sú sama, hvort sem þjóðin samþykkir eða fellir till. um áfengan bjór.

Þetta er snilldarlega orðað. Það þarf alveg sérstaka hugkvæmni til þess að geta orðað till. á Alþ. á þennan veg, ef þetta er ekki fyrir einhverja handvömm. Ég segi, að ef þetta er gert af ásettu ráði, er það held ég einsdæmi um orðalag á till., sem flutt er á Alþingi. Að geta komizt að sömu niðurstöðu, hvort sem menn eru með eða móti, það er laglega af sér vikið. En ef þetta verður samþ. eins og till. er þarna úr garði gerð og ég hef nú bent hv. þm. á, þá fer 8. gr. l. að verða einkennilegt fyrirbrigði í íslenzkri löggjöf. Ég ætla ekki einu sinni að fara yfir þá gr.

Þetta frv., áfengislagafrv., sem hér liggur fyrir til 3. umr. eins og það var flutt og eins og það er enn eftir tvær umr., er þannig úr garði gert að mínum dómi, að það skiptir litlu máli, hvort það er samþ. eða fellt. Þótt frv. verði að lögum eins og það er nú eftir 2. umr., þá held ég, að enginn maður muni merkja hina minnstu breytingu til bóta á áfengismálum þjóðarinnar. En verði brtt. á þskj. 419, sem ég hef núna gert að umtalsefni, bráðabirgðaákvæðið, samþ. og svo einnig vínveitingahúsin í kaupstöðunum hjá fólkinu, sem vill ekki hafa þau, ef þetta verður hvort tveggja samþ., þá skiptir það ekki litlu máli, hvort frv. í heild verður samþ. þannig eða ekki. Ég býst við meira að segja, að það verði mjög eftirminnilegt, ef það yrði samþ. þannig. Það vakti athygli mína strax við 1. umr. málsins, eins og ég gat um þá, hvernig á því gæti staðið, að hv. allshn. flytti óumbeðið frv., sem nm. lýstu jafnframt yfir, að þeir hefðu enga afstöðu tekið til og skömmu síðar flutti n. margar brtt. við sitt eigið frv. og enn lýstu nm. því yfir, að þeir hefðu enga afstöðu tekið til þeirra till. Þetta vakti athygli mína, og ég hef ekki fengið neina skýringu á þessu fyrr en nú. Nú tel ég mig hafa fengið hana. Ég held, að skýringin sé sú, að a. m. k. sumir hv. nm. hafi séð, að frv., sem fyrir þá var lagt og þeir voru beðnir að samþykkja, að n. flytti, var hvorki fugl né fiskur. Það var meinlaust og gagnslaust, og þeir sáu enga ástæðu til þess að fara að neita því að tengja nafn n. við frv., enda held ég, að frv. sjálft sé ekkert annað en umbúðir, umbúðir um kjarna, kjarnann á þskj. 419, og hv. áhugamönnum um áfenga bjórinn hafi þótt rétt að sýna ekki kjarnann fyrr en við síðustu umr. í þessari hv. d. Lengur gátu þeir ekki dregið að sýna hann, og nú er hann hér. En hv. allshn. hefur ekki tengt sitt nafn við þá till. En hvernig ætli standi á því, að till. um áfenga bjórinn kemur ekki fram fyrr en á síðasta stigi, við síðustu umr. málsins hér í hv. d.? Mig grunar, að það sé vegna þess, að það hafi ekki átt að brenna sig á sama soðinu og fyrir þremur árum, þegar frv. var flutt þá, að gefa fólki víðs vegar um landið tóm til að frétta a. m. k. af þessu frv. eða till. og senda mótmæli, eins og það gerði þá. En þá drifu að mótmælin. Mig minnir, að það hafi verið um 30 eða yfir 30 félagssamtök og stofnanir í landinu, sem sendu þá mótmæli, enda tók málið sinn tíma, fyrst rætt við 1. umr., síðan vísað til n. og loks rætt við 2. umr. Þetta tók sinn tíma eins og gengur og gefur að skilja. En nú þykir hv. flm. heppilegra, að till. um áfenga bjórinn komi aldrei til n. Og það tekst þeim með því að flytja hana við 3. umr. Þannig hafði fólk almennt í landinu lítið svigrúm til þess að kynna sér málið. En samt hafa komið mótmæli, þótt skammur væri tíminn síðan þessi till. kom í dagsins ljós. Ég sé, að í gærdag hafa Alþ. borizt mótmæli víðs vegar að af landinu gegn till. um áfenga bjórinn frá 35 félagssamtökum og stofnunum víðs vegar um land. En í dag fyrir hádegi bárust síðan mótmæli, eins og hæstv. forseti las hér upp. Erindin eru 23. Ég get ekki sannprófað, hvort þau eru öll gegn áfenga bjórnum, en mér er tjáð, að þau séu það. Af 36 erindum, sem nefnd voru af stóli forseta í gær, var eitt um kvensjúkdómadeild, en 35 mótmæli gegn áfenga bjórnum. Hér eru nú erindi, sem eru 23 talsins og komu fyrir hádegi, en eins og ég sagði áðan, get ég ekki fullyrt um, hvort þau eru öll mótmæli gegn áfenga bjórnum. En líti maður yfir listann, bendir margt til þess. Sérstaklega er áberandi, hvað félagssamtök kvenna víðs vegar um landið hafa mótmælt hér sterklega. Það er yfirgnæfandi, hvað konur mótmæla þessari till., ungmennafélög, slysavarnafélög, bindindisfélög og áfengisvarnanefndir og félög áfengisvarnanefnda.

Þá ætla ég, að komið hafi mótmæli frá Sambandi ísl. barnakennara og e. t. v. fleiri kennarasamtökum, sem ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér enn sem komið er. Svona eru undirtektirnar, jafnvel þótt örskammur tími líði frá því að till. var flutt. En hvar eru meðmælin með till.? Senda engir Alþ. bendingu um, að það sé nauðsynlegt að samþykkja þetta mál? Ekki gerðu þeir það 1966. Það kom ekki ein einasta rödd til Alþ. til stuðnings bjórfrv. þá. Og ekki er ein einasta rödd komin enn fram, hvað snertir þetta mál mér vitanlega.

Ég tel rétt að þessu sinni að orðlengja ekki meira um þær till., sem hér liggja fyrir. Það gengur sinn gang að sjálfsögðu, þetta mál, gegnum hv. d. eða til atkv. í þessari hv. d. eins og önnur mál. Ég bíð rólegur eftir þeim úrslitum, sem um þetta verða, en ég er ánægður að einu leyti, eins og ég hef reyndar nefnt áður. Ég er mjög ánægður yfir því að fá rétta og ótvíræða mynd af skoðunum hv. þm. hvers og eins í málinu. Því fagna ég. Þessa mynd fengum við fyrir þremur árum, og mér er ánægja í að fá þá mynd enn á ný.