14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur.

Sjaldan hefur ástandið í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar verið eins alvarlegt og það er nú. Það er sama, hvert litið er, alls staðar blasa við hrikaleg vandamál, stærri og erfiðari en oftast áður. Tvær gengislækkanir hafa dunið yfir með tæplega ársmillibili, erlendur gjaldeyrir hefur hækkað í verði um 104% og síðan hafa eðlilega orðið stórfelldar verðlagshækkanir innanlands og mikil röskun á efnahagskerfinu. Afleiðingarnar hafa orðið verkföll og verkbönn eða framleiðslustöðvanir, stórkostlegur samdráttur hefur orðið í öllum framkvæmdum landsmanna, og segja má, að íbúðarhúsabyggingar hafi að mestu stöðvazt. Afleiðingar þessa hafa m. a. komið fram í stórminnkandi atvinnu og skertum lífskjörum. Á s. l. vetri voru skráðir atvinnuleysingjar orðnir 6 þús., og var þar um að ræða fólk úr flestum atvinnugreinum og fólk um allt land. Skuldir þjóðarinnar við útlönd hafa hækkað gífurlega, og er nú svo komið, að árlegar afborganir og vextir af þeim nema orðið jafnhárri fjárhæð og allt andvirði frystra fiskafurða landsmanna á heilu ári. Og mitt í öllum þessum vanda stendur ríkisstj. enn í dag í styrjöld við allt launafólk í landinu og krefst þess, að það taki á sig til viðbótar við minnkandi atvinnu 20% skerðingu á launakjörum. Laun hér á landi eru þó þegar orðin miklu lægri, þegar miðað er við sambærilegan vinnutíma, en í öllum nálægum löndum, og í flestum greinum munu laun hér vera orðin helmingi lægri en t. d. í Noregi og Danmörku.

Afleiðingar hinnar háskalegu stefnu, sem ríkisstj. stritast enn við að halda fram í efnahagsmálum, verða þær, að fleiri og fleiri gefast beinlínis upp, flýja land og leita sér atvinnu í öðrum löndum. Af þeim ástæðum berast nú þær óhugnanlegu fréttir, að fjölmennir atvinnuhópar hafi ráðið sig til Svíþjóðar, til Danmerkur, til Færeyja, jafnvel til Grænlands og til enn annarra landa.

Efnahagsmálastefna ríkisstj. hefur í ýmsum greinum einkennzt af kollsteypum. Núv. stjórnarflokkar hafa fjórum sinnum fellt gengi krónunnar. Þeir hafa ýmist bannað með lögum vísitölugreiðslur á laun eða samið við samtök launafólks um að taka þær upp að nýju. Fyrir nokkrum árum hélt ríkisstj. því fram, að réttast og hagkvæmast væri að gefa alla verzlunarálagningu frjálsa, og þá var álagning hækkuð á flestum vörum. Síðan snarskipti stjórnin um stefnu í þessum efnum og setti allar vörur undir verðlagsákvörðun, og nú eru stjórnarherrarnir byrjaðir aftur að boða frjálsa verzlunarálagningu. Stundum hefur ríkisstj. talið, að flest illt stafaði af styrkjum og uppbótargreiðslum, en í annan tíma hefur hún beinlínis hrúgað upp slíku styrkja- og uppbótakerfi. Þannig hafa kollsteypurnar verið.

Í vissum málum hefur ríkisstj. þó haldið sér furðulega fast við sömu stefnuna allt samstarfstímabil núv. stjórnarfl. s. l. 10 ár. Þannig hefur hún allan tímann haldið fast við þá stefnu að eiga í sífelldum deilum við launafólk í landinu. Stjórnarflokkarnir hafa hvað eftir annað bannað verkföll með lögum. Þeir hafa lögbundið kaup einstakra vinnustétta og þeir hafa með lögum riftað löglega gerðum kaupsamningum verkafólks og vinnuveitenda. Stefna stjórnarflokkanna hefur líka verið óbreytt allan tímann gagnvart undirstöðuatvinnuvegum landsmanna. Þar hefur stefna trúleysis á íslenzka atvinnuvegi, stefna vanmats á möguleikum íslenzkrar framleiðslu, verið allsráðandi. En jafnframt hefur ríkisstj. dekrað við stétt kaupsýslumanna og milliliða, og í atvinnulegum efnum hefur hún sett allt sitt traust á erlend stórfyrirtæki.

Ríkisstj. reynir nú, þegar öllum er orðið ljóst, að stefna hennar í atvinnu- og fjárhagsmálum hefur beðið algjört skipbrot og öngþveiti blasir við, hvert sem litið er, að afsaka, hvernig komið er með því, að sjávarafli hafi minnkað tvö undanfarin ár og verðlag á erlendum mörkuðum hafi fallið mikið. Þær afsakanir skýra á engan hátt það ömurlega og alvarlega ástand, sem ekki verður lengur dulið fyrir neinum, sem opin hefur augun. Nokkur minnkun fiskafla frá metveiði og nokkur lækkun verðlags frá hæsta verði hefur auðvitað aukið á erfiðleikana, en skýringarnar á því hörmulega ástandi, sem nú er við að glíma í efnahagsmálum þjóðarinnar, eru allt aðrar. Og eigi nokkur von að vera til, að takast megi að sigrast á vandanum, verður þjóðin öll, þó ekki sízt þeir, sem með völdin fara, að gera sér fulla grein fyrir eðli vandans og þora að horfast í augu við hann og viðurkenna staðreyndir málsins undanbragðalaust, þó að slík viðurkenning kunni að koma óþægilega við nokkra mestu valdamenn landsins.

Vandamálin, sem við er að fást í dag, eins og rekstrarerfiðleikar atvinnuveganna, samdráttur í öllum framkvæmdum, minnkandi atvinna og atvinnuleysi, sílækkandi kaupmáttur launa og síðan verkföll og verkbönn og landflótti, stafa m. a. af því, að í landinu hefur ríkt algjört skipulagsleysi í fjárfestingar- og framkvæmdamálum undanfarin ár. Fjármunum þjóðarinnar hefur verið eytt á gáleysislegan hátt. Þannig hefur miklu fé verið eytt í byggingu verzlunar- og skrifstofuhalla, bankastórhýsa og í annað af svipuðu tagi. Verzlanir eru orðnar allt of margar og krefjast svo sífellt hærri og hærri álagningar. Gott dæmi um þessa öfugþróun er að finna í opinberum skýrslum, sem sýna, að á árunum 1961–1966 námu fjárfestingar við byggingu verzlunar- og skrifstofuhúsa og hótela svo að segja jafnhárri upphæð og allar fjárfestingar við fiskveiðar landsmanna á sama tímabili. Slík óstjórn hlýtur að segja til sín. Skipulagsleysið á öllum sviðum hefur leitt af sér óhóflegan innflutning á vörum, sem ýmist var hægt að framleiða í landinu sjálfu eða þjóðin gat auðveldlega verið án. Afleiðingar skipulagsleysisins hafa einnig komið fram í ótrúlegri þenslu ríkisbáknsins, en útgjöld ríkisins hafa margfaldazt á nokkrum árum. Bílastyrkir og aðrir gæðingastyrkir nema orðið tugum millj. kr. Nýjum og algjörlega óþörfum sendiráðum hefur verið bætt við og stöðugt aukast ríkisútgjöldin til ráðunauta ríkisstj. og nefnda og ráða, sem hún tilnefnir af öllum mögulegum tegundum.

Þessi óstjórnar- og eyðslustefna hefur orðið til þess, að yfirbyggingin í þjóðfélaginu hefur sífellt farið stækkandi og krafizt stærri og stærri hluta af þjóðartekjunum, undirstaðan hefur hins vegar farið minnkandi. Undirstöðuatvinnuvegirnir hafa beinlínis dregizt saman og standa í ýmsum greinum mun veikar nú en fyrir 10 árum. Þannig hefur togaraflotinn minnkað á þessum tíma um meira en helming, og svo að segja engin endurnýjun hefur átt sér stað í þeim hluta bátaflotans, sem aðallega hefur aflað hráefnis fyrir fiskiðnaðinn. Afleiðingarnar eru m. a. þær, að framleiðsla frystihúsanna hefur dregizt saman um fullan þriðjung á árunum 1958–1968.

Stefna ríkisstj. í málefnum atvinnuveganna hefur verið algjörlega neikvæð. Stjórnin hefur blátt áfram ekki haft neina stefnu um uppbyggingu og þróun undirstöðuatvinnuvega landsmanna. Hvað hefur ríkisstj. t. d. gert til þess, að togaraflotinn yrði endurnýjaður? Hún hefur ekkert gert. Hvað hefur ríkisstj. gert til þess að endurnýja hina minni fiskibáta? Ekkert. Og hvað hefur hún gert til þess að koma upp fullvinnslu á fiski? Ekkert. Og hvað hefur hún gert til þess að afla nýrra markaða? Ekkert. Hvað hefur ríkisstj. gert til að efla á raunhæfan hátt ísl. iðnað? Hreinlega ekkert. Og hvað hefur hún gert til að skipuleggja landbúnaðarframleiðsluna? Ekkert. Afleiðingar þessarar skammsýnisstefnu birtast þjóðinni í dag í þeim margvíslegu og erfiðu vandamálum, sem blasa við augum svo að segja hvert sem litið er í þjóðlífinu.

Þessa dagana hefur Alþ. verið önnum kafið við að samþ. nýjar, erlendar lántökur fyrir ríkisstj. Nú á t. d. að taka 700 millj. kr. erlent lán til þess að byggja nokkrar breiðgötur út úr höfuðborginni, svo að bílafjöldinn í Rvk. geti komizt sæmilega klakklaust út úr borginni og inn í hana aftur á góðviðrisdögum. Ekki amaleg fjárfesting það.

Enn á að taka stórlán erlendis vegna kísilgúrævintýrisins við Mývatn. Sú verksmiðja hefur nú þegar kostað um 300 millj. kr. og enn vantar 300 millj. til viðbótar í stofnkostnað og upp í mikinn, fyrirsjáanlegan taprekstur. Framleiðsla þessa fyrirtækis er svipuð að verðgildi og framleiðsla lítils frystihúss, en beint rekstrartap var s. l. ár 33 millj. kr. Fjárútvegun ríkisins til verksmiðjunnar nemur þó orðið jafnmikilli upphæð og stofnlán til sjávarútvegsins alls á heilu ári.

Erlendar lántökur ríkisins eru nú meiri en nokkru sinni. Nú eru erlend lán tekin til almennra framkvæmda, t. d. til vegagerðar og atvinnubótaframkvæmda, og svo eru ný lán tekin til þess að greiða umsamdar afborganir og vexti af eldri lánum. Vandamálin birtast m. a. í því, að nú verður ríkisstj. að leggja til, að stöðvaðar verði næstu 4 árin svo að segja allar nýbyggingar vega um allt land utan næsta nágrennis við höfuðborgina, nema til komi nýr skattur á benzín til viðbótar við það, sem fyrir var.

Heilbrigðismálin hafa verið í sviðsljósinu síðustu daga, en þar blasir við neyðarástand í ýmsum greinum. Í skólamálum er ástandið þannig, að enn skortir mikið á, að nægilegt skólahúsnæði sé til fyrir þá kennslu, sem ákveðin er með lögum. Í húsnæðismálum er um stórfelldan samdrátt að ræða og mjög skortir á, að ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar varðandi þau mál. En það, sem alvarlegast er þó af öllu, er það, að atvinnuvegirnir eru lamaðir, atvinnutækin eru í ýmsum greinum gömul og úr sér gengin, við höfum dregizt aftur úr öðrum þjóðum í atvinnulegum efnum og tilfinnanlegt atvinnuleysi er orðið hlutskipti fjölda fólks um allt land. Atvinnuleysið leiðir af sér samdrátt, samdrátt í byggingarframkvæmdum, samdrátt í vörukaupum, samdrátt í tekjum bæjar- og sveitarfélaga, samdrátt í tekjum ríkisins, allsherjar samdrátt og kreppu í öllu hagkerfinu.

Frammi fyrir þessum vanda stöndum við í dag, en hvað gerir ríkisstj.? Hver eru hennar úrræði? Einmitt þessa dagana er skólaæskan að koma úr skólunum, út á vinnumarkaðinn. Að þessu sinni mun sá hópur skólafólks, sem leitar atvinnu, vera um 8 þús. ungmenni. Hvaða möguleikar eru til að koma þessu unga fólki í atvinnu? Ríkisstj. hefur ekkert raunhæft gert. Stefna hennar og úrræðaleysi kemur bezt fram í því, að nú hefur hún lagt fram frv. á Alþ. um atvinnuleysisbætur, um atvinnuleysisbætur handa skólafólki, sem ekki kemst í sumaratvinnu. Þannig eru ráð stjórnarherranna. Og hver er stefna ríkisstj. varðandi eflingu atvinnuvega? Stefna hennar í þeim efnum er öldungis óbreytt frá því, sem verið hefur. Síðustu dagana hefur stjórnin verið að knýja fram á Alþ. lagasetningu um að fella niður með öllu tilskilið framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs Íslands, sem er eini stofnlánasjóður sjávarútvegsins og býr við mikinn fjárskort. Stjórnin hefur einnig beitt sér fyrir lagasetningu um lækkun á lögbundnu framlagi til Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins. Og enn er ríkisstj. að knýja fram hækkun á útflutningsgjaldi á sjávarafurðum, þó að útflutningsgjöldin á saltsíld t. d. séu komin upp undir 20%, þegar öll sölugjöld eru talin með.

Viðhorf ríkisstj. til þeirra, sem vinna við undirstöðuframleiðslu þjóðarinnar, kemur einkar skýrt fram í því, að nú er hún að knýja fram löggjöf á Alþ., sem miðar að því að skattleggja alla sjómenn á minnstu fiskibátunum, þ. e. fiskibátum undir 12 rúml. að stærð. Ríkisstj. ætlar að taka af þeim skatt í sérstakan fæðiskostnaðarsjóð, svo að útgerðarmenn stærri bátanna geti greitt hluta af fæðiskostnaði sinna skipverja. Þannig eiga eitt til tvö þús. sjómenn á minnstu bátunum að greiða skatt í fæðiskostnaðarsjóð, en jafnframt á að neita þeim um rétt til að fá greiðslur úr sjóðnum. Þannig meta stjórnarflokkarnir störf þessara sjómanna.

Fálm ríkisstjórnarinnar í atvinnumálunum er ótrúlegt og í rauninni óútskýranlegt. 300 millj. kr., sem áttu að ganga til þess að draga úr atvinnuleysinu í vetur, eru enn ekki komnar í notkun nema að litlu leyti. Sokkabuxnaverksmiðja mun að vísu hafa verið flutt á milli staða með framlagi af þessu fé og einhverjar hliðstæðar björgunaraðgerðir hafa átt sér stað. En ekkert hefur gerzt, sem máli skiptir fyrir atvinnulífið í landinu. Jú, heyrzt hefur, að atvinnumálanefnd ríkisins hafi boðið Reykjavíkurborg 26 millj. kr. af þessu fé til þess að rústberja gömlu togarana, sem legið hafa í Reykjavíkurhöfn og inni á sundum ónotaðir í mörg ár. Borgarstjóranum í Reykjavík mun ekki hafa litizt á þessar atvinnubætur. Og nú hefur verið tilkynnt, að nefnd manna hafi verið send á vegum borgarinnar til Kanada til að kaupa þar eða leigja gamla legiitogara þar í landi. Þannig er hin atvinnulega viðreisn þeirra viðreisnarmanna.

Ríkisstj. hefur glatað trausti þjóðarinnar, á því leikur enginn vafi. Þó að stjórninni hafi tekizt að krækja sér í nauman meiri hluta í kosningum fyrir tveimur árum, þá er alveg víst, að í dag mundi hún kolfalla í almennum kosningum. Það, sem stjórnarfl. gátu dulið fyrir þjóðinni fyrir tveimur árum, geta þeir ekki dulið lengur. Stefna þeirra hefur beðið algjört skipbrot. Nú blasa geigvænlegar erlendar skuldir við öllum. Nú sjá allir ríkiseyðslukerfið. Nú verður vanrækslan í atvinnulegri uppbyggingu ekki dulin fyrir neinum. Nú viðurkenna allir, að fjármunum þjóðarinnar hefur verið eytt í heimskulegar fjárfestingar í mörgum greinum og óþarfan innflutning vegna stjórnleysis. Nú er atvinnuleysi orðið hlutskipti þúsunda manna, og nú sjá menn, að stóriðjuævintýri ríkisstj. hafa ýmist verið misráðin og fyrirhyggjulaus eða geta ekki orðið þjóðinni að neinu teljandi gagni. Og nú viðurkennir öll þjóðin, að sú stefna, sem leiðir óhjákvæmilega til síendurtekinna stórátaka við vinnustéttir landsins, sem leiðir til verkfalla og verkbanna og framleiðslustöðvunar, er röng stefna og háskaleg efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Hugmyndir ríkisstj. um nýjar leiðir út úr vandanum, sem fram hafa komið, eru jafnfráleitar og viðreisnarstefnan sjálf. Það er sannarlega ekki leið út úr ógöngunum, eins og nú er komið, að binda þjóðina verzlunarlegum og pólitískum skuldbindingum með þátttöku í markaðsbandalögunum í Evrópu. Það er heldur ekkert „patent“ til, sem bjargað getur atvinnurekstri landsins. Allar till. um minkarækt og meiri kísilgúr eða meiri raforkusölu til erlendra stórfyrirtækja undir kostnaðarverði eru út í hött. Og öll snöp á eftir erlendum auðkýfingum með beiðni um, að þeir leysi okkar vanda eru jafnfáránleg. Landsmenn verða sjálfir að leysa sinn vanda, og lausnin verður að byggjast á auðlegð fiskimiðanna við landið og auðlegð landsins sjálfs og dugnaði, hugviti og atorku landsmanna.

Það er háttur ríkisstj. að hamra í sífellu á því, að stjórnarandstaðan kunni engin ráð við vandanum og að hún sé stefnulaus. Þetta er sagt í þeim tilgangi, að fólk sætti sig frekar við óhæfa stefnu stjórnarinnar, þar sem um ekkert annað sé að velja. Þessi fullyrðing stjórnarinnar er röng. Við Alþb.-menn höfum árum saman lagt fram till. á Alþ. um, að skipuleg stjórn yrði tekin upp á fjárfestingarmálum þjóðarinnar og á inn- og útflutningsverzlun landsmanna. Stefna okkar í þessum efnum hefur verið skýr og algjörlega andstæð stefnu ríkisstj. Við Alþb.-menn höfum æ ofan í æ lagt fram till. um endurnýjun togaraflotans og um bátabyggingar innanlands eftir áætlun. Við höfum lagt fram frv. um sérstakan stuðning við nýjar greinar fiskiðnaðar og fullvinnslu sjávarafla. Við höfum lagt til að unnið yrði samkv. áætlun um uppbyggingu iðnaðarins í landinu og að landbúnaðarframleiðslan yrði skipulögð í samræmi við markaðsaðstæður og þarfir þjóðarinnar. Við höfum flutt till. um gjörbreytta stefnu í lána- og rekstrarmálum atvinnuveganna og lagt til, að dregið yrði úr óþörfum milliliðakostnaði, t. d. með því að ríkisreka olíuverzlun í landinu.

Það er algjörlega rangt, þegar ríkisstj. heldur því fram, að ekki sé um að ræða aðra stefnu en þá stefnu hennar, sem leitt hefur vandræðin yfir þjóðina. Verkföll, eins og þau, sem átt hafa sér stað á þessu ári, fyrst í jan. og febr. og síðan aftur nú, eru sannarlega ekkert gamanmál fyrir vinnandi fólk. Það leggur enginn sjómaður eða verkamaður niður vinnu á hávetrarvertíð, nema tilknúinn af brýnni nauðsyn. Áform ríkisstj. um að knýja fram lækkun á verðgildi launa um 20% til viðbótar við minnkandi atvinnu hlutu að leiða til þessara átaka. Enginn gat efazt um það og ekki ríkisstj. heldur. Átök af þessu tagi, sem verið hafa árlegur atburður í tíð núv. ríkisstj., átök við alla launþega landsins, hljóta að leiða til efnahagslegs hruns, til efnahagslegs ósjálfstæðis þjóðarinnar, ef ekki verður komið í veg fyrir þau hið fyrsta. En eigi að koma í veg fyrir þau, verður að skipta um stjórnarstefnu. Engin bönn eða boð koma í veg fyrir þessi átök, ef ríkisstj. heldur fram sinni skammsýnu stefnu. Kaupmáttur launa verður ekki lækkaður frá því, sem nú er, nema með háskalegum afleiðingum fyrir þjóðarheildina. Þetta verður ríkisstj. að skilja, og þetta verður allt launafólk í landinu að sýna í verki, að það skilur. Þeir sjómenn, sem beittir hafa verið lögþvingunum af ríkisstj.-flokkunum og þolað hafa beina kauplækkun vegna samþykktar þeirra, verða að hætta öllum stuðningi við stjórnarflokkana. Þeir sjómenn á smábátum, sem nú eru skattlagðir vegna rekstrar stærri báta og án þess að njóta sömu réttinda og aðrir, verða að hætta að kjósa Alþfl. og Sjálfstfl. Þeir opinberir starfsmenn, sem búið hafa við lögbrot og launaþvinganir stjórnarflokkanna, verða að sýna það á kjördegi, að þeir una ekki óréttlætinu. Það verkafólk, sem áður hefur stutt stjórnarflokkana, en orðið hefur fyrir látlausum árásum þeirra og orðið að þola skert launakjör og afleiðingar langra verkfalla, verður að horfast í augu við staðreyndir og hætta öllum stuðningi við það pólitíska vald, sem er að kippa grundvellinum undan viðunandi lífskjörum í landinu. Og þeir atvinnurekendur, sem sjá hvert stefnir með innlenda framleiðslu, ef núv. stjórnarstefnu verður haldið áfram, verða líka að þora að horfast í augu við staðreyndir, draga réttar ályktanir af því, sem hefur gerzt. Óbreytt stefna í efnahags- og atvinnumálum er ekki framkvæmanleg.

Ríkisstj. hefur tapað trausti þjóðarinnar. Hún getur ekki setið öllu lengur, þó hún hangi enn á naumum meiri hluta á Alþ. Til kosninga hlýtur að draga. Þá skiptir öllu máli, að allt vinnandi fólk, að þjóðin öll skilji og viðurkenni nauðsyn þess, að breyta verður um stefnu, að upp verður að taka uppbyggingar- og framfarastefnu, sem byggir á þjóðlegum grunni. Alþb. er nýr stjórnmálaflokkur, stefna þess er skýr og afdráttarlaus. Öflugustu félög verkalýðssamtakanna í landinu eru undir forystu Alþb.-manna og stefna þess nýtur yfirgnæfandi stuðnings í röðum launafólks. Fram hjá verkalýðssamtökunum verður ekki gengið við mótun nýrrar stefnu í atvinnumálum. Í næstu kosningum ríður því á miklu fyrir allt launafólk, fyrir alla frjálslynda menn í landinu, fyrir alla þá, sem efla vilja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, að Alþb. hljóti öflugan stuðning, svo að stefna þess fái þá viðurkenningu í reynd, sem þjóðinni er nú brýn þörf á.