21.02.1969
Sameinað þing: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

Efnahagsmál

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Meginuppistaðan í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga, bæði í þessum umræðum og undanfarnar vikur, hefur verið á þann veg, að atvinnuvegirnir eigi við örðugleika að etja af ástæðum, sem þeir hljóta að viðurkenna, að séu fyrst og fremst utan að komandi. Ráðstafanir þær, sem gerðar hafa verið atvinnuvegunum til hjálpar, séu að þeirra dómi ófullnægjandi. Launþegar geti hins vegar ekki lifað af þeim launum, sem þeir hafi nú, og verði að fá hærra kaup. Það sé því skylda ríkisstj. að brúa bilið á milli þess kaupgjalds, sem atvinnuvegirnir séu færir um að greiða, og þess, sem launþegarnir þurfi að fá, og geti hún það ekki, þá eigi hún að fara frá. En það vantar bara eitt stórt atriði í þennan málflutning, sem ég vil hér með skora á þá hv. stjórnarandstæðinga, sem á eftir mér tala, að gera grein fyrir, ef þeir ekki vilja standa afhjúpaðir frammi fyrir því, að málflutningur þeirra sé orðagjálfur eitt og marklaus áróður. En það er grg. fyrir því, hvaðan þeir peningar eigi að koma, sem brúi umrætt bil á milli greiðslugetu atvinnuveganna og þarfa launþeganna. Hv. stjórnarandstæðingum hlýtur að vera það jafnljóst og öllum öðrum, að ríkisvaldið getur aldrei haft aðra og meiri fjármuni til umráða en þá, sem það sækir eftir einhverjum leiðum í vasa skattborgaranna, og ef það er nú svo, sem hv. stjórnarandstæðingar halda fram, að bæði atvinnurekendur og launþegar þurfi á kjarabótum að halda, hver er þá sá þriðji aðili í þjóðfélaginu, sem fær sé um að taka á sig þær þungu byrðar, sem hér mundi vera um að ræða? Hvaða skattborgarar eru til í þjóðfélaginu aðrir en þeir, sem annaðhvort eru atvinnurekendur eða launþegar? Að vísu eru til bótaþegar samkvæmt almannatryggingum og eftirlaunafólk, en engum dettur líklega í hug, að þessir aðilar séu færir um að taka á sig byrðar, sem neinu nemi.

Ég vænti þess, að ekki standi á greiðum svörum við þessari spurningu, því að komi þau ekki, þá ætti öllum að vera ljóst, að hvort heldur valinn mundi verða sá kostur af þeirra hálfu að þegja alveg við þessu eða svara út í hött, þá viðurkenna þeir með því, að allan grundvöll heilbrigðrar skynsemi vantar fyrir áróðri þeirra, og ég vænti þess, að eftir því verði tekið af þeim, sem við eru staddir, hver viðbrögð hv. stjórnarandstæðinga verða við þessari áskorun minni.

Vandamálið, sem við er að etja nú, er auðvitað hin stórfellda afkastarýrnun, sem hefur átt sér stað í útflutningsframleiðslu okkar og komið hefur fram í því, að tekjurnar af útflutningi reiknaðar á föstu verði hafa minnkað um hvorki meira né minna en helming. Þetta er auðvitað ekki því að kenna, að útvegsmenn okkar og sjómenn hafi ekki sýnt sama dugnað við að sækja sjóinn eins og endranær, heldur eru hér öllum óviðráðanlegar ástæður að verki, þar sem er aflabresturinn og verðfallið á útflutningsafurðunum. Af þessu leiðir, að við fáum helmingi minna af þeim varningi, sem við þurfum að flytja inn, í skiptum fyrir útflutningsframleiðsluna en áður var. Þetta er hin raunverulega orsök þeirrar kjaraskerðingar, sem óhjákvæmilegt er, að þjóðin taki á sig í einhverri mynd, en auðvitað verður kjaraskerðingin ekki jafnmikil sem þessum prósentum nemur. Hún þarf ekki heldur og hefur engan veginn orðið sem samsvaraði þeim tölum, sem hv. 4. þm. Austfirðinga fór hér með áðan, þegar hann nefndi 20–25%, því að útflutningsverðmætið nemur ekki nema um þriðjungi af þjóðartekjunum. Að öðru leyti rek ég þessar staðreyndir ekki nánar, en vísa í því efni til þeirrar ítarlegu skýrslu, sem hv. forsrh. hefur nú flutt um þetta efni.

Nú neita hv. stjórnarandstæðingar því ekki út af fyrir sig, að kjörin þurfi að skerða, en telja sig hafa önnur betri og réttlátari úrræði til að mæta vandanum en við, sem stjórnina styðjum. Ærið eru þó þær till., sem þeir hafa haft fram að færa í því efni, ef því nafni skyldi nefna, óljósar. Þó hefur annar hv. stjórnarandstöðuflokkurinn, hv. Framsfl., haft allmikla tilburði til allvíðtækrar tillögugerðar, bæði hér á hv. Alþ. og utan þess, nú undanfarnar vikur. Slíkt ber að mínu áliti í sjálfu sér að virða, svo langt sem það nær, og hvað sem öllu öðru líður, hefur flokkurinn þó í þessu efni nokkuð bætt ráð sitt frá því, sem var í lok síðasta kjörtímabils, þegar mest var talað um hina leiðina, sem svo var nefnd. Stundum var hún kölluð þriðja leiðin, nýja leiðin og ég man ekki hvað. Það voru ein 5 eða 6 nöfn, sem voru fundin á leiðinni út úr ógöngunum, en hins vegar heppnaðist aldrei að gera neina grein fyrir því, í hverju þessi leið væri fólgin. Nú sýnist sem svo, sem hv. Framsfl. telji sig hafa fundið hina leiðina, og mun ég verja aðalefni ræðu minnar til að fara um þetta nokkuð frekari orðum og rekja það á grundvelli þeirra till., sem þeir hafa gert í þessu efni bæði utan þings og innan.

Vil ég þar nefna fyrst hina svonefndu 12 eða 14 punkta, sem mikið var hampað nú fyrir áramótin. Ég hafði að vísu vonað, að hv. 3. þm. Norðurl. v. tæki af mér ómakið og kynnti þessa 12 punkta, en það var nú ekki, svo að ég kemst ekki hjá því að kynna þá með örfáum orðum og mun þá halda mig við viðtal við hv. þm., sem birtist í Tímanum, 12. nóv. s. l., þar komu að vísu ekki í leitirnar nema 12 punktar, en síðan hafa verið nefndir 14 og jafnvel 16 punktar, en ef það er mjög mikilvægt, sem ég týni, þá vona ég, að einhverjir þeirra hv. framsóknarmanna, sem taka til máls á eftir, verði mér hjálplegir, svo að þeir komi í leitirnar. Með leyfi hæstv. forseta les ég þetta upp í mjög stuttu máli, ekki alveg orðrétt, en það er a. m. k. ekki vísvitandi gert, ef ég hleyp yfir eitthvað, sem verulegu máli skiptir.

1. punkturinn er þá þessi: Lausaskuldum atvinnuveganna verði breytt í föst lán og skuldaskil framkvæmd í vissum tilvikum. Komið verði á sérstökum lánasjóði til styrktar atvinnuvegum og jafnframt leyst rekstrarfjárvandamál atvinnuveganna. 2. atriðið er lækkun vaxta af stofn- og rekstrarlánum atvinnuveganna. 3. Lækkun eða niðurfelling tolla af framleiðslutækjum, hráefnum og rekstrarvörum. 4. Rekstrarlán til iðnaðar verði veitt með hliðstæðum hætti og til annarra atvinnugreina. 5. Innflutningur iðnaðarvara verði takmarkaður á þeim sviðum, sem vörur til sömu notkunar eru framleiddar í landinu sjálfu. 6. Framleiðslusjóðir atvinnuveganna verði efldir. 7. Sérstök lánafyrirgreiðsla verði veitt iðnfyrirtækjum, sem keppa við erlend fyrirtæki, sem bjóða greiðslufrest, og komið á sérstöku útflutningslánakerfi. Í 8. lagi er talað um nauðsyn þess, að hið opinbera hafi forystu um ráðstafanir til uppbyggingar og eflingar atvinnulífinu, m. a. með framkvæmdaáætlunum um einstaka landshluta, og hafi um það samstarf við sveitarfélög og stéttasamtök. 9. Tekin verði upp heildarstjórn á gjaldeyris- og innflutningsmálum. 10. Tekin verði upp skipulögð fjárfestingarstjórn og áætlunarbúskapur. 11. Stöðvuð verði útþensla á rekstri ríkisins og ítrasta sparnaðar gætt, rekstrarútgjöld ríkis og ríkisstofnana verði lækkuð. 12. Skattaeftirlit verði hert og tekjuöflunarleiðir endurskoðaðar með það fyrir augum, að skattleggja óþarfa eyðslu meira en nú er gert.

Þannig hljóða þessir 12 punktar. Þar virðist vera um 3 meginatriði að ræða. Í fyrsta lagi eru almennt settar fram frómar óskir um það, að ítrasta sparnaðar verði gætt í ríkisrekstrinum. Það hljómar alltaf vel í eyrum og er gott og blessað, en er þó lítils virði, svo lengi sem ekki er bent á ákveðnar leiðir í því efni. En í öðru lagi er meginuppistaðan í þessum 12 punktum sú, að stóraukið verði fjármagnið til atvinnuveganna, bæði til rekstrar- og stofnlána. Nú vitum við það, að hér á landi er lánsfjárskortur, og vissulega vantar fjármagn til margvíslegra hluta, en það, sem vantar í þessar till., svo að nokkuð mark verði á þeim tekið, er auðvitað það, að þar er ekki bent á nokkra einustu leið til útvegunar þess fjármagns, sem hér er um að ræða. Það er ódýru verði keypt að setja það á pappír, að það þurfi að útvega fjármagn til þess og hins, ef engin grein er gerð fyrir því, hvaðan fjármagnið á að koma. Nú höfum við Íslendingar auðvitað aðeins tvo möguleika til fjármagnsútvegunar. Í fyrsta lagi er það sparnaður í landinu sjálfu og í öðru lagi erlendar lántökur. Hv. formaður Framsfl., sem hér talaði áðan, varaði mjög við þeirri leið að taka meiri erlend lán og meira að segja undirstrikaði það mjög, að þegar væri of langt gengið á þeirri braut, svo að auðsætt er, að ekkert slíkt hefur hann í huga. En þá er spurningin, hvaða till. hv. framsóknarmenn hafa að gera, til þess að efla megi sparnað í landinu. Það helzta, sem fram hefur komið hjá þeim í því efni, er að lækka beri mjög verulega vexti af sparifé, og við það standa þeir enn, þrátt fyrir það sem gerzt hefur nú síðustu mánuðina. M. ö. o.: þeir telja það bjargráð, að ofan á þá skerðingu, sem vissulega hefur orðið á sparifé vegna gengislækkunarinnar, þá eigi sparifjáreigendur enn fremur að taka á sig verulega lækkun á vöxtum. Dettur nokkrum manni í hug, hvað sem öllu öðru líður, að slík ráðstöfun geti verið til þess fallin að auka fjármagnsmyndun og sparnað í landinu? Auðsætt er því, að hér er um frómar óskir einar að ræða. Ekki er bent á nokkra möguleika til útvegunar þess fjármagns, sem hér er um að ræða, og að því leyti, sem till. eru gerðar í því efni, mundu þær hafa algerlega öfug áhrif.

Þá kem ég að till. hv. framsóknarmanna um atvinnumálastofnun, sem þeir telja hina merkustu sinna till., og vissulega er hún sú viðamesta, þannig að ég held að það sé verjandi, að ég haldi mig að feitasta stykkinu, sem er að finna í þeim potti. Ég skal jafnframt taka það fram, af því að hv. form. Framsfl. lýsti eftir því áðan, hvað liði afgreiðslu þess máls í n., af því að ég er form. þeirrar n., sem um málið á að fjalla, að ég mun vissulega gera mitt til þess, að málið fái þinglega afgreiðslu. En ég ræði það hér aðeins að því leyti sem þetta snertir þann efnahagsvanda, sem nú er við að etja.

Nú virðist það vera meginhugsunin í þessu frv. um atvinnumálastofnunina, að tekið verði upp einhvers konar haftakerfi svipað því, sem var áður en stefnubreytingin átti sér stað með valdatöku núv. hæstv. ríkisstj. eða samvinnu núverandi stjórnarflokka 1960. Það eru að vísu ekki kölluð höft, heldur heildarstjórn á fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun. Og enn fremur hugsa þeir sér þá breytingu gerða frá því, sem áður var, að í stað þess, að stjórnmálaflokkarnir tilnefni menn í n., sem úthluti leyfum o. s. frv., eru það ákveðin stéttarsamtök og gjaldeyrisbankarnir, sem þessa leyfaúthlutun eiga framvegis að hafa með höndum. Ég tel með öllum þeim göllum, sem á haftakerfinu gamla voru, og hv. þm. eru vel kunnar skoðanir mínar á því efni, ég þarf ekki að rifja þær upp að nýju, að það mundi sízt vera til bóta að taka það fyrirkomulag upp að láta tiltekin stéttasamtök og banka um að bera ábyrgðina á þessu. Hér var þó um það að ræða og mundi áfram vera, ef sú stefna, sem hv. stjórnarandstæðingar eru sammála um að mæla með, yrði upp tekin að nýju, að þessar úthlutunarnefndir væru langþýðingarmesta hagstjórnartækið, sem beitt væri, og með tilliti til þess virðist ekki óeðlilegt, að það séu þeir flokkar, sem með völdin fara hverju sinni, sem beri þar höfuðábyrgð á. Að því leyti er þó gamla fyrirkomulagið betra en það nýja, að það er þó hægt að gera stjórnmálaflokkana ábyrga fyrir fulltrúum sínum á þessum vettvangi eins og öðrum. En slíkri ábyrgð mundi miklu erfiðara að koma fram gagnvart stéttarsamtökum, að maður ekki tali um gjaldeyrisbankana. Menn geta deilt um það, hvort höftum eigi að beita eða ekki. En það, sem er aðalatriðið í þessu sambandi, er það, að kjarna þess vandamáls, sem við nú stöndum gagnvart, en hann er fólginn í þeirri minnkun verðmæta, sem þjóðin hefur til ráðstöfunar, geta höftin aldrei leyst, hvað sem öllu öðru líður. Þau geta ekki leyst það vandamál að koma á jafnvægi í greiðsluviðskiptum við önnur lönd nema þá aðeins um stundarsakir, enda sýndi reynslan það á fyrri haftatímabilum, að gjaldeyrisjöfnuðurinn lagfærðist ekki. Það var um stöðuga skuldasöfnun að ræða, og ástæðan til þess, að innflutningshöft geta aldrei nema þá um mjög takmarkaðan tíma lagfært viðskiptajöfnuðinn gagnvart öðrum löndum, er sú, að ef maður gengur út frá óbreyttri kaupgetu og eftirspurn innanlands, þá verður afleiðingin af því, þó að bannaður sé innflutningur á vissum vöruflokkum og takmarkaður á öðrum, að viðkomandi framleiðsla hlýtur að flytjast inn í landið. Og ef við göngum út frá því, að öll framleiðsluöfl séu í notkun, eins og er á venjulegum tímum, að það sé ekki atvinnuleysi o. s. frv., þá framleiðum við annaðhvort fyrir erlendan eða innlendan markað. Þriðji möguleikinn er ekki til, þannig að ef við eigum að framleiða meira fyrir innlenda markaðinn vegna innflutningshaftanna, þá hljótum við að framleiða þeim mun minna fyrir útlenda markaðinn. Framleiðsluöflin geta ekki komið annars staðar frá. En hins vegar má gera ráð fyrir því, að afköstin í þessari framleiðslu fyrir innienda markaðinn séu ekki nema lítið brot af afköstunum í útflutningsframleiðslunni, svo að árangurinn af þessu verður sá einn, að þjóðartekjurnar koma til með að minnka án þess að greiðslujöfnuðurinn lagfærist. Hins vegar skal því engan veginn neitað, að með þessu fyrirkomulagi er hægt að leysa önnur vandamál, eins og þau að veita fólkinu og þeim, sem leyfin sækja, aðhald um það að sýna sínum flokkum hollustu, og einmitt á tímum eins og nú, þegar gagnrýni á stjórnmálamennina er svo mjög í tízku, þá er það skiljanlegt, að þetta sjónarmið hafi sín áhrif.

Nú ber ég engan veginn saman annars vegar innflutningshöft og áhrif þeirra og hins vegar stjórn á fjárfestingu. Ég tel, að innflutningshöftin þjóni engum skynsamlegum tilgangi og rýri aðeins kjör fólksins enn meira en ella þurfi að vera. Ég skil ekki, að það sé betra fyrir fólkið, að einhver n. eigi að ákveða, hvað fólkið megi borða, í hvað það eigi að klæðast og fram eftir þeim götunum. En þetta er ekki sambærilegt við það, þó að einhverjar ráðstafanir séu gerðar til þess að stjórna fjárfestingu. Mér er það vel ljóst, að vegna þeirrar verðbólguþróunar, sem hefur átt sér stað á undanförnum árum og ég álít að vísu, að hv. stjórnarandstæðingar eigi miklu meiri sök á en ríkisstj., þá hefur margt í fjárfestingarmálunum farið úrskeiðis, þannig að þau þyrfti að taka fastari tökum, án þess að þar þyrfti að vera um verulega frelsisskerðingu að ræða, af því að það er nú einu sinni svo, að í meiri háttar framkvæmdir geta menn ekki ráðizt nema atbeini ríkisvaldsins komi þar á einn eða annan hátt til gegnum lánafyrirgreiðslu ríkisbankanna eða á annan hátt. Allar till. í þessu efni, hvort sem þær koma frá hv. framsóknarmönnum eða öðrum, verðskulda það að vera athugaðar, og sama vil ég segja um þá hugmynd, sem hv. 4. þm. Austf. bar fram hér áðan, og var það nærri því það eina, sem ég var sammála í hans ræðu, að mér finnst, að það geti komið til alvarlegrar athugunar í því efni að fara að dæmi Svía með því að leggja á sérstakan fjárfestingarskatt. Hins vegar hef ég ekki trú á því, að Svíar hafi sérstakar fjárfestingarhömlur með öðru móti.

Þetta voru nú þær till., sem hv. framsóknarmenn hafa að gera. Það, sem er aðalatriðið í sambandi við þær, er, að hvað sem menn um þær meina að öðru leyti, þá snerta þær engan veginn kjarna þess vandamáls, sem hér er við að etja. Það er ekki komið nærri því, hvernig eigi að leysa þennan vanda, sem af því stafar, að þjóðin hefur miklu minni eða verulega minni verðmæti til ráðstöfunar en áður var. Vissulega verður það stórt vandamál og verður alltaf óhjákvæmilegt, þegar þjóðarbúið verður fyrir slíkum áföllum, sem það nú hefur orðið fyrir, hvernig eigi að skipta þeim byrðum niður. Ég held, að það geti varla verið ágreiningur um það, hvað sem öllu öðru líður, að æskilegt sé, að launþegastéttirnar í landinu njóti þeirra hæstu rauntekna, sem mögulegar eru, án þess þó að af því þurfi að leiða atvinnuleysi. En spurningin er bara þessi: Þegar viðurkennt er af hv. stjórnarandstæðingum eins og kom skýrt fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., að þó að hann mælti eindregið með því, að greiddar yrðu fullar vísitöluuppbætur, þá hafði hann ekki neina trú á því, að atvinnuvegirnir væru þess umkomnir að greiða þessar bætur, þá spyr ég aftur, hvaðan eiga þá bæturnar að koma, ef bæta á hag bæði atvinnurekenda og launþega? Hver er þá sá þriðji aðili í þjóðfélaginu, sem undir slíku getur staðið?

Það hefur verið þannig hér á hv. Alþingi undanfarin ár eða fram að byrjun þessa kjörtímabils, að útbýtt hefur verið hér í þinginu frv., sem hv. fyrrv. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, flutti mörg ár í röð. En í þessu frv. var fróðleg skýrsla um þá þróun, sem hefði orðið á kaupmætti launa á árabilinu að mig minnir frá 1945–1960. Niðurstaðan var sú, að á öllu þessu tímabili hefði kaupmáttur launa raunverulega staðið í stað. Nú vantaði það í sjálfu sér ekki, að verulegar kauphækkanir yrðu þó á tímabilinu. En samt stóð kaupmáttur launa í stað, og það var vegna þess, að allar þær kauphækkanir, sem urðu, voru sóttar í vasa launþeganna sjálfra. Þeim var gert með sköttum, álögum og á annan hátt að endurgreiða þetta aftur atvinnurekendunum, sem að dómi allra þeirra ríkisstjórna, sem að völdum sátu á þessu tímabili, voru ekki færir um að taka kauphækkanirnar á sig. Sumir kunna að segja sem svo, að það, sem hafi eyðilagt árangurinn af launabaráttunni á þessum tíma, hafi verið það, að illviljuð stjórnvöld hafi rænt öllum þeim árangri, sem orðið hafi. Nú ber þó að hafa hugfast í þessu sambandi, að á umræddu tímabili áttu allir þeir stjórnmálaflokkar, sem nú eru starfandi, aðild að ríkisstj. um skemmri eða lengri tíma, svo að ég held, að það sé ekki réttmætt. En hvað sem öllu öðru líður, er ekki æskilegt að fara þessa gömlu leið að láta launþegana sjálfa greiða sér allar þær kjarabætur, sem þeir telja sig hafa áunnið sér með því að fá framgengt kröfum um hærra kaup. Það verður að vera einhver raunverulegur grundvöllur fyrir slíku. Mér finnst meginspurningin, hvort hægt sé að sýna fram á einhverjar líkur á því, en það hafa þeir hv. stjórnarandstæðingar, sem hingað til hafa talað, ekki gert neina tilraun til. En ef hægt væri að færa einhverjar líkur að því, að þessar launabætur væri hægt að greiða, án þess að það drægi úr atvinnumöguleikunum, þá mundi ég telja sjálfsagt að gera það. En ef atvinnuvegirnir geta ekki borið þessar launahækkanir, þá er auðsætt, ef sú leið þykir ekki fær, sem ég vil síður en svo mæla með, að láta launþegana borga sér þetta sjálfa, að þetta hlýtur að koma fram í samdrætti, og þá mundi það vera algerlega rangt, sem haldið hefur verið fram af hv. stjórnarandstæðingum og málgögnum þeirra, að með því að greiða vísitölubætur sé komið í veg fyrir það, að kaupgetan í þjóðfélaginu minnki. Ef af þessu leiðir, að atvinnuleysi vex verulega eða verður verulega miklu meira en það ella mundi vera, er auðsætt, að kaupgeta launþeganna, ef á heildina er litið, verður ekki meiri en ella. En hins vegar mundi kjaraskerðingin koma miklu tilfinnanlegar og ranglátar niður, ef hún kemur fram í atvinnuleysi en í því, að kaupmáttur launa verði eitthvað skertur. Annars er það vissulega mín skoðun, að kanna beri allar leiðir, sem hugsanlegar eru í þessu efni, og á venjulegum tímum er það engan veginn óeðlileg krafa, að greiddar séu einhverjar meiri eða minni vísitölubætur á laun. En þjóðarbúskapurinn getur vissulega orðið fyrir þeim áföllum, að slíkt sé ekki hægt.

Aðalatriðið er þetta, hvert á að sækja þá verulegu fjármuni, sem virkilega þyrfti til þess að greiða þessar auknu uppbætur. Við því hefur ekkert svar fengizt, og sú hætta er vissulega fyrir hendi, að ef ráðstafa ætti miklum fjármunum í það að bæta kjörin eða auka neyzluna, hlyti það að torvelda mjög fjáröflun til nauðsynlegrar atvinnuaukningar, þannig að ef vísitölubæturnar koma til með að gleypa alveg þær 300 millj., sem um væri samið, að lagðar væru fram til atvinnuaukningar, þá er auðsætt, að þrátt fyrir þessi framlög mundum við standa í sömu sporum og áður varðandi árangur í þá átt að útrýma atvinnuleysi. Því miður óttast ég, að til séu í hópi atvinnustjórnmálamanna í röðum hv. stjórnarandstæðinga menn, sem eru svo kaldrifjaðir, að sé um það að velja, að atvinnuleysið verði meira eða hitt að sætta sig við nokkra skerðingu á kaupmætti launa, þá sé atvinnuleysið betra, og hugsunin á bak við það er sú, að um atvinnuleysi sé hægt að kenna ríkisstj. Það eiga að vera sárabæturnar til handa þeim, sem atvinnuleysið bitnar á. En létt er það í vasa, um það skal ég ekki fara fleiri orðum.

Já, það er ódýru verði keypt að fara stórum orðum um það, að allan vandann mundi vera auðvelt að leysa með því að taka upp einhverja aðra stefnu, sem enginn grein er þó gerð fyrir, í hverju sé fólgin. En það, sem málefnalega er aðalatriðið, og ég vona, að því verði gerð betri skil í þeim ræðum hv. stjórnarandstæðinga, sem hér tala á eftir en þeim, sem haldnar hafa verið, er, að gerð sé grein fyrir því, hvernig bæta eigi það mikla verðmætatjón, sem þjóðin af óviðráðanlegum ástæðum hefur orðið fyrir, án þess að skerða þó lífskjör almennings. Það má tala um það með almennum orðum, að leggja beri byrðarnar á breiðu bökin, eins og það er orðað, og menn geta verið því sammála, og það hefur vissulega verið gert t. d. með því vísitölufyrirkomulagi, sem verið hefur í gildi s. l. ár. En gallinn er bara sá, að vegna þess hve breiðu bökin eru miklu færri en mjóu bökin, þá verður ekki komizt hjá því, að þegar um verulegar byrðar er að ræða, þá hljóta þær að einhverju leyti að lenda á mjóu bökunum líka. Ef hv. stjórnarandstæðingar fengjust til að gera einhverja grein fyrir þessum atriðum, sem ég nú hef nefnt, þá mætti taka málflutning þeirra alvarlega, en fyrr ekki.