03.03.1969
Efri deild: 53. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár til þess að gera að umtalsefni með örfáum orðum einhliða ákvörðun fjmrn. um það að skjóta ágreiningi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um greiðslu verðlagsuppbótar til sáttasemjara og ákveða, að laun opinberra starfsmanna skuli eftir sem áður, fyrst um sinn a. m. k., greidd samkv. eldri vísitölu. Eins og hv. þdm. er kunnugt, kom frá fjmrh. hæstv. fyrir hönd fjmrn. tilkynning til dagblaða og útvarps þann 27. febrúar, þar sem þessari málsmeðferð, sem ég nú frá greindi, var lýst. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, þó að sagt sé, að þessi málsmeðferð hafi vakið talsverða furðu hjá bæði opinberum starfsmönnum og eins öðrum þeim, sem fylgzt hafa með þessu máli, og það er einfaldlega vegna þess, að í gildi er kjaradómur í kjaradómsmálinu nr. Í frá 1968, sem kveðinn var upp á miðju s. l. ári, 21. júní, en þar segir alveg skýrum stöfum í 2. gr., hver launin eiga að vera. Það er, að verðlagsuppbót samkv. dómi þessum greiðist á grunnlaun fyrir dagvinnu, sem eigi eru hærri en 10.000 kr. á mánuði. Á grunnlaun, er nema allt að 16 þús. á mánuði, skal greiða sömu verðlagsuppbót og á 10 þús. kr. grunnlaun, en verðlagsuppbót þessi skal síðan fara lækkandi á hverju grunnlaunastigi fyrir ofan 16 þús. og skal lækkunin á hverju launastigi nema ½% af viðkomandi grunnlaunum. Þetta skal þó aldrei valda því, að verðlagsuppbót á grunnlaun milli 16 þús. og 17 þús. kr. á mánuði verði lægri en helmingur þess fjár, sem á 10 þús. kr. grunnlaunum er. En í 4. gr. þessa dóms er svo sagt, að 1. maí, 1. ágúst og 1. nóvember 1968, 1. febrúar 1969 og framvegis á þessum tímum reiknar kauplagsnefnd þá hækkun, sem hlutfallslega hefur orðið á framfærslukostnaði í Reykjavík síðan 1. nóvember 1967. Og síðar segir svo: „Frá vísitölunni eins og hún er hverju sinni samkv. þessum útreikningi n., dregur hún 2.34 prósentustig og fæst þá hundraðshluti þeirrar verðlagsuppbótar, er greidd skal á laun frá 1. degi næsta mán. á eftir, í samræmi við ákv. 2. gr. “Verðlagsuppbótin átti að reiknast með tveimur aukastöfum. Það er þess vegna alveg skýrt samkvæmt þessum dómi, sem ég hef hérna vitnað til, að hinn 1. febrúar s. l. átti kauplagsnefnd að reikna út nýja vísitölu framfærslukostnaðar í Reykjavík og fjmrn. átti samkv. sama dómi að greiða laun samkv. þeirri vísitölu frá 1. þ. m. Þetta hefur eigi verið gert, heldur greidd óbreytt laun frá febrúarmánuði, sem ég get ekki talið annað en sé algert brot á þessum kjaradómi.

Í 6. gr. þessa dóms er allur vafi tekinn af um það, að hann er enn í gildi. Hann gildir samkv. 6. gr. sinni frá 1. marz 1968 til 31. desember 1969 og gildir jafnframt um þessar reglur ákvæði 7. gr. l. nr. 55 1962, en það eru lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Ég vildi þess vegna leyfa mér að beina þeim fsp. til hæstv. fjmrh., hvort það væru nokkrar frekari röksemdir fyrir þessari málsmeðferð heldur en þær, sem fram koma í áðurnefndri grg. rn. frá 27. febrúar.

Í öðru lagi vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að hér hafi ekki verið staðið rétt að málum með þessari meðferð, og í þriðja lagi vil ég nú leyfa mér að skora á hæstv. fjmrh., að hann beiti sér fyrir því, að farið verði að lögum í þessu máli. Því hefur a. m. k. verið haldið fram í þessu máli, að ekki hafi verið hægt að reikna verðlagsuppbót miðað við 1. febrúar s. l. vegna þess, að tiltekin mál hafi ekki fengið afgreiðslu hér á Alþ., og er þá fyrst og fremst átt við ný lög um fjölskyldubætur. Ég get ekki séð, að hér sé nein ástæða til þess að fresta útreikningi vísitölunnar. Kauplagsnefnd á að reikna vísitöluna eins og framfærslukostnaðurinn var í Reykjavík þann 1. febrúar s. l., en það getur ekki verið rétt, að kauplagsnefnd sé hindruð í störfum sínum á þeim forsendum, að það sé beðið eftir einu eða öðru, sem síðar kunni að koma frá Alþingi, enda væri þá erfitt og ómögulegt að rækja það starf af hendi.

Ég skal ekki níðast á góðvild hæstv. forseta með því að halda hér langa ræðu um þetta, þó að vissulega mætti margt um það segja, en ég vildi ekki láta þetta tækifæri fara framhjá, svo að ekki væri vakin athygli á þessu.