03.03.1969
Efri deild: 53. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú ekki ýkja mikið að segja um það mál, sem hv. 11. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni, umfram það, sem komið hefur fram, bæði í opinberri tilkynningu frá fjmrn. og í bréfaskiptum, sem birt hafa verið í blöðum af hálfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það er alveg rétt, að hér hefur verið gripið til ráðstafana, sem eru óvenjulegar, og það var síður en svo löngun mín að þurfa að grípa til slíkra aðgerða og af þeim sökum var það, sem ég ítrekað fór þess á leit við stjórn B.S.R.B., að viðræður yrðu teknar upp um það milli rn. og þeirra, að þeir féllust á fyrst um sinn, að greidd yrði sama vísitala og greidd var 1. febrúar á laun almennt í landinu með hliðsjón af því, að ljóst yrði, að sú vísitala yrði notuð til launaviðmiðunar fyrir allar launastéttir landsins aðrar þann 1. marz. Vitanlega er það rétt, að ég gat strangt tekið ekki krafizt eins né neins af stjórn B.S.R.B. um þetta efni annars en skilnings á þeim vanda, sem við væri að fást, og mér hugkvæmdist ekki að fara fram á, að þeir fórnuðu í einu né neinu þeim rétti, sem opinberir starfsmenn áttu. Hins vegar var það ljóst, að eins og málum er háttað var með öllu óeðlilegt að greiða þessa vísitölu að sinni, og jafnframt einnig sýndist mér ljóst, að málin væru með þeim hætti og yrðu á þann hátt í deiglunni á næstu vikum, að það væri mikilsvert, að strax gætu hafizt milli rn. og ráðamanna opinberra starfsmanna viðræður um það, hvernig ætti að mæta þeim viðfangsefnum og viðhorfum einmitt á þann hátt, að það ekki kæmi niður á opinberum starfsmönnum. Það kom t.d. fyrir á s. l. ári, að opinberir starfsmenn urðu þar mánuði á eftir með sínar vísitöluuppbætur vegna þess, að málum var þannig háttað, að þeir kusu að skjóta til kjaradóms deilu eða ákvörðun um það, hvernig með verðlagsuppbætur til opinberra starfsmanna skyldi þá farið. Það var boðið þá af hálfu rn., að það skyldi með þær farið á alveg sama hátt og gert var varðandi kjarasamninga stéttarfélaganna. Það vildi stjórn B.S.R.B. ekki sætta sig við. Það er hennar mál að meta það og ég er ekki að deila á hana fyrir það, en þetta leiddi hins vegar af sér það, að það féll niður mánaðarvísitala. Með því að hefja viðræður nú þegar var það í mínum huga, að það yrði séð fyrir því, að viðræður hæfust strax milli samningsaðila, sem hefðu átt að geta tryggt það, að ekki hefði orðið um að ræða neinn réttindamissi opinberra starfsmanna og heldur ekki, sem var mitt sjónarmið, að þeir fengju nein óeðlileg réttindi umfram aðra. Ég vil leggja á það áherzlu, að það, sem nú er að gerast í sambandi við opinbera starfsmenn, er ekki það, að það sé verið að taka af þeim nein laun, heldur hitt, að þeir fá ekki greidda þá hækkun, sem að öllu óbreyttu hefði orðið á hinum almenna launamarkaði í sambandi við vísitölugreiðslur þann 1. marz. Það er rétt hjá hv. þm. og því hefur ekki verið á móti mælt af hálfu rn., að í gildi væri kjaradómur frá 21. júní 1968, þar sem svo er mælt fyrir, að vísitölubreytingar skuli verða til ársloka 1969. Hitt er jafn víst, að forsendur fyrir þessum kjaradómi eru, eins og nú standa sakir, brostnar. Það er grundvallarregla í lögum um samningsrétt opinberra starfsmanna, að þeir skuli hafa sambærileg laun og aðrar launastéttir, en heldur ekki meira, hvorki meira né minna. Hefði verið byggt á hinum formlegu ákvörðunum kjaradóms nú, hefðu opinberir starfsmenn nú um þessi mánaðamót hlotið launauppbætur, sem engir aðrir launþegar í landinu fá. Ég skal ekkert fara hér að blanda mér út í deilu milli launþegasamtakanna almennt og vinnuveitenda. Hitt eru engu að síður ljóst, að þessar uppbætur hafa ekki verið greiddar, og það mun ekki vera nein deila um það, að það hafi verið fullkomlega lögformlegt að greiða þær ekki, þó að launþegar að sínu leyti hafi mótmælt því og talið sig eiga fullan rétt á þeim. Það er annað mál. Það er rétt, að opinberir starfsmenn standa að því leyti hér traustari fótum, að kjarasamningar þeirra féllu ekki úr gildi 1. marz að forminu til, en hins vegar að efni til féllu þeir úr gildi. Alveg hiklaust fullyrði ég vegna þess, að ef hv. þm. lítur í forsendur fyrir dómi kjaradóms frá því 21. júní, þá er þar komizt svo að orði, að það hefði þótt rétt að byggja kjaradóm þennan á sambærilegum launauppbótum eða vísitöluuppbótum eins og samið var um á hinum almenna vinnumarkaði. Það er því alveg ljóst mál, að ef það hefði verið vitað hvað gerðist 1. marz, hefði dómur kjaradóms orðið með allt öðrum hætti.

Hv. þm. sagði, að það væri einstætt, að rn. hefði gripið til þeirrar einhliða ákvörðunar að skjóta deilunni til sáttasemjara. Það er vitanlega ekkert einstætt við það. Ef samningsaðili ekki vill ræða málið, þá er auðvitað ekki um annað að ræða heldur en fylgja þeim reglum, sem l. gera ráð fyrir. Ef ekki næst samkomulag milli aðila án aðstoðar sáttasemjara, þá er til hans leitað, og það er ekkert, sem hindrar það, að annar aðilinn geti gert það, ef hinn neitar, því að það veit ég, að hv. þm. veit sem góður lögfræðingur, að það er auðvitað ekki hægt að stöðva aðgerðir í málum með þeim hætti, að annar aðilinn neiti bara að sitja að samningaborði, þegar um þetta er að ræða. Hann verður a. m. k. að taka afleiðingunum af því og getur ekki hindrað gagnaðilann í því, ef hann telur sig eiga rétt, að leita þá eftir þeim rétti með eðlilegum hætti. Og það mun vissulega verða gert.

Hv. þm. vék að vísitölunni og sagði, að það væri auðvitað ekki hægt að stöðva útreikning vísitölunnar, og hefði borið að reikna hana út þann 1. marz eða fyrir 1. marz. Nú veit hv. þm. það, að það er sérstakur aðili, sem reiknar út vísitölu, og kauplagsnefnd hefur ekki fengið nein fyrirmæli frá rn. um það, hvernig hún eigi að haga sínum störfum, heldur gerir hún það l. samkv. Hún hefur birt um það nú nýlega opinbera yfirlýsingu, að hún telji, að það hafi ekki verið auðið að reikna vísitölu fyrir 1. marz vegna þess, að hér hafi verið til meðferðar í Alþ. frv., sem hefur beinlínis áhrif á þá vísitölu. Það er mjög sjaldgæft, að það séu til meðferðar frv. í Alþ., sem hafa þannig áhrif aftur fyrir sig, ef segja má. En það er í þessu tilfelli vegna þess, að það er gert ráð fyrir, að fjölskyldubæturnar taki gildi aftur í tímann og mundu þar af leiðandi hafa verkað á vísitöluna 1. marz, þannig að kauplagsnefnd hefur formlega lýst því yfir, að hún telji sig ekki hafa með neinu móti getað reiknað út vísitöluna 1. marz og var þá heldur ekki ljóst, við hvað ætti að miða launaútreikning. Nú má auðvitað segja, að það sé hægt að finna út vísitölu til að greiða eftir, en það er allt annað mál.

Það er hins vegar ekki aðalatriði þessa máls, heldur hitt, að með því að greiða launauppbætur frá 1. marz hefðu opinberir starfsmenn verið að fá kjör, sem aðrar launastéttir í landinu ekki hafa. Og ég tek það skýrt fram, að ef það yrði niðurstaðan, að aðrar launastéttir fengju sömu kjör og hér er um að ræða eða héldu þeim eða að því marki, sem þær standa að þeim, þá hefur rn. ekki hugkvæmzt annað en opinberir starfsmenn fengju slík kjör. Það eina, sem hér er um að ræða, er, að hér verði um biðtíma að ræða, þar til séð verður, hver kjörin verða á hinum almenna markaði, og þá reynir að sjálfsögðu á það, hvort samningar takast milli rn. og opinberra starfsmanna eða ekki. En það er ekki ætlunin að brjóta á þeim rétt að einu né neinu leyti. Ég hefði talið það ákaflega æskilegt, ef stjórn B.S.R.B. hefði viljað á það fallast að forða slíkum leiðindum, sem alltaf hljóta af því að verða, þegar þarf að grípa til aðgerða sem þessara. Hér er um að ræða samtök vinnuveitenda, sem hafa mjög nána samvinnu sín á milli, í raun og veru stjórnsýslukerfið, og ber vissulega að harma það, ef þeir aðilar ekki vilja líta á vandamálin eins og þau liggja fyrir. Ég skal að öðru leyti ekki fara að deila á stjórn B.S.R.B. að einu né neinu leyti. Hún hefur hér engan sérstakan málsvara og því tel ég það ekki viðeigandi. Hún verður að velja sína starfshætti og rn. verður þá að sjálfsögðu að velja sína.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að segja um þetta fleiri orð. Þetta mál mun ganga sinn gang. Það er opin leið að sjálfsögðu fyrir aðila, eins og gert er ráð fyrir í lögum, að gæta sinna hagsmuna, og vissulega mun rn. ekki og hefur enga löngun til að setja fótinn fyrir það, að opinberir starfsmenn geti gert það. En ég efast stórkostlega um, að það hefði verið að neinu leyti í þágu opinberra starfsmanna, að greidd hefði verið nú vísitala, sem svo e. t. v. hefði verið af þeim krafin aftur síðar, þegar samið hefði verið, ef um semst á hinum almenna vinnumarkaði, að vísitala verði greidd með öðrum hætti heldur en kröfur launþegasamtakanna standa til, og um það efni stendur einmitt allur ágreiningurinn nú. Það er vísitalan, sem um er deilt.

Ég vil aðeins að lokum, að það komi skýrt fram, að ég harma það, að það hafi þurft að grípa til þessara aðgerða. Ég get hins vegar ekki séð, og röksemdir, sem fram hafa komið, hafa ekki sannfært mig um það, að það hafi verið hægt að grípa til annarra aðgerða, og ég sé ekki, að það sé á neinn hátt í þágu opinberra starfsmanna, að það sé verið að blása í herlúðra út af þessu máli. Það er ekki ætlunin að ganga á rétt þeirra að einu né neinu leyti og rn. hefur aldrei hugsað sér það að fara að beita þá neinum fantatökum, heldur aðeins að það skuldi gilda sem eðli málsins og lögum samkv. á að gilda, að þeir á hverjum tíma fái laun greidd í samræmi við ákvæði laganna um, að opinberir starfsmenn skuli laun fá með hliðsjón af kjörum annarra stétta.