19.11.1968
Sameinað þing: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur komið saman til rannsóknar á kjörbréfi Haralds Henrýssonar, en yfirkjörstjórnin í Reykjavík hefur gefið út kjörbréf handa honum sem varamanni I-listans í Reykjavík hinn 18. nóv. s. l. Kjörbréfanefnd hefur farið yfir kjörbréfið og aðdragandann til þess, að það er fram lagt, en Haraldur Henrýsson var 3. maður á I-listanum, sem fékk einn mann kosinn í s. l. kosningum. 1. varamaður listans, Vésteinn Ólason, hefur gert grein fyrir því, að hann dvelur um þessar mundir erlendis og getur ekki komið til þings, og hefur kjörbréfanefnd á allt þetta fallizt og leggur til, að kosning varamannsins sé tekin gild og kjörbréfið samþ.