12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2326)

187. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Lúðvík ]ósefsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá sjútvn., varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n., þm., sem styðja ríkisstj., leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en þrír af nm., ég og fulltrúar Framsfl. í n., eru andvígir frv.

Meginefni þessa frv. er það, að fellt skuli niður framlag ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs á yfirstandandi ári. En eins og kunnugt er, hefur verið við það miðað í l. um fiskveiðasjóð, að ríkissjóður skuli árlega leggja til fiskveiðasjóðs jafnháa fjárhæð og nemur tekjum sjóðsins af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Nokkuð hefur verið gert að því að hreyfa við þessu fasta framlagi og draga úr því, sem ríkissjóður greiðir til fiskveiðasjóðs, og nú er hreinlega lagt til að fella þetta gjald niður með öllu á yfirstandandi ári. Það er skoðun okkar, sem minni hl. skipum, að þetta sé röng stefna, fiskveiðasjóði veiti sannarlega ekki af því að halda þeim tekjustofnum, sem honum var ætlað að byggja rekstur sinn á.

Það er öllum hv. alþm. kunnugt, að fiskveiðasjóður hefur verið í fjárþröng að undanförnu. Hann hefur ekki getað mætt öllum þeim lánsumsóknum, sem til hans hafa borizt varðandi stofnlán til sjávarútvegsfyrirtækja, og á meðan þannig stendur, teljum við, að það sé ekki verjandi á neinn hátt að fella niður framlag ríkissjóðs til þessa stofnlánasjóðs sjávarútvegsins. Fiskveiðasjóður er að vísu orðinn býsna öflugur sjóður. Hann hefur fyrst og fremst verið byggður upp af sjávarútveginum sjálfum, en hann hefur líka stór og mikil verkefni. Það er að mínum dómi nauðsynlegt að tryggja, að nokkur hluti, annar en sá, sem kemur við beina skattlagningu á sjávarútveginn, nokkur hluti af því fjármagni, sem til fellur í peningakerfi þjóðarinnar á hverju ári, gangi til stofnlána í sjávarútvegi. Og sú leið hefur verið til þess höfð og ákveðin í l. um fiskveiðasjóð, að ríkissjóður tæki á þennan hátt nokkurn þátt í því að byggja fiskveiðasjóð upp eins og fleiri stofnlánasjóði.

Ég þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum. Ég ætla, að öllum hv. alþm. sé þetta vel ljóst. Spurningin er einvörðungu þessi, hvort menn aðhyllast þá stefnu, eins og nú er ástatt, að það eigi að draga úr því fjármagni, sem er til reiðu í því skyni að veita stofnlán til sjávarútvegsfyrirtækja. Það er skoðun okkar, sem erum í minni hl., að þetta sé röng stefna og af því eigi að fella þetta frv. og ríkið eigi að halda sér við það að greiða til sjóðsins eins og ætlað var í lögum um fiskveiðasjóð.