29.04.1969
Efri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2364)

44. mál, smíði fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, 44. mál Ed., um nýsmíði fiskiskipa, flutt af hv. 2, þm. Austf., Tómasi Árnasyni, o. fl., kveður á um það, að hæstv. ríkisstj. sé heimilt að láta smíða innanlands fiskiskip, án þess að kaupendur séu fyrir hendi. Ég vil undirstrika, að hér er aðeins um heimild að ræða fyrir hæstv. ríkisstj. Er gert ráð fyrir, að þessi heimild nái til allt að 10 þús. rúmlesta á árunum 1969–1972, eða sem nemur 2–3 þús. rúml. á ári.

Á síðasta Alþ. fluttu þessir hv. þm. frv. um sama efni, að vísu um 9 þús. rúml., og skyldi smíðinni deilt á árin 1968–1971. Nú liggur einnig fyrir hæstv. Nd. frv. um smíði 50 fiskiskipa, sem smíðuð skulu af innlendum skipasmíðastöðvum á árunum 1969–1972, flutt af hv. 4. þm. Austf. o. fl. Einnig þessir hv. þm. fluttu hliðstæð frv. á síðasta Alþ.

Hin mikla fjárfesting í dráttarbrautum og skipasmíðastöðvum hér á landi undanfarin ár skapar að sjálfsögðu breytt viðhorf í skipasmíði innanlands. Þróunin hefur orðið sú, að nú eiga Íslendingar engin skip í smíðum erlendis, sem eðlilegt hefur þótt, að smíðuð væru hér heima. Fiskibátar eru alls engir í smíðum erlendis.

Vitað er, að hæstv. ríkisstj. hefur stuðlað að því, að strandferðaskipin tvö eru smíðuð á Akureyri og reglur verið settar, sem gera mögulegt, að kaupendur fiskiskipa hjá íslenzkum skipasmíðastöðvum hafi lánamöguleika 80–90%, á sama tíma og lánafyrirgreiðsla út á fiskiskip smíðuð erlendis er aðeins 2/3 af kostnaðarverði og þau lán, ef smíðin er framkvæmd erlendis, bera að sjálfsögðu gengisáhættu, sem erlendum lánum nemur. Verð ég að segja, að innlendri skipasmíði hefur þegar verið veittur mikill forgangur að þessu leyti. Afrakstur fiskveiða hefur hins vegar ekki verið þannig að undanförnu, að hann hafi örvað útgerðarmenn til að semja um skipasmíðar. Það er fyrst nú eftir síðustu gengisbreytingu, sem nokkur hreyfing hefur orðið á og fyrirspurnir benda til meiri áhuga hjá útgerðaraðilum um kaup fiskiskipa. Samningar við skipasmíðastöðvarnar hafa hins vegar gengið treglega enn. En það er meira en lítið átak, sem þarf til, ef samþ. ætti það frv., sem fyrir liggur og lengst gengur um smíði á 50 stórum fiskibátum án kaupenda næstu 4 árin. Má ætla, að sú upphæð nemi 2000 millj., og ekki vitað, hvar sú upphæð ætti að takast, ef kaupendur gæfu sig ekki fram og skipin hrúguðust upp í höfnum fullsmíðuð, Ólíklegt er, að útvegsmenn séu þess megnugir að auka flota sinn svo mjög á þessu tímabili, eins og ég minntist á hér áður.

Segja má, að slík bylting hafi verið í veiðum og veiðiaðferðum undanfarið, að ekki einu sinni útvegsmenn sjálfir séu sammála um, hvaða bátastærðir bezt henta. Hins vegar er á það að líta, sem ég hef einnig bent á áður, að skipasmíðastöðvarnar hafa byggzt upp á mörgum stöðum og starfsfólki þessara atvinnufyrirtækja verður að sjá borgið, hvað atvinnu snertir, þótt útvegsmenn sjái sér ekki henta að gera bátapantanir að sinni.

Út frá því sjónarmiði hafa þessi mál verið rædd í atvinnumálanefnd ríkisins. Hefur n. fallizt á að veita allt að 50 millj. kr. lán í þessu skyni til smíði fiskiskipa í innlendum skipasmíðastöðvum, án þess að kaupendur séu fyrir hendi. Þetta fé á að notast til þess að brúa það bil, sem myndast, eftir að fiskveiðasjóður hefur lánað 80% skipsverðsins, eða réttara sagt 75% og 5% frá atvinnujöfnunarsjóði, en nánari reglur og fyrirmæli um smíðina eru nú í athugun hjá iðnmrh.

Eins og segir í till. meiri hl. iðnn. á þskj. 499, er lagt til, að lagafrv. því, sem hér um ræðir, sé vísað frá með rökstuddri dagskrá, og er þar vísað til yfirlýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf 27. marz s. l., er hann talaði fyrir frv. um aðgerðir í atvinnumálum, en til þess að hv. þdm. glöggvi sig enn betur á þessu, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp það, sem hæstv. forsrh. sagði um það mál við þetta tækifæri:

„Enginn efi er á, að fiskiskipasmíði innanlands er mjög löguð til þess að bæta í bráð úr atvinnuleysi og tryggja atvinnu til frambúðar. Í landinu er nú veruleg afkastageta til skipasmíða. Á hinn bóginn er eftirspurn eftir nýjum skipum lítil í bili, enda þótt búast megi við, að hún vaxi aftur, áður en langt um líður. Til þess að unnt sé að halda áfram að efla skipasmíðar og hafa fyrir hendi hentug og ný skip, þegar eftirspurnin vex á ný, er þörf sérstakra aðgerða. Þetta verkefni hefur verið til athugunar í atvinnumálanefnd ríkisins, og um það hafa verið gerðar till. frá öllum héraðsnefndum. Þá hefur iðnmrh. haft málið til sérstakrar athugunar, svo og fiskveiðasjóður. Fyrirætlun atvinnumálanefndar ríkisins er að láta gera sérstaka áætlun um þessar smíðar hið fyrsta og verja nokkrum hluta af því fjármagni, sem hún hefur yfir að ráða, til þessara framkvæmda.“

Og síðar í sömu yfirlýsingu hæstv. forsrh. segir: „En hér er um að ræða einhverja áhrifaríkustu ráðstöfun til atvinnuaukningar í bráð og lengd að mati atvinnumálanefndar ríkisins, og leggur því n. megináherzlu á framgang þessarar ráðstöfunar.“

Þetta var yfirlýsing hæstv. forsrh. 27. f. m.

Af þessum ummælum vænti ég, að öllum sé ljóst, að nú er hafizt handa um að skapa skipasmíðastöðvum landsins nýtt verkefni, sem á eftir að koma áþreifanlega í ljós á næstu mánuðum. Telur því meiri hl. iðnn. till. sína um rökstudda dagskrá fullkomlega réttmæta.