02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

70. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru nú liðin hartnær 40 ár síðan útvarpsrekstur hófst hér á landi, og með tilliti til þeirra miklu breytinga, sem orðið hafa á þeim tíma, hygg ég, að varla geti verið álitamál, að þó að annað kæmi ekki til, sé full ástæða til þess að endurskoða þær reglur, sem á sínum tíma voru settar um innheimtu afnotagjalda. Fyrstu árin eftir að útvarpsrekstur hófst voru notendur útvarps tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar. Nú er svo komið, að nærri því hver einasti þjóðfélagsborgari, sem náð hefur 20 ára aldri, mun vera eigandi útvarpstækis.

Fjhn. hefur sent það frv., sem fyrir liggur, til umsagnar nokkrum aðilum, m. a. fjmrn., og með tilliti til þess, að afstaða n. til frv. byggist að verulegu leyti á þeirri álitsgerð, sem n. fékk frá fjmrn., svo og með tilliti til þess, að þessi álitsgerð er ekki löng, þá vil ég — með leyfi hæstv. forseta — kynna hv. þdm. þessa álitsgerð, en hún er svo hljóðandi:

„Rn. hefur borizt bréf hv. fjhn. Ed. Alþ., dags. 20. des. s. l., ásamt fskj., þar sem óskað er umsagnar um frv. til l. um breyt. á l. um útvarpsrekstur ríkisins, sem alþm. Tómas Karlsson og Pétur Benediktsson hafa flutt í Ed. Rn. hefur kannað frv. að efni til og grg. með því og getur fyrir sitt leyti fyllilega fallizt á þær forsendur, sem liggja að baki því, að frv. er flutt. Þessar forsendur hafa svo stórkostlega breytzt frá því, að afnotagjald af útvarpi fyrst var ákveðið í því horfi, sem það nú er, að hér hlýtur að vera endurskoðunar þörf.

Hins vegar telur rn. nauðsynlegt að gera mun ýtarlegri könnun á, hvernig slíka breytingu skuli gera, heldur en tök hafa verið á í sambandi við það frv., sem hér er til umr. Vill rn. leggja áherzlu á, að sú aðferð við gjaldtöku fyrir þjónustu hljóðvarps, sem valin yrði í stað núverandi fyrirkomulags, gæti tengzt þeim álagningar- og innheimtukerfum, sem til eru nú þegar, þannig að álagningin og innheimtan verði einungis óverulegur og vélrænn hluti af álagningu og innheimtu, sem þegar á sér stað. Þetta gerist með þeim hætti, sem frv. gerir ráð fyrir, að hljóðvarpsgjaldinu verði breytt í nefskatt, jafnvel þótt neðra aldursmarkið, sem gjaldskyldan á að miðast við samkv. frv., sé annað en gildir gagnvart almannatryggingum. Það er þó ekki vandamál gagnvart vélvinnslu álagningarinnar eftir sömu gögnum og almannatryggingagjöld eru lögð á eftir. Hitt er sýnilega mun örðugra í framkvæmd, að miða efra markið við 67 ára aldur ásamt með viðmiðun um brúttótekjur. Hér er um að ræða viðmiðun um gjaldskyldu, sem er mun flóknari og brotameiri í framkvæmd en svo, að megi leiða í lög án tekniskrar könnunar á því, hvort þetta er þægilegasta aðferðin við að leysa vandann. Sama máli gegnir um þá viðmiðun, að félög og fyrirtæki, sem greiða kirkjugarðsgjald, skuli greiða hljóðvarpsgjald. Með ákvæði frv. er þannig búið að tengja hljóðvarpsgjald saman við upplýsingar um aldur, brúttótekjur einstaklinga, vísitölu framfærslukostnaðar og útsvar að því er varðar kirkjugarðsgjöld félaga og fyrirtækja. Má spyrja þeirrar spurningar, hvort ekki muni völ á einfaldari leið til þessarar skattlagningar.

Í sambandi við lagfæringar af þessu tagi væri án efa mjög æskilegt að íhuga til botns þann möguleika að sameina þá nefskatta, sem nú eru í gildi, til einföldunar á þeim hluta tekjukerfis ríkisins, sem með þeim hætti er talið eðlilegt að fjármagna.

Með skírskotun til framanritaðs vill rn. vara við að samþykkja frv., eins og það liggur fyrir Alþ.“ Þetta er undirritað af Magnúsi Jónssyni og Jóni Sigurðssyni.

Þannig hljóðar þessi álitsgerð fjmrn., og m. a. með tilliti til þeirra sjónarmiða, sem þar koma fram, hefur n. í áliti sínu á þskj. 596 orðið sammála um það að leggja til við hv. þd., að frv. ,verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að sú könnun fari fram, sem um er rætt í áliti fjmrn., og niðurstöður hennar lagðar fyrir næsta reglulegt Alþ. Ég vil taka það fram, að þetta álit ber ekki þannig að skilja, að hver einstakur nm. hafi með þessu tekið efnislega afstöðu til frv. og þeirrar breytingar á innheimtu, sem þar er gert ráð fyrir, en niðurstaða þeirra könnunar, sem hér er lagt til, að fari fram, ætti þá að auðvelda mönnum að taka efnislega afstöðu til málsins, þegar hún liggur fyrir.