17.03.1969
Neðri deild: 65. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2481)

166. mál, menntaskólar

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að taka þátt í almennum umræðum við þetta tækifæri. Mig langaði aðeins til að beina lítilli fsp. til hæstv. menntmrh. í sambandi við flutning þessa máls. Ég veitti því athygli, þegar hann fylgdi frv. úr hlaði, að þá lét hann þess getið, að hann ætlaðist ekki til þess, að frv. yrði afgr, á þessu þingi. Þetta er næsta óvenjuleg orðsending, þegar ráðh. flytja mál á Alþ. Venja þeirra er sú að mælast til þess, að slík mál fái mjög skjóta afgreiðslu. Raunar er reynslan sú, þegar flutt eru hér stærstu og mikilvægustu mál og þau mál, sem mestur ágreiningur er um og þess vegna hefði e. t. v. þurft að fjalla rækilegast um, þá eru þau stundum hespuð af á nokkrum dögum. Ég er ekki að mæla með slíkum vinnubrögðum. En engu að síður fæ ég ekki betur séð en það eigi að vera tök á því að afgr. þetta frv. á þessu þingi, ef vilji er fyrir hendi. Mér skilst, að eftir muni vera svo sem einn mánuður af þinghaldi, og ég held, að sá tími hlyti að nægja til þess að afgr. þetta mál. Mér virðist þetta augljóst, vegna þess að þótt umr. séu nú orðnar alllangar, hafa þau ágreiningsefni, sem fram hafa komið í ræðum manna, verið af smærra taginu. Gagnrýnin hefur fyrst og fremst beinzt að 1. gr. frv., hvort þar eigi að telja upp menntaskólana í landinu eða ekki, og þar held ég, að sé um að ræða atriði, sem auðvelt eigi að vera að ná samkomulagi um. Annað ágreiningsefni, sem fram hefur komið í sambandi við þetta mál, er, hvort kvennaskólinn eigi að fá réttindi til að útskrifa stúdenta eða ekki. Ég held, að það sé einnig minni háttar ágreiningsefni og þess háttar mál, að menn eigi að geta sætt sig við það að láta atkvæði skera úr, ef ekki næst um það almennt samkomulag. En um heildarefni frv., þá stefnu, sem þar er mörkuð, hefur ekki komið fram neinn ágreiningur.

Þetta frv. er tvímælalaust til mikilla bóta, en hins vegar hefur dregizt allt of lengi, að það kæmi fram. Sú n., sem hefur um það fjallað, hefur tekið sér ákaflegan rúman tíma, og á þeim tíma hefur erfiðleikaástand á þessu sviði magnazt mjög mikið, og af þeim ástæðum held ég, að það væri mikil nauðsyn að afgr. þetta mál sem allra fyrst. En einnig vegna þess, að þetta frv. er í rauninni aðeins rammi og viljayfirlýsing, verða að fylgja á eftir miklar og margvíslegar aðgerðir, ef það á að breyta einhverju. Ég vil minna á það, að í grg. frv. er bent á ýmsa slíka þætti. Í athugasemdum við 13. gr. segja höfundar frv. t. d., með leyfi hæstv. forseta, „að meginforsenda fyrir öllum öðrum umbótum í menntaskólunum og jafnframt fyrir áframhaldandi heilbrigðri þróun þeirra er stórfelld umbót á starfsskilyrðum skólanna Á engri umbót er þó brýnni þörf en þeirri, að skólunum sé betur en nú gerist séð fyrir því fjölbreytta starfsliði, sem þeim er nauðsynlegt“

Í athugasemd við 20. gr. segir svo:

„Um húsnæði skólanna gegnir sama máli og um starfslið þeirra, að stórfelld aukning umfram það, sem tíðkazt hefur, er algjört skilyrði fyrir öllum umbótum og framförum.“

Og í aths. við 21. gr.:

„Af öllu því, sem tefur umbætur á starfsemi menntaskólanna og hamlar því, að upp séu teknir kennsluhættir í samræmi við beztu vitund kennaranna um fræðslu og uppeldi, er fátt eins áþreifanlegt og skortur á bókasöfnum og lestrarsölum. Má t. d. benda á það, að kröfunni um meiri sjálfstæða vinnu nemenda, sem segja má að sé orðin eins konar samnefnari fyrir almenna óánægju með vinnubrögð skólanna, verður með engu móti sinnt, meðan bókakostur skólanna og vinnurými nemenda í húsakynnum skólanna er svo gjörsamlega ófullnægjandi sem raun er á. Leggja ber áherzlu á það, að allar greinar, sem kenndar eru í menntaskóla, eru sérgreinar í þeim skilningi, að til kennslu í sérhverri þeirra þarf í flestum eða öllum kennslustundum á að halda sérstökum bókakosti, sérstökum hjálpargögnum og sérstökum kennslutækjum.“

Ef þetta frv. á að verða annað og meira en orðin tóm, þá þurfa að fylgja á eftir mjög fjölþættar breytingar, sem hafa í för með sér mikinn kostnað, og þessum breytingum verður að sjálfsögðu ekki komið á í hendingskasti. Einmitt þess vegna held ég, að það sé mjög brýn nauðsyn að afgr. þetta mál á þessu þingi. Ég vil skýra hæstv. menntmrh. frá því, að að því leyti sem málið kemur til minna kasta í menntmn., þá er ég reiðubúinn til þess að leggja fram þá vinnu, sem kynni að þurfa til þess að gera mér grein fyrir þessu máli, og skila um það áliti eins fljótt og auðið er. Og ég hef trú á því, að sama sé að segja um fleiri nm. Ég vil því beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort hann teldi það ekki æskilegt, að þetta frv. gæti fengið afgreiðslu nú á þessu þingi.