10.02.1969
Efri deild: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

127. mál, atvinnuleysistryggingar

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 31. des. s. l., um atvinnuleysistryggingar. Forsenda þeirra brbl. var sú, að hinn 16. marz s l. var gefin út af hálfu ríkisstj. yfirlýsing, þar sem m. a. var heitið, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir hækkunum á bótagreiðslum vegna atvinnuleysis og öðrum lagfæringum á bótaupphæðum. Athugun aðila á málinu lauk hins vegar ekki það tímanlega, að hægt væri að leggja frv. fram á Alþ. og afgr. það, áður en jólaleyfi alþm. hófst, og fyrir því voru brbl. sett. Þau fjalla um allumtalsverða rýmkun á bótarétti í atvinnuleysistryggingunum. Það fjallar þó eingöngu um breytingar á þeim kafla laganna.

Efni frv. er öllum hv. alþm. þegar kunnugt af blaðaskrifum, sem um það hafa orðið, og tel ég því óþarft að rekja einstakar greinar frv. Eins og ég áðan sagði, er um allverulega hækkaðar bætur að ræða og rýmkun á bótarétti, eins og fram kemur í skýringum með frv. Ég vil enn fremur lýsa því yfir, að samkv. ósk aðila vinnumarkaðarins var talin nauðsyn á því, að allsherjarendurskoðun færi fram á l., sem of lengi hefur dregizt að framkvæmd yrði, og hefur rn. óskað eftir því, að Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasambandið og Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni hvert um sig einn fulltrúa til endurskoðunar á þessum l. að öðru leyti en því, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Ég hef þess vegna ekki talið, að það ætti að hraða afgreiðslu þessa frv., fyrr en séð verður, hvort þessari endurskoðun getur orðið lokið það tímanlega, að tillit mætti til hennar taka við endanlega afgreiðslu málsins. En um það verður ekki sagt á þessu stigi málsins, hvað þessi endurskoðun tekur langan tíma. Það er ósk fyrrgreindra aðila, að sá tími verði sem allra skemmstur, og hugsun þeirra er sú að ljúka því þannig, að þing geti afgr. þær breyt., sem út úr endurskoðuninni kunna að koma. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.