07.11.1968
Neðri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

40. mál, verndun og efling landsbyggðar

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 41 um sérstakar ráðstafanir til að stuðla að verndun og eflingu landsbyggðar og koma í veg fyrir eyðingu lífvænlegra byggðarlaga, eða frv. mjög svipaðs efnis er nú flutt í þessari hv. d. í sjöunda sinn. Það hefur áður verið flutt á 6 þingum, að ég ætla. Þegar það var flutt í fyrsta sinn, mátti heita allgott árferði hér í landi og þó enn betra, þegar það var flutt í þriðja, fjórða og fimmta sinn. Þá var ár hvert aflamet á sjónum og verð útfluttra afurða hækkaði meir en um 30% á þeim árum, innkaupsverð á erlendum vörum hagstætt, sem sé viðskiptakjör þjóðarinnar óvenjugóð, eins og hagfræðingar kalla það. Við flm. þessa máls teljum því, að hér hafi verið látið ónotað einstakt tækifæri til að koma fótum undir þá lífsnauðsynlegu starfsemi á vegum þjóðfélagsins, sem hér er um að ræða til tryggingar landsbyggð og til að sporna við hættulegri öfugþróun, sem getur, ef ekkert er aðhafzt, reynzt afdrifarík fyrir sjálfstæði þjóðarinnar á komandi tímum. Nú er erfiðara um vik, því að verðbólga hefur magnazt í landinu hin síðari ár og þjóðin safnað stórskuldum erlendis, sennilega hátt á 8. þús. millj., en innstæður engar hjá öðrum þjóðum, og veldur þetta allt því, að nú nægir ekki lengur það aflamagn eða útflutningsverð í krónum, sem fyrir nokkrum árum var talið bjarglegt og vel það, hvað þá minna. Þetta hefur einnig sín áhrif á fjárhag ríkissjóðsins, og er það öllum ljóst, að þar lítur út fyrir, að þrengra verði í búi en verið hefur, nema til komi sérstök hagræðing fjármunanna ríkisfjárhirzlunni í hag, en um framvinduna í þeim efnum er nú allt í óvissu. En þar sem þetta frv., ef að lögum yrði, hefði í för með sér útgjöld úr ríkissjóði, tökum við flm. það fram í grg. málsins, að um fjáröflunarákvæði frv. verði að ræða nánar við meðferð málsins, hvenær þau skuli taka gildi, en það verður að fara eftir horfum og fjármálum ríkisins á næsta ári.

En tímabundnir erfiðleikar eiga ekki og mega ekki stöðva ákvarðanir í þessu máli. Hér er um framtíðarmál að ræða, og með engu móti verður gegn því staðið, að framtíðin komi til þessarar þjóðar með sín viðfangsefni, sum ófyrirsjáanleg og því ekki á okkar meðfæri nú, sem hér sitjum, en sum fyrirsjáanleg, eins og það sem þetta frv. fjallar um. En kreppuástand það, sem nú er og ég hef vikið að, hlýtur að minna á þá staðreynd, að of ört stækkandi stórborg í fámennu landi ýtir undir verðbólgu og að hlutfallslega jafn vöxtur landsbyggðar hefur áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar í jafnvægisátt. Hraður vöxtur stórborgarsvæðis, sem sogar til sín fólk og fjármagn, er í sannleika sagt ein aðalundirstaða þeirrar verðbólguverksmiðju, sem með afköstum sínum setur vanmáttuga ríkisstj. og atvinnuvegi landsins í vanda. En það er þessi verksmiðja, sem setur allt á uppboð, þegar verst gegnir. Það er þessi verksmiðja, sem í stjórnvana landi býður 27 þús. kr. í einn fermetra lands, eftir því sem fram hefur komið hér á fundi í gær og í dag, og hleypir slíkum tölum út í verðlagið. Dýrt mundi þá Ísland allt.

Eins og ég sagði, hafa nú ráðandi menn hér á þingi í 6 ár lagt kollhúfur og þybbazt við, þegar þetta frv. um byggðajafnvægisstofnun og þau fjárráð henni til handa, sem að gagni kæmu, hefur verið hér til meðferðar. En þetta mál á sér marga formælendur um allt land og kannske ekkert síður hjá framsýnum mönnum hér í höfuðborginni og sumum, sem þar fara með völd. Þess vegna hafa líka þeir, sem svæft hafa þetta frv. hverju sinni, ekki verið alls kostar ánægðir með sína frammistöðu, og það hefur komið fram í viðleitni eða tilburðum af ýmsu tagi. Eitt árið var atvinnubótasjóðurinn lögfestur og lagðar í hann 10 millj. á ári af gamla atvinnuaukningarfénu, — ég endurtek 10 millj. eða andvirði eins fiskibáts af meðalstærð. Svo kom atvinnujöfnunarsjóðurinn, sem á að fá part af álskattinum, sem enn er ókominn, og það má segja, að sú löggjöf sé smáspor í rétta átt, en má sín þó lítils til þess að vega á móti því mikla fjármagni, þúsundum milljóna, sem á sama tíma var fengið til fjárfestingar, sem, þótt sitthvað megi gott um hana segja, er staðsett einmitt í þeim landshluta, sem nú sogar til sín fólkið. Já, sú löggjöf vegur lítið í því sambandi, ef henni hefur þá verið ætlað það hlutverk. Svo var farið að tala um eitthvað, sem kallað var Vestfjarðaáætlun, sem aldrei hefur verið birt, svo að ég viti, og jafnvel þm. Vestfirðinga segja, að ekki sé til, og hafa það eftir þeim, sem áttu að hafa samið þessa áætlun. Það er mjög dularfullt plagg. Fyrir 31/2 ári var talað um að semja Norðurlandsáætlun, og kosningavorið 1967 sagði einn hæstv. ráðh., að sú áætlun yrði tilbúin fyrir árslok 1967. Það varð ekki úr því. Og svo var áætluninni heitið á þessu ári. Hún er því miður ókomin enn. Mér er tjáð, að áætlunarverkið á þessu ári hafi m. a. verið fólgið í því að minnka teikningar af skólahúsum, sem til hefur staðið að byggja á Norðurlandi, og má sjálfsagt sjá á því bæði kosti og galla. En þetta skiptir kannske ekki meginmáli, því að Norðurlandsáætlun eða aðrar slíkar áætlanir og lituð landabréf eða spaklegar hugleiðingar um byggðakjarna kunna að vera lítils virði, ef fjármagnið vantar, þótt þetta hvort tveggja sé í sjálfu sér gott.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er byggt á þeirri skoðun, að koma þurfi á fót sjálfstæðri og skipulagðri starfsemi til frambúðar í því skyni að stuðla að verndun og eflingu landsbyggðar og að sú starfsemi verði að hafa við það fjárframlag að styðjast, að verulegs árangurs megi vænta. Hér þarf að koma til föst landsbyggðar- og byggðajafnvægisstofnun með starfskröftum, sem geti helgað sig viðfangsefninu. Nauðsynlegrar þekkingar verður að afla á hverjum tíma með því að ferðast um landið, ræða við sveitarstjórnir og aðra þá, sem forustu hafa á hverjum stað, gera skýrslur og semja áætlanir, sem úthlutun fjármagns byggist á, ella er hætt við, að aðstoðin verði fálmkennd og atvikum háð og komi ekki að fullu gagni. Hér þarf að koma til fjármagn, sem um munar.

Hér er um að ræða ráðstafanir, sem mundu verða allri þjóðinni til hagsbóta. Einnig sá landshluti, sem fjölmennastur er eða verður, mun njóta hér góðs af í ríkum mæli, ef takast mætti að stöðva eða minnka fólksstrauminn þangað, því að hið mikla aðstreymi fólks, sem þar hefur átt sér stað áratugum saman, hefur skapað þessum landshluta ýmiss konar erfiðleika og ekki verið honum hentugt, enda á sumum sviðum haft í för með sér mikil fjárútlát fyrir borgarana. Í öðrum landshlutum mundi byggðajafnvægissjóður með beinum fjárframlögum og þó einkum útlánum styðja þá uppbyggingarstarfsemi, sem að undangenginni athugun telst til þess fallin á hverjum tíma að draga úr fólksstraumnum þaðan eða stöðva hann og koma í veg fyrir yfirvofandi eyðileggingu verðmæta. Hér er ekki um það að ræða, að hvergi megi leggja niður byggt ból eða flytja á hagkvæmari stað. Uppbygginguna ber að miða við það að hagnýta sem bezt gæði náttúrunnar til lands og sjávar, þar sem þau eru til staðar. Björgulega staði ætti ekki að yfirgefa, heldur stefna að því þar að gera mönnum kleift að koma atvinnurekstri sínum og aðstöðu í samræmi við það, sem hæfilegt má teljast og óhjákvæmilegt á hverjum tíma. En jafnframt ber að hafa það í huga, að ráðið til þess að hindra beina eða hlutfallslega fólksfækkun í hverjum landshluta getur verið m. a. í því fólgið að koma þar upp þéttbýlishverfum eða efla kaupstaði og kauptún, sem fyrir eru, og ber þá byggðajafnvægisstofnuninni að sjálfsögðu að greiða fyrir viðgangi og vexti slíkra staða jafnhliða annarri uppbyggingu þar um slóðir. Aukning fólksfjöldans á slíkum þéttbýlisstöðum, þótt hún í bili dragi til sín eitthvað af fólki úr umhverfi sínu, getur verið brýnt hagsmunamál hlutaðeigandi landshluta, ef hún ræður úrslitum um það, að hann sem heild haldi sínum hlut. Í bæjum og þorpum skapast líka markaður og ýmsir aðrir slíkir möguleikar fyrir nálægar sveitir. Af þessu leiðir, að byggðajafnvægismálið verður ekki leyst, svo að vel sé, nema á það sé litið frá heildarsjónarmiði hinna stóru landshluta, en þá jafnframt haft í huga, að björgulegar byggðir, þótt nú séu af einhverjum ástæðum fámennar og eigi í vök að verjast, dragist ekki aftur úr í sókn þjóðarinnar til bættra atvinnuhátta og betri lífskjara.

Byggðajafnvægisstarfsemin á ekki fyrst og fremst að vera fólgin í atvinnuleysisráðstöfunum eða örvun þjóðhagslega óhagkvæmrar framleiðslu, heldur í því að gera börnum landsins kleift með aðstoð fjármagns og tækni að grundvalla búsetu sína, lífsafkomu, menningu á náttúrugæðum til lands og sjávar, hvar á landinu sem þau eru, og koma með skynsamlegum ráðum í veg fyrir, að landsbyggðin eyðist eða dragist svo aftur úr, að framtíðarvonir hennar verði að engu gerðar. Það þarf að koma í veg fyrir þann misskilning, sem stundum ber á, að hin fámennari byggðarlög og atvinnurekstur þeirra séu yfirleitt byrði á þjóðarbúskapnum. Athuganir hafa leitt í ljós, að í sumum fámennum sjávarplássum t. d. skilar hver íbúi að meðaltali svo mikilli gjaldeyrisvöruframleiðslu í þjóðarbúið, að athygli vekur við samanburð. Víða í sveitum er framleiðslan líka án efa mjög mikil, ef reiknað er á þennan hátt. En þar sem fjármagn skortir og tækni er af skornum skammti, verður þetta oft á annan veg. Þess ber einnig að geta í sambandi við sveitirnar, að engin stétt í þjóðfélaginu mun leggja hlutfallslega eins mikið fram af eigin tekjum og með vinnu sinni til uppbyggingar í landinu og bændastéttin. Það mun óhætt að gera ráð fyrir, að hagnýt þjóðarframleiðsla minnki ekki, heldur vaxi með auknu jafnvægi í byggð landsins.

Í frv. er svo fyrir mælt í bráðabirgðaákvæði, sem því fylgir, að byggðajafnvægisnefnd skuli þegar eftir gildistöku frv., ef að lögum verður, gera bráðabirgðaáætlun um sérstaka aðstoð við þau byggðarlög, sem dregizt hafa aftur úr eða yfirvofandi hætta er á, að dragist aftur úr því, sem almennt er, að því er varðar aðkallandi framkvæmdir og uppbyggingu atvinnuvega eða fari í eyði að verulegu eða öllu leyti, enda séu þar frá náttúrunnar hendi vel viðunandi skilyrði til atvinnurekstrar á landi eða sjó. Til þess er ætlazt, að bráðabirgðaáætlunin sé gerð í samráði við Landnám ríkisins, sem hefur þegar í höndum mikilsverðar upplýsingar á þessu sviði og þar með aðstöðu til að gera sér grein fyrir atvinnuskilyrðum frá náttúrunnar hendi í einstökum byggðarlögum. Lagt er til, að byggðajafnvægisnefnd hafi heimild til að veita hlutaðeigandi sveitarfélögum óafturkræf framlög og verji til þess allt að þriðjungi af tekjum sjóðsins í 3 ár. Kæmi þá síðar til álita að framlengja þá heimild. Sum byggðarlög eru nú þannig á vegi stödd, að hafa verður hraðan á, ef þær sérstöku ráðstafanir, sem þjóðfélagið kann að vilja gera þeim til aðstoðar, eiga ekki að verða um seinan.

Íbúar í landinu voru um síðustu áramót um 200 þúsund talsins. Á bls. 4 í grg. þessa frv. er yfirlitsskýrsla, sem sýnir breytingu mannfjöldans í einstökum landshlutum á einum aldarfjórðungi, þ. e. a. s. árunum 1940–1965. Á þeim tíma, á þeim aldarfjórðungi, fjölgaði íbúum landsins í heild um 59.5%. Það var meðalfjölgunin og þar með það, sem kalla má hina eðlilegu fólksfjölgun í hverjum landshluta, þ. e. án innflutnings eða útflutnings. Tölurnar í þessari skýrslu bera vitni um hina gífurlegu röskun, sem enn hefur orðið á jafnvæginu í byggð landsins á þessum aldarfjórðungi. Á Vestfjörðum hefur á þessum aldarfjórðungi orðið bein fólksfækkun um 19.4%. Í 4 landshlutum var fjölgunin aðeins 8.8%, 14.7%, 25.5°% og 30.8%, á sama tíma sem þjóðinni í heild fjölgaði um 59.9%, þ. e. a. s. hlutfallsleg fólksfækkun. Jafnvel í höfuðstað Norðurlands, Akureyri, sem til skamms tíma hefur verið annar stærsti bær landsins, var um hlutfallslega fólksfækkun að ræða á síðasta áratug. En í Kjalarnesþingi vestan fjalls hækkaði fólkstalan um 133.5% á tímabilinu 1941.–1965. Í 7 samliggjandi sveitarfélögum, sem nú eru almennt kölluð Stór-Reykjavík, hækkaði íbúatalan úr 43500 upp í nálega 100500 á þessum tíma, en á því litla landssvæði á nú meira en helmingur þjóðarinnar heima.

Þessi þróun er mjög varhugaverð, svo að ekki sé meira sagt, fyrir land og þjóð, ekki aðeins þá landshluta, sem eiga við beina eða hlutfallslega fólksfækkun að stríða, heldur, eins og ég sagði áðan, einnig fyrir höfuðborgina og nágrenni hennar, sem á erfitt með að valda sumum þeim verkefnum, sem á hana hlaðast vegna of mikils vaxtarhraða, og getur af þeim sökum orðið erfiðara en ella að byggja þar upp nægilega traust atvinnulíf í framtíðinni. Það ætti því að vera sameiginlegt áhugamál allra landsmanna að stuðla að því, að fólksfjölgunin dreifist meira um landið en hún hefur gert hingað til á þessari öld. En til þess að svo megi verða, þarf fyrst og fremst að útvega fjármagn til þess að efla atvinnulíf hinna einstöku landshluta og koma í veg fyrir, að skortur á íbúðarhúsnæði hamli því, að fólk setjist að í þessum landshlutum, t. d. faglærðir menn eða sérfróðir á einhverju sviði, sem víða hefur vantað. Þó kemur fleira til greina.

Gert er ráð fyrir í frv., að byggðajafnvægissjóður fái til umráða 2% af tekjum ríkissjóðs ár hvert. Miðað við áætlun fjárlaga fyrir 1967, þ. e. a. s. síðustu fjárlög, sem birtust í hinni eldri gerð, hefðu þessar árstekjur sjóðsins það ár orðið um 94 millj. kr., en breytast í hlutfalli við tekjur ríkissjóðs, sem á að tryggja það, að starfsgeta sjóðsins haldist, þótt verðlag breytist. Einhverjum kann að þykja þetta há upphæð við fyrstu sýn. En að vel athuguðu máli verður það varla talið frekt í sakirnar farið, þó að lagt sé til, að ríkið verji árlega tveim aurum af hverri krónu til að skipuleggja á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, sókn gegn þeirri öfugþróun, sem tölurnar, sem ég hef áður nefnt, bera vitni um, og tryggja framtíð þeirra byggða, sem alið hafa upp mikinn hluta þess fólks, sem starfað hefur að uppbyggingu landsins til þessa eða nú er á starfsaldri. Hér er um svipaðan hundraðshluta af ríkistekjum að ræða og veittur var til að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu árið 1957. Hann mun hafa verið einmitt nálægt 2% af ríkistekjunum það ár. Rétt er líka að hafa það í huga, að ýmis framlög ríkisins til verklegra framkvæmda víðs vegar um land hafa farið hlutfallslega lækkandi í seinni tíð, miðað við umsetningu fjárlaga.

Í 12. gr. frv. er svo gert ráð fyrir, að sjóðurinn fái lántökuheimild, allt að 200 millj. kr. á ári í 5 ár, og er gert ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgist þau lán, sem sjóðsstjórnin tekur samkv. þeirri heimild.

Frv. er í tveim köflum. Fyrri kaflinn fjallar um tilgang laganna og störf byggðajafnvægisnefndar, sem gert er ráð fyrir, að kjörin verði af Alþ. og haldi fund a. m. k. einu sinni í mánuði og oftar, ef þurfa þykir. N. er heimilað að tryggja sér starfskrafta, eftir því sem nauðsyn krefur, enda komi til samþykki ríkisstj. Yrði það sennilega gert í félagi við Framkvæmdasjóð Íslands. Byggðajafnvægisstofnunin á samkv. frv. að hafa með höndum rannsóknarstörf, áætlanagerð og ráðstöfun fjármagns til uppbyggingar á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Í því skyni eru henni fengin umráð yfir byggðajafnvægissjóði, en um hann er II. kafli frv. Gert er ráð fyrir, að fjárframlög úr byggðajafnvægissjóði verði aðallega veitt sem lán, þegar aðrir lánsmöguleikar hlutaðeigandi aðila eru fullnýttir, og að stjórn sjóðsins ákveði sjálf lánskjör hverju sinni. Geta þau farið að verulegu leyti eftir greiðslugetu. Samkv. frv. má veita slík lán til hvers konar framkvæmda, sem að dómi byggðajafnvægisnefndar eru til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þ. á m. til kaupa á atvinnutækjum. Er þá að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að sveitir landsins geti einnig notið þar góðs af að því leyti, sem stuðningur sá, sem veittur er samkv. landbúnaðarlöggjöfinni, leysir ekki þau viðfangsefni, sem um er að ræða. M. a. er gert ráð fyrir, að byggðajafnvægisnefnd geti aðstoðað sveitarfélög við að koma upp íbúðum, þar sem íbúðaskortur kemur í veg fyrir æskilega fólksfjölgun og það mál verður ekki leyst á annan hátt. Sjóðsstjórninni er heimilt að gerast meðeigandi í atvinnufyrirtæki, ef sérstaklega stendur á og fullnægt er tilteknum skilyrðum.

Rétt þykir að gera ráð fyrir þeim möguleika, að einstakar sveitarstjórnir eða sýslunefndir, ein eða fleiri saman eða sambönd þeirra, kunna að hafa hug á og telja sér fært að leggja sjálfar fram eða útvega nokkurt fé til þeirrar uppbyggingar á sínu svæði, sem frv. þetta tekur til, og hafa sjálfar meiri forustu en yfirleitt er gert ráð fyrir í frv. Þykir og sanngjarnt og eðlilegt, að þær geti, ef þannig er að farið, fengið fé úr byggðajafnvægissjóði á þann hátt, sem nánar er tiltekið, enda verði þá yfirleitt ekki um aðrar beinar lánveitingar úr byggðajafnvægissjóði að ræða á því svæði, sem hér er um að ræða.

Algengt er, að komið sé upp atvinnufyrirtækjum með fjárhagslegum stuðningi ríkissjóðs, t. d. með ríkisábyrgð, með ríkisláni eða annarri ríkisfyrirgreiðslu. Æskilegt er, að byggðajafnvægissjónarmið komi til greina við staðsetningu slíkra fyrirtækja og að fjárhagsleg aðstoð ríkisins sé hverju sinni því skilyrði bundin, að byggðajafnvægisnefnd hafi látið í ljós álit sitt um möguleika á því að koma staðsetningunni í samræmi við tilgang þessa frv., ef að lögum verður. Lagt er til, að Framkvæmdasjóður Íslands annist daglega afgreiðslu og reikningshald fyrir byggðajafnvægissjóð. Í frv. eru ákvæði um afnám laga um atvinnujöfnunarsjóð og að byggðajafnvægissjóður taki við stofnfé hans á þann hátt, sem mælt er fyrir um í 8. gr., svo og hluta framleiðslugjalds samkv. 9. gr.

Á því sviði, sem hér er til umr., dregur nú enn bliku á loft. Barátta er nú hafin fyrir því, jafnvel í sjálfu stjórnarráðinu, að fækka bændabýlum, sveitaheimilunum í landinu. En eitt meginhlutverk bændabýlanna er að halda uppi landsbyggð utan kaupstaða og kauptúna. Ég held, að þeir þjóðhagsspekingar, sem nú virðast vilja láta setja lög um fækkun bænda, ættu að beina geiri sínum þangað, sem þörfin er meiri fyrir. Ég held, að eins og nú standa sakir, sé miklu meiri hætta á því, að sveitaheimilin verði of fá í landinu heldur en þau verði of mörg. Mér hrýs hugur við búvöruverksmiðjunum, sem ýmsir vilja nú láta koma í staðinn fyrir bændabýlin mörgu, og ég er ekki viss um, að framleiðsla slíkra verksmiðja yrði eins ódýr og sumir halda. Það er í eðli sínu ekki verksmiðjuvinna eða vélavinna nema að takmörkuðu leyti að hlúa að lifandi gróðri og lifandi búpeningi. Og ég held, að menn séu að gera sér það ljóst nú, þeir sem ekki hafa gert það nú um skeið, að það er ekki algild regla, að stórbú, sem kannske nálgast verksmiðju og svo mjög vélvædd sem mest tíðkast, gefi ævinlega betri raun en minni bú og minna vélvædd. Það, sem máli skiptir að þessu leyti, er, að stærð búa sé rétt ákveðin miðað við vinnuaflið, sem til staðar er á hverjum stað. Ég drep aðeins á þetta mál, en um það mætti lengi ræða. Ég mun þó ekki gera það, en ljúka hér með máli mínu.

Legg ég svo til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.