19.11.1968
Neðri deild: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (2575)

61. mál, smíði fiskiskipa innanlands

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Við flytjum hér, þrír þm. Alþb., frv. til l. um smíði fiskiskipa innanlands. Með mér standa að þessu frv. hv. 6. landsk. þm. og hv. 8. landsk. þm. Við fluttum frv. á síðasta þingi, þrír þm. Alþb., sem fór í sömu átt og þetta frv., svo að það er nokkuð kunnugt hér.

Aðalefni frv. er um það, að atvmrn. skuli beita sér fyrir því, að smíðuð verði 50 fiskiskip innanlands í skipasmíðastöðvum hér á næstu 4 árum, árunum 1969–1972. Það er gert ráð fyrir því í frv., að skipuð verði sérstök 5 manna n., sem skuli hafa með að gera framkvæmdir í þessum málum og forgöngu um það, hvernig að málinu skuli staðið, og það er gert ráð fyrir því, að þeir aðilar, sem hér eiga mestan hlut að máli, útvegsmenn og sjómenn, eigi örugglega fulltrúa í þessari n. Þá er hér einnig gert ráð fyrir því, að ríkið geti tekið nokkurt lán, allt að 200 millj. kr., til þess að tryggja fjármagn til þessarar skipasmíði, en að öðru leyti verði samið við Fiskveiðasjóð Íslands um lánveitingar út á þessi skip og það tryggt, að stofnlán út á skipin verði 85% af stofnkostnaði. Það er gert ráð fyrir því í frv., að hér verði aðallega um að ræða þrjár tegundir af fiskiskipum eða þrjá stærðarflokka, til þess að hægt sé að fá hér fram nokkru hagstæðari aðstöðu til smíðinnar heldur en verða mundi, ef hér væri um allt of margar gerðir að ræða.

Það hefur verið allmikið rætt um það nú að undanförnu, að það væri sjálfsagt að nota betur innlendu skipasmíðastöðvarnar til þess að byggja upp okkar fiskiskipaflota en gert hefur verið. Margar till. hafa komið fram um þessi efni og m. a. ýtarlegar till. frá samtökum járniðnaðarmanna, og við byggðum flutning þessa frv. okkar alveg sérstaklega á till., sem frá þeim komu á s. l. ári. Það er enginn vafi á því, að við gætum, Íslendingar, auðveldlega séð um það í okkar skipasmíðastöðvum að halda við okkar fiskibátaflota, sjá þar um eðlilega endurnýjun og gott viðhald. Þetta verk gætum við unnið hér innanlands, og við gætum á þann hátt sparað okkur allverulega gjaldeyri frá því, sem verið hefur. Ég hygg, að við höfum keypt fiskiskip á undanförnum árum fyrir um það bil 300–400 millj, kr. á ári. Mikið af þessum skipum hefur verið keypt frá Noregi, þar sem þau hafa verið byggð við lítið eða ekki betri aðstöðu en við höfum hér heima hjá okkur. Ég hugsa, að við slík skipakaup, þar sem um er að ræða kaup fyrir 300–400 millj. kr. á ári, megi reikna með því, að um það bil helmingurinn af þessari upphæð eða 150–200 millj. kr. sé hreinlega vinnulaun. Og í þessum tilfellum erum við að flytja inn vinnuafl. En enginn vafi er á því, að við höfum haft þetta vinnuafl hér til staðar og hefðum getað nýtt það, ef vel hefði verið á haldið. Við hefðum ekki þurft að eyða þessum gjaldeyri, sem við höfum eytt, á þennan hátt. Og þá held ég, að afkoman hjá okkar skipasmíðastöðvum hefði líka verið allt önnur en hún er raunverulega nú, eftir það skipulagsleysi, sem hefur ríkt í þessum efnum hjá okkur.

Nú má segja, að það skipulag hafi verið hjá okkur, að það hafi ekki á neinn hátt verið bannað, að menn gætu fengið skip sín smíðuð innanlands, og það er rétt. Það hefur verið hægt að láta smíða skipin innanlands, og meira að segja hefur það verið þannig, að stofnlánin hafa verið aðeins hærri út á innanlandssmíðuðu skipin heldur en þau, sem smíðuð hafa verið erlendis. En formið, sem gilt hefur hér hjá okkur um framkvæmdir á þessum verkum, hefur verið þannig, að það hefur verið ákaflega erfitt fyrir flesta aðila að komast í gegnum þetta form, fullnægja því, og því hefur hér orðið minna úr innanlandssmíðinni en eðlilegt hefði verið.

Það er því skoðun okkar flm. þessa frv., að það sé óhjákvæmilegt, ef það eigi að nýta innlendu skipasmíðastöðvarnar í þessum efnum til fulls og ef við eigum yfirleitt að taka að okkur þetta verk á næstu árum, að halda við okkar bátaflota og endurnýja hann, þá verði að koma til einhver einn aðili, helzt af öllu, hér innanlands á vegum ríkisvaldsins með einum eða öðrum hætti, sem gengist fyrir því að sjá um þessa skipasmíði með allsherjarsamningum við skipasmíðastöðvarnar.

Það er skoðun okkar, að það þurfi að taka nokkuð svipað á þessum málum nú og gert hefur verið áður í nokkrum öðrum tilfellum, eins og t. d. þegar Íslendingar hafa keypt togara erlendis frá, þá hefur það verið fyrir beina forgöngu ríkisvaldsins, sem séð hefur um slíka samningagerð og um slík kaup og síðan um framsölu á þeim skipum. Og þetta var einnig gert í sambandi við allmikil bátakaup erlendis frá og reyndar einnig í sambandi við bátakaup frá innlendum skipasmíðastöðvum á nýsköpunarárunum, og í nokkrum fleiri tilfellum hefur þetta einnig gilt. Við álítum því, að hið bezta væri, að ríkisvaldið hefði forgöngu um það að fela einhverjum aðila að gera áætlun, t. d. til fjögurra ára í einu, um smíði fiskiskipa eða a. m. k. þá smíði á fiskiskipum, sem telja má alveg öruggt, að við þurfum á að halda. Ég gæti ímyndað mér þessa framkvæmd þannig, að við ákvæðum t. d. smíði á fiskibátum í þremur stærðarflokkum aðallega. Þá mundi ég þar fyrst tilnefna stærðarflokkinn, sem almennt mun vera talinn sem hentugur stærðarflokkur fyrir vetrarvertíðarbáta, þ. e. a. s. báta, sem væru af stærðinni 80–120 rúmlestir. Það skiptir ekki höfuðmáli, hvort sú n., sem ætti að hafa með framkvæmdina á málinu að gera, kæmist að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að semja um 10 eða 20 eða 30 báta af stærðinni 100 tonn eða 110 tonn, — það skiptir ekki höfuðmáli. En það þarf að velja eina stærð og semja um smíði á allmörgum skipum eða allmörgum bátum af þessari tilteknu stærð og velja til þessa verkefnis nokkrar skipasmíðastöðvar á ýmsum stöðum á landinu, sem þá fengju samning um verkefni til nokkurra ára fram í tímann, t. d. til næstu fjögurra ára. Á sama hátt þarf svo að ákveða tiltekna stærð af þeim bátum, sem tilheyra stærðarflokknum undir 80 rúmlestir, en við þurfum talsvert á slíkum bátum einnig að halda hér í okkar verstöðvum víða um landið. Þar kæmi til mála að ákveða stærðina 30 rúml., 35 rúml. eða 40 rúmi. En sem sagt, sú framkvæmdanefnd, sem hefði með málið að gera, mundi velja eina stærð af þessum minni bátum og sjá svo um, að samningar yrðu gerðir við allmargar stöðvar til þess að taka þetta verkefni að sér á næstu 4 árum. Og þriðji stærðarhópurinn mundi svo vera að mínum dómi stærstu fiskibátarnir okkar, þ. e. a. s. bátar, sem væru í stærðarflokknum frá 250 rúml. til 400 rúml. eða einhvers staðar þar á milli. Og á sama hátt ætti að semja við skipasmíðastöðvarnar um að smíða tiltekinn fjölda báta af þessari stærð, og til þess veldust einnig sérstakar stöðvar, og auðvitað væri eðlilegt, að það yrði nokkurt áframhald á því hjá þeim stöðvum, sem tækju að sér að smíða bátana í stærsta stærðarflokknum, á sama hátt og það yrði um áframhald að ræða hjá hinum stöðvunum, sem tækju að sér verkefnin að smíða báta af minnstu gerðinni.

Með samningum við okkar skipasmíðaiðnað á þennan hátt væri hægt að tryggja þeim öruggt verkefni fram í tímann. Þær gætu staðið miklu betur að sínum verkefnum en þær gera nú, og ég efast ekki um það, að við fengjum á þennan hátt bæði betri skip en við höfum fengið og þó sérstaklega gætum við einnig fengið ódýrari skip en þessi algerlega sérsmíðuðu skip, þar sem einn útgerðarmaðurinn velur sér 250 tonna skip, annar 260 tonna skip og sá þriðji 270 tonna skip, en í sjálfu sér er í rauninni enginn munur á þessum skipum, nema hvert um sig verður að byggjast algerlega á sérteikningu og sérlýsingu í öllum greinum og sérsmíði á ótalmörgum hlutum.

En það þarf að tryggja fjármagn fyrir slíka framkvæmd sem þessa, og nú liggur það fyrir, að fiskveiðasjóður, sem er býsna öflugur sjóður, lánar yfirleitt út á ný fiskiskip, sem byggð eru innanlands, um 75%, og nú í seinni tíð hefur hæstv. iðnmrh. beitt sér fyrir því, án þess að til væru nokkur lagaákvæði um það, að útvega í einstaka tilfellum 10% viðbótarlán við þessi 75%, þannig að út á innanlandssmíðina hafa menn getað í einstaka tilfellum fengið stofnlán, sem nema 85%. Þessi ráðstöfun af hálfu hæstv. iðnmrh. hefur verið lofsverð. Það hefur út af fyrir sig stefnt í rétta átt og greitt heldur fyrir þessum málum í vissum tilfellum. En við álítum, að það þurfi að ákveða þetta í lögum, að út á innanlandssmíðina skuli tryggja 85%, og er þá vitanlega eðlilegast, að það verði stofnlánasjóðurinn, í þessu tilfelli fiskveiðasjóður, sem veiti allt þetta lán. En það þarf án efa í sambandi við framkvæmd af þessu tagi að taka nokkurt erlent lán til þess að styrkja fiskveiðasjóð til að geta staðið undir þessum framkvæmdum. En þegar við á undanförnum árum höfum verið að kaupa okkar fiskiskip, t. d. frá Noregi, þá höfum við alltaf verið að taka heilmikið af erlendum lánum þar með þessum skipum, því að eins og kunnugt er, hefur um 70% af verði hvers skips verið tekið að láni hjá byggingarstöðvunum erlendis, láni til 7 ára. En til þess að hægt væri að standa að þessum málum á þennan hátt, eins og við höfum hugsað okkur, yrði ríkið að gangast fyrir því að taka talsvert lán erlendis í einu lagi og veita til fiskveiðasjóðs í þessu skyni, og það fjármagn hefði komið til viðbótar því fjármagni, sem fiskveiðasjóður ræður yfir á hverjum tíma, og þannig hefði átt að vera hægt að útvega nægilegt fjármagn til þess að standa undir þessari smíði, sem hér er gert ráð fyrir.

Þó að frv. okkar um þetta yrði samþ., er augljóst mál, að það næði ekki yfir alla þessa innanlandssmíði. Hér er aðeins um það að ræða að ákveða að efna til þessara framkvæmda að tilteknu marki, ákveða vissan fjölda af skipum, sem smíðuð skulu verða með þessum hætti, en eftir sem áður gæti auðvitað verið um það að ræða, að einstakir útgerðarmenn semdu við skipasmíðastöðvarnar um byggingar fyrir sig, þar sem þeir teldu sér ekki hentugt að falla inn í þessa smíð eða þessa reglu, sem þarna gilti um. Og það gæti auðvitað staðið áfram, þar til væri búið að færa þetta kerfi svo langt út, að hér væri um það að ræða, að endurbygging og viðhald fiskiskipaflotans yrði aðallega í höndum stofnlánasjóðsins á þessu sviði. En ég býst við því, að það tæki nokkurn tíma, þangað til það færðist yfir í það form.

Hér er auðvitað um að ræða gífurlega mikið atvinnumál líka fyrir landsmenn, eins og komið er. Ég hygg, að þar sem staðið er að smíði á einu fullkomnu síldveiðiskipi fyrir landsmenn nú, skipi af stærðinni 250–300 rúmlestir, vinni nú ekki minna en 100 manns að slíku verki. 300 tonna skip mun kosta, eins og nú er komið, ef það er keypt erlendis, ekki undir 35 millj. kr. Það er að vísu engin smáræðis upphæð, en svona er nú verðlagið orðið. Ég veit um einn byggingarsamning, sem hefur verið á döfinni núna í rúmlega heilt ár. Þar var samið um smíði á einu skipi, að vísu var það rétt í kringum 400 rúml. Það kostaði þá, fyrir 1½ ári, samkv. byggingarsamningi rétt rúmar 20 millj. Svo kom gengislækkunin fyrir ári, og þá hækkaði þessi byggingarsamningur upp í 27 millj. Og nú kom gengisbreyting fyrir fáum dögum og þá þaut þetta skip í verði úr 27 millj. upp í rúmar 40 millj., svo að það er auðvitað enginn vafi á því, að hér er um miklar fjárhæðir ,að ræða, og þær verða að greiðast, þó að við semjum við norskar skipasmíðastöðvar með þeirri milligöngu íslenzkra lánastofnana, sem við gerum nú, eða hvort við stöndum að smíðinni hér innanlands. Ég held því, að það væri hægt að gera hér stórátak í atvinnumálum á allmörgum stöðum á landinu, ef við snerum okkur myndarlega að þessu verkefni. Þá held ég, að við gætum tryggt þar allmikla vinnu að mjög gagnlegum störfum fyrir okkur á mörgum stöðum, og ég held líka, að við leystum þann vanda miklu betur en við gerum nú, að tryggja það, að eðlileg endurnýjun og eðlilegt viðhald fari fram á okkar fiskibátaflota, en það er okkur alveg nauðsynlegt, af ekki á illa að fara í framtíðinni með okkar gjaldeyrisöflun. Ég óttast það fyrir mitt leyti, að eins og nú standa sakir, mundu einstakir útgerðarmenn eða útgerðarfyrirtæki ekki ráðast í það að gera samninga við erlendar skipasmíðastöðvar um kaup á nýjum skipum vegna þess, hve verðið er orðið gífurlega hátt og hve það er miklum erfiðleikum bundið að komast yfir það fjármagn, sem til þarf og leggja þarf fram strax í byrjun smíðarinnar. Ég held því, að það gæti vel farið svo eftir svo mikla gengisbreytingu eins og nú hefur verið samþ., að hér yrði alger stöðvun á endurnýjun okkar skipastóls, ef ekki kæmu til einhverjar ráðstafanir í þá átt, sem við leggjum til í þessu frv. okkar, að ríkið taki upp með beinni forgöngu sinni að semja við innlendar skipasmíðastöðvar um að taka að sér þetta verkefni.

Á undanförnum árum hefur talsvert mikið verið gert að því að bæta nokkuð aðstöðuna í okkar skipasmíðastöðvum, sérstaklega að því leyti til að gera stöðvarnar færari en þær voru áður um það að takast á við hin stærri verkefni. Það er búið að leggja talsvert mikið fé í nokkrar skipasmíðastöðvar hjá okkur, bæði vegna þjónustu við hinn stóra flota og eins líka til þess að takast á við þau verkefni að smíða ný skip. Þessa fjármuni þarf að nýta sem allra bezt. Það þarf að tryggja stöðvunum verkefni. Þetta getum við gert, en því aðeins að mínum dómi, að til komi bein forusta af hálfu ríkisvaldsins. Það er eflaust hægt að koma þessum málum fyrir á eitthvað annan veg en þann, sem við leggjum til með þessu frv. Það er okkur ekki aðalatriði, að það sé haldið stíft í þau ákvæði, sem þarna eru tilgreind, heldur er hitt aðalatriðið, að það gæti hér tekizt samkomulag um að standa að því að leysa þetta stóra verkefni, sem er bæði atvinnulegs eðlis fyrir okkur og eins til þess að tryggja okkur í framtíðinni, að við hefðum þau skip, sem við þurfum á að halda, og svo til þess að reyna að spara verulega okkar knappa gjaldeyri. En ef við látum hlutina ganga áfram á þann hátt, sem þeir ganga nú í þessum efnum, tekst okkur ekki að leysa vandann. Þá verður hér ekki smíðað mikið af skipum innanlands, hvorki stórum né smáum. Stöðvarnar verða verkefnalitlar. Og þá fer ekki heldur fram sú endurnýjun á okkar fiskiskipastól, sem þarf að fara fram, því að það má enginn láta sér það til hugar koma, þó að við eigum talsvert myndarlegan fiskibátaflota, eins og nú er komið, sérstaklega vissar stærðir af honum, að þá þurfum við ekki á mikilli endurnýjun að halda. Þessi floti gengur ört úr sér. Við töpum skipum með ýmsum hætti, og svona stórum flota þarf að halda við, hann þarf að endurnýjast.

Herra forseti. Ég legg svo til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn., ég tel það eðlilegast, og vænti þess, að n. sjái sér fært að afgreiða málið hér sem allra fyrst.