09.05.1969
Neðri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2746)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. þessu er ætlað að vera spor í þá átt að hvetja almenning til þátttöku í atvinnulífinu með fjármagni sínu, að í stað þess að nota hluta af fjármagni sínu til eyðslu, þá hafi þessir aðilar tækifæri til þess að taka þátt í atvinnurekstri og hafa af því sinn arð. Í frv. er lagt til, að allur greiddur arður njóti sömu fríðinda og vaxtatekjur af fé, sem í innlánsstofnun er, svo og skattfríðindi á öllu hlutafé. Mér er ljóst, að hér verður að sjálfsögðu að vera um takmarkaðan arð að ræða, en ég vil hins vegar ekki hafna þeirri hugmynd, að það sé ekki réttlætanlegt, að sú prósenta sé hærri en sparifjárvextir, og er greinin þess vegna orðuð með þeim hætti, sem er á þskj. Mér er enn fremur ljóst, að sjálfsagt þarf að setja takmarkanir í sambandi við skattfríðindi hlutabréfa, og slík skattfríðindi, sem hér er gert ráð fyrir að hlutabréf njóti, kalla að sjálfsögðu á nýja hlutafélagalöggjöf, sem sniðin væri út frá þeim sjónarmiðum, sem ég hér hef reifað. Auk þessa yrði að koma á verðbréfamarkaði, en ég geri ráð fyrir því samkv. lögum um Seðlabanka Íslands, að hann annist forgöngu þar um.

Í því frv., sem ég hef hér leyft mér að flytja, er um að ræða ábendingar um tvær leiðir til þess að skapa fyrirtækjum aukið fjármagn og til þess að skapa áhuga hjá fjöldanum á atvinnurekstri og gera hlutafélög almennings, stór hlutafélög, möguleg. Sjálfsagt eru fleiri sjónarmið sem og nýrri hugmyndir, sem gætu stuðlað að þessu sama, en ég taldi á þessu stigi málsins ekki rétt að hreyfa þeim sjónarmiðum. Ég varð hins vegar mjög ánægður, þegar ég sá það í blöðum skömmu eftir að þetta frv. var flutt, að hæstv. fjmrh. hafði skipað n. til að endurskoða skattalögin vegnu mögulegrar inngöngu Íslands í EFTA og þessari n. var sérstaklega falið það verkefni, auk þess sem ég gat um, að gera athuganir á skattalögunum, með hvaða hætti hægt væri að stuðla að meira eigin fjármagni hjá félögum. Ég hefði fyrir mitt leyti kannske kosið, að n. hefði verið öðruvísi skipuð, svo verður ævinlega. Ég hefði kosið, að sjónarmið þeirra, sem atvinnurekstur hafa með höndum, fengi að vera innan veggja þessarar nefndar í ríkari mæli en þau eru. Mér er ljóst, að í n. eru aðilar, sem hafa þau, og ég segi þetta án þess að kasta nokkurri rýrð á þá ágætu menn, sem skipaðir hafa verið í þessa n. Hins vegar eru þeir flestir fulltrúar skattheimtunnar, og við mundum kannske í byrjun ekki búast við frá þeim hugmyndum í þessar áttir, en ég veit engu að síður, að þeir eru allir velviljaðir menn og skilja þá þýðingu, sem atvinnureksturinn hefur, og svo hitt, að þær breytingar, sem þeir mundu leggja til að gerðar yrðu, eiga sjálfsagt eftir að fara gegnum hreinsunareldinn, þ. e. a. s. koma hér í sali Alþingis, og þeir 60 menn, sem hér sitja, að fjalla um þau mál.

Vegna þessarar n., sem ráðh. hefur nú þegar skipað, langar mig til þess að benda á, og ég veit, að ég segi honum sjálfsagt engin ný tíðindi, þegar ég get þess, að í norska Stórþinginu liggur einmitt nú fyrir frv. um skattlagningu hlutafélaga í Noregi. Í þessu frv. koma fram hugmyndir, sem ég held að væru þess verðar, að við athuguðum þær einmitt í sambandi við þá endurskoðun, sem nú fer fram á skattalögunum. Þetta frv. var lagt fram í Stórþinginu í janúar. Mér er ekki kunnugt um, hvort það er orðið að dögum, en þær hugmyndir, sem fram komu í frv., eru þess verðar, að þær séu skoðaðar.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að hlutafélög séu undanþegin því að greiða skatt af eignum. Og í öðru lagi er gert ráð fyrir því í þessu frv., að við álagningu skatts til ríkisins geti fyrirtækin krafizt frádráttar í tekjum vegna arðs af hlutabréfum, — það er eins og er í okkar skattalögum í dag, — en það er enn fremur gert ráð fyrir því, að félögin hafi rétt til þess að krefjast fjárhæðar. sem á viðkomandi reikningsári hefur verið sett í sjóð til seinni úthlutunar arðs, og þessi upphæð yrði líka undanþegin skatti. Slíkt fé, eins og þar stendur, sem á næstu 5 árum hefur enn ekki verið greitt hluthöfum, skal færa yfir aftur og við álagningu talið skattskyldar tekjur fyrir félagið á því ári, sem yfirfærslan á sér stað.

Þessi hugmynd, sem þarna kemur fram, er sambærileg við hugmyndir um að flytja á milli 5 ára tap, sem orðið hefur á rekstri fyrirtækja. En mér skilst, að samkv. íslenzkri skattalöggjöf væri ekki heimilt að haga bókhaldi þannig, að á ári, sem enginn hagnaður er, væri engu að síður greiddur arður og fyrirtæki kæmi þar af leiðandi út með tapi, sem því næmi, og það tap fengist síðan bætt á milli ára. Mér skilst, að þetta sé ekki heimilt samkv. skattalögum. Hins vegar væri mjög auðvelt að breyta þessu ákvæði í okkar skattalögum og gera arð frádráttarbæran eins og annan rekstrarkostnað. Það eru þessi tvö atriði sénstaklega í þessu frv., sem mig langaði til þess að koma á framfæri hér við umr. þessa máls.

Þá vil ég gjarnan vekja athygli á samþykkt, sem gerð var hjá Mjólkursamsölu Reykjavíkur fyrir nokkrum dögum, þar sem í tilefni af þessu frv. var bent á skattlagningu stofnfjárinnstæðna og þeirra vaxta, sem eigendur fá af þeim greiddar og lagðar eru við stofnfjársjóðina. Það gildir mjög líkt um þetta og hlutaféð, nema að því leyti að þessir aðilar eru verr settir. Þeir geta ekki ráðstafað stofnfé sínu eins og þó sá, sem hlutaféð á. Honum er frjálst að selja það.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég vonast til þess, að það að hreyfa þessu máli hér nú á hv. Alþ. gefi þeirri skoðun, sem ég held að sé mjög ríkjandi í dag, byr undir báða vængi, að við þurfum að búa betur að okkar atvinnurekstri hvað þetta snertir og gera almenningi í landinu mögulegt að taka virkari þátt í atvinnurekstrinum með myndun stórra og fjölmennra hlutafélaga. Innan veggja sala Alþ. situr í dag þm., sem hefur gerzt mikill talsmaður þessa, sem ég nú síðast gat um, og ég vildi geta þess hér til þess að undirstrika það, sem fram hefur komið einmitt í því, sem hann hefur látið frá sér fara. Ég á við hv. 10. landsk. þm., Eyjólf Konráð Jónsson. Ég vonast til þess, að hv. þm. séu mér sammála um það, að þessi atriði séu þess verð, að þau séu skoðuð.

Ég vonast svo til þess, að að umr. þessari lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.