09.05.1969
Neðri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (2748)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Mál það, sem hv. 1. þm. Reykn. hér hreyfir, er að mínu mati hið merkasta, og get ég ekki látið hjá líða að víkja að því fáum orðum, án þess þó að ég muni tefja hér umr.

Það er orðið almennt viðurkennt nú, að íslenzk atvinnufyrirtæki hafi ekki nægilegt eigið fjármagn undir höndum, eins og hæstv. fjmrh. réttilega gat um hér áðan. Löngum hefur það verið svo, að andstæðingar þeirra hugmynda, að einkarekstur væri öflugur, hafa haldið því fram, að hann hagnaðist um of, og gagnrýnt það rekstrarform. En nú er svo komið, sem betur fer, að fólk um allt land skilur nauðsyn þess, að atvinnufyrirtækin séu sem allra öflugust, og þeim skoðunum vex fylgi dag frá degi, að almenningur eigi að taka þátt í atvinnurekstri og vera meðeigandi atvinnutækjanna, sem eru undirstaða lífskjaranna.

Ég hef sett fram till. svipaðar þeim, sem hv. flm. setur hér fram, að vísu ekki alveg með sama hætti. Ég gekk ekki eins langt og hann í mínum till., taldi frekar, að til greina gæti komið að skattleggja arð og hlutabréf með svipuðum hætti og sparifé og vexti af sparifé, sem ekki er skattfrjálst í öllum tilfellum, heldur sem aðalregla.

Sannleikurinn er sá, að ríkissjóður, bæjarfélög og önnur sveitarfélög hafa sáralitlar tekjur af hlutabréfum og arði, eins og nú háttar. Ég efast um, að það nemi mörgum millj. kr. yfir landið allt, einfaldlega vegna þess, að hlutafé í fyrirtækjum er mjög lítið og arðgreiðslur mjög litlar. Þannig hygg ég ekki, að svo mundi fara, að opinberir aðilar töpuðu neinum tekjum, sem um munaði, þótt frv. það, sem hér er til umr., yrði samþykkt og skattfrelsi yrði á hlutafé og vöxtum af því. Þótt um algert skattfrelsi væri að ræða um eitthvert árabil, þá hygg ég, að það gæti orðið undirstaða mikillar tekjuöflunar ríkissjóðs og sveitarfélaga í framtíðinni, því að menn mundu þá kaupa hlutabréf í ríkum mæli, eins og gerist í öðrum löndum, og atvinnulífið mundi standa undir verulegum hluta skattbyrðarinnar hér á landi, er fram í sækti, eins og annars staðar er, gagnstætt því, sem aftur er hér, þar sem einstaklingar verða að greiða meginþorra skattbyrðarinnar, þar sem atvinnufyrirtækin eru vanmegnug að taka á sig þær byrðar.

Það er óvanalegt talið, að fjmrh. leggi með till. um að lækka skatta. Þeir verða venjulega að halda nokkuð í þá peninga, sem þeir geta fengið. Hæstv. fjmrh. lýsti hér yfir eindregnum stuðningi við þá meginhugsun, sem í þessu frv. felst. Ég hygg, að það sé bæði vegna þess, hve víðsýnn hann er, en einnig þess, hve framsýnn hann er, því að í framtíðinni munu skapast verulegir tekjumöguleikar fyrir ríkissjóð, þegar fólk hefur fjárfest í fyrirtækjunum, þau eru orðin öflug og geta staðið undir skattbyrðinni og hún verður þar af leiðandi léttari á almenningi.

En eins og ég sagði áðan, skal ég ekki lengja neitt þessar umr., heldur einungis lýsa á ný yfir stuðningi mínum við þetta mál, meginhugsun þess, og gleðjast yfir því, að hæstv. fjmrh. hefur skipað n. til að gera till. í þessu efni. Ég veit um hug hans í því og vissi raunar áður. Við höfum á vegum Verzlunarráðsins rætt þetta mál við hæstv. fjmrh., og hann hafði þá þegar lýst yfir stuðningi við þessar hugmyndir og raunar áður. Þess vegna má treysta því, að þegar á næsta þingi verði unnt að gera þær ráðstafanir, sem nægja muni til þess, að íslenzkt atvinnulíf muni eflast — og eflast einmitt á þann hátt, sem við helzt viljum, þ. e. a. s. að sem allra flestir einstaklingar í landinu verði þátttakendur í atvinnurekstri, að sem allra flestir verði fjárhagslega sjálfstæðir, en jafnframt ábyrgir fyrir því, að atvinnulífið verði rekið af þrótti og lífskjörin verði þar með eins og bezt verður á kosið.