28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (2888)

141. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Efni þessa frv., sem hér er á ferðinni, er hreint ekki nýtt í þessari stofnun. Frv. um að heimila ríkisstj. að selja umrætt Holt í Dyrhólahreppi hefur a. m. k. komið fyrir tvö þing á undan þessu. Ég hygg, að það sé rétt munað hjá mér, að í fyrsta skipti hafi flm. að því verið Ragnar Jónsson og Ágúst Þorvaldsson. Frv. var flutt í Nd. og varð ekki útrætt. Það má segja, að Alþ. hafi þá, svipað eins og sýslun. í Vestur­ Skaftafellssýslu, hliðrað sér hjá því að taka afstöðu til frv., og síðan var það aftur flutt í fyrra, þá af Guðlaugi Gíslasyni og Ágústi Þorvaldssyni, en það kom ekki til neinnar endanlegrar afgreiðslu. Þó hygg ég nú, að það sé ekki beinlínis af þeim sökum, að Alþ. veigri sér svo við að taka afstöðu til þessa frv., en landbrn. virðist ekki hafa áhuga fyrir því að fá þessa söluheimild.

Ég er ekki talsmaður þess allajafna, að ríkið kosti kapps um að selja sínar jarðir til einstaklinga. Þó hef ég gjarnan viljað ljá máls á því, að ábúendur jarða geti fengið þær keyptar, ef svo stendur á, að þeir óska sjálfir eftir því eða sækjast eftir því og ætla má, að þeir muni nytja þær jarðir og máske þeirra niðjar um einhver ókomin ár. En til þess að mönnum sé ljóst, hvers konar frv. er hér á ferðinni, þá hygg ég, að ég verði lauslega að rekja forsögu málsins.

Á Holti í Dyrhólahreppi bjuggu hjónin Jóhanna Sæmundsdóttir og maður hennar Þorsteinn, og áður hafði þessi jörð verið í eigu og ábúð sömu ættar um einhverja ættliði. Búskapur þeirra hjóna var farsæll á þessari jörð, og var ekki annað fyrirsjáanlegt en að svo gæti verið áfram. Þá kemur það til sögunnar, að vegagerð ríkisins ákveður að gera brú á þjóðveginn, Suðurlandsveginn, fram undan þessum bæ og þeim bæjum, sem hér hafa verið nefndir, Álftagróf og Felli, en hagkvæmara þótti við brúargerðina að veita saman tveimur ám, Klifandi og Hafursá, og brúa þetta í einu lagi niður á vegi. Það voru auðvitað gerðar mælingar og útreikningar á því, hvað ske mundi við samveitu þessara tveggja fljóta, og þegar þær mælingar höfðu verið gerðar, þá var bóndanum í Holti tilkynnt, að hætta væri á því, að hluti af jörðinni færi undir vatn, og honum talin trú um, að ekki væri vert að hann gerði ráðstafanir til að búa þar áfram. Hann mun þá hafa verið búinn að draga að við í nýtt hús á jörðinni, en hætti við bygginguna. Ríkið bauðst hins vegar til að kaupa af honum jörðina, og af þeim kaupum varð, en Þorsteinn bóndi fékk sér ábúð eða keypti aðra fremur litla jörð í nágrenninu, Nikhól, og flutti búsetu sína þangað. Nú hafa tímar þróazt þannig, að litlar bújarðir geta nú illa framfleytt stórum fjölskyldum. Jóhanna Sæmundsdóttir er nú komin á efri ár, en við búskap af henni hefur tekið sonur hennar eða öllu heldur synir hennar tveir, þótt aðeins annar búi með henni í Nikhól. En þó að þau seldu ríkinu jörðina á sinni tíð, hjónin Jóhanna og Þorsteinn, þá fengu þau hins vegar að halda ábúð á jörðinni og nytja hana. Það hafa þau gert, þ. e. a. s. Jóhanna, því að Þorsteinn er löngu fallinn frá, og hennar synir æ síðan. Nú er hins vegar komið að því, að Jóhanna er orðin gömul kona og líklegt, að hún muni bráðlega falla frá. Hefur þá sonur hennar, sem nytjaði jörðina, enga tryggingu fyrir því, að hann geti fengið að halda búskap sínum áfram með svipuðum hætti eins og hann hefur haft, að búa á jörðinni Nikhól og nytja jörðina í Holti, þar eð þá fellur úr gildi sú trygging, sem Jóhanna hefur fyrir Holti. Jarðeignad. ríkisins hefur líka sýnt mikinn áhuga á því að losna við ábúð Jóhönnu á Holtinu eða nytjarétt hennar á jörðinni, og hefur m. a. s. komið til þess, að jarðeignad. setti lögbann á heyskap hennar þar, og urðu út af því mikil málaferli, sem síðar féll dómur í Jóhönnu í vil. Jarðeignadeildin varð að láta þar í minni pokann og gat ekki komið fram því lögbanni á nytjarétti Jóhönnu, sem hún hafði haft í frammi tilburði til þess að framkvæma.

Það hefur hins vegar komið í ljós, að vatnaágangur á jörðina Holt varð alls ekki slíkur, sem reiknað var með, og hefur enginn verulegur hluti lands hennar farið undir vatn, þrátt fyrir samveitu þeirra vatnsfalla, sem nefnd hafa verið. Af einhverjum ástæðum hefur það mætt andstöðu, að Jóhanna og hennar afkomendur fái að kaupa aftur sína gömlu eignar- og ábýlisjörð, og landbrn. virðist ekki hafa áhuga fyrir því, að svo verði gert, enda þótt í rn. hafi nú ekki verið uppi haft sem nein pólitísk lína, að menn ættu endilega að tapa eða bíða tjón af því, þó að brýr væru byggðar á fljót í nágrenni þeirra. En þau einu rök, sem lögð hafa verið fram og takandi eru gild gegn því að leyfa Jóhönnu Sæmundsdóttur og hennar afkomendum að kaupa þessa jörð, eru þau, að jörðin liggur á milli tveggja ríkisjarða og fleygar lönd þeirra í sundur, það er alveg rétt. En það hefur heldur ekki hingað til orðið vart þeirra stefnu í landbúnaðarmálum hjá stjórnarvöldum á Íslandi að draga undir ríkið sem mest eða samfelldust lönd, og allt eru þetta lögbýli, hvert um sig, svo að það er nú kannske ekki allt of mikið upp úr því leggjandi, að þetta sé hin raunverulega ástæða. Engu að síður höfum við flm. þessa frv. og sömuleiðis minni hl. landbn. viljað taka tillit til þessara raka að vissu marki þannig að ríkissjóður þurfi ekki endilega að selja jörðina. En ef ríkissjóður vill ekki gera það, þá beri ríkinu a. m. k. siðferðileg skylda til þess að tryggja núv. ábúendum jarðarinnar, að þeir missi ekki nytjar þessa lands, þó Jóhanna Sæmundsdóttir falli frá. Þess vegna höfum við fallizt á það, sem við ætluðum að gæti orðið til samkomulags í málinu, að bæta við frv. þeirri brtt., sem nefnd hefur verið hér og hljóðar þannig: Nú verður ekki af því, að heimild þessi verði notuð á yfirstandandi ári, og skal Jóhönnu Sæmundsdóttur þá gefinn kostur á ábúð jarðarinnar með erfðafestu.

Reynslan á Íslandi er nú ekki sú, að svo margir ættliðir sækist eftir því að búa á litlum jörðum, að ætla megi, að þannig væri eignarhald ríkisins eða umráðaréttur ríkisins yfir jörðinni brotinn niður til langs tíma, en það hefur heldur ekki orðið samkomulag um þetta í n., og er því ekki um annað að gera heldur en að láta þetta mál ganga til atkv., enda væri það Alþ. vansæmd að láta það þurfa að vera að veltast hér óafgreitt fleiri þing en orðið er.