12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2935)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég tel, og er þess mjög hvetjandi, að þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, verði samþ. Eins og komið hefur fram í umr. þeim, sem hér hafa farið fram, er auðvitað ekki um það að ræða, að Ísland verði aðili að EFTA, þó að till. verði samþ., heldur aðeins um könnun á því, með hvaða kjörum við gætum öðlazt aðild. E.t.v. reynast þau skilyrði, sem við verðum að sæta, óaðgengileg og næði málið þá auðvitað ekki lengra að sinni. Ég mundi samt mjög harma það, ef svo færi, því að ég tel kosti aðildar svo mikla, að það sé vert að taka á sig nokkur óþægindi, til þess að svo megi verða og vil leyfa mér að fara um það nokkrum orðum.

Ég aðhyllist þá skoðun, að það hljóti fyrst og fremst að verða hlutverk iðnaðarins í landinu að taka við auknum fólksfjölda. Vaxtarmöguleikar sjávarútvegs og landbúnaðar — og e.t.v. eru það þessar atvinnugreinar, sem hv. síðasti ræðumaður hefur haft í huga, þegar hann talaði um svokallaða þjóðlega atvinnuvegi — eru takmarkaðir og verzlun og önnur þjónustustarfsemi getur ekki vaxið að ráði, nema á grundvelli vaxtar annarra greina. Það skiptir miklu máli, að nýjar iðngreinar, sem koma verður á fót, séu svo afkastamiklar, að þær geti tryggt þeim, sem við þær starfa og þjóðinni allri viðunandi lífskjör. Við verðum að kappkosta, Íslendingar, að geta boðið okkar borgurum lífskjör, sem séu nokkurn veginn sambærileg við þau lífskjör, sem nágrannaþjóðirnar njóta, því að ef svo er ekki, megum við búast við því að missa allt bezta og eftirsóknarverðasta fólkið úr landinu og er auðsætt, hvern hnekki efnahagslíf okkar gæti beðið af þeim orsökum. En til þess að svo megi verða, að íslenzka þjóðin geti vænzt svipaðra lífskjara og nágrannaþjóðirnar, þá þarf að framleiða fyrir svo stóra markaði, að hægt sé að nota nýjustu og hagkvæmustu tækni. Innlendi markaðurinn er í flestum tilvikum of lítill, til þess að því skilyrði geti verið fullnægt. Við þurfum því að leggja áherzlu á eflingu útflutningsiðnaðar, en til að svo megi verða, þurfum við aðgang að stórum tollfrjálsum mörkuðum, sem við einmitt mundum öðlast með aðild að EFTA. En í mínum augum er þó líka annar kostur, er slíkri aðild fylgir og engu lítil vægari. Með aðild að slíkum samtökum mundum við skuldbinda okkur til þess að beita ekki nema í hófi verzlunarhömlum í mynd hárra tolla og alls ekki beinum innflutningshöftum, nema þá í einstaka undantekningar tilfellum, sem yrði að semja um við önnur aðildarríki. Ég tel þetta æskilegt, ef ekki nauðsynlegt, með tilliti til þess, að við höfum um 30 ára skeið fyrir 1960 búið við þá skipan efnahagsmála, að innflutningshöft og hliðstæðar hömlur á öðrum sviðum voru aðal hagstjórnartækið, sem beitt var. Þá tel ég, að það sé æskilegt, ef ekki nauðsynlegt, að við veitum sjálfum okkur aðhald með því að skuldbinda okkur þannig til þess að fylgja leikreglum siðmenningar þjóða í viðskiptum.Ég held, að þessa sé ekki sízt þörf nú, með tilliti til þess að hv. stjórnarandstæðingar hafa mjög látið í það skína, að leiðin út úr efnahagsvandanum sé að hverfa aftur að gamla hafta fyrirkomulaginu, þó þeir forðist að vísu að segja það með berum orðum. Mér er þó ljóst, – ekki sízt, ef litið er á málin frá, ef svo mætti segja, stéttarlegu sjónarmiði stjórnmálamanna, — að höftin hafa vissa kosti. Þau skapa nokkra festu í stjórnmálum. Það er, eins og kunnugt er, tízka nú að gagnrýna stjórnmálamenn og við því er auðvitað ekki neitt að segja. En ég er nú samt ekki svo viss um, að við, sem nú stöndum í þeirri baráttu, séum svo miklu verri en fyrirrennarar okkar voru. En þegar það var svo, að menn gátu yfirleitt ekki fengið leyfi til þess að byggja sér íbúð eða fjós eða kaupa bíl eða jeppa, nema með fulltingi fulltrúa flokks síns í þeirri n., er leyfin veitti, þá höfðu menn aðhald um að sýna flokki sínum og forustu hans hollustu, sem þeir ekki hafa nú, eftir að frjálsræðið hefur verið ríkjandi alllangan tíma. En með þessu tel ég líka, að kostir haftanna séu upptaldir. Það kann að láta vel í eyrum að banna óþarfan innflutning, þegar erfiðleikar eru í gjaldeyrismálum, eins og nú. En hvað er óþarfi? Þar sýnist hverjum sitt, hygg ég og erfitt að fóta sig á svo hálu svelli, ef leggja á það sjónarmið til grundvallar úthlutun leyfa. Enda er það svo, að þeir mætu menn, sem farið hafa á ýmsum tímum með umboð okkar flokka í hinum ýmsu úthlutunarn., hafa fundið aðra og betri fótfestu í þessu efni. Hún er sú að spyrja: Er sá einstaklingur eða það fyrirtæki, sem um leyfið sækir, með mér og þeim flokki, sem sýnt hefur mér þann trúnað að skipa mig í þessa n., eða er hann á móti mér? Þetta var sú leikregla, sem fylgt var á haftaárunum og ég mundi gruna a.m.k. alla rosknari stjórnmálamenn, sem muna glöggt þessa tíma, um græsku, ef þeir fyndu hvöt hjá sér til þess að standa upp til að andmæla þessu. Þá mundi mig gruna, að stjórnmálakænskan bæri sannleiksástina ofurliði, sem kannske er mannlegt út af fyrir sig. Ef við lítum á innflutningsleyfin og úthlutun þeirra, þá mun e.t.v. vera reynt að meta hvort þarna væri um nauðsynjavörur eða óþarfa að ræða. En við það mat, held ég, að hafi nú verið höfð nokkur hliðsjón af því, hvort þau fyrirtæki, sem umboð höfðu fyrir þann innflutning, er um var að ræða, studdu þann flokk, sem hver einstakur nm. var fulltrúi fyrir, eða ekki, þannig að þar studdi hver sitt. Nú er það þannig með Samband ísl. samvinnufélaga, — svo að dæmi sé tekið, — sem er það fyrirtæki, sem einna tengdast hefur verið hv. Framsfl., — og segi ég það hvorki fyrirtækinu né flokknum til neins ámælis — að það er fyrirtæki, sem opinberlega birtir sína reikninga og ef við lítum á þessa reikninga, sem fyrir liggja í mjög aðgengilegu formi í afmælisriti, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. tók saman, - að mig minnir á 40 eða 50 ára afmæli Sambandsins, ég man ekki, hvort heldur var, — kemur mjög glöggt í ljós af þessum reikningum, að velta Sambandsins tvöfaldaðist eða þrefaldaðist á innflutnings haftatímabilinu fyrir stríðið jafnhliða því, sem allur annar innflutningur dróst saman. En það eru ekki hv. framsóknarmenn einir, sem hlynrit hafa að sínum fyrirtækjum. Ég tel mig líka mega fullyrða um Sósfl., sem svo var og hét, — hann mun nú eiga að lifa fram að áramótum, en endurnýjast þá í Alþb., að mér skilst, – að fulltrúar þess ágæta flokks í úthlutunarn. hafi einnig beitt sér fyrir, að fyrirtæki, sem stunduðu viðskipti austantjalds og stutt hafa flokkinn, bæru sitt úr býtum. Og þó að mér séu stjórnarflokkarnir kærir, eða Sjálfstfl. og Alþfl., þá býst ég líka við, að fulltrúar þeirra í innflutnings– og gjaldeyrisn. hafi reynt eftir megni að hygla fyrirtækjum, sem þeim var kunnugt um, að þessa flokka studdu.

Þá vil ég næst víkja að bílaúthlutuninni. Á stríðsárunum og fyrst eftir stríðið var það þannig, að innflutnings– og gjaldeyrisn. annaðist beina úthlutun bíla til einstaklinga. Ég starfaði þá um alllangt skeið í sömu húsakynnum og innflutnings– og gjaldeyrisn. starfaði ásamt núv. hæstv. viðskrh., sem að vísu mun nú ekki vera hér viðstaddur. Hvorugur okkar hafði að vísu með úthlutun innflutningsleyfa eða bíla að gera, en maður fylgdist vel með því, sem fram fór. Það mun nú að vísu hafa verið svo, að bílstjórar, læknar og aðrir, sem sérstaklega þurftu á þessum farartækjum að halda, höfðu sinn kvóta, eins og það var kallað. En hvað snerti úthlutun bílaleyfa til annarra einstaklinga, þá held ég, að þar hafi ekki aðrir komið til greina en þeir, sem nutu mikillar hylli hjá þeim stjórnmálaflokkum, sem aðild höfðu að þessari n., enda var ekki til neins lítils að vinna að fá innflutningsleyfi fyrir bíl. Kostnaðarverð bíls, eða það, sem hann kostaði þá, sem leyfi fengu, var 20—25 þús. kr., en gangverð á bílum á frjálsum markaði mun hafa verið um 70 þús. kr. vegna hins mjög takmarkaða framboðs vegna haftanna, svo að þarna gátu menn fengið skattfrjáls hæstu embættismannalaun, sem þá voru greidd, svo að það var skiljanlegt, að til þess þurfti mikla verðleika og ég held, að flokkarnir þurfi ekki að ámæla þeim, sem voru fulltrúar í þessari n. fyrir það, að þeir hafi ekki barizt þar eftir mætti, hver fyrir sínum mönnum. A.m.k. varð maður var við það á þeim dögum, sem bílaúthlutunin fór fram. Þá heyrðum við hæstv. viðskrh. töluverða háreysti í gegnum þilið, sem var á milli þess herbergis, þar sem við unnum og þess, sem n. var að störfum í. Það kom einu sinni fyrir, að almúgamaður, sem ég var dálítið kunnugur, bað mig, — af því að hann vissi, að ég vann þarna í húsinu – að grennslast um það, hvort leyfi, sem hann hafði sent til n., hefði verið afgreitt. Ég sneri mér til starfsmanns þar, og hann sagði: Góði minn, beiðni um innflutningsleyfi fyrir bíl frá óþekktum manni fer nú beint í bréfakörfuna hjá okkur.

Að síðustu, í sambandi við þetta, vil ég aðeins minnast á jeppaúthlutunina. Ég var á þingmálafundi austur á fjörðum fyrir eitthvað u.þ.b. tveim árum. Þar hélt ræðu bóndi af Fljótsdalshéraði. Ýmsum mun það kunnugt, að stjórnmálafylgi flokka þar eystra er sums staðar mjög einlitt, og bóndinn upplýsti, að í sinni sveit væru allir bændur framsóknarmenn, nema hann. Það skiptir ekki máli hverjum hinna stjórnmálaflokkanna þessi bóndi fylgdi að máli. En hann sagði í ræðunni, að hann hefði orðið að bíða eftir því að fá jeppann, þangað til innflutningurinn var gefinn frjáls. Allir hinir bændurnir voru búnir að fá leyfi fyrir jeppa. Nú mun það hafa verið þannig, — eða það tel ég víst, þó að mér sé ókunnugt um, hverjir hafa átt sæti í jeppaúthlutunarnefnd á hverjum tíma, þar eð ég hef aldrei þurft neitt undir þá göfugu n. að sækja, — að hv. framsóknarmenn hafi haft meiri hl. í þessari n. Ég er ekki að segja, að þetta dæmi hefði orðið annað, þó að það hefðu verið sjálfstæðismenn, Alþfl.–menn eða hverjir aðrir, sem hefðu haft meiri hl. n. Ég vil bæta því við, að ég er því mjög ósammála, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austf. í ræðu hans áðan, að innflutningshöft séu einhver tæki til þess að tryggja greiðsluhallalausan viðskiptajöfnuð gagnvart útlöndum. Þeim tilgangi geta þau aldrei, að mínu áliti, náð til lengdar a.m.k., eins og bæði reynsla okkar og annarra þjóða hefur sýnt. Hins vegar geta þau, eins og ég hef bent á, náð öðrum tilgangi, nefnilega þeim að efla fjárhag og aðstöðu stjórnmálaflokka, sem eru í valdaaðstöðu. En þó að ég vilji sýna stétt stjórnmálamannanna fulla hollustu, tel ég það of dýru verði keypt að fara þá leið til eflingar flokkunum og starfsemi þeirra.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa sett fram núna í umr, síðustu dagana miklar hrakspár um árangur þeirra efnahagsráðstafana, sem nú hafa verið gerðar. Þeir telja það sönnun þess, að gengislækkanirnar 1960–1961 hafi runnið út í sandinn, eins og þeir segja, að nú skuli þurfa að gera slíkar ráðstafanir að nýju, þó að það sé að vísu 7–8 árum síðar. En það er nú svo með allar efnahagsráðstafanir, bæði þær, sem gerðar hafa verið og gerðar verða, að engar slíkar aðgerðir geta leyst efnahagsvandamálin í eitt skipti fyrir öll, þannig að í þeim skilningi eru allar slíkar aðgerðir til þess að renna út í sandinn, ef menn vilja nota það orð. Það risa alltaf ný vandamál, sem mæta verður með nýjum úrræðum. En ég teldi æskilegt, að aðild okkar að EFTA gæti orðið veruleiki sem fyrst og jafnvel á þessum vetri. Við yrðum þá í framtíðinni að velja milli raunhæfra leiða til lausnar efnahagsvanda, sem á hverjum tíma kann að vera við að etja, en hefðum útilokað okkur frá hafta– og uppbótaleiðinni, sem, þegar til lengdar lætur, leiðir aðeins til spillingar og upplausnar í efnahagskerfinu.