18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (3109)

204. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist á nokkur atriði, sem fram komu í framsöguræðu minni og er að finna í þeirri þáltill., sem ég hef hér flutt.

Í fyrsta lagi sagði hann, að hún væri mjög svipuð eða bæri mikinn keim af þeirri þáltill., sem þessi hv. þm. flutti hér áðan. Hún fjallar að vísu að nokkru leyti um sama efni, en hún nær þó miklu lengra. Í þáltill. hv. 1. þm. Norðurl. e. er talað um að skipa n. til þess að endurskoða hlutverk landnámsins að því er varðar félagsræktun og heykögglagerð. Lengra nær sú till. raunar ekki. Þar er einnig að því vikið, ef ég man rétt, að sú n. skuli láta fram fara rannsóknir þar að lútandi. Rannsóknir í þessu efni hljóta, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, að heyra undir Rannsóknastofnun landbúnaðarins, eins og allar tilraunir og vísindalegar rannsóknir á sviði landbúnaðar.

Þá sagði þessi hv. þm., að ég hefði brotið hefð með því að kveða ekki á um það í minni till., hvernig sú n. væri skipuð, sem væntanlega yrði falin þessi endurskoðun. Ég hef nú ekki kynnt mér sögu Alþ., hvað þetta varðar og má vera, að hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi gert það betur, en mér virðist, að óhætt sé að fela hæstv. landbrh. þetta hlutverk. Ég geri ekki ráð fyrir því, að ef þessi till. mín verður samþ., að hann láti þessa endurskoðun fara fram án skipunar n. og ég tel ekki nokkurn vafa á því, að hann muni velja til þeirrar n. menn, sem eru nákunnugir landbúnaðinum og menn úr forystuliði félagsmálasamtaka landbúnaðarins. Hins vegar tel ég óþarft að taka það sérstaklega fram í till. sem þessari frá hvaða stofnunum á að velja hvern og einn mann.

Hv. þm. sagði, að sér skildist á þeirri till., sem ég hef hér flutt, að það væri aðalmarkmiðið að færa II. kafla jarðræktarl., þ.e. þann hluta þeirra, sem varða ríkisframlög til jarðræktar– og húsabóta, undir aðra stofnun. Ég hefði því fremur átt að flytja þáltill. um endurskoðun jarðræktarl. Það er rétt, að ég vék að þessu, en í till. er um þetta rætt á þann hátt, að það sé tekið til athugunar, hvort eigi sé ástæða til þess að samræma lög um stofnlánadeild o.fl. við önnur þau lög, er varða ríkisframlag til jarðræktar og húsabóta og að fella þau inn í stofnlánadeildarl. Það er sem sagt fram tekið í þáltill. minni, að það sé ekki einungis ætlunin með þeirri till. að fá fram endurskoðun á stofnlánadeildarl., heldur einnig á öðrum þeim lögum og lagafyrirmælum, sem varða þessi ríkisframlög til ræktunar og bygginga í sveitum landsins. Og þar eru vissulega jarðræktarl. efst á blaði. Það kom mér að sjálfsögðu ekkert á óvart, að það yrðu skiptar skoðanir um það, hvaða stofnun ætti að fela framkvæmd laga um ríkisframlög til jarðræktar og húsabóta, ef þau væru falin einni stofnun til meðferðar. Ég lét í ljós þá skoðun mína á þessu máli, að ég teldi eðlilegt fyrir ýmissa hluta sakir, einkum að því er varðar þau nánu tengsl, sem eru á milli stofnlánadeildarinnar, sem sér um lánveitingar til þessara framkvæmda, og landnámsins, að Landnámi ríkisins væri falið þetta hlutverk. Þó er ekki þar með sagt, að á það sjónarmið verði fallizt af þeim mönnum, sem til þess verða valdir að endurskoða þessi lög og er ekkert um þetta sagt beinlínis í þáltill.

Hv. þm. minntist á þýðingu Búnaðarfélags Íslands og Búnaðarþings, og dreg ég ekkert úr því, sem hann í rauninni sagði um það efni. Búnaðarfélag Íslands hefur forustu í ýmsum félagslegum málum og í framkvæmd ýmissa mála, hann nefndi t.d. jarðræktari. og búfjárl. Ég tel eðlilegt og mér hefur ekki komið annað til hugar en það sé sjálfsagt, að Búnaðarfélagið hafi framkvæmd búfjárl. með höndum og það hafi að miklu leyti framkvæmd jarðræktarl. með höndum, þó svo að útdeiling fjárins fari í gegnum annan aðila. Búnaðarfélagið hefði yfirstjórn með leiðbeiningaþjónustunni, eins og jafnan hefur verið og undir það heyrði úttekt og skipulagning jarðræktarframkvæmda, enda eru þau mál að mestu í höndum héraðsráðunautanna og kemur ekki beint við útdeilingu fjárins.

Þá talaði hv. þm. um, að á þessari till. minni og ræðu minni áðan hefði verið að skilja, að það væri verið að sjá eftir jarðræktarframlögum til bænda og hann hefði grunsemdir um, að með þessu væri stefnt að því að gera jarðræktarframlögin minni. Ég álít, að ég hafi tekið það svo tryggilega fram í minni framsöguræðu, að ekki þyrfti að orka neins tvímælis, að svo er ekki. Varðandi það, sem ég sagði, að hið misháa jarðræktarframlag hefði með óheppilegum hætti, að ég tel, í mörgum tilfellum valdið því, að bændur hafa leiðst út í það að skipta jörðunum til þess að fá enn sem fyrr aukaframlagið, þá tók ég það einmitt fram, að ég vildi við þessa endurskoðun láta athuga, hvort ekki þætti fært að afnema hámarkið og þá fengju allir bændur jafnt framlag. Út af fyrir sig er þetta síður en svo af því, að ég sjái eftir jarðræktarframlagi til þeirra bænda, sem hafa minni túnstærð. Það er fjarri því. En ég held, að það sé staðreynd, að þessi skipting á jarðræktarframlaginu hafi átt verulegan þátt í því að búta niður góðjarðir, sem í mörgum tilfellum er til verulegrar óþurftar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara öllu fleiri orðum um ræðu hv. þm. Hann er einn af starfsmönnum Búnaðarfélags Íslands, og var þess sannarlega að vænta, að hann léti eitthvað til sín heyra varðandi þær hugleiðingar mínar, sem ég vakti máls á hér áðan um aðra skipan á framkvæmd laga um ríkisframlög til jarðræktar, húsabóta og tæknibúnaðar í sveitum. En ég held, að það hafi verið ástæðulaust af honum, miðað við þá ræðu, sem ég flutti áðan, að gera því skóna, að ég væri með flutningi þessarar till. að stefna að því að draga úr framlögum til þessara framkvæmda bænda og verða þeim þannig til óþurftar. Það held ég sé algerlega út í hött.

Ég vil svo aðeins að lokum segja, að verði þessi till. samþ., þá vænti ég þess enn, að út úr þeirri endurskoðun komi löggjöf, sem verði landbúnaðinum um þetta efni ekki síður hagstæð en sú löggjöf, sem nú er búið við. Og það er alls ekki óeðlilegt, að sú heildarendurskoðun fari fram, sem ég hef hér minnzt á, þegar þess er gætt, að margsinnis er búið að breyta ýmsum smærri ákvæðum þessara laga og fyrir þingi liggja nú eitt frv. og ein þáltill., er varða einstaka þætti þeirra. Ég tel, að þegar þannig hefur hvað eftir annað verið breytt ýmsum smærri ákvæðum laga, hljóti að koma að því, að heildarendurskoðun þurfi að fara fram.