12.12.1968
Efri deild: 26. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. hæstv. ríkisstj. um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu, var til umr. í sjútvn. Ed. s.l. þriðjudag. Í nefndinni varð ekki samkomulag um afgreiðslu málsins eins og fram kom hjá frsm. meiri hl. Í ljós kom, að meiri hl. n. leggur á það mikla áherzlu að hraða málinu. Minni hl. telur hins vegar, að hér sé um svo mikilvægt mál að ræða, að kanna beri til hlítar hin ýmsu ákvæði þess. Sérstaklega telur minni hl., að sjútvn. hefði átt að ræða við þá aðila, sem eiga þarna sérstakra hagsmuna að gæta, fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna. Meiri hl. n. taldi hins vegar ekki nauðsynlegt að verða við þeim tilmælum. Verður að telja þá meðferð þessa þýðingarmikla máls afar ámælisverða. Slíkt getur orðið örlagaríkt fyrir íslenzkan þjóðarbúskap.

Minni hl. sjútvn. hefur orðið sammála um það nál., sem hér liggur fyrir, og leggur til, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Mun ég nú ræða nokkuð ýmis meginatriði frv. og aðrar forsendur þeirrar niðurstöðu.

Í I. kafla frv., sem fjallar um ákvörðun fiskverðs og Stofnfjársjóð, er gert ráð fyrir að skerða mjög verulega hlut sjómanna og breyta þar með lögum gildandi kjarasamningum. Rétt er að líta á það mál frá ýmsum hliðum. Hæstv. sjútvmrh. upplýsti í framsöguræðu sinni með þessu frv., að ráðgert væri, að sjómenn fengju sömu hækkun launa að hundraðshluta og hæstv. ríkisstj. ætlar að skammta öðrum láglaunastéttum. Þessi hækkun mun nema um það bil 11%. Ljóst er því, að fiskverð hlýtur að hækka um þá sömu hundraðstölu. Í þessu sambandi verður þó að athuga, að ríkisstj. greiðir nú uppbót á línufisk, sem nemur allt að 6C aurum á hvert kg. Nú mun ráð fyrir gert, að þessi greiðsla ríkissjóðs falli niður, en ef hlutur sjómanna á ekki að skerðast að sama skapi, hljóta aðrir aðilar en fiskkaupendur sjálfir að verða að bera þessa greiðslu. Það skal að vísu viðurkennt, að þetta er ekki nema lítill hluti af aflanum.

Ofan á hið svo kallaða fiskverð, sem Verðlagsráð sjávarútvegsins þannig ákveður, leggjast síðan 10% samkv. 2. gr. frv., og rennur sú fjárupphæð í Stofnfjársjóð fiskiskipa. Samkv. 3. gr. skal fiskkaupandi loks greiða 17% af fiskverði því, sem ákveðið er af Verðlagsráði sjávarútvegsins, beint til útgerðarmanns. Hvorugt þessara gjalda er hins vegar tekið með í fiskverði því, sem Verðlagsráð sjávarútvegsins ákveður. Þegar tekið er tillit til þess, að umræddar upphæðir leggjast á fiskverð, sem er nokkru hærra en það, sem nú gildir, og sömuleiðis til þeirrar greiðslu, sem ég nefndi áðan, að fiskkaupendur hljóta nú að verða að greiða af línufiski, sýnist mér, að hækkun á fiskverði geti numið allt að 56%. Lægri verður hækkunin fyrir annan fisk en línufisk, en fyrir síld og humar, sem greiða hærra gjald til Stofnfjársjóðs, verður hækkunin eitthvað svipuð. Hér er því um gífurlega hækkun á fiskverði til fiskkaupenda og neytenda að ræða, og sú spurning hlýtur að vakna, hvort þessir aðilar geti staðið undir þessari miklu hækkun.

Nú mætti ætla, að hlutur útgerðarmanna væri vel tryggður með þessari miklu hækkun á fiskverði. Þess ber þó að gæta, að útgerðarmönnum sjálfum er nú ætlað að taka á sig ýmislegt, sem hið opinbera greiddi áður. Í fyrsta lagi má nefna uppbótina á línufisk, sem að vísu er ekki nema af litlum hluta aflans, eins og ég sagði fyrr, en í öðru lagi og eins og fram kemur í 7. gr. frv. og í grg., hefur ríkissjóður á árinu 1968 greitt 124 millj. kr. til Stofnfjársjóðs. Ætlunin mun nú vera sú, að þessi upphæð falli niður, en útgerðarmenn greiði hana sjálfir og sjómenn að sínum hluta. Samkv. upplýsingum frá fundi Landssambands ísl. útvegsmanna munu eftirstöðvar af þeirri gífurlegu hækkun á fiskverði, sem hér hefur verið rætt um, ekki hjálpa til þess að greiða þá miklu hækkun á reksturskostnaði útgerðarinnar, sem verður vegna gengisfellingarinnar. Þegar jafnframt er tekið tillit til þess hluta gengistapsins, sem útgerðin verður sjálf að standa straum af, er ljóst, að þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, munu jafnvel ekki tryggja rekstur fiskiskipaflotans.

Langsamlega verstur verður þó hlutur sjómanna. Gildandi kjarasamningum þeirra er rift með lögum. Sýnist mér ljóst, að kjaraskerðing sjómannastéttarinnar verður meiri en flestra — ef ekki allra — annarra láglaunastétta í landinu. Viðurkennt hefur þó verið, að laun sjómanna væru, ef nokkuð, of lág. Á bátana verður að tryggja úrvalsmannskap. Sjómenn setja sig í miklar hættur og eru oft langtímum saman fjarri heimilum sínum. Í frv. hæstv. ríkisstj. er mjög óverðuglega að þessari mikilvægu stétt vegið.

Eins og fram kemur í nál., telur minni hl. sjútvn. ekki ólíklegt, að breyta þurfi að einhverju leyti núgildandi hlutaskiptum. Mikil breyting hefur orðið á útgerð allri á undanförnum árum. Bátar hafa orðið stærri og dýrari og sömuleiðis veiðitæki öll. Fjölmörg dýr tæki eru nú auk þess orðin fastur hluti af hverjum bát. Ætla verður, að þessi þróun hafi að vísu aukið allverulega aflagetu bátanna og arðsemi þeirra. Engu að síður má telja eðlilegt, að kostnaður við ofangreinda þróun verði greiddur að nokkru með hlutdeild í aflanum. Ef breyta verður hlutaskiptum, telur minni hl. hins vegar sjálfsagt, að slíkt verði gert með frjálsum samningum sjómanna og útgerðarmannanna. Virðist engin ástæða til þess að ætla, að slíkir samningar hefðu ekki náðst, a.m.k. að óreyndu. Sjómenn hafa sýnt, að þeim er eðlilegur rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins mikið kappsmál. Á undanförnum erfiðleikamánuðum, þegar stöðvun sjávarútvegsins hefur blasað við víða um land, hafa sjómenn mjög oft og ef til vill víðast lánað laun sín um lengri eða skemmri tíma. Sama hafa útgerðatmenn gert. Þeir hafa lánað andvirði aflans. Eiga þessir aðilar enn þá útistandandi hjá fiskkaupendum stórar upphæðir víða um landið og í mörgum tilfellum er enn algerlega óljóst, hvernig þau mál verða leyst og skuldirnar greiddar.

Fremur en sú einhliða kjaraskerðing sjómanna, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., telur minni hl. n. eðlilegt, að ríkisstj. hafi forystu um að lækka rekstrarkostnað og bæta afkomu útgerðarinnar á sérhvern annan máta eins og unnt reynist. Í því sambandi vil ég leyfa mér að vekja athygli á fáeinum atriðum:

Breyta mætti lausaskuldum útgerðarinnar í löng lán. Vexti af lánum til útgerðarinnar ætti að lækka. Kanna þarf vandlega hina ýmsu kostnaðarliði útgerðarinnar og markvisst stefna að því að lækka þá. Má í þessu sambandi benda á olíukostnað, sem er orðinn gífurlegur liður og langtum hærri, að því er upplýst er, en vera mun í nágrannalöndum okkar. Ljóst er, að þennan kostnaðarlið verður að lækka. Mætti í því sambandi athuga landsverzlun með olíu og losna þannig við hið margfalda dreifingarkerfi, sem hér ríkir nú.

Viðhaldskostnaður fiskiskipanna er mjög hár liður. Nú mun vera greiddur um 35% tollur af varahlutum, þótt sáralítill tollur sé á öðrum rekstrarvörum útgerðarinnar. Sjálfsagt virðist að fella að mestu leyti niður þennan toll. Nú tíðkast það mjög oft, að tiltölulega heilum vélum er hent, því að nýjar vélar eru með lægri toll. Þetta er ekki eðlilegt.

Útgerðarmenn eru nú iðulega nauðbeygðir til þess að lána verulegan hluta, ef ekki allt verðmæti aflans, um lengri eða skemmri tíma án þess að fá nokkrar viðunandi tryggingar fyrir greiðslu. Sjálfsagt virðist að tryggja útgerðarmönnum að sínum hluta greiðslu fyrir aflann, þegar afurðalán eru veitt og framleiðslan veðsett.

Þannig mætti eflaust nefna fleiri liði, sem bætt gætu rekstrargrundvöll útgerðarinnar. Ef dæma má af viðbrögðum hæstv. ráðh., verða svör þeirra hins vegar eflaust þau, að sérfræðingarnir telji, að úrræði eins og þau, sem hér hafa verið nefnd, séu einskis nýt og ekki umræðuhæf. Ég leyfi mér þó að fullyrða, að verulega mætti bæta hag útgerðarinnar án þess að skerða kjör sjómanna, ef skipulega og markvisst er að þeim málum unnið. Það mikilvægasta er þó e.t.v. það, að slík meðferð þessa máls mundi sýna vilja hæstv. ríkisstj. til þess að vinna með hinum ýmsu stéttum að lausn erfiðleika þeirra, sem þær eiga við að stríða í dag.

Gert er ráð fyrir því að efla verulega Stofnfjársjóð fiskiskipa, sem stofnsettur var með l. nr. 58 frá 6. maí 1968. Hér heldur hæstv. ríkisstj. áfram á þeirri braut að taka í sínar hendur forsjá sem flestra þátta íslenzks atvinnulífs. Í þessum sjóðum er fjármagninu haldið oft lengri eða skemmri tíma á meðan verðbólgan heldur afram að rýra kaupmátt þess. Fróðlegt væri að vita, hve mikið fjármagn glatast í þessari meðferð. Það er áreiðanlega ekki lítið. Ekki virðist mér það heldur æskileg þróun, að nú þurfa útgerðarmenn ekki lengur að standa sjálfir í skilum beint við Fiskveiðasjóð með greiðslur vaxta og afborgana. Það gerir hinn opinberi Stofnfjársjóður. Mér finnst þetta óeðlileg þróun, og varla samræmist hún slagorði Sjálfstfl. um hið frjálsa framtak.

Í II. kafla frv. er fjallað um útflutningsgjöld af sjávarafurðum. Gert er ráð fyrir því að hækka gjaldið allverulega. Samtals nemur hækkunin um 48 millj. kr. samkv. áætlun í grg. frv. Mun langsamlega mesti hlutinn af þessu gjaldi renna til greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa eða um 80%. Er hér um að ræða verulega hækkun frá því, sem verið hefur. Enn er haldið áfram á sömu braut. Aukin gjöld eru lögð á atvinnuvegina. Fjármagn er lagt í sjóði, sem veita síðan hinum sömu atvinnuvegum lán af þeirra eigin fé eða taka að sér greiðslu á ýmsum sjálfsögðum gjöldum atvinnurekandans sjálfs. Eins og ég hef áður sagt, sýnist mér þessi þróun mjög vafasöm og vísa ég í því sambandi til þess, sem ég hef áður sagt um Stofnfjársjóð fiskiskipa.

Til Fiskveiðasjóðs Íslands er gert ráð fyrir, að renni 12.7% af útflutningsgjaldinu og 3.5% til Fiskimálasjóðs. Samtals er gert ráð fyrir því, að til þessara sjóða renni 60 millj. kr. ár hvert. Þannig stendur sjávarútvegurinn sjálfur undir lánastarfsemi þessara sjóða, en ekki hið almenna útlánakerfi í landinu.

Til byggingar haf- og fiskirannsóknarskips er gert ráð fyrir, að renni 2% og til byggingar rannsóknastofnunar sjávarútvegsins 0.8%. Um þessar framkvæmdir er ekkert nema gott að segja. Þær eru báðar mjög nauðsynlegar fyrir alla rannsóknarstarfsemi í þágu sjávarútvegsins. En mér sýnist rétt að vekja athygli á því, að niðurstöður nýlokinnar athugunar Rannsóknaráðs ríkisins benda til þess, að hlutdeild hins opinbera í rannsóknakostnaði hér á landi hafi lækkað frá 1957 til 1965 úr um 90% af heildarrannsóknakostnaðinum niður í rúmlega 70%. Aukin þátttaka atvinnuveganna í rannsóknastarfseminni er að vísu mjög eðlileg og æskileg. Hins vegar þyrfti slík þátttaka að stafa af vaxandi skilningi þeirra sjálfra á vísindastarfseminni fyrir atvinnulífið og framlögin að vera af frjálsum vilja. Því miður hefur þetta ekki tekizt eins og skyldi. E.t.v. stafar þetta að nokkru af þeirri tilhneigingu þess opinbera að seilast í vasa atvinnuveganna með lögum og taka þaðan í vaxandi mæli fjármagn til rannsóknastarfseminnar. Í þessu sambandi má vekja athygli á því, að það rannsóknarskip, sem við höfum nú fengið, er ekki fengið fyrir forgöngu hæstv. ríkisstj., heldur fyrir forgöngu síldarútvegsins sjálfs.

Í 6. lið 10. gr. er lögbundið framlag til Landssambands íslenzkra útvegsmanna 0.5%. Furðulegt má það vera, ef útvegsmenn sjálfir mundu ekki af frjálsum vilja greiða þátttökugjald sitt í þessum mikilvægu samtökum þeirra.

Enn hef ég þó ekki rætt um mikilvægasta liðinn í skiptingu útflutningsgjaldsins, greiðslu af vátryggingariðgjöldum fiskiskipa, sem nemur 80% af útflutningsgjaldinu, eins og fyrr segir. Eins og fram kemur í grg. með frv., er talið, að ætla verði Tryggingasjóði fiskiskipa meiri tekjur en samsvarar hækkun vegna gengisfellingarinnar. Þetta er sú sama þróun og verið hefur undanfarin ár. Tryggingakostnaður fiskiskipa hefur stöðugt hækkað. Mun þessi liður nú vera orðinn tiltölulega langtum hærri hér á landi en almennt er í nágrannalöndum okkar. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess, að útgerðarmenn greiða enn sjálfir nokkurn hluta af tryggingaiðgjöldum. Þeir greiða t.d. kostnaðarverð tryggingar áhafnar og tryggingar afla og veiðarfæra, auk þess, sem þeir geta orðið að bera miklar tryggingaupphæðir, ef sérstök óhöpp vilja til. Samkv. reikningum þriggja báta af mismunandi stærð, sem ég skoðaði, námu eigin tryggingargreiðslur útgerðarmannanna í tveimur tilfellum 2% eða rúmlega það, en í einu tilfelli nálægt 12% af reksturskostnaði bátsins, enda var þá um sérstakt tjón að ræða. Gert er ráð fyrir því að hækka magngjaldið úr 2% í 3.2% af fob-verðmæti ýmissa afurða. Fellur framleiðsla frystihúsanna að mestu leyti undir þetta gjald. Líklega má nokkurn veginn tvöfalda þetta gjald, ef það er reiknað af aflaverðmæti bátanna. Þannig yrði framlag sjávarútvegsins til Tryggingasjóðs um 80% af þeirri upphæð eða í þessu tilfelli um 5% af aflaverðmæti. Samanlagður tryggingakostnaður þeirra tveggja báta, sem ég nefndi áðan, verður því um 7–8% af rekstrarkostnaði. Síldarafurðirnar eru hins vegar í langtum hærri gjaldflokki. Við síldveiðarnar er þessi hundraðshluti tryggingargjalda því langtum hærri.

Öllum má vera ljóst, að umræddur tryggingarkostnaður fiskiskipa er orðinn óeðlilega hár. Kerfið allt er jafnframt orðið æðimargbrotið með tryggingasjóði, samábyrgð, stöðugt fjölgandi tryggingarfélögum með vafasama pappíra mörg hver. Því er ljóst, að hefja verður nú þegar heildarendurskoðun á öllu tryggingakerfi fiskibátanna. Má ætla, að með samræmdu átaki hins opinbera og útgerðarmanna megi stórbæta alla framkvæmd þessara mála og lækka iðgjöld verulega. Eðlilegra hefði verið, að hæstv. sjútvmrh. hefði snúið sér af krafti að því verkefni fremur en að hækka útflutningsgjald á sjávarútveginum.

Um ráðstöfun gengishagnaðar sér minni hl. sjútvn. ekki ástæðu til að fjölyrða. Það er lofsverð breyting frá fyrri gengisfellingum, að gert er ráð fyrir því að verja gengishagnaðinum í þágu þeirra aðila, sem hann skapa, í þessu tilfelli sjávarútvegsins. Eflaust má lengi deila um skiptingu gengishagnaðar. Gert er ráð fyrir því að greiða gengishagnaðarsjóði nálægt því helming gengistaps af lánum vegna fiskiskipa, sem byggð hafa verið erlendis. Þetta virðist sjálfsagt, en staðreyndin mun þó vera sú, að sá hluti þessa gengistaps, sem útgerðarmenn sjálfir verða að bera, muni reynast þeim ærið þung byrði, ekki sízt eftir nýafstaðna aðra gengisfellingu. Virðist nauðsynlegt að tryggja þessum aðilum frekari fyrirgreiðslu.

Það vekur einnig athygli, að 18.2% gengishagnaðar á að renna til greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa. Þetta er eflaust nauðsynlegt, en gefur hins vegar ástæðu til þess að undirstrika það, sem ég sagði áðan, að tryggingamál fiskiskipa verður að endurskoða hið fyrsta.

Í 15. gr. frv. er sjútvmrn. veitt heimild til að ráðstafa gengishagnaði þeim, sem inn kemur vegna sölu skreiðar, til styrktar skreiðarframleiðendum. Sömuleiðis eru rn. í öllum liðum 16. gr. veittar svipaðar heimildir, m.a. er í e-lið veitt heimild til þess að ráðstafa afgangi gengishagnaðarsjóðs. Ekki er ljóst, hver hagnaður verður af sölu skreiðarinnar, en samkv. 16. gr. verður afgangur gengishagnaðarsjóðs a.m.k. 17.4%, en getur orðið langtum meiri, ef aðrar heimildir í þessari sömu grein eru ekki nýttar til hins ýtrasta. Er hér um að ræða a.m.k. 130 millj. kr., ef heildarupphæð gengishagnaðar verður um 740 millj. kr. eins og fram kemur í grg. Ýmsir hafa þó talið, að þessi upphæð verði töluvert hærri. Ljóst er, að hæstv. sjútvmrh. fer hér fram á heimild til þess að mega ráðstafa gífurlegum fjárupphæðum án samráðs við Alþ. Er enn leitazt við að draga úr afskiptum Alþ. af mikilvægum málum. Minni hl. sjútvn. telur slíkt í hæsta máta óeðlilegt.

Ég hef nú rætt meginþætti umrædds frv. Sérstaklega hef ég séð ástæðu til að ræða nokkuð ítarlega um I. kafla frv., enda er það skoðun minni hl. sjútvn., að ákvæði þessa kafla geti orðið æðiörlagarík fyrir íslenzkan þjóðarbúskap. Ég hef leitt rök að því, að þær ráðstafanir, sem þar er um rætt, leysi raunar engan vanda. Hækkun á fiskverði mun verða svo gífurleg, að vafasamt má telja, að fiskkaupendur fái undir henni risið, hvað þá neytendur. Einnig er langt frá því, að séð sé fyrir öllum kostnaðarauka útgerðarinnar vegna gengisfellingarinnar, en vinnufriðnum er stefnt í voða og vetrarvertíðinni. Byrðinni er hins vegar að mestu varpað á herðar sjómanna, sem lengi hafa þó verið stolt okkar Íslendinga. Staðreyndin er sú, að viðreisnarstefnan, frjálshyggjan, eins og sumir kalla hana, eða stjórnleysisstefnan, eins og hún er kölluð af almenningi í daglegu tali, hefur komið íslenzkum sjávarútvegi í slíka fjárhagslega úlfakreppu, að út úr þeim nauðum verður ekki komizt nema með gjörbreyttri stefnu og í áföngum. Vissulega er það rétt, að verðfall og aflabrögð hafa valdið sjávarútveginum miklum erfiðleikum. Staðreyndin er hins vegar sú, að undanfarin ár eru að meðaltali þau beztu, sem við Íslendingar höfum búið við. Það er einnig oft svo, að erfiðast er að stjórna í góðærinu. Það má vera rétt, sem margir telja, að þar hafi viðreisnarstjórnin brugðizt jafnvel mest.

Minni hl. hefur bent á ýmis atriði, sem athuga ætti til lækkunar á rekstrarkostnaði útgerðarinnar og í þeim tilgangi að bæta aðstöðu hennar. Mikilvægast er þó, að hugarfarsbreyting verði hjá hæstv. ríkisstj. og hún leiti eftir nánu samstarfi við þá aðila, sem hagsmuna eiga að gæta, í þessu sambandi sjómenn og útgerðarmenn, í stað þess að stofna til ófriðar. Í því felst meginmismunurinn á stefnu hæstv. ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar. Hæstv. sjútvmrh. hótaði því, samkv. frásögn blaða, á fundi Landssambands ísl. útgerðarmanna, að ríkisstj. mundi segja af sér, ef frv. næði ekki fram að ganga, og Heimdellingar hóta hæstv. forsrh., að þeir muni ekki styðja stefnu hans, ef niðurrifsöflin í landinu, eins og sagt er, koma í veg fyrir framkvæmd þeirrar efnahagsstefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur þannig markað. Niðurrifsöflin munu vera launþegasamtökin í landinu. — Hótanir geta aldrei leitt til góðs í þessu sambandi. Reyndar grunar mig, að stærsti og vaxandi hluti þjóðarinnar í dag taki þessum hótunum með fögnuði. Fólkið sér í þeim nokkra glætu. Það gerir sér grein fyrir því, að ekkert er mikilvægara fyrir framtíð íslenzku þjóðarinnar nú en að viðreisnarstjórnin fari frá.

Í nál. vekur minni hl. sjútvn. athygli á einróma samþykkt Alþýðusambandsþings þess efnis, að ekki verði gengið til samninga við hæstv. ríkisstj. um kjaramál, nema tryggt sé, að engum lögþvingunum verði beitt. Þetta var undirstrikað á fyrsta stjórnarfundi Alþýðusambands Íslands eftir þingið, þar sem kosin var 5 manna nefnd, sem gekk á fund hæstv. ríkisstj. og gerði grein fyrir afstöðu launþegasamtakanna til þessa frv., sem hér er til umr. Er lögð áherzla á, að frv. verði lagt til hliðar, á meðan um kjaramálin er rætt. Sjómannaráðstefnan, sem Sjómannasamband Íslands kallaði saman um síðustu helgi, og stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands samþykktu harðorð mótmæli gegn frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjómannaráðstefna haldin á vegum Sjómannasambands Íslands 8. desember 1968 og stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands mótmæla harðlega frv. til l. um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar á gengi íslenzkrar krónu, sem liggur nú fyrir Alþ., að því leyti, er það skerðir kjör sjómanna. Í frv. er gert ráð fyrir að skerða mjög mikið með lögum samningsbundinn hlut sjómanna á fiskiskipum, er næmi um það bil 1/3 hluta af því, sem gildandi hlutaskiptasamningar ákveða. Sjómannasamtökin vilja leiða athygli að því, að fjöldi af sjómönnum á fiskiskipum hefur þegar á þessu ári og því síðasta tekið á sig mjög mikla skerðingu á tekjum með minnkandi afla og lækkuðu aflaverði, sem nemur í mörgum tilfellum helmingi tekna eða meira, auk þess, að þar sem fiskimenn eru langtímum saman fjarri heimilum sínum, verður kostnaður þeirra í mörgum tilfellum miklu meiri en ef þeir væru heima. Algengt er orðið nú, að fæðiskostnaður, er þeir greiða um borð, taki um það bil 1/3 hluta umsaminna lágmarkstekna þeirra. Og er því slík ráðstöfun, sem gert er ráð fyrir í frv., að taka stóran hluta af samningsbundnum hlut sjómanna og færa hann útgerðarmönnum, með öllu ófær og óréttlætanleg. Vandamál útvegsins verða því ekki leyst með slíkri aðför að kjörum sjómanna. Sjómannasamtökin leyfa sér því að skora á hið háa Alþ. að fella þær greinar frv., sem segja fyrir um skerðingu á hlut sjómanna. Verði hins vegar sú raun á, að Alþ. samþykki frv., telja samtökin, að fallnar séu forsendur fyrir áframhaldandi gildi hlutaskiptasamninganna og fela stjórnum sambandanna að gera nú þegar nauðsynlegar ráðstafanir til að losa gildandi samninga og jafnframt að undirbúa í samráði við önnur stéttarsamtök sjómanna, sem hlut eiga að þessu máli, að rétta hlut sjómanna á fiskiskipum með nýjum samningum eða með öðrum hætti. Sjómannasamtökin heita á öll samtök sjómanna og sjómannastéttina í heild að standa vel saman sem einn maður til varnar sínum hlut.“

Niðurstöður launþegasamtakanna eru tvímælalausar, sjómenn geta ekki sætt sig við þá kjaraskerðingu, sem frv. hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir. Ljóst er, að vinnufriðnum er stefnt í voða og vetrarvertíðinni. Það er því einróma niðurstaða minni hl. sjútvn. að vísa beri umræddu frv. frá með þeirri rökstuddu dagskrá, sem hér liggur fyrir.