21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (3123)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Góðir hlustendur nær og fjær. Hv. viðskrh. ræddi um skyldur stjórnmálamanna í lýðræðislandi. Nokkuð var sú ræða einhliða og gekk út á að sannfæra hlustendur um, að stjórnarandstaðan hefði brugðizt skyldum sínum. Þeirri fullyrðingu vísa ég til föðurhúsanna, því að stjórnarandstaðan hefur fylgt fram þeirri skyldu sinni að sýna fram á mistök og stjórnleysi ríkisstj. Hins vegar hefur ríkisstj. brugðizt einni höfuðskyldu sinni, sem er að segja af sér, þegar hún hefur ekki lengur vald á verkefni sínu.

Vantraust á núverandi ríkisstj. er auðvelt að rökstyðja, vegna þess að rökin blasa við hvers manns augum. Ríkisstj. er ekki vanda sinum vaxin. Ræður tveggja ráðh. hér í kvöld breyta ekki þeirri staðreynd í neinu, heldur staðfesta, svo að ekki verður á móti mælt, að það eru þreyttir menn og úrræðalitlir, sem halda um stjórnvöl íslenzku þjóðarskútunnar í dag. Þeir hafa ekki upp á aðra leið að bjóða en endurtekna gengisfellingu og bjóða síðan upp á eitthvað, sem þeir kalla samninga við launþegasamtökin um einhver meira og minna ótiltekin atriði. Launþegasamtökin hafa vonda reynslu af slíkum samningum við ríkisstj. og ástæðu til að gjalda varhug við slíku samningstilboði. Það, sem er nauðsynlegt, er að fá fram stefnubreytingu í íslenzkum efnahags– og fjármálum. Það er nauðsyn hugarfarsbreytingar hjá íslenzkum valdamönnum.

Hin mótaða stefna ríkisstj. og hugarfarið, sem að baki býr, er að leiða þann ófarnað yfir þjóðina, sem e.t.v. verður aldrei bætt fyrir. Það er engin

fjarstæða að láta sér til hugar koma, að ef svo heldur sem horfir, sé stefnt að hreinu ríkisgjaldþroti. Það er ástæða til að hugleiða í fullri alvöru, hvort málum okkar sé ekki í rauninni svo komið, að við kynnum að glata fjárhagslegu sjálfstæði okkar að óbreyttri stjórnarstefnu og án hugarfarsbreytingar hjá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar. Við erum m.a. komnir á slíkan skuldaklafa gagnvart útlendingum, að vandséð er, hvernig undir verður risið, enda máttarstoðir efnahagslífsins holgrafnar eftir margra ára ófremdarstjórn. Krafa um stefnu– og hugarfarsbreytingu er því ekki að ófyrirsynju. Það er krafa, sem hugsandi menn í öllum stjórnmálafl. og af öllum starfsstéttum taka undir. Það er krafa, sem pólitískir þrásetumenn geta ekki skellt skollaeyrum við.

Ríkisstj. skýrir efnahagserfiðleikana þannig, að þeir stafi af tímabundnum orsökum, verðfalli, söluörðugleikum og aflabresti. Víst eru þetta nokkur rök, en harla léttvæg. Það er svo komið, að efnahags– og atvinnulífi verður ekki haldið gangandi, nema saman fari metafli og beztu markaðsskilyrði. Efnahagskerfi viðreisnarinnar þolir hvorki meðalafla né meðalverðlag. Það hrynur til grunna, þegar nokkuð blæs á móti um sinn. Af lítilli fyrirhyggju, en miklum misskilningi á eðli íslenzks atvinnulífs, hefur ríkisstj. timbrað upp fölsku eyðslukerfi, sem nú riðar til falls. Orsök núverandi efnahagskreppu, liggur því fyrst og fremst í stjórnarstefnunni sjálfri. Þess vegna er þörf á stefnubreytingu.

Það er útilokað að einhliða gengisfelling sé varanleg úrbót á ríkjandi kreppuástandi. Allir heilvita menn sjá, að það er óðs manns æði að ætla að stjórna efnahagslífinu með gengisfellingum, eins og nú er gert. Því miður virðist t.d. hv. forsrh. ekki gera sér þetta ljóst, eins og lofgerð hans um gengisfellinguna hér í kvöld bar vitni um. En af leið gengisbreytinganna, gengisfellinganna, verðum við að hverfa inn á nýja braut, sem hefur að markmiði að vernda verðgildi krónunnar og veitir tryggingu fyrir því, að slíku markmiði megi ná. Til þess að ná slíku markmiði er óumflýjanlegt að taka upp nýja stjórn á efnahagsmálum, taka upp nýja stjórnarhætti í banka– og lánamálum, í gjaldeyris– og fjárfestingarmálum. Við verðum einnig að gera okkur ljósan muninn á efnahagslegum grundvelli okkar þjóðfélags og ýmissa annarra þjóðfélaga. Á þessu tvennu er ærinn munur, sem leiðir til þess, að við verðum að sætta okkur við ýmsar aðrar aðferðir í efnahagsstjórn en gilda í hinum auðugu iðnaðarríkjum Evrópu. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að Ísland er ekki iðnaðarland í eiginlegum skilningi, þó að iðnaðarstéttin sé fjölmennasta starfsstétt þjóðfélagsins og ein hin þarfasta. Í efnahagslegum skilningi erum við bænda– og fiskimannaþjóð, og svo lengi, sem við búum við núverandi efnahagsmálagrundvöll, þ.e.a.s. á meðan við erum bænda– og fiskimannaþjóð, verðum við líka að haga stjórn efnahagsmála í samræmi við það.

Framsóknarmenn marka andstöðu sína gegn núverandi stjórnarstefnu m.a. á þessu atriði. Við verðum að stjórna efnahagsmálum okkar í samræmi við okkar sérstöku aðstæður. Undanfarin ár hefur þetta ekki verið gert. Þess vegna er nú komið, sem komið er. Þess vegna er atvinnulíf landsmanna að meira eða minna leyti stöðvað. Þess vegna er rekinn hallabúskapur hjá ríkissjóði, þrátt fyrir óhemju ríkissjóðstekjur ár eftir ár. Þess vegna eigum við enga gjaldeyrisvarasjóði, þrátt fyrir óhemju gjaldeyristekjur ár eftir ár. Þess vegna eru erlendar skuldir eins og klafi á þjóðinni. Þess vegna tala menn í fullri alvöru um hættu á ríkisgjaldþroti, eftir lengsta og samfelldasta góðæriskafla í sögu landsins.

Út úr þessum vanda, út úr vanda efnahagskreppu og atvinnuleysis, komumst við ekki án stefnubreytingar í grundvallaratriðum. Því miður verður þess ekki í nokkru vart, að ríkisstj. hugsi til stefnubreytingar. Hún heldur áfram gengisfellingarpólitíkinni, sem engan enda hefur. Ef ekki kemur fleira til, munu þau atvinnufyrirtæki, sem í mestum vanda eru stödd, ekki fá lausn á erfiðleikum sínum. Í því sambandi er þörf skjótra og róttækra úrræða. Þar er efst á blaði, að atvinnufyrirtækin verði leyst af skuldaklafanum með beinum skuldaskilum eða samningum um greiðslufrest á skuldum. Það er brýnt mál, að iðnaðurinn verði styrktur með því m.a. að hefta allan óþarfa innflutning iðnaðarvara, — þess varnings, sem framleiða má í landinu sjálfu. Útlánastefnu bankanna verður að breyta með það fyrir augum fyrst og fremst að sjá atvinnulífinu fyrir eðlilegu rekstrarfé og auknum afurðalánum í samræmi við eðli og þarfir okkar atvinnulífs. Taka verður upp nýja stefnu í gjaldeyris– og verzlunarmálum og stöðva þá óforsjálu gjaldeyriseyðslu, sem nú á sér stað. Slíkt má gera með því að setja hömlur á vörukaupalán, breyta tollum á ýmsum vörum og einnig með því að breyta frílistanum. Það hlýtur að vera markmið okkar Íslendinga, eins og annarra þjóða, að reka hallalaus utanríkisviðskipti og spara gjaldeyri, svo sem framast má verða. Í því sambandi verðum við að beita þeim ráðum, sem okkur eru tiltækust og eðlilegust geta talizt við íslenzkar aðstæður. Og það er engin ástæða til að taka gjaldeyrissukkið neinum vettlingatökum. En öllu öðru fremur verður að taka upp fjárfestingarstjórn og jákvæðan áætlunarbúskap.

Uppbyggingin innanlands þarf að vera markviss og skynsamleg og miðast við almannaþörf. Hún verður m.a. að vera innan þeirra marka, sem framleiðslugetan setur á hverjum tíma og varast verður það heimskulega fjárfestingarkapphlaup, sem viðgengizt hefur í Reykjavík t.d. undanfarin ár. Skipulagslaus fjárfesting af því tagi, sem hér þekkist, er ein meginorsök verðbólgu, sem við verðum þó að varast meira en flest annað. Verðbólgan er skaðvaldur fyrir atvinnulífið og allt efnahagskerfið, ekki sízt fyrir ríkissjóð, sem segja má, að sé margsprunginn undan þunga eyðslubáknsins og óðaverðbólgunnar, enda hefur ríkisstj. farið með samþykkt fjárl. síðustu ára eins og þau væru ómerkilegt málamyndaplagg.

Núverandi ríkisstj. hefur lengi átt vantraust skilið, en aldrei sem nú. Hún er ekki vanda sínum vaxin að neinu leyti og næsta ólíklegt, að hún eigi meirihlutafylgi að fagna meðal kjósenda í landinu.

Horfur í þjóðmálum eru allar hinar ískyggilegustu. Atvinnuleysisdraugurinn bíður við húsdyr þúsunda manna af öllum starfsstéttum í öllum landshlutum. Rekstrargrundvöllur aðalatvinnuvega þjóðarinnar er enn í fullkominni óvissu. Kjaraskerðing verkamanna og annarra láglaunamanna er smánarverk, sem ólíklegt er, að forustumenn launþega láti viðgangast. A.m.k. er ólíklegt, að launþegasamtökin setjist að samningaborði með ríkisstj., sem þekkt er að því að hagræða efndum loforða sinna og samninga að eigin geðþótta. Það er sameiginlegt hagsmunamál alþýðu manna til sjávar og sveita og allra þeirra, sem stunda heiðvirðan atvinnurekstur í útgerð, fiskvinnslu, iðnaði eða verzlun, að losna við þessa ríkisstj. Í skjóli hennar þrífst pólitískt siðleysi, hugsjónadoði, fjármálaspilling og vesæl gæðingapólitík og svo dæmalaust þróttleysi gagnvart útlendingum og útlendu áhrifavaldi, að tæpast er einleikið. Er þetta ekki ömurlegt tímanna tákn á hálfrar aldar afmæli íslenzka fullveldisins?

Hafi þessar staðreyndir ekki legið nægilega skýrt fyrir í alþingiskosningunum fyrir 17 mánuðum, þá gera þær það nú. Þess vegna er vantraust á ríkisstj. tímabært. Látum þrásetumennina víkja, ella mun verr fara. Góðir hlustendur, ég býð góðar nætur.