21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (3126)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Till. sú til þál. um vantraust á ríkisstj., sem hér liggur fyrir til umr., er að sjálfsögðu andvana fædd og marklaus, þegar þess er gætt, að flm. hennar fullyrða í fyrsta lagi, að stefna ríkisstj. í efnahags– og atvinnumálum sé meginorsök þeirra efnahagsörðugleika, sem Íslendingar eiga nú við að etja og telja í öðru lagi, að sú leið, sem valin er út úr efnahagsvandanum, þ.e. gengisbreyting með hliðarráðstöfunum til tekjuöflunar innanlands leiði yfir allan almenning mikla kjaraskerðingu. Á þessum meginforsendum byggja flm. þá skoðun sína, að ríkisstj. eigi að fara frá.

Hér hefur nú af öðrum verið rætt um efnahagsmálin og mun ég ekki sérstaklega tala um þau. En á þeim stutta tíma, sem ég hef til umráða, mun ég aðeins drepa á einn þátt atvinnuuppbyggingarinnar, þann, sem snýr að landbúnaðinum.

Á þeim tíma, sem núv. landbrh. hefur markað landbúnaðarstefnuna, hefur með tilstyrk ríkisstj. og stuðningsmanna hennar á Alþ. allt kapp verið á það lagt að gera landbúnaðinn færari um að svara kalli tímans um meiri og fjölbreyttari framleiðslu til sölu á innlendum markaði, svo að hinn ört stækkandi neytendahópur mætti jafnan eiga þess kost að hafa að meginuppistöðu til daglegra þarfa þær fæðutegundir, sem framleiddar eru og unnar i landinu sjálfu. Þetta hefur tekizt vegna þeirrar ræktunar– og uppbyggingarstefnu, sem fylgt hefur verið s.l. 9 ár. T.d. get ég nefnt, að túnin hafa stækkað á þessu tímabili um 40–50 þús. ha og munu þau nú vera um 110–120 þús. ha að stærð. Þessi stóraukna ræktun hefur svo orðið þess valdandi, að þrátt fyrir óhagstætt tíðarfar á s.l. sumri og óvenju léleg hey, einkum á mjólkursölusvæði Reykjavíkur, mun trúlega heppnast að forða þéttbýlinu við Faxaflóa frá mjólkurskorti i vetur og þó því aðeins, að unnt verði að flytja mjólk milli héraða eða frá fjarlægari landshlutum. Hér má þó ekki miklu muna og má af því sjá, hversu stutt getur verið á milli offramleiðslu og vöruskorts. Af þessu má einnig glögglega sjá, að sú örvun, sem löggjöf síðari ára hefur verið ræktunarmönnum, var byggð á raunsæi og framsýni. Á sama tíma hafa byggingar og vélvæðing tekið miklum framförum. Sú löggjöf, sem sett var um Stofnlánadeild landbúnaðarins 1961, var hér mjög mikilvæg, enda vel til hennar stofnað, þar sem deildinni voru tryggðir vaxtarmöguleikar með árlegum tekjum frá bændunum sjálfum úr ríkissjóði. Stofnlánadeildin á því stóran hlut í þeirri hröðu þróun í byggingum og vélvæðingu, sem hér hefur orðið á fáum árum. Sú þróun var alger forsenda þess, að full not yrðu að hinum miklu ræktunarframkvæmdum, sem ég lýsti áðan, hversu miklar hafa verið og hverja þýðingu þær hafa haft. Á þeim 7 árum, sem liðin eru frá því að stofnlánadeildin var efld, svo sem fyrr var lýst, hafa lánveitingar numið hærri fjárhæð, en samanlagðar fjárveitingar frá upphafi deildanna til þess tíma. Bændum hefur fækkað nokkuð á þessum árum við það, að jarðir, sem flestar eru erfiðar til búreksturs, hafa fallið úr ábúð og lagzt undir næstu jarðir og bætt þær upp. Við alla þessa þróun hefur meðalbúið á landinu stækkað á 10 árum frá því að vera 270 ærgildi í 400 ærgildi eða um 33%. Það má því með sanni segja, að íslenzkir bændur hafi ekki flýtt sér hægt, heldur hafi þeir hagnýtt sér þær lagasetningar, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir að koma fram, til þess að auka hagkvæmni í rekstri og framleiðni í landbúnaði til hagsbóta fyrir þjóðina í heild.

Þessi hraða uppbygging landbúnaðarins jafnt í ræktun, byggingum og tækjum hefur að sjálfsögðu kostað stórfé. Eins og ég hef þegar lýst, hafa lánasjóðirnir lagt fram stærsta hlutann, en bændur hafa mátt leggja fram æðiháar fjárhæðir í þessu skyni. Síðustu 2 – 3 ár hafa verið áfallasöm víða um land, og vegna harðæris hafa ráðstöfunartekjur bænda óvíða verið svo háar, að þeir hafi getað lagt fram nægilega mikið fé til þessara framkvæmda. Það er því talið, að á þeim hvíli nokkur þungi vegna lausaskuldasöfnunar. Landbrh. er nú að láta kanna það mál og að þeirri könnun lokinni verður tekið til athugunar, hverra úrbóta er þörf í því efni.

Á árinu 1962 var lausaskuldum bænda breytt í föst lán og gerðu menn sér vonir um, að sú ráðstöfun hefði bætt aðstöðu bænda til lengri tíma. En bændur notuðu sér ekki þá fyrirgreiðslu í jafnríkum mæli og ætlað var og mun ástæðan hafa verið sú, að allt of margir þeirra, sem þurftu á aðstoð að halda, hlustuðu á og trúðu þeim fullyrðingum framsóknarmanna, að fyrirgreiðsla Búnaðarbankans væri haldlaus og óaðgengileg. Fyrir þessar sakir notuðu færri bændur en skyldi þá aðstoð, sem stóð mönnum til boða. Við skulum vona, að færri taki nú alvarlega úrtölunöldur framsóknarmanna, ef horfið verður að því ráði að jafna afkomumöguleika bænda með hliðstæðum ráðstöfunum.

Ég tel, að þessar fáu svipmyndir, sem ég hef brugðið hér upp af þróun landbúnaðarins á s.l. 9 árum, sanni, að nú er sá atvinnuvegur máttugri að mæta áföllum, en nokkru sinni áður sakir þeirrar alhliða uppbyggingar, er þar hefur orðið. Og ég hygg, að hið sama muni sannast um aðra atvinnuvegi landsmanna, þótt ég reki það ekki hér. Og ég fullyrði, að þegar stjórnarandstæðingar telja, að ríkisstj. hafi vanrækt að byggja upp atvinnuvegina, er það algerlega út í hött. Hver væru aflabrögðin nú, ef ný og góð skip með beztu veiði– og leitartæki væru ekki fyrir hendi? Hvað um innlendar skipasmíðar, ef allt hefði verið látið reka á reiðanum í því efni? Hvað um raforkuvirkjanir og stóriðjuframkvæmdir, sem hafa skapað stóraukna atvinnu? Hvað um þessar framkvæmdir, ef stjórnarandstaðan hefði mátt ráða? Um margt fleira hliðstætt þessu mætti spyrja, en ég spara mér að telja, en læt ykkur, góðir áheyrendur, um að svara með sjálfum ykkur.

Þá vil ég með örfáum orðum víkja að öðrum þeim áfellisdómi, sem stjórnarandstæðingar hafa kveðið upp yfir ríkisstj., þeim, að hún hafi með gengisbreytingunni, sem gerð var, leitt kjaraskerðingu yfir allan almenning. Ég vil vekja athygli manna á því, að kjaraskerðing var orðin að veruleika áður og það fyrir orsakir, sem allir þekkja og viðurkenna og íslenzkum stjórnvöldum var gersamlega ómögulegt að ráða við. Nei, gengisbreytingin sem gerð var og þær hliðarráðstafanir, sem boðaðar eru, var sú ráðstöfun, sem tiltæk var og líklegust til þess að leiða okkur út úr efnahagsvandanum á þann hátt, sem átaka minnstur er fyrir þá, sem höllustum fæti standa. Svo sem vænta má, spyr margur þessa: Hvernig koma þessar ráðstafanir við mig og minn efnahag? Því er til að svara, að gengisbreytingin er líkleg til þess að færa nýtt líf í atvinnuvegina og bæta atvinnuástandið í landinu. Sjávarútvegur og iðnaður fá bætta aðstöðu á erlendum mörkuðum og hið sama er að segja um landbúnað að því er varðar þær vörur, sem selja þarf úr landi. Útflutningsuppbæturnar ættu því miklu fremur að nægja til þess að grundvallarverðið standist. Hins vegar er öllum ljóst, að ekki verður hjá því komizt, að hver einstaklingur verður fyrir nokkurri kjaraskerðingu í bili.

Ég gat þess í upphafi máls míns, að sú till. til þál., sem hér er til umr., væri marklaus. En ef við gerum nú ráð fyrir því, að hún sé flutt af alvöru og hún næði samþykki, þá mundi núv. ríkisstj. að sjálfsögðu fara frá. Hvar væri þá samstaðan um myndun nýrrar ríkisstj.? Og hvar eru úrræði stjórnarandstöðunnar um lausn efnahagsvandans? Eru þau úrræði líklegri til að leggja léttari byrðar á almenning, en þær till., sem ríkisstj. hefur kynnt alþjóð? Ég held varla. Formaður Framsfl. segir svo í Tímanum 15. nóvember s.l., eftir að hafa tínt til eitt og annað, sem þyrfti að bæta með styrkjum og framlögum, sem hann reyndar endurtók hér áðan. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við viðurkennum, að þær ráðstafanir, sem við höfum bent á, leysa ekki allan þennan vanda og til viðbótar þeim muni þurfa einhverja aðgerð. Það er mín skoðun, að eins og komið er, muni það vera erfitt að komast hjá því að leggja einhverjar byrðar á menn í einu eða öðru formi.“

Þetta segir formaður Framsfl. í sjónvarpi og útvarpi hefur formaður þingflokks Framsfl. lýst því yfir, að hér verði annaðhvort að breyta gengi íslenzkrar krónu eða taka upp kerfi uppbóta og styrkja, nema hvort tveggja þyrfti til að koma. Ég hygg, að það vefjist fyrir fleirum en mér að finna rétta lausn á því dæmi, sem sett er upp með þeim hætti, sem forsvarsmenn Framsfl. hafa gert að þessu sinni.

Herra forseti. Að lokum vil ég segja þetta. Við Íslendingar eigum við alvarlegan efnahagsvanda að etja vegna minnkandi aflabragða og gífurlegs verðfalls á erlendum mörkuðum. Þessi vandi er svo stór, að ég hygg, að hann sé hverjum manni augljós. Ríkisstj. hefur lagt fram ákveðnar till. til lausnar vandanum, till., sem líklegar eru til þess að koma okkur yfir örðugasta hjallann út úr þeim öldudal, sem við höfum dregizt niður í vegna óviðráðanlegra orsaka. Ef við hlítum þeim ráðum og stöndum saman um framkvæmd þeirra aðgerða, sem ríkisstj. hefur ákveðið að koma fram, munum við fyrr en varir hefja nýja sókn til bættra lífskjara. Þá sókn má enginn hefta. Góða nótt.