05.11.1968
Neðri deild: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (3142)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hér á hinu háa Alþ. fylgjumst við með því af mikilli vandvirkni, ef fasteign er látin úr eigu ríkisins. Þótt aðeins sé um að ræða eyðijörð eða íbúð, sem ekki er lengur talin hæfa sem embættisbústaður, eru lögð fram frv. um sölu á slíkum eignum. Um þau er fjallað a.m.k. í 6 umr. í báðum d. Alþ., n. grandskoða slík mál og afla sér allrar hugsanlegrar vitneskju. Þessi lofsverða nákvæmni er hins vegar ekki viðhöfð, þegar opinberir aðilar kaupa fasteignir. Þá er ákvörðunarvaldið hjá ráðh. einum og þm. lesa það aðeins í almennum blaðafréttum, að milljónafúlgum hafi verið varið til kaupa á tilteknum lóðum eða húseignum. Í fyrra man ég t.d. eftir því, að hér á þingi voru um það hvorki meira né minna en sjö umr., hvort selja skyldi biskupsbústað, sem ekki var lengur talinn nothæfur fyrir embættið, en hins vegar var ekki talin nein ástæða til þess, að Alþ. fjallaði um kaup á biskupsbústað, sem nam þó miklu hærri upphæðum. Mér virðist þessi starfstilhögun vera óeðlileg með öllu. Eigi Alþ. að fjalla um sölu á fasteignum ríkisins, ber því einnig að fjalla um kaup á slíkum eignum, þótt vel mætti hugsa sér einfaldari starfsaðferð en hinn þunglamalega gang frv. um sex umr. í tveimur deildum. Þetta er þeim mun mikilvægara, sem slík viðskipti ríkissjóðs hafa á undanförnum árum oft verið talin orka tvímælis og vakið almenna gagnrýni. Þau hafa stundum verið talin til marks um það, að flokkaáhrif og hin frægu sambönd einstakra valdamanna geta orðið næsta áhrifarík, þegar um slík atriði er að ræða. Ég vil t.d. minna menn á kaupin á bæjarfógetabústaðnum í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum, en þau kaup vöktu mjög almenna gagnrýni hjá mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum. Önnur slík viðskipti, sem vakið hafa allverulega gagnrýni að undanförnu, eru kaup Landssímans á Sjálfstæðishúsinu í Reykjavík og lóð þess fyrir 16.2 millj. kr.

Landssíminn er opinbert fyrirtæki og fjárhagsáætlun hans er lögð fyrir Alþ. Hann er undir yfirstjórn ráðh., sem starfar í umboði þingsins. Engu að síður fengu alþm. fyrst um það vitneskju af frétt í Morgunblaðinu, að þessi opinbera stofnun hefði ráðstafað yfir 16 millj. kr. af almannafé til kaupa á einhverri dýrustu lóð, sem sögur fara af á hinum síhækkandi verðbólgumarkaði í miðbiki Reykjavíkur.

Í sambandi við þessi viðskipti hafa margar spurningar vaknað. Margir hafa dregið mjög í efa, hvort það sé rétt stefna hjá Landssímanum að streitast við að þenja út starfsemi sína í miðborginni, þar sem lóðir eru seldar á okurverði og aðstaða til þjónustu verður æ erfiðari, m.a. vegna skorts á bílastæðum, í stað þess að hagnýta sér staði, þar sem framkvæmdir yrðu mun ódýrari og aðstaða til þjónustu betri. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál, m.a. fyrir viðskiptamenn Landssímans, sem í sífellu verða að greiða hærri gjöld fyrir þjónustu stofnunarinnar, en hún hefur jafnan fylgt þeirri stefnu að velta öllum fjárfestingarkostnaði jafnharðan yfir á viðskiptavini sína í hækkuðum afnotagjöldum.

Í annan stað hefur mönnum fundizt verðið, sem greitt er fyrir lóðina undir Sjálfstæðishúsinu, ósæmilega hátt. Lóðin er um 600 fermetrar, en verðið, eins og áður segir, 16.2 millj. kr. Verðið á fermetra er þannig 27 þús. kr., og fara naumast sögur af hærra verði á lóðabrasksmarkaðinum í miðbiki Reykjavíkur.

Ég las í sumar grg. frá póst- og símamálastjóra, þar sem reynt var að færa rök að því, að þessi kaup væru hagstæðari, en ýmis önnur hlíðstæð viðskipti, sem fram hefðu farið að undanförnu. Var þar m.a. beitt þeirri reikningsaðferð að verðleggja Sjálfstæðishúsið sjálft og draga það verðmæti frá heildar upphæðinni til þess að fá lóðarverðið. En ég fæ ekki séð, að húsið sjálft hafi nokkurt gildi fyrir Landssímann. Keppikefli hans hlýtur að vera að fjarlægja húsið af lóðinni með sem minnstum tilkostnaði. Upphæðin, 16.2 millj. kr., er einvörðungu greidd til þess að komast yfir lóðina og því er raunverulegt lóðarverð óumdeilanlega 27 þús. kr. á hvern fermetra. Margir hafa orðið til þess að halda því fram, að þetta verð sé fjarri öllu skynsamlegu mati, og það viðhorf hefur ekki aðeins komið fram í málgögnum stjórnarandstöðunnar. 16. ágúst s.l. sagði annað aðalmálgagn ríkisstj., Alþýðublaðið, í forustugrein um þessi viðskipti, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar er ástæða til að hafa gætur á þessum húsa– og lóðakaupum. Ár eftir ár hefur verð eignanna hækkað hröðum skrefum og verður því gróði þeirra, sem eiga gömlu húsin, meiri og meiri. Þetta er að sjálfsögðu óeðlilegur gróði, þar sem húseigendur þessir hafa ekkert til þess gert að auka svo verðmæti eignanna, heldur hefur vöxtur og skipulag borgarinnar valdið þar mestu um. Þjóðfélagið ætti að taka þennan óeðlilega gróða í sína vörzlu.“

Þannig telur annað aðalmálgagn ríkisstj., að í verði því, sem greitt var fyrir Sjálfstæðishúsið, komi fram óeðlilegur gróði, sem þjóðfélaginu beri að endurheimta.

Í þessari forustugrein Alþýðublaðsins er raunar vikið að vandamáli, sem er mjög stórfellt. Lóðaokrið í miðbænum hefur ýtt mjög undir brask og spákaupmennsku og það á verulegan þátt í þeirri samfelldu verðbólguþróun, sem einkennir efnahagsástandið hér. Óhagkvæm og dýr verzlun stafar m.a. af þeim óhemju tilkostnaði, sem bundinn er lóðum og fasteignum við verzlunargöturnar í Reykjavík. En í stað þess að stjórnarvöldin stöðvi þessa annarlegu starfsemi með félagslegum ráðstöfunum í þágu almennings, hafa þau ýtt mjög undir braskið með kaupum sínum á lóðum og fasteignum. M.a. hækkaði Seðlabankinn allt lóðaverð í miðborginni með fordæmi sínu og hliðstæð áhrif munu tvímælalaust hljótast af verði því, sem greitt hefur verið fyrir lóð Sjálfstæðishússins.

Enn eitt atriði, sem mjög hefur ýtt undir gagnrýni. er það, að seljandi Sjálfstæðishússins er stærsti og valda mesti flokkur landsins, sá flokkur, sem einnig ræður mestu í landsstjórninni, þar sem ákvörðun var tekin um að kaupa fasteignina. Sami aðilinn fjallar þannig að verulegu leyti um kaup og sölu. Það hefur verið komizt svo að orði, að Ingólfur Jónsson, forustumaður Sjálfstfl., hafi þarna verið að semja við hæstv. símamálaráðh., Ingólf Jónsson. Þegar þannig stendur á, að valdaflokkur í ríkisstj. kemst í þá aðstöðu að verða að taka afstöðu til máls, þar sem hann hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta, ber honum að kappkosta sérstaklega, að um þá ákvörðun sé fjallað á óvilhallan hátt. Einmitt vegna þess að svona stendur á, hefði ég talið það alveg sérstaka skyldu hæstv. símamálaráðh. að hafa frumkvæði að því að bera sjálfur þetta mál undir Alþ. og láta aðra taka ákvörðunina.

Að undanförnu hefur borið mjög á gagnrýni meðal almennings vegna þess, að flokkum og valdamönnum hættir stundum við að misnota aðstöðu sína og því verður að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slíka atburði með því að taka sem mest ákvarðanir fyrir opnum tjöldum, með því að tryggja landsmönnum, að þeir hafi fullt aðhald á trúnaðarmönnum sínum. Gagnrýni af þessu tagi hefur verið uppi innan allra stjórnmálaflokka. Till. um þetta efni hafa t.a.m. verið mjög háværar í röðum ungra sjálfstæðismanna. Þessi krafa um aukið lýðræði og vaxandi eftirlit almennings með störfum og ákvörðunum valdaaðila er mjög ánægjulegur vottur um aukinn stjórnmálaáhuga og ég tel, að það sé skylda stjórnmálaflokkanna að koma til móts við þær kröfur. Kaupin á Sjálfstæðishúsinu eru eins og skóladæmi um ákvörðun, sem ekki má taka í lokuðum hagsmunahring.

Í þeirri till., sem ég flyt hér ásamt hv. 6. landsk. þm., er ekki lýst neinni skoðun á þessum viðskiptum, aðeins lagt til, að Alþ. geri ráðstafanir til þess að fjalla um þessi 16 millj. kr. lóðakaup af sömu nákvæmni og þingið fjallar árlega um sölu á eyðijörðum og lélegum húsum, sem stundum nema aðeins að verðmæti tugum eða hundruðum þúsunda. Við leggjum til, að d. notfæri sér ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar í þessu skyni. Þar er einmitt gert ráð fyrir því, að þingdeildir skipi n. til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Ég lít svo á, að þessi stjórnarskrárákvæði séu mjög þarfleg, ekki sízt nú, þegar æ meiri brögð eru að því, að hinar mikilvægustu ákvarðanir eru teknar af stjórnarstofnunum, embættismönnum og svokölluðum sérfræðingum án afskipta Alþ. Í mörgum öðrum löndum eru slík ákvæði í stjórnarskrá og lögum og þar er það mjög algengt, að þjóðþing haldi uppi mjög umfangsmikilli starfsemi á þessu sviði. T.a.m. eru rannsóknarnefndir á vegum Bandaríkjaþings mjög athafnasamar. Hér á landi hefur þessu stjórnarskrárákvæði hins vegar verið beitt sárasjaldan. Ég held, að ástæðan sé sú, að mönnum finnist, að í skipan rannsóknarnefndar felist einhver dómur fyrir fram um þau málsatvik, sem lagt er til, að rannsökuð séu. En sú afstaða er auðvitað hreinn misskilningur. Rannsóknin á aðeins að vera hlutlaus könnun á málsatvikum. Í ákvörðunum um slíka rannsókn eru þm. aðeins að rækja þær skyldur, sem á þeim eiga að hvíla samkvæmt stjórnarskránni. Ég tel því einsætt, að menn geti sameinazt um þessa till., hvaða skoðanir, sem þeir kunna að hafa á réttmæti þeirrar ákvörðunar að kaupa Sjálfstæðishússlóðina á rúmar 16 millj. kr. handa Landssímanum.

Ég legg svo til að, að lokinni þessari fyrri umr. verði málinu vísað til síðari umr. og til hv. allshn.