18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (3200)

34. mál, ferðamál

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Sem einn af flm. þessarar till. vildi ég mega segja örfá orð. Okkur var það auðvitað ljóst, að með lögum um ferðamálaráð nr. 29 frá 30. apríl 1964 var stigið mjög jákvætt spor fram á við til eflingar ferðamálum í landinu. Eins og hæstv. ráðh. kom inn á, er ekkert nema gott um það að segja og ferðamálaráð hefur sannarlega ýtt mörgu fram á við. Engu að síður viðurkennir ferðamálaráð eða a.m.k. hafa einstakir nm. gert það í samtölum við mig, að það

þarf að ýta við sumum þáttum hérna, til þess að þeir eða aðrir nái þeim árangri, sem æskilegt væri. Vil ég í því sambandi nefna, að ferðamálaráð hefur beðið hótelin um ákveðnar upplýsingar, sem nauðsynlegar eru fyrir alla áætlunargerð, en því miður er það staðreynd, að hótelin eru mjög treg að láta svona í té. Virðist það næsta undarlegt, að ekki skuli vera hægt að fá nauðsynlegar upplýsingar fyrir stofnun eins og ferðamálaráð, sem er að vinna að því að hótelin geti fengið sem beztan rekstur.

Fyrst ég er að tala um hótelin,vil ég aðeins upplýsa það hér, sem vakti furðu mína og áreiðanlega margra annarra, að þegar gengisfellingin varð, rigndi yfir ferðaskrifstofuna fsp. um nýtt verð í erlendum gjaldeyri til útlanda eða fyrir útlendinga. Mér skilst, að hótelin hafi tilkynnt mjög einfaldlega óbreytt verð í dollurum. Og ég verð að spyrja hæstv. samgrh., hvort það þýði það, að Íslendingar séu á lægra verði eða útlendingar á hærra verði? Ég veit um það, átti um það langt samtal við forstöðumann einnar ferðaskrifstofu hér, að hann varð að senda skeyti út og tilkynna bæði til Þýzkalands og Ameríku og Englands óbreytt verð í dollurum, pundum og mörkum og þeir trúðu honum ekki. Þetta sagði hann við mig persónulega, og gæti ég nefnt manninn, ef nauðsyn krefði. Það er ýmislegt svona. Svo sagði hann mér frá öðru og það er nauðsynlegt að ýta við slíku, að það er ómögulegt að fá fast verð á ákveðnar ferðir núna. Þeir vilja bíða einhvern tíma fram á vorið. Þetta er mjög erfitt, því að það er nú einu sinni svo, að fólk frá Bandaríkjunum eða Suður–Evrópu vill ákveða sín ferðalög með sæmilegum fyrirvara. Við getum fengið upplýsingar frá erlendum ferðaskrifstofum um fast verð og það er alveg tilviljun, ef það breytist. En við á Íslandi getum með engu móti tilkynnt fast verð. Þessu verður að kippa í lag.

Það er mjög margt, sem mætti ýta við og það er ekkert vanmat á starfsemi ferðamálaráðs, síður en svo, alls ekki frá minni hálfu og ég held annarra flm. till., að við viljum gera aukið átak í þessu efni. Okkur er ljóst, að svo mikilvægur þáttur, sem ferðamálin eru orðin hjá öðrum þjóðum, kemur að því, að þau geta orðið snar þáttur hjá okkur, einmitt af því að við höfum óspillta og góða náttúru og fólkið kemur hingað til að sjá náttúru, fallega náttúru og vera hér í kyrrð og friði, en ekki til að búa á Hótel Sögu eða Hótel Loftleiðum. Við þurfum að greiða fyrir ferðamönnunum á margvíslegan hátt með skipulagðri upplýsingastarfsemi og laða fólkið til landsins.

Eitt dæmi má nefna, sem er mjög þýðingarmikið. Það er menntun á túlkum. Það er í verkahring ferðamálaráðs að stuðla að slíku. Mér er ekki kunnugt um, að þeir hafi beitt sér fyrir námskeiðum fyrir túlka. Hér er ákveðinn hópur manna, sumir eru kennarar, aðrir með mismunandi menntun, sem taka að sér að vera túlkar. Stundum vantar 50 túlka, stundum 100 allt eftir því, hvað skipin eru mörg, sem koma sama dag og margir fara í land. Þetta fólk túlkar auðvitað mjög misjafnlega sjónarmið hér á Íslandi, náttúrufegurð, sögu landsins og þar fram eftir götunum. Það er enginn skipulagður bæklingur fyrir utan þessa ensku bók, „Iceland in a nutshell“, gott rit um þessi mál. Einnig vantar gífurlega á, að vegir, vötn og brýr og sögustaðir séu merktir. Það vantar gífurlega mikið á það. Allt þetta má gera til þess að sýna, að við höfum áhuga á, að ferðamenn geti ferðazt hér um. Það eru ekki allir, sem vilja ferðast í lúxus og fínheitum og margt fólk fer hér um gangandi eða í smáhópum á eigin spýtur og verður að fá aðstoð hins opinbera.

Sem dæmi um, hve ferðamálin eru orðinn stór þáttur hjá sumum þjóðum, má nefna, að á Írlandi reikna þeir núna með um 100 millj. punda í ferðamannatekjur og er ferðamannastraumurinn og ferðamannastarfsemin að komast í annað sæti hjá þeim í þjóðartekjum. Þeir eru mjög bjartsýnir og það er vitað mál, að með aukinni hagsæld um allan heim leggur fólk meira í ferðalög, því að það er orðið þægilegt að ferðast og þoturnar stytta allar vegalengdir niður í klukkutíma eða þar um bil, kannske aðeins meira á milli heimsálfa. Við verðum því að fylgjast vel með þeirri þróun, sem er að ske alls staðar hér í kringum okkur í ferðamálum. Við eigum að geta tekið hér inn fast að 100 þús. ferðamönnum mjög fljótlega, ef átak er gert í þá átt. En eins og hæstv. ráðh. upplýsti, komu s.l. ár tæplega 38 þús. ferðamenn eða 37.700. Við missum líka marga Íslendinga út úr landinu. Samt sem áður höfum við svolítið nettó af ferðamönnum og gjaldeyrisskil 1967 voru rúmlega 97 millj. og á Keflavíkurflugvelli voru seldar tollfrjálsar vörur fyrir rúmlega 27.8 millj., þannig að þetta er mikilvægt atriði. Flugfélögin höfðu mjög miklar tekjur af ferðamannaþjónustu og svona mætti lengi halda áfram.

Eitt er mjög mikilvægt í aukinni ferðamannaþjónustu hér við land. Það er að selja íslenzkan heimilisiðnað. Við höfum þar mjög gott dæmi frá Noregi. Þar eru prjónaðar peysur úti um allt land og seldar í tugþúsundavís og þetta gæti orðið mjög góður iðnaður hér úr íslenzkri ull og mikilvæg starfsemi úti um alla landsbyggðina.

Ég vil ekki tefja umr. lengi um þessi mál, en ég vænti þess, að þessi till. geti orðið til þess að ýta áfram ferðamálunum hérna og þau verði sem snarast góður þáttur í okkar starfsemi.