18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (3204)

34. mál, ferðamál

Steingrímur Pálsson:

Herra forseti. Þar sem ég er einn af flm. þessarar till. til þál. um þriggja ára áætlun um ferðamál, vildi ég gera grein fyrir minni skoðun með nokkrum orðum og stikla á stóru. Á því leikur enginn vafi, að ef við ætlum að gera Ísland að ferðamannalandi og margfalda hingað erlendan ferðamannastraum, verðum við að skipuleggja þessi mál mjög ýtarlega allt frá grunni, leita álits færustu manna og gera raunhæfa áætlun um ferðamál. Við verðum nauðsynlega að byggja fjárhagslega trausta undirstöðu að ferðamannaþjónustunni og beita hugkvæmni í því að laða erlenda ferðamenn til landsins og sjá til þess, að þeir fái alla hugsanlega fyrirgreiðslu og þjónustu, og við ættum að geta byggt upp á skömmum tíma arðbæra atvinnugrein, sem mundi afla þjóðinni erlends gjaldeyris og þar að auki skapa fjölda Íslendinga atvinnu í sambandi við vaxandi ferðamannastraum til landsins.

Þessi þriggja ára ferðamálaáætlun er þó ekki eingöngu ætluð útlendingum. Hún yrði auðvitað um leið ferðamálaáætlun fyrir Íslendinga. Ég held, að það sé rétt, að stór hluti Íslendinga hefur ekki enn þá séð nema hluta af okkar landi. Tvennt getur komið til. Það er, að fólk hafi ekki haft fjárhagslega getu til þess, því að vissulega geta slíkar ferðir verið dýrar eða hitt, að það hefur ekki vaknað hjá því sérstakur áhugi fyrir þessu. Við vitum, að allar þjóðir gera nú allt til að laða ferðamenn til landa sinna til þess að skapa aukinn gjaldeyri og til þess að auka þekkingu á landi og þjóð. Þetta verðum við að gera líka. Við vitum, að Ísland getur haft upp á margt að bjóða sem ferðamannaland, sem aðrar þjóðir hafa ekki eða takmarkað. Það mætti til nefna hið mikla víðsýni, sem hér er, vegna hins tæra lofts. Við höfum hér jökla, eldfjöll, hveri, jarðhita, vatnsföll, veiðiár, veiðivötn og þannig má lengi telja. Við eigum að geta boðið erlendum ferðamönnum upp á margvíslega þjónustu. Fyrir utan hina almennu náttúruskoðun er hægt að minnast á laxveiðar, silungsveiðar, sjóstangaveiði, hestaferðir, skíðaferðir, ökuferðir og flugferðir upp í óbyggðir landsins. Þá mætti koma hér upp heilsulindum, ölkeldum, gufuböðum og leirböðum. Þannig mætti telja áfram óendanlega. En við megum ekki gleyma því, að erlendir ferðamenn leggja áherzlu á eitt nú til dags og það er fámennið hér. Það er orðin hrein plága hjá erlendum ferðamönnum í öðrum löndum að geta eiginlega hvergi notið einverunnar eða fámennis, því að alls staðar er orðið svo mikið af fólki. Þá megum við ekki gleyma því, að hér mundu skapast margvíslegir möguleikar í sambandi við að auglýsa afurðir okkar, bæði kjöt— og fiskafurðir. Þannig mætti hafa víðtæka kynningu í sambandi við þetta.

Ég hef verið svo heppinn að hafa fengið tækifæri til að ferðast um mest allt landið og hér áður fyrr þurfti ég að vinna eitt ár á Vestfjörðum, eitt ár á Norðurlandi og eitt ár á Austfjörðum. Þá notaði ég hverja frístund til þess að ferðast. En á þeim tímum var samgöngukerfi okkar mjög lélegt og þá var venjulega farið fótgangandi upp á fjöll og yfir fjöll til að sjá meira. En á undanförnum árum hef ég lagt meiri áherzlu á að kynnast hinum víðáttumiklu óbyggðum landsins og þeir, sem hafa komið upp í óbyggðir landsins, þekkja aðdráttarafl þess.

Ég hef sannfærzt um það á mínum ferðalögum, að með góðu skipulagi og hóflegum fjárveitingum mætti gera margar leiðir mun greiðfærari upp í óbyggðir landsins en nú er. Ef við tökum sem lítið dæmi hinn svokallaða Kjalveg, þá vitum við, að í dag leggur fjöldi fólks leið sína yfir hálendið á venjulegum fólksbifreiðum, en segja má, að þessi leið sé ótrygg vegna ýmissa farartálma, eins og nokkurra óbrúaðra áa. En það liggur í augum uppi, að með litlum tilkostnaði mætti brúa þessar ár á sumrin með hreyfanlegum trébrúm, sem setja mætti upp á vorin og taka niður á haustin og með því að lagfæra örlítið ákveðna vegarkafla á Kjalvegi gætu allir, sem hafa bifreiðar til umráða, farið þessa leið áhyggjulausir og notið hinnar ósnortnu og stórbrotnu náttúrufegurðar, sem þar er að sjá.

Við vitum, að allir landshlutar geta bent á sínar fögru sveitir og sínar fögru óbyggðir. Síðan samgöngukerfi okkar batnaði hefur ferðamannastraumurinn legið að mestu leyti eftir vegakerfi okkar og auðvitað er sjálfsagt, að fólk sjái allt, sem sést frá okkar þjóðvegum. En hinu ber ekki að neita, að strax og vikið er út frá hinu venjulega þjóðvegakerfi, opnast nýr heimur. Og með því að auka og bæta allverulega svokallaða fjallvegi, má opna óteljandi svæði, sem fáir Íslendingar hafa augum litið og margvíslegir möguleikar mundu skapast.

Á Vestfjörðum eru víða sérstaklega fallegir staðir. Þar er hrikaleg og stórbrotin náttúrufegurð, en ef við lítum aðeins á svæðið frá Ísafjarðardjúpi og norður á Strandir, þá er þarna stórt landssvæði, sem nú er að mestu komið í eyði. Þetta svæði ætti og mætti vissulega friða og gera síðar meir að þjóðgarði.

Ég veit, að sumir, sem þekkja óbyggðir okkar, eru ekki hrifnir af því, að útlendingar ferðist um þessi svæði. En við megum ekki gleyma því, að ótrúlega stór hópur útlendinga hefur einmitt ferðazt um óbyggðir landsins, jafnvel mun meira, en Íslendingar sjálfir. Þetta eru oft hópar af erlendu skólafólki, sem hafa fengið styrki til að ferðast til Íslands og þetta fólk hefur unnið að margvíslegum rannsóknarstörfum. En það er einmitt þetta fólk, sem hefur dásamað okkar náttúrufegurð.

Vegna okkar stutta sumars verðum við að reyna að byggja okkar ferðamannaþjónustu allt árið, en til þess þurfum við að hafa fjallahótel, þar sem unnt er að stunda vetraríþróttir og jafnframt að hafa þar heilsulindir eða fara líkt að og t.d. Svisslendingar, en þangað hópast tugþúsundir ferðamanna að vetrinum.

Fullvíst má telja, að Ísland geti orðið eftirsótt ferðamannaland í framtíðinni. Það getur haft upp á margt að bjóða. Þess vegna er sjálfsagt að gera allt, sem hægt er, til að skipuleggja þetta mál vandlega. Og það þolir ekki bið, því að okkur veitir sannarlega ekki af því að afla gjaldeyristekna fyrir þjóðina. Þessi möguleiki liggur nú opinn fyrir, en við skulum gera okkur grein fyrir því, að í mörg horn er að líta og þetta hefst ekki nema með sameiginlegu átaki allra góðra manna. Ég vænti þess, að hv. þm. styðji þetta mál og lausn þess landi okkar til heilla.