27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (3208)

55. mál, skylduþjónusta ungmenna

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þáltill. þessi, sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 74, er að öllu samhljóða till., sem ég flutti á síðasta hv. Alþ. Ég gerði þá allnána grein fyrir þessari till. í framsögu auk þess, sem rakið er í grg., sem er endurprentuð nú með þeirri till., sem hér liggur fyrir og ég mun því ekki að svo stöddu fara ýtarlega út í efnisatriði málsins. En þáltill. fjallar um nefndarskipun til undirbúnings þessu máli. Hér er því ekki um að ræða úrslitaafstöðu Alþ. til skylduþjónustunnar sjálfrar.

Það hafa farið fram nokkrar umræður um skylduþjónustuna í blöðum, t.d. að undanförnu, og verið nokkuð skiptar skoðanir. Ég hef jafnvel séð þeirri spurningu varpað fram, hvort innleiða ætti þrælahald á ný. Fleiri hafa þó verið hlynntir málinu og líklega fyrst og fremst sem uppeldismáli og víst er, að það er annar meginþátturinn, sem gefur þessu máli gildi. Hitt er svo þörf samfélagsins til framkvæmda á ýmsum þjóðfélagsbótum og ég met þá hlið málsins einnig mikils. En í mínum huga er höfuðvandinn við þetta mál framkvæmd vinnuskyldunnar og kannske sá, að nógu margir góðir menn, ef svo mætti taka til orða, fáist til forstöðu um framkvæmdina og hún verði sem kostnaðar minnst.

Það er ofarlega á baugi, að við horfum fram á mikla fólksfjölgun á næstu árum og við ættum því að gera okkur grein fyrir, hvernig þeirri fólksfjölgun verði mætt með aukinni atvinnu. Nú þegar hefur nokkuð borið á því, að við erum ekki, ef svo mætti segja, fyllilega viðbúnir í þeim efnum og sérstaklega að því er snertir atvinnu fyrir ungt fólk. Þetta er einn þátturinn, sem styður þetta mál nú. Við þekkjum allir, að menntunarkrafan er mjög mikil.

Fullnæging þessarar menntunarþarfar og þetta er farið að vega ákaflega þungt í því, sem við getum kallað samfélagskostnað og auðvitað verðum við að gæta þess að rata meðalhóf hins æskilega og framkvæmanlega í þessum efnum, m.a. af efnahagsástæðum. Það má segja, að tilgangur eða markmið skólakerfisins sé betri og nýtari þjóðfélagsborgarar. Það er í því efni að mörgu að hyggja og áreiðanlega fleiru en sem lengstri skólasetu. Og án þess að ég fari lengra út í þessa sálma, vil ég bara lýsa því sem markmiði þessarar þáltill., að það er einmitt það sama — að verða að liði við þá nauðsyn og skyldu þjóðfélagsins að ala upp sem bezta þjóðfélagsborgara.

Það hefur verið ákveðið að hafa tvær umr. um þessa þáltill. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að henni verði vísað til síðari umr. Ég tel rétt, að hún verði látin fara til n. og óska eftir, að henni verði vísað til hv. allshn.