12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

65. mál, lausaskuldir útgerðarfyrirtækja

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Það er alllangt síðan við lögðum fram á Alþ. till. til þál. um aðgerðir vegna lausaskulda útgerðarfyrirtækja og vinnslustöðva sjávarafurða. Við flytjum þessa till. ég og hv. 2. þm. Reykn. í samráði við okkar flokksmenn. Till. er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fram fara athugun á efnahag og lausaskuldum einstaklinga og fyrirtækja, sem útgerð reka og vinnslustöðva sjávarafurða. Að fengnum nauðsynlegum upplýsingum, felur Alþingi ríkisstjórninni að láta semja frumvarp til laga þess efnis, að lausaskuldum útgerðarfyrirtækja og fiskvinnslustöðva verði breytt í föst lán með hóflegum vöxtum. Gerist þess þörf, skulu skuldaskil framkvæmd hjá þeim aðilum, sem óhjákvæmilega hafa þess þörf vegna óhagkvæms efnahagsástands. Löggjöf þessi skal við það miðuð að gera sæmilega reknum útgerðarfyrirtækjum og vinnslustöðvum kleift að starfa áfram á fjárhagslega heilbrigðum grundvelli.“

Það má kannske vera, að sumir álíti, að við hefðum fyrir hönd flokks okkar átt að leggja fram ákveðið frv., en við vitum það ósköp vel, að þó að við í stjórnarandstöðunni, sem erum í minni hl. í þ., komum með frv., þá ná þau yfirleitt ekki fram að ganga. Viðvíkjandi þessum málum hagar því einnig þannig til, að það er í raun og veru ríkisstj. ein, sem getur haft framkvæmd í þessu máli. Það þarf að athuga efnahagsástæður útgerðarfyrirtækja og einstakra manna, sem fást við sjávarútveg og gera sér ljóst, hve mikil nauðsyn er á úrlausn í lánamálum. Að þeim upplýsingum fengnum, þarf að semja lagafrv. um það, hvernig þessu verður fyrir komið. Það er atriði, sem þarf að taka til rækilegrar athugunar, hvort á að stofna sérstakan sjóð til að annast þetta, eða setja þetta í samband við einhvern af þeim sjóðum, sem fyrir eru. Ég hygg, að ef stjórnarflokkarnir vilja samráð hafa við þann flokk, sem við flutningsmenn flytjum þetta frv. fyrir, að þá mun ekki standa á því af okkar hálfu. Það, sem við viljum sérstaklega gera með því að vekja eftirtekt á þessum málum, er að við erum að bjóðast til að vinna að þessu í samráði við stjórnarflokkana, ef þeir óska eftir því. Við lítum á, að þetta sé nauðsynjamál.

Við vitum ósköp vel um fjárskort þessara fyrirtækja undanfarin ár. Hann hefur verið mikill og hann minnkar ekki nú, þegar búið er að breyta skráningu krónunnar, þannig að það þarf 50% fleiri krónur til að greiða fyrir sömu vöru, ef hún er flutt inn í landið. Ég veit ósköp vel, að ríkisstj. er þetta ljóst, og til þess benda einnig þær ráðstafanir, sem hún er nú að gera með því að auka útgerðarlánin, en ég held, að þó að útgerðarlánin séu aukin um eitthvað 40%, þá nægi það ekki til þess, að menn geti losað sig við þær skuldir, sem þegar hvíla á einstaklingum og fyrirtækjum, sem fást við þennan atvinnurekstur. Álit okkar er, að um leið og lánum þessum væri komið fyrir, þá fari fram athugun á því — það eru vafalaust einhver fyrirtæki, sem ekki er gerlegt að hjálpa, þau eru svo illa stödd, — en það fari fram athugun á því, hvaða fyrirtækjum er hægt að hjálpa og þá yrðu vextir lækkaðir og lánstíma hagað þannig, að fyrirtækjunum væri gerlegt að reka þessa atvinnu áfram.

Það hefur vanalega verið viðkvæðið, þegar við höfum farið fram á meiri rekstrarlán, hvort það er heldur til sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar, að fé væri ekki fyrir hendi. En nú, þegar allir gjaldeyrissjóðirnir eru upp eyddir, breytist viðhorfið svo skrýtilega, að nú á að lána allmiklar fjárhæðir, sennilega 250 upp í 400 þús. kr. meira á bát, en verið hefur. Það út af fyrir sig getur verið réttlátt að auka seðla útgáfuna um leið og kr. er minnkuð að verðgildi, — getur verið eðlilegt, nauðsynlegt og réttlætanlegt, en einhver ráð hefðu átt að vera til að greiða fyrir atvinnuvegunum með rekstrarfé á undanförnum árum meðan gjaldeyrissjóðir voru til, ef það er gerlegt að fjölga kr. núna til útgerðarmanna, þannig að eitthvert viljaleysi hefur valdið því, hvernig að fyrirtækjum hefur verið búið hvað rekstrarfé snertir.

Við vitum ósköp vel, að sum frystihús eru alls ekki starfhæf nú. Ég get talið upp þau frystihús og sum eru farin að hefja starf aftur, sem störfuðu ekki um tíma, önnur eru óstarfhæf ennþá. Það er búið að láta dálítið fé til þess að hjálpa frystihúsunum, en engan veginn fullnægjandi. Þar að auki gengur ákaflega seint að fá fyrirgreiðslu. Þetta er í athugun, en sú athugun má ekki standa of lengi, því að fólkið er orðið atvinnulast í þessum byggðarlögum. Ég get t.d. nefnt frystihúsið á Hofsósi. Það er ekkert unnið þar, það hefur enginn haft atvinnu við það í vetur. Það er ekki nóg að veita takmarkaðar fjárhæðir til hlutanna. Það þarf að framkvæma athugun á þessu og það má ekki dragast of lengi.

Þessar lausaskuldir eru bæði í bönkum og við einstaklinga, sem sjávarútvegsfyrirtæki eru að fást við nú og það þarf að safna skýrslum um þetta. Þegar þær liggja fyrir, er hægt að fara að vinna að því. Ég vissi, að fyrir áramótin vantaði mikið á, að allir útvegsmenn gætu staðið í skilum við hásetana og þegar tekjur sjómanna eru litlar, eins og þær hafa verið síðastliðið ár, jafnvel 2 undanfarin ár, þá er óhagstætt fyrir sjómenn að fá ekki greitt á réttum tíma eða e.t.v. aldrei, en þetta þarf allt að athuga. Og þó að þessi úrlausn hafi fengizt núna, hækkaðar fjárhæðir í krónutölu, til útgerðarlána, þá er þetta engan veginn fullnægjandi til að rísa undir þeim lausaskuldum, sem þessi fyrirtæki skulda.

Ég hygg, að ennþá liggi ekki fyrir neinar ákveðnar skýrslur eða upplýsingar um það, hvernig afkoma sjávarútvegsins hafi verið síðastliðið ár. Ég hef fengið að sjá áætlun, sem gerð var í sambandi við þessa samninga og umræður, sem fóru fram á milli flokkanna, en það náði ekki nema fram á mitt ár og þar voru meira og minna áætlaðar tölur. Ég hygg, að það sé engan veginn hægt að byggja endanlega á þeim. Sérstaklega mun hafa verið meiri bjartsýni viðvíkjandi síldveiðunum, heldur en ástæða reyndist til. Það er ágætt að gera svona skýrslur, en það er bara dálítið vafasamt að lofa þm. ekki að sjá þessar skýrslur. Við eigum að reyna að fylgjast með þessum málum eftir því, sem við getum, en þá þurfum við að fá þau gögn í hendur, sem fyrir hendi eru. Ég veit, að ríkisstj. hefur þetta í sínum höndum, en ég gat ekki fengið þessar skýrslur. Ég fékk að lesa hana og punktaði hjá mér helztu atriðin þessu viðvíkjandi, en það ætti hver einasti þm. að fá að sjá þetta. Þetta er ekkert leyndarmál. Og ef það væri leyndarmál, þá væri hægt að binda það þagnarskyldu. En ef við eigum að vinna að málum af einhverri þekkingu, þá verðum við að fá þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru á hverjum tíma, til þess að geta tekið skynsamlega afstöðu til mála. Samkvæmt þessu yfirliti var gert ráð fyrir, að tapið á bolfiskveiðum yrði 368 millj. Af því voru afskriftir, sem ekki var búið að draga frá, um 189 millj. Og þá hefði tapið átt að vera 179 millj., en svo eiga styrkir eftir að dragast frá því. Ég ætla ekki að þreyta ykkur á því að lesa upp hvern lið. Það var t.d. gert ráð fyrir 159 millj. kr. tapi af síldveiðum. Svo eru afskriftir af því 64 millj., þannig að tapið hefði átt að vera 95 millj., en svo á eftir að draga frá styrki. Ég efast ekki um, að tapið hafi verið meira en það. Það var gert ráð fyrir, að saltfiskurinn færi bezt út úr þessu, saltfiskverkunin kæmi út með mjög lítið tap, jafnvel frekar hagnað. Útkoman þar var lakari, heldur en gert var ráð fyrir. Fiskurinn léttist meira og hann fór verr í flokkun heldur en gert var ráð fyrir. Heildartapið hjá sjávarútveginum var gert ráð fyrir, að yrði eitthvað ca. 1.400 millj., afskriftir eitthvað um 600 millj. Svo kæmu styrkir, 300—400 millj. kr. skulum við segja, en þá er ekki ólíklegt, að skuldir útvegsins hefðu, þó að ekki sé reiknað með afskriftunum sem nýjum skuldum, — þá hefðu þær orðið 400—500 millj. Um þetta get ég ekkert fullyrt, því að ég hygg, að enginn hafi í höndunum ennþá nákvæmar skýrslur um þetta. En þetta er ekki ólíklegt, en af því er mér sagt, að hafi verið á annað hundrað millj. í ógreiddum, gjaldföllnum víxlum erlendis fyrir veiðarfæri og það voru hér Japanir upp, sem áttu að fara að ganga að fyrirtækjunum. Ríkisstj. mun hafa hlutazt til um að semja eitthvað um greiðslu á þessu, en það er dýrt að koma svona óreiðu og óorði á eitt þjóðfélag. Það verður farið að selja þeim vöruna dýrar á eftir, þannig að þetta er vandræðamál að geta ekki staðið í skilum með erlenda víxla, bæði fyrir fyrirtækin og þjóðina í heild. Mér þætti ekki ólíklegt, að skuldaaukningin hjá útveginum eða skuldir útvegsmanna og fyrirtækja hefðu aukizt um 400—500 millj. á s.l. ári, mér þætti það ekki ólíklegt, þannig að þið sjáið sjálfir, að þótt það væru látnar 100 millj. í hækkuðum útgerðarlánum, þá nægir það engan veginn til. Það þarf miklu meira. Þetta er ekki pólitískt mál og það er ekki ástæða til að gera það allt of flokkslegt og ég ætla ekki að halda neinar eldhúsdagsumr. yfir ríkisstj. í sambandi við þetta mál. Það á miklu betur við að gera það á öðrum vettvangi. En í þeirra liði veit ég, að er mjög mikill áhugi fyrir lausn á þessum málum. T.d. vildi ég lesa hér upp till., sem flutt var af þeirra eigin stuðningsmanni, sjálfstæðismanni í Keflavík, og hún hljóðar svo:

„Aðalfundur útvegsmanna Suðurnesja, haldinn í Keflavík 23.11., beinir þeim eindregnu tilmælum til aðalfundar L. Í. Ú., að lausaskuldasöfnun sjávarútvegsins, sem átt hefur sér stað, sérstaklega á s.l. tveimur árum, verði tekin til sérstakra umr. og aðalfundurinn komi sér saman um ákveðnar till. til lausnar þessa geigvænlega vanda.“

Þetta er ein af stærstu verstöðvum landsins. Ég veit, að sömu raddir hafa komið frá Vestmannaeyjum og ég býst við, að þetta sé einróma álit þeirra manna, sem við þessi mál fást. Það hafa talað við mig ýmsir menn, sem eiga þjónustufyrirtæki sjávarútvegsins. Þeir segjast ekki fá greiddar skuldir, sem bátarnir séu í við þær. Vélsmiðjur og veiðarfæragerðir geta þess vegna ekki veitt þeim neina þjónustu framvegis, ef skuldir eru ekki greiddar. Þetta skapar óhemju örðugleika fyrir fyrirtækin, þannig að þau eiga mjög erfitt með að koma sínum bátum af stað, ef ekki er greitt út þessu. Ég álít, að það sé búið að dragast of lengi að vinna að þessum málum. Ég skal ekki fullyrða, hvort ríkisstj. er eitthvað farin að vinna í þessu núna, en við vildum fyrir hönd okkar flokks leggja áherzlu á, að eitthvað verði gert í þessum málum, því verði hraðað sem mest og ég er sannfærður um, að ef stjórnarflokkarnir vilja hafa eitthvert samstarf við okkur um lausn þessara mála, þá erum við fúsir til þess.

Það er ekki úr vegi að minnast á það hér, að það hafa verið verkföll undanfarið hjá sjómönnum. Ég get gengið inn á, að útgerðarfyrirtækin hafa ekkert skaðazt á því. Þetta er sá tími, sem fiskveiðar gefa ekki mikið fyrir útgerðina. En sjómenn hafa tapað kaupi sínu og þjóðfélagið í heild hefur skaðazt á þessu verkfalli, þó að ekki hefði orðið mikill nettóarður hjá bátunum. Það urðu umr. út af þessum ráðstöfunum fyrir áramótin, ráðstöfunum vegna gengisbreytingarinnar og ráðstöfunum hvað sjávarútveginn snertir í því sambandi — og þá hafði ég framsögu hér fyrir minn flokk í því máli og þóttist tala af hógværð og það var ekki af minni hálfu nein illkvittni í því eða óheilindi, að ég benti stjórnarflokkunum á, að ég teldi óviturlegt að setja þetta ákvæði um 17% inn í frv. Ekki af því, að ég héldi því fram, að bátaútveginum veitti ekki af þessu, heldur hitt, að ég var sannfærður um, að sjómennirnir mundu ekki þola það. Það mundu koma kröfur frá þeim, sem yrðu okkur ekki hagkvæmari og meira að segja óhagkvæmari, heldur en láta gömlu hlutaskiptin haldast, því að þau hafa aldrei verið ósanngjörn á fiskveiðunum. Hásetunum hefur aldrei veitt af sínu kaupi. Ég benti einnig á, að ef nauðsynlegt væri að lækka það við einhverja, þá væri það frekar, að yfirmennirnir gætu komizt af með minna. Og hlutaskiptin hafa verið óhagstæðari og að ýmsu leyti ósanngjarnari á síldarflotanum, sérstaklega gagnvart yfirmönnunum, heldur en á þorskveiðunum.

Nú er búið að semja við sjómennina, eftir að semja við yfirmennina og ég hef það ekki í höndunum, hvernig þessir samningar hafa verið. En eftir því, sem mér skilst, eiga útvegsmenn að borga 85—100 kr. í fæði sjómanna á hverjum degi og auk þess á að stofna lífeyrissjóð. Ég býst við, að það verði eitthvað svipað og lífeyrissjóður togaramanna, að sjómenn leggja 4% og útvegsmenn 6%. Ég hef athugað lauslega, hvernig þetta mundi verka fyrir útgerðarmenn og ég álít, að það sé miklu óhagkvæmara en ef þessi 17% hefðu fengið að vera í friði. Og ég held, að ríkisvaldið hafi sjaldan gert gagn með því að fara að blanda sér með löggjöf í kaupgjaldsmálin. Annaðhvort er að hafa þessi launamál frjáls og aðilarnir semji eða þá, að ríkisvaldið taki öll launamálin eins og kommar gera í sínum ríkjum, ákveði kaup allra stétta þjóðfélagsins. Það getur verið álitamál, hvort það á ekki að taka komma sér til fyrirmyndar í því. En að fara að taka einstaka liði út úr og hjá einstaka stéttum og ákveða það sérstaklega með lögum, en hafa hitt allt laust, það er hrein og bein vitleysa. Ég hef athugað, hvernig þetta mun virka. Í fyrsta lagi vil ég benda á, að kauptryggingin hefur verið miðuð við það, að mennirnir gætu lifað nokkurn veginn, þó að þeir hefðu ekki nema trygginguna. Það hefur verið lágmarkskrafa þeirra. Á togveiði– og línubátum hefur þetta yfirleitt látið nærri að vera trygging. Þá skipta þessi 17% engu máli. Á vertíðinni hefur verið talsverður hlutur yfirleitt hjá bátum, sem hefur fengið sæmilega og þá er það fyrst, sem þessi 17% koma til greina til þess að lækka hjá hásetunum. Ég hef slegið þessu upp fyrir bát, sem fiskar fyrir 2 millj., — það er svo misjafn afli hjá bátunum, að það er ómögulegt annað en taka eitthvert meðaltal, — á bát sem fiskar fyrir 2 millj. á vertíðinni, hefði kaup sjómanna lækkað eftir 17% ákvæðinu um 12 þús. kr. Og það álít ég, að sé eiginlega það eina, sem við unnum við þessi 17%, sem gerum út fiskibáta. Við getum haft 12 þús. kr. af hverjum háseta. Ef reiknað er með 10 hlutum, þá hefðu þetta orðið 144 þús. kr. yfir árið, af allri skipshöfninni, sem við hefðum snuðað hana um á fiskveiðum. Og það er alveg óþarfi að vera að því. En hvað verðum við að borga í staðinn? Við verðum að borga fæði í ca. 300 daga. Það gerir á hvern háseta ca. 25 þús. kr. Við verðum að borga 6% af kaupinu hans, sem ég reikna 9 þús. kr. Þá eru komnar 34.500 kr., sem við verðum að borga, en ef við hefðum ekkert verið að hreyfa þessum 17%, hefði það orðið ca. 12 þús., þannig að bátaútvegurinn virðist snuðaður um 22 þús. á hvern háseta eða eftir aflamagni og hásetafjöldanum ca. 200—400 þús. kr. á bát. Það er ekki nóg að semja eitthvað uppi í Efnahagsstofnun af bóklærðum hagfræðingi, slá upp einhverjum tölum, sem eru óframkvæmanlegar. Menn verða að skilja sjómennina. Sjómannshjartað er gott og þeir vita, að okkur gengur illa. Ég hef kynnzt þeim í nokkuð mörg ár og ég hef fundið, að þegar þeir vita, að illa veiðist, þá hef ég alltaf fundið til þess, hvað þeir fara varlega, þegar þeir biðja mig um peninga. En það má ekki svíkja þá og ekki fara aftan að þeim. Þeir reiðast og geta reiðzt illa. En það er ekki af því, að þeir séu að reikna þetta svo nákvæmlega út. Og þeir gerðu miklu meira úr þessu tjóni sínu, heldur en var, hvað fiskveiðarnar snerti, af því að þessi 17% skerðing náði ekki til þeirra nema þá mánuði, sem þeir veiddu umfram tryggingu. En þeir gerðu verkfallið og þeir settu fram sínar kröfur. Það hefur verið hjá þeim mánaðarvinnustöðvun og við erum miklu verr staddir heldur en ef málinu hefði aldrei verið hreyft og engir hagfræðingar hefðu komið nálægt þessum samningum. Ég hef á margan hátt mætur á Jónasi Haralz sem gáfuðum og velviljuðum manni, en þarna skildi hann ekki sjómennina og hann þekkti heldur ekki húsbændur sína, ríkisstj. Það áttu að vera bundnir samningar um þetta. Þeir þorðu ekki að framfylgja þeim. Það þarf kjark til að framkvæma vitleysu ekki síður, en það sem vit er í. Það var látið undan og samningar gefnir lausir. Það þýddi auðvitað, að þetta var gersamlega þýðingarlaust ákvæði. Og svo var haldið þannig á því, að hlutur bátaútvegsins er miklu verri en hann var áður.

Togaraútgerðarmennirnir eru búnir að búa við þessa hörmung að hafa þennan lífeyrissjóð í mörg ár og þetta hefur verið einn allra þyngsti liðurinn fyrir þá og átt drjúgan þátt í, að togararnir hafa ekki getað borið sig. Það er ákaflega þægilegt að fara hér upp í ræðustól og halda þar fallega ræðu um, að gamla fólkið hafi allt of litlar tekjur og þeir, sem séu að byggja hús, fái allt of lítil lán. Það geta allir. En hver á að borga þetta? Hver er fær um að borga þetta? Eiga sjómennirnir að gera það? Eiga námsmennirnir að gera það? Útgerðarmennirnir hafa varla að éta. Bændurnir eða þeir, sem talað hafa fyrir þeirra hönd, hafa haldið því fram, að þeir hafi verið rétt tekjulausir. Það er ákaflega skemmtilegt að segja: Gamla fólkið verður að fá miklu meira. Þeir, sem eru að byggja ný hús og koma sér upp heimilum þurfa miklu meiri lán. En það verður bara einhvers staðar að taka þessa peninga. Ég veit ekki betur en námsmennirnir verði að borga í tryggingagjöld ca. 5.000 kr. á ári, sem foreldrar þeirra verða að borga fyrir þá, meðan þeir eru að læra og erfitt er um vinnu, a.m.k. s.l. sumar. Ég get ósköp vel unnað gömlu fólki að fá úr einhverjum lífeyrissjóði. En það verður bara einhvers staðar að taka þetta fé. Það er sjaldan talað um, að menn séu aflögu færir. Nú á að skella þessu á útgerðarmenn í viðbót við allt annað. Það mun reka að því eins og með launaskattinn og aðstöðugjaldið, sem hefur verið lagt á þá, þeir geta ekki borgað þetta. Það er nú undir hamrinum fjöldi af útgerðarfyrirtækjum og bátum, sem ekki hafa getað borgað þessa nýju skatta, sem núv. ríkisstj. hefur lagt á þá. Það er enginn af ráðh. í stólunum, — jú, forsrh. Og þetta liggur óborgað, þannig að það er ekki nóg að leggja á skatta. Það verður að vera hægt að borga þá. Og það verður þannig með þennan blessaðan lífeyrissjóð, sem verið er að koma á, að menn geta ekki borgað í hann. Ef þeir ekki borga í hann þessi 4%, sem haldið er eftir af kaupi sjómannanna, þá er það talinn þjófnaður og þeir eru dæmdir í tugthúsið, eins og okkar ágæta þjóðfélag gerði við einn af þeim mönnum, sem hafði átt mikinn þátt í að auka tækni á síldveiðum. Ég vissi ekki betur en menn væru dæmdir í fangelsi fyrir að hafa ekki staðið skil á greiðslum á opinberum gjöldum, sem þeir hafa átt að borga fyrir sjómennina. Ég efast um, að það hafi verið framkvæmt, því að það er lítil grimmd í réttarfari hér á landi, sem betur fer og e.t.v. of lítil í sumum tilvikum, en það getur endað með því, að allmargir útgerðarmenn verði tugthúsmenn fyrir þennan blessaðan lífeyrissjóð, ekki af því, að ég uni ekki sjómönnum þess að hafa lífeyrissjóð, en það verður bara að borga í hann. Og eru þeir færir um að láta þessi 4%, sem þeir taka af kaupinu sínu? Þeir segja mér, hásetar, sem ég þekki, að þeir hafi varla efni á að borða. Ég hygg, að það sé alveg rétt hjá þeim. Það er hægt að leggja á nýja skatta og semja ný lög, en það verður að vera einhver vegur til að standa undir því. Og allra óhagkvæmast er að búa til nýja skatta, þegar jafnmiklir erfiðleikar eru með atvinnuna og nú er. Það, sem við þurftum að gera og gera sameiginlegt átak í, var að ná greiðslujöfnuði við útlönd. Til þess urðum við að neita okkur um allt, sem við gátum neitað okkur um. Svo gátum við einhvern veginn komið okkur saman um, hvernig við skiptum þessu. Þetta var frumatriði, og hefði það verið gert, þyrftum við ekki að fella neitt gengi. Og hefði ríkisstj. stefnt að því ákveðna marki, hefðu margir í þjóðfélaginu viljað hjálpa henni til, sem ekki tilheyra hennar flokkum. Þetta er frumskilyrði og á þann eina hátt getur gjaldeyririnn orðið öruggur. Við getum aldrei losnað við þá efnahagsörðugleika, sem við erum í og rekstrarfjárskort, nema fólk geti treyst gengi krónunnar, geti treyst því, að þeir peningar, sem við trúum þjóðfélaginu fyrir, séu ekki gerðir verðlausir.

Ég efast ekkert um, að ríkisstj. vill vel og ég hef aldrei efazt um hennar góða hjartalag. En það er bara þetta, þeir fara ekki rétta leið. Þeir fara ekki rétt að hlutunum. Og það var þannig með finnska stríðshetju, sem Sveinn hét. Hann hafði gott hjarta, en heilinn var bara ekki nógu góður. Það er þetta, sem er sameiginlegt með þeim ágæta manni og núv. ríkisstj. En ég vona nú, hvað sem því líður, að þó að gert hafi verið mikið axarskaft í lausn þessa máls og til óhagræðis fyrir bátaútveginn, — að fara að læða þessum 17% í frv. var alveg eins og að hella benzíni í glæður í ösku, það myndaðist eldur, sem hefur orðið okkur til óþurftar, sem útgerð rekum, –þá vona ég, að það verði unnið sameiginlega að því að leysa það vandamál, þennan hnút, sem nú er og hvílir á útgerðarfyrirtækjunum, að losa þau við þessar lausaskuldir, því að það er þannig, að það hefur verið hlífzt við að ganga að sumum bátunum. Bæði bankaskuldir og skuldir einstaklinga og þjónustufyrirtækja, það hefur verið hlífzt við því í von um, að lausn fengist á þessu máli.

Það er hægt að leysa þetta mál, ef vilji er fyrir hendi og skynsamlega er að því farið án þess að eyða nokkrum gjaldeyri fyrir þjóðina, því að við vitum það ósköp vel, að hann er ekki til. Þetta er hagræðing innan hins innlenda lánakerfis, sem ekki þarf að vera nein gjaldeyrissóun fyrir þjóðina, en veldur því, að hægt er að reka atvinnufyrirtækin á hagkvæmari hátt á eftir og verður þess vegna til hagnaðar fyrir þjóðfélagsheildina. Ég er ekki að tala um, að það verði gerð skuldaskil, þannig að það verði strikaðar út miklar fjárhæðir hjá mönnum. Það er heldur enga ákvörðun hægt að taka um það atriði, fyrr en fyrir liggja glöggar skýrslur eða yfirlit um, hvernig hagur þessara fyrirtækja er, en ég geri mér það ljóst, að það er ekki ólíklegt, að nokkur þeirra séu þannig stæð, að það sé e.t.v. ekki ástæða til þess að reka þau með óbreyttri stjórn áfram. Ég get vel búizt við því, að það þurfi annað hvort að fella niður skuldir eða fá aðra stjórn á þeim. Og það er ekkert óeðlilegt, að það sé þannig í öllum atvinnustéttum í okkar þjóðfélagi.