05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (3248)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Stundum minna umr. okkar á þingi á frásagnir, sem maður hefur lesið úr þursabyggðum. Þar er sagt, að viðræður fari þannig fram, að stundum sé ekki svarað fyrr en eftir ár og jafnvel aldir. Þessi litla till., sem einvörðungu fjallar um vinnubrögð, var lögð fyrir snemma á þessu þingi, en vegna þess hve fsp. taka mikinn tíma í Sþ., komst hún ekki á dagskrá. Hún var tekin á dagskrá örstuttan tíma rétt fyrir jól fyrir sérstaka vinsemd þingforseta, en þegar umr. voru rétt að komast af stað, varð að fresta þeirri umr. enn. M.a. flutti hæstv. utanrrh. þá ræðu og nú er sem sagt til þess ætlazt, að ég fari að svara henni hér. Þessi vinnubrögð eru þeim mun fráleitari, sem till. fól einvörðungu í sér hugmynd um eðlilega starfshætti Alþ. Ég vil leyfa mér að lesa hana fyrir hv. alþm., með leyfi hæstv. forseta. Tillagan var svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela utanrmn. að semja rækilega greinargerð um afstöðu Íslands til Atlantshafsbandalagsins í tilefni þess, að 1969 getur hvert aðildarríki bandalagsins sagt sig úr því með eins árs fyrirvara. Í greinargerðinni skal rætt um þau vandamál, sem tengd eru aðild Íslands að bandalagi þessu, breytingar á alþjóðamálum á þeim 20 árum, sem bandalagið hefur starfað og viðhorfin nú. Enn fremur verði þar raktar hugmyndirnar um öryggisbandalag Evrópu, sem leysi Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið af hólmi. Greinargerð þessi skal lögð fyrir Alþingi, er það hefur störf í ársbyrjun 1969, en að loknum umræðum um hana verði teknar ákvarðanir um afstöðu Íslands til Atlantshafsbandalagsins.“

Hér er sem sagt einvörðungu lagt til, að þetta mál, — afstaðan til Atlantshafsbandalagsins, sem kemst óhjákvæmilega á dagskrá vegna þess að nú líður að því, að aðildarríkin geta sagt sig úr því, ef þau kæra sig um, — verði afgreitt með þinglegum vinnubrögðum, að ýtarleg gögn um málið verði lögð fyrir Alþ. og um það verði hafðar þinglegar umr. og síðan teknar ákvarðanir. Hæstv. ríkisstj. virðist hafa hugsað sér að hafa annan hátt á. Bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa talað um það sem sjálfsagðan hlut, að Íslendingar héldu áfram aðild sinni. Mér finnst þessi vinnubrögð ekki ná nokkurri átt. Um þetta mál ber Alþ. að taka ákvörðun, hvað svo sem mönnum sýnist um það, hver ákvörðunin eigi að vera. Og þetta eitt fólst í till. okkar, þetta var till. um vinnubrögð. Hins vegar hefur tíminn liðið án þess að málið yrði afgreitt og þetta er enn þá upphafsumr., málið hefur ekki enn farið til n., eins og það ætti að gera samkvæmt þingsköpum. Mér sýnist, að úr því, sem komið er, sé það tómt mál að ímynda sér, að jafnvel þótt þessi till. færi til n., kæmi hún nokkurn tíma þaðan aftur, þannig að unnt yrði að afgreiða málið á þessu þingi. Hins vegar finnst mér það einsætt, að þessu þingi ber að taka ákvörðun um það, hvernig að þessu máli skuli staðið og til þess að flýta þeirri ákvörðun, leyfi ég mér að leggja til úr því að málið hefur dregizt svona á langinn, að það verði nú afgreitt með rökstuddri dagskrá, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstjórn og utanrmn. láti semja rökstuddar greinargerðir um Atlantshafsbandalagið og afstöðu Íslendinga til þess með hliðsjón af þróun alþjóðamála, að þau gögn verði lögð fyrir Alþingi og rædd, en ákvarðanir síðan teknar um aðild Íslands að bandalaginu, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.“

Með þessari málsmeðferð mundi Alþ. nú þegar taka um það ákvarðanir, hvort það vill, að um þetta mál verði fjallað á þinglegan hátt. Ég vil biðja hæstv. forseta að taka við þessari tillögu.