05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (3249)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég stend hér ekki upp til þess að halda ræðu að þessu sinni, ekki langa ræðu, afstaða mín og okkar Alþb.–manna til Atlantshafsbandalagsins ætti að vera orðin öllum ljós og var raunar ítrekuð rækilega nú ekki alls fyrir löngu af hv. 6. þm. Reykv.

Ég stend hér upp í þetta sinn til að leggja fram ofur litla fsp., að vísu ekki til neins hæstv. ráðh., aldrei þessu vant, heldur til tveggja hv. alþm. Að vísu er aðeins annar þessara hv. alþm. staddur hér í salnum, en ég vænti þess, að hann komi fsp. á framfæri við hinn hv. þm., að því er að honum lýtur, svona við tækifæri. Þessir tveir hv. þm. eru hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson og hv. 4. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson.

Þessir menn tryggðu sér í síðustu kosningum sæti hér á hinu háa Alþ. á vegum Alþb. Það voru fylgjendur Alþb., sem kusu þá og að sjálfsögðu til þess að framfylgja stefnu Alþb. í utanríkismálum, sem og öðrum málum. En síðan hafa báðir þessir hv. þm. sagt skilið við Alþb., og hér á Alþ. koma þeir fram — í reynd a.m.k., hvað sem formsatriðum líður, — þá koma þeir fram í reynd sem sérstakur þingflokkur. Svo bar það til tíðinda eitt sinn í vetur á fundi, þar sem annar þessara hv. þm. svaraði fsp., hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, — þetta var á stúdentafundi, — þá bar það til tíðinda, að hann lýsti sig andvígan yfirlýstri stefnu Alþb. að því er varðar aðild Íslendinga að NATO. Krafa Alþb. um það, að Íslendingar segi sig úr NATO var allt í einu orðin, að áliti þessa hv. þm., fásinna. Hann reyndist kominn á þá skoðun, að það væri skynsamlegast fyrir okkur Íslendinga að sitja áfram í þessu hernaðarbandalagi, sitja sem fastast.

Ég tel, að það fólk, sem kaus þennan hv. þm. í síðustu kosningum, eigi heimtingu á því að fá nánari grg. fyrir þessari breyttu afstöðu hans og ég tel, að þetta fólk hljóti að vænta slíkrar grg., þegar þessi mál eru til umr., eins og núna hér á hinu háa Alþ., þó það hafi ekki orðið. Að því er varðar hinn þm., 4. þm. Norðurl. e., þá má segja, að það sama gildi um hann. Mér er kunnugt um það eftir ferð, sem ég fór nýlega um kjördæmi hans, að það fólk, sem kaus þennan hv. þm. í síðustu kosningum, væntir þess, að hann taki af öll tvímæli í þessum efnum, geri grein fyrir því, hvort hann hyggst framfylgja þeirri stefnu, sem hann var kosinn til að framfylgja, þ.e. stefnu Alþb. að því er varðar aðild Íslendinga að NATO, eða hvort hann hyggst fylgja félaga sinum í stuðningi við áframhaldandi aðild Íslands að NATO. Vænti ég sem sagt vinsamlegast, að þessi hv. þm. svari a.m.k. fyrir sitt leyti fsp. og komi á framfæri við hinn hv. þm. þeim hluta fsp., sem að honum lýtur.