16.12.1968
Neðri deild: 30. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það verður ekki dregið í efa af mér, að sjávarútvegur sé nú í miklum vanda og að það hafi verið brýn og aðkallandi nauðsyn að reyna að gefa honum blóð með fjármálalegum ráðstöfunum honum til aðstoðar, og um þetta eru sennilega allir sammála. Ég býst við, að hæstv. ríkisstj. kunni að segja sem svo: Ja, ef við hefðum ekki gert þetta, komið sjávarútveginum til aðstoðar, þá er full hætta á því, að hann hefði stöðvazt, og það hefði bitnað ekki aðeins á sjómannastéttinni heldur einnig á verkalýð landsins í minnkandi atvinnu. Allt þetta kann að vera rétt. En ég bendi hins vegar á það, að með þessu frv. er bjargráðið við sjávarútveginn einungis hugsað á kostnað einnar stéttar, undirstöðustéttar þjóðfélagsins, sjómanna. Og það álít ég, að sé ekki réttlátt, eins og sakir standa, þegar sjómannastéttin hefur orðið fyrir jafnmiklum tekjumissi, sem hún hefur orðið fyrir að undanförnu, af þeim tveimur höfuðástæðum, sem flestir ræðumenn hafa hér minnzt á: minnkandi afla og lækkuðu fiskverði. Þennan vanda sjávarútvegsins ber auðvitað að leysa á þann veg, að byrðarnar af því leggist á þjóðina alla, sízt af öllu á sjómannastéttina eina. En þó er annað mál, sem ég tel enn þá betur sýna það, að hér ekki rétt að farið til þess að leysa þessi miklu vandamál sjávarútvegsins, og það er aðferðin við lausnina. Ég er í grundvallaratriðum andstæðingur þess, að kjaramál vinnustéttanna séu leyst af löggjafanum með lagaboðum og af ríkisvaldinu. Það eru til aðrar og sjálfsagðar leiðir í þeim efnum, og það eru samningaleiðir við viðkomandi stéttir. Ég verð því miður að harma það, að sú leið hefur ekki verið farin. Mér er ekki kunnugt um það, að hæstv. ríkisstj. hafi á undanförnum vikum eða mánuðum staðið í samningum við sjómannastéttina eða samtök hennar til þess að reyna að finna lausn á þessum vanda og reyna að komast að samkomulagi um, hvaða byrðar sjómannastéttin og samtök hennar vildu af fúsum vilja taka á sínar herðar til þess að eiga þátt í lausn vandans. Slík vinnubrögð hefði ég þó eiginlega talið alveg sjálfsögð. Fyrst, þegar allar slíkar leiðir hefðu strandað, hefði verið kannske forsvaranlegt að reyna lagaboðsleiðina.

Það fer ekkert á milli mála, að verði þetta frv. að lögum, verður þar með um að ræða gífurlega röskun og skerðingu á kjörum hlutasjómannanna. Hlutaskiptin eru til orðin í frjálsum samningum á hverjum tíma milli útgerðarmanna og sjómannastéttarinnar og samtaka þeirra í fylkingarbrjósti. Það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að sjómannastéttin uni því ekki, að þessu hefðbundna kerfi í þjóðfélaginu sé raskað og farið, án þess að reyna samningaleiðir, inn á lagaboðsleið í skiptum milli sjómanna og útgerðarmannanna. Það hefði að mínu áliti, ég endurtek það, átt að leggja allt kapp á það að leysa þessi vandamál gagnvart sjómannastéttinni eftir samningaleiðum.

En nú gera menn sér í röðum ríkisstj. og stuðningsmanna hennar sjálfsagt vonir um það, að það hafi tekizt að koma í veg fyrir stöðvun sjávarútvegsins, sem hefði getað orðið af fjármagnsástæðum, ef ekki hefði verið reynt að leysa málið og með því verði komið í veg fyrir stöðvun sjávarútvegsins. Ég vildi óska, að svo yrði, en ég óttast sannast að segja, þó að þetta frv. verði að lögum, að sjávarútvegurinn kunni að stöðvast. Ég óttast það. Það gæti vel farið svo, ef sjómannastéttin mæti það þannig, að með slíkri löggjöf væri þrengt svo að lífskjörum þeirrar stéttar, að sjómenn fengjust ekki á flotann. Og erum við nokkuð bættari með, að sjávarútvegurinn stöðvist að þeim ástæðum, heldur en vegna fjármagnsskorts útgerðarmannanna? Nei, ég held, að það komi fyrir eitt og væri þá verra að fá stöðvun af þeim sökum, að við fengjum ekki sjómenn til þess að stunda þessa grundvallaratvinnu fyrir þjóðfélagið. Ég harma því mjög, að ekki skuli hafa verið reyndar allar leiðir til þess að ná samningum við sjómannastéttina og sjómannasamtökin til þess að leysa þessi vandamál. Það er vissulega ekki skynsamlegt að fara inn á lagaboðsleiðina, þegar nú blasir við, að á eftir verður að fara samningaleiðina, því að þá er vissulega búið að setja eitur í bikarinn, sem ekki var hyggilegt að setja í hann. Það er búið að spilla andrúmsloftinu og minnka þannig möguleika á því, að skynsamlegir, öfgalausir samningar náist við sjómannasamtökin, eftir að búið væri að setja slíka löggjöf sem þessa.

Það hefur oft verið ráðgáta hér á landi, hvernig á því standi, að fiskverð sé hér lægra heldur en í okkar nágrannalöndum. Margoft hefur verið gerður samanburður á fiskverði hér og í Noregi, og fleiri lönd hafa verið tekin til samanburðar og okkar fiskverð hefur þar ekki staðizt neinn samjöfnuð, verið miklu lægra. Mér finnst þetta frv. bregða upp eiginlega ágætlega skýrri mynd af því, hvernig í þessu liggur, sýni þarna furðuljóslega, hvar hundurinn sé grafinn. Það er búið að kroppa svo mikið utan af þeirri arðgjöf, sem sjávaraflinn veitir íslenzku þjóðinni, að það eru ekki nema roð og uggar eftir handa sjálfri framleiðslustéttinni. Og hér sjáum við nú, hvernig þetta er gert.

Nú á að taka fyrst 10% af óskiptum afla og þar með er 1/10 af aflaverðmætinu lagður í stofnlánasjóð útvegsmannanna, það lagt á sjómannastéttina að þessum hluta að standa undir endurnýjun skipastólsins, sem þeir eiga þó ekkert í og er réttmæt eign annarra. Næst eru svo tekin 17% af óskiptu aflaverðmæti og sú upphæð er einnig afhent útgerðarmönnunum. Útflutningsgjaldið af nýjum eða ísvörðum fiski er svo 7% og þá er búið að taka þarna af óskiptum afla 34%. En það er ekki allt búið enn. Enn fremur eru svo tekin gjöld af óskiptu aflaverðmæti, 1.25% til Aflatryggingasjóðs, 0.15% til Ferskfiskeftirlitsins, 0.2 eða 0.3% til síldarleitarskips og þá erum við komin þarna upp í nærri 36% af óskiptum afla, 35.93%, og við þetta breytast hlutaskipti sjómanna þeim í óhag úr 31%, sem þeir áttu að hafa á hinum venjulegu fiskibátum okkar, niður í 20.02%.

Þetta dæmi á við um okkar venjulegustu gerðir og stærðir af fiskibátum. Þegar til síldveiðanna kemur, er myndin sízt aðgengilegri, þegar litið er á málið frá sjómönnunum. Fyrst eru þá tekin 22% af óskiptu og lögð í Stofnfjársjóðinn, þá eru 17% tekin upp í útgerðarkostnað, og ef seld er síld í erlendri höfn, eru tekin 13–14% í viðbót af óskiptu, ef um síld er að ræða í bræðslu, en þetta fer upp í 20%, ef síld er seld í salt. Og svo koma öll hin smágjöldin, sem ég taldi í fyrra dæminu, einnig og er þá í þessu tilfelli komið svo, að af óskiptum afla er tekinn rúmlega helmingurinn, 55%, jafnvel 60%, upp í ýmiss konar gjöld, sem að vísu eru ekki öll óskyld sjávarútveginum, en tekin af óskiptum afla og aflahlutur sjómannsins þannig skertur stórkostlega, ég vil segja svo stórkostlega, að þess eru engin fordæmi í sögunni áður.

Þetta mál vakti auðvitað óskipta athygli verkalýðssamtakanna strax, þegar frv. var lagt fram og var þá tekið til umræðu þar, bæði í miðstjórn Alþýðusambandsins og í forystuliði sjómannasamtakanna. Alþýðusambandið kaus strax nefnd manna til þess að ganga á fund hæstv. forsrh. og bera fram þá ósk við hann — þá kröfu, getum við sagt — að afgreiðslu frv. væri frestað í sölum Alþ. á meðan eðlilegt tóm gæfist til viðræðna við sjómannasamtökin um málið til þess að freista, þótt seint væri, allt of seint, freista að ná samkomulagi um lausn málsins á annan veg heldur en í frv. fælist. Við fengum þau svör greiðlega hjá hæstv. forsrh., að afgreiðslu frv. yrði ekki frestað, en hins vegar yrði enginn óeðlilegur hraði hafður á afgreiðslu þess og nokkurt svigrúm mundi því gefast, óvíst að þyrfti nokkuð til frestunar að koma, áður heldur en málið yrði rætt við sjómannasamtökin. Þetta mun hafa verið föstudaginn 6. desember, sem við bárum þessa kröfu fram við ríkisstj. og þá var málið komið til nefndar í hv. Ed., og þar var málið fram yfir þá helgi fram á þriðjudag eða svo, að ég hygg; málið beið að því leyti og það játa ég, að það hefur ekki verið hafður á því neinn óeðlilegur hraði. En þeirri kröfu okkar var synjað, að það væri kyrrt hér í meðferð Alþingis, meðan viðræður færu fram við forystu sjómannasamtakanna. Sjómannasamtökin brugðu hart við og kvöddu saman ráðstefnu til þess að ræða einmitt þetta mál og viðhorf samtakanna til þess; það var gert fyrra sunnudag.

Niðurstaða sjómannaráðstefnunnar var á þá lund, að sjómenn tóku algerlega sem grundvallarafstöðu þá ákvörðun að mótmæla mjög ákveðið og harðlega, að kjörum sjómanna yrði ráðstafað með löggjöf og það er þessi grundvallarafstaða sjómannasamtakanna, sem ég er algerlega samþykkur. Það er þessi afstaða, sem veldur því, að sjómannasamtökin hafa ekki óskað eftir því, að það væri farið að krukka neitt í þetta frv. með brtt. við það, og áskildu sér fyrst og fremst þá aðstöðu að geta haft frjálsa samninga og málið kæmi þess vegna til meðferðar við samningaborð hið fyrsta.

Nú mun þess hafa verið farið á leit við samtök útgerðarmanna, að þau losuðu góðfúslega samninga sjómannanna, sem annars hefðu verið bundnir út árið 1969 eða fram til þeirra áramóta, og því verið vel tekið, en þó ekki verið gefið eindregið jákvætt svar um það, hvort hægt væri að koma því við á vegum sjómannasamtakanna að losa samningana. En það get ég fúslega viðurkennt, að því hefur verið mætt, þessu sjónarmiði sjómannasamtakanna um, að málið verði að vera á frjálsum samningagrundvelli undir eins og þessi löggjöf hefur verið samþykkt, því að meiri hl. sjútvn. í Ed. hefur borið fram þá brtt. við frv., að kjarasamningum milli útvegsmanna og sjómanna, sem samkv. ákvæðum þeirra hafi verið ætlað að gilda til ársloka 1969, sé heimilt að segja upp án fyrirvara eftir gildistöku þessara laga. Þarna er orðið við þeirri kröfu sjómannasamtakanna að eiga frjálsa samningsaðild um sjómannakjörin, þó ekki fyrr heldur en þetta frv. er orðið að lögum. Það harma ég, að það skyldi ekki heldur hafa verið farin, eins og ég er margbúinn að segja í þessari ræðu minni, sú sjálfsagða leið að þrautreyna samningaleiðina við sjómenn, þó að samningarnir væru bundnir, áður heldur en frv. var lagt fram um þetta efni, sem ekki getur gert annað heldur en stofna til ófriðar um þessi mál og draga úr möguleikum þess, að málin verði leyst - jafnviðkvæm og þau eru — með sanngirni við samningaborð.

Það er mikil bót í máli, að þessi till. skuli vera komin fram, og ég tel víst, að sú breyting verði á lögunum, að þegar þau hafa verið afgreidd á Alþ., þá falla samningar úr gildi fyrirvaralaust og upp hefjast samningar milli sjómanna og útgerðarmanna, þeirra eðlilegu aðila, sem áttu að leysa þetta mál og sem ég treysti engum betur til að leysa við frjálst samningaborð. Þetta þýðir því, að ég sé ekki, hvaða tilgang afgreiðsla frv. hefur. ég sé ekki annað heldur en lögfesting frv. spilli aðeins samningamöguleikum og geti ekki bætt þá og hefði því haldið, að við ættum ekki að þurfa að bíða eftir því, að samningunum verði öllum sagt upp fyrirvaralaust nú um áramótin og þá hæfust samningar um hækkun á skiptaprósentunni, sem í raun og veru er gjörbreytt með því, sem tekið er af óskiptum afla og hlutur sjómanna þannig skertur og samningunum rift. Ég er alveg viss um það, að sjómenn hefðu teygt sig nokkuð til samkomulags, ekki beðizt undan að bera neinar byrðar í sambandi við lausn þessa máls. Ég er alveg viss um það, að þeir hefðu teygt sig nokkuð til samkomulags og tekið á sig verulegar byrðar, allar þær byrðar, sem með nokkurri sanngirni er hægt að leggja á þá, eftir að þeir hafa orðið fyrir slíku tekjuafhroði, sem þeir hafa orðið fyrir á undanförnum árum. Ég sé ekki annað, heldur en það sé full hætta á alvarlegum ófriði á vinnumarkaði að þessu frv. samþykktu og það verða frjálsir samningar um það; inn á það er búið að ganga og það verður áreiðanlega virt, en það kemur bara allt of seint. Á því átti að byrja. Ef frv. yrði nú samþykkt eins og það liggur fyrir og samningar síðan rifta niðurstöðum þess og breyta skiptakjörum á ný rétt á eftir, þá hefur sannarlega orðið skammgóður vermir af þessari ráðstöfun, og ég sé í raun og veru ekki annað, en það sé augljóst öllum mönnum, að þetta svarar engum tilgangi.

Ég skal svo ekki teygja umræður um þetta mál núna við 1. umr. annað en láta það í ljós, að ég harma það, að samningaleiðir skyldu ekki vera reyndar, tel það óvit hið mesta að ráða þessum málum til lykta með löggjöf í trássi við sjómannastéttina, því að í raun og veru er allt öryggi á íslenzkum vinnumarkaði sett í voða með þessum aðferðum. Það er enginn neinu bættari við það, að sjávarútvegurinn stöðvist vegna þess, að svo sé kreppt að kjörum sjómanna, að þeir fáist ekki á skipin og það valdi stöðvun, heldur en þótt sjávarútvegurinn hefði stöðvazt af fjármagnsskorti. Ég sé engan mun á því og ekkert betra hið síðara heldur en hið fyrra nema síður sé. Ég hef sem sé til þessa máls nákvæmlega þá sömu afstöðu og sjómannasamtökin, að prinsipíelt eigi ekki að grípa til lausnar á kjaramálum vinnustéttanna með lagaboði fyrr en þá eftir að allar samningaleiðir hafa verið reyndar án árangurs. Það verður að vera síðasta úrræðið eins og það er hjá hinum vinnandi stéttum, síðasta úrræðið að beita verkfalli, ef ekki takast frjálsir samningar. Frjáls samningaleið er eina farsæla leiðin til þess að leysa ágreiningsmál atvinnurekenda og vinnustéttanna. Ég lýsi því fullri andstöðu minni við þetta frv. og tel, að mjög óhönduglega hafi til tekizt með því að reyna að leysa þetta mikla fjárhagslega vandamál sjávarútvegsins með því að ætla sjómönnum einum að bera byrðarnar af þeirri aðgerð.