12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (3319)

136. mál, stórvirkjanir og hagnýting raforku

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. flm. þeirrar till., sem hér er um að ræða, hv. 4. þm. Reykv., hefur nú gert grein fyrir till. og látið skoðun sína í ljós, hversu nauðsynlegt það er, að ýtarlegar rannsóknir fari fram á virkjunarskilyrðum í fallvötnum landsins og er vitanlega ekkert nema gott um það að segja. Þetta er fjársjóður, sem þjóðin á og það er vitanlega æskilegt, að möguleikar séu til að notfæra sér þessi auðæfi. Og það eru mörg fallvötnin á Íslandi, sem hafa góða virkjunaraðstöðu, en stórvirkjanir er því aðeins mögulegt að gera í landinu, að við höfum notendur að orkunni. Samhliða hinni almennu notkun þarf þá að vera orkufrekur iðnaður og það er ekkert langt síðan það var almennur skilningur fyrir því hér í hv. Alþ., að það væri æskilegt að taka upp orkufrekan iðnað, sem krefðist stórvirkjana.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um, að það væri æskilegt, að það væri samstaða í jafn mikilvægum málum eins og rannsóknamálunum. Ég er hv. þm. sammála. En að það verði slík samstaða, sem var, þegar verið var að undirbúa stórvirkjunina við Búrfell, er kannske ekki það, sem æskilegast er, vegna þess að þá var ekki um samstöðu að ræða. Það gat ekki verið samstaða um að gera stórvirkjun í Þjórsá samfara því að vera á móti að gera það mögulegt að nota þessa virkjun. Hv. 4. þm. Reykv. greiddi atkv. á móti því að fá orkufrekan notanda, sem gerði stórvirkjun mögulega. En það er annað mál. Þótt hv. 4. þm. Reykv. hafi ekki haft svo næman skilning þá, er óhætt að fullyrða, miðað við ræðu hans hér áðan, að hann hefur þennan skilning nú, vegna þess að hv. þm. talaði um, að það þyrfti að rannsaka fallvötnin, það væru svo víða möguleikar á því að koma upp stórvirkjunum. Og þetta er rétt. Skilyrðin eru fyrir hendi, ef notandinn er fyrir hendi, orkukaupandinn. Og vissulega getum við átt samstöðu í þessu og það er æskilegt, að það megi verða eftirleiðis.

Það er ekki alveg rétt, sem hv. 1. flm. till. lét í skína, að í rauninni hefði verið lítið gert í rannsóknamálum á undanförnum árum. Það hefur verið harla mikið gert og miklu meira nú hin síðari ár, heldur en var áður. Það segir ekki, að það þurfi ekki að gera stærra átak á næstu árum heldur en á næstliðnum árum. En ef borið er saman, hver rannsóknakostnaður í fallvötnum landsins var hin síðari ár, má geta þess, að á árunum 1955–1959 var varið í virkjanarannsóknir að meðaltali á ári 8.7 millj. kr. Á árunum 1960–1969 var varið til virkjanarannsókna að meðaltali á ári 26 millj. kr. auk þess, sem varið var til jarðhitarannsókna, sem var ekki nema smápeningur þangað til nú hin allra síðustu árin. Vegna þess, að það hefur verið varið 26 millj. kr. að meðaltali á ári til virkjunarrannsókna síðustu árin í tíð núv. ríkisstj., hafa þessar rannsóknir beinzt að mörgum virkjunarstöðum í landinu, ekki aðeins að Þjórsársvæðinu, heldur mörgum virkjunarstöðum. Og ég vil hér aðeins nefna nokkra staði. Það er vitanlega Þjórsársvæðið, það er Hvítársvæðið, það er Hvalvatn og Reyðarvatn. Það eru Vesturlandsvirkjanir, það eru Glámuvirkjanir, Drangajökulsvirkjanir, Vestfjarðavirkjanir aðrar og Blönduvirkjanir — talsvert verið unnið að rannsóknum við Blöndu, — Jökulsárvirkjanir í Skagafirði, Norðvesturlandsvirkjanir aðrar, Laxár– og Skjálfandafljótsvirkjanir, en þar hefur verið varið miklu fé, enda eru þær rannsóknir vel á veg komnar, þannig að þar er næstum því undirbúið undir virkjun, — Jökulsárvirkjanir á Fjöllum, en þar hefur verið varið núna síðustu árin 8.2 millj., Norðausturlandsvirkjanir aðrar, Jökulsárvirkjanir á Brú, Jökulsárvirkjanir í Fljótsdal, Lagarfljótsvirkjanir, Austurlandsvirkjanir aðrar, Skaftárvirkjanir, Markarfljótsvirkjanir og nærliggjandi ár, Rangárvirkjanir eystri, Rangárvirkjanir ytri, tengilínur milli raforkuvera, gufuvirkjun í Hveragerði, sem hefur verið varið talsverðu fé til, vatnshæðarritarar og ýmsar rafveitur. Auk þess má geta þess, að nú er komin í gang fyrsta gufuvirkjunin í Námaskarði og hefur verið varið vitanlega miklu til jarðhitavirkjana, bæði þar og annars staðar. En þetta er sýnishorn af því, að það hefur víða verið rannsakað. En það er ákaflega mikið ógert í þessum efnum, sem eðlilegt er, vegna þess að það eru aðeins 9–10 ár síðan farið var að verja verulegum fjármunum í þessu skyni, og þegar ég tala um 26 millj. að meðaltali á ári síðustu árin og 8.7 millj. fyrir þann tíma, þá er miðað við verðlag. Það er fært til verðlags ársins 1969 til þess að hafa réttan mælikvarða.

Hv. 4. þm. Reykv. gerði að umtalsefni Þjórsárvirkjanirnar og þær væru orðnar eftir tímanum. Það væri sennilega komið í tímahrak. Sem betur fer er það nú ekki, að áliti Landsvirkjunarstjórnar. Það er ekki tímahrak. Það hefur verið unnið stöðugt að rannsóknum á Þjórsársvæðinu og Landsvirkjunarstjórn hefur sett sér takmark og það takmark er sett að athuguðu máli, eftir að hún hefur ráðfært sig við þá, sem að rannsóknum hafa unnið, við þá, sem hafa tæknilega þekkingu á þessum málum. Landsvirkjunarstjórn hefur sett sér það takmark að hraða loka áföngum Búrfellsáætlunarinnar og ráðast í fullmiðlun Þórisvatns. Er gert ráð fyrir að tvöfalda álbræðsluna 1971, þannig að þá verði nægileg orka fyrir hendi. Það hefur vitanlega alltaf verið talað um miðlun í Þórisvatni, sem gerir virkjunina við Búrfell miklu betri og öruggari og minni íshætta verður, eftir að þessi miðlun er komin.

Landsvirkjunarstjórn miðar einnig að því að hefja nú þegar undirbúning virkjunar við Sigöldu og Köldukvíslarveitu í Þórisvatni, svo að unnt verði að ljúka þessum mannvirkjum og sjá nýjum stóriðnaði fyrir raforku sumarið 1973, nýjum stóriðnaði og þessi áætlun er uppsett eftir nákvæma athugun. Þessi áætlun væri ekki möguleg, ef sofið hefði verið á verðinum og ekki unnið að þessum rannsóknum áður. Ég tel sjálfsagt að upplýsa þetta, vegna þess að hv. 4. þm. Reykv. gaf allt annað í skyn áðan. Ekki af því, að hann vildi fara vísvitandi rangt með eða gefa í skyn annað en það, sem rétt er, heldur af því, að hann hefur vantað réttar upplýsingar í málinu.

Í þriðja lagi vill Landsvirkjunarstjórn keppa að því og telur, að sé unnt að gera, en það er að hraða rannsóknum á efra Þjórsársvæðinu, svo að sem fyrst verði hægt að hefja nákvæma verkfræðilega athugun á virkjun á þeim svæðum, sem gætu tekið til starfa ekki síðar en 1976. Þegar þetta er athugað, er ekki eðlilegt að vera að tala um tímahrak, vegna þess að Landsvirkjunarstjórn setur sér þetta mark eftir að hafa kynnt sér, að það er mögulegt.

Það er ekki nema gleðilegt, að hv. 4. þm. Reykv. og þá væntanlega flokksbræður hans aðrir, sem áður máttu varla heyra stóriðnað eða orkufrekan iðnað nefndan, virðast nú algerlega hafa snúið við blaðinu og vilja nú hraða virkjunarrannsóknum til þess helzt, að hægt sé að ráðast í stórvirkjanir í hverjum landsfjórðungi og þá vitanlega með það fyrir augum að tryggja þessum stórvirkjunum orkufrekan iðnað, því að það verður undirstaðan eftirleiðis, alveg eins og var með okkar fyrstu stórvirkjun. Það verður ekki ráðizt í stórvirkjun á Austurlandi, Norðurlandi eða annars staðar á landinu, nema sjá fyrir því, að það séu notendur til þess að kaupa þessa orku og virkjunin geti staðið undir þeim skuldum og kostnaði, sem á henni hvíla.

Ég las upp hér lista yfir þá staði, sem rannsakaðir hafa verið og þeir eru margir, sem betur fer. Og það er rétt og sjálfsagt að hafa í huga, sem oft hefur verið talað um, að eftir 20 ár, verði notkun kjarnorkunnar orðin það auðveld, að það verði erfitt fyrir vatnsaflið að keppa við kjarnorkuna, jafnvel þar sem virkjunarskilyrði eru góð. Þetta út af fyrir sig hlýtur að reka á eftir rannsóknum og virkjunum hér á Íslandi. Og þetta út af fyrir sig hefur e.t.v. orðið til þess að sannfæra hv. 4. þm. Reykv. um það, hvað hann og hans flokksbræður fóru mikið villir vegar fyrir 2–3 árum, þegar þeir greiddu atkv. á móti orkufrekum notanda, sem vildi tryggja afkomu fyrstu stórvirkjunar á Íslandi og það er áreiðanlegt, að það er mjög gott, ef hv. alþm. hafa nú allir fengið glöggan skilning á þessu, hvert er undirstöðuatriðið að stórvirkjunum, að því, að við getum notað vatnsaflið, sem í allt of ríkum mæli er enn óbeizlað í okkar ágæta landi.

Það er rétt, sem oft hefur verið sagt, að helztu virkjunarsvæðin eru Þjórsár– og Hvítársvæðið. Það er einnig Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Brú, sem eru taldar mjög góðar og hagstæðar til virkjunar og vissulega væri það nú ánægjulegt, ef það væri hægt að virkja Jökulsá á Brú og leiða mikla orku til Austurlandsins og koma þar upp stóriðju. Þá gætum við sagt og verið sammála, hv. 4. þm. Reykv. og ég, að vel væri nú unnið að því að halda jafnvægi í byggð landsins. Og hv. þm. talaði um Blöndu og enginn vafi er á því, ef vatninu er safnað saman af öllu því mikla svæði, að þar mætti einnig gera stórvirkjun. En íbúarnir í Húnavatns– og Skagafjarðarsýslu hafa ekki not fyrir stórvirkjun til heimilisþarfa eða venjulegrar notkunar. Ef við ætlum að ráðast í stórvirkjun við Blöndu, þurfum við að koma þar einnig upp orkufrekum iðnaði og eftir því, sem mér skilst, mun ekki standa á hv. 4. þm. Reykv. að standa að því. Laxá í Þingeyjarsýslu er einnig góð til virkjunar eins og kunnugt er. Sagt er, að þar megi jafnvel virkja 100 þús. kw í staðinn fyrir 20 eða 25 þús. kw, sem talað var um, þegar fyrst var byrjað að virkja þar. En 100 þús. kw mætti fá í Þjórsá með því að safna vatninu saman úr hinum ýmsu hliðarám, en í morgun voru hjá mér tveir Þingeyingar og voru að spyrja mig frétta af þessu. Þeir voru hálfhræddir við það, að ef vatninu væri safnað saman í Laxá, gæti það jafnvel orðið til þess að setja ýmsar byggðir þar í hættu og vitanlega þarf að kanna það vel. Jökulsá á Fjöllum er náttúrlega mikið vatnsfall, eins og kunnugt er og enginn vafi á því, að þar eru virkjunarskilyrði góð, en það er eins með það, að þar er ekki hægt að ráðast i virkjun Jökulsár á Fjöllum nema það sé stórvirkjun og þá þarf að tryggja orkufrekan kaupanda, áður heldur en ráðizt er í virkjunina.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að hafa þessi orð miklu fleiri. Hv. 4. þm. Reykv. var að tala um, að það væri ekkert á fjárlögum til rannsókna. Þetta er náttúrlega ekki rétt. Það er fé á fjárlögum, en ég get verið sámmála hv. þm., að það þyrfti að vera meira og líklegt er, að það verði aflað fjár í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkisstj. til þess að vinna að orkurannsóknum. Það er enginn vafi á því, að ríkisstj. hefur alveg skilning á því, hvað það gildir að halda rannsóknum áfram. Og það má segja, að það sé dálítið skrýtið, að hv. 4. þm. Reykv., fulltrúi Framsfl., skuli nú verða til þess á Alþ. að reka á eftir núv. ríkisstj. til þess að hraða framkvæmdum, þeirri ríkisstj., sem hefur varið fjórum sinnum meira til rannsókna á hverju ári, en sú stjórn, sem hv. þm. studdi. Sú ríkisstj. hafði náttúrlega öðrum hnöppum að hneppa, heldur en láta fé í rannsóknir. Það var svo margt, sem hún þurfti annað að gera.

Það mun vera rétt, sem orkumálastjóri hefur upplýst, að það þyrfti nær 50 millj. kr. á ári næstu 8 árin til þess að ljúka þeim rannsóknum, sem helzt kalla að. Núv. ríkisstj. hefur varið 26 millj. á ári s.l. 9 ár og það er ekkert ólíklegt, að hún beiti sér nú fyrir því að hraða rannsóknum í samræmi við till. orkumálastjóra, því að sú ríkisstj., sem hefur varið að meðaltali á ári 26 millj. kr. síðustu 9 árin, þarf vitanlega ekki stórt átak til að láta nú 50 millj., vegna þess að 50 millj. nú eru ekki jafnvirði þess, sem 26 millj. voru fyrir 9 árum. En það er alveg sjálfsagt að taka því með fögnuði, að hv. 4. þm. Reykv. talar um þessi mál á ýmsan hátt með skilningi og vekur athygli á því, sem reyndar ríkisstj. vissi, að rannsóknarstarfseminni þarf að halda áfram og flýta þarf rannsóknum, eftir því sem mögulegt er og þá ekki aðeins vatnsvirkjununum, heldur einnig gufuvirkjununum og rannsóknum á jarðhitanum. Að því hefur verið unnið nú síðustu árin, sbr. jarðboranir á Reykjanesi og víðar.

Hv. þm. og hv. framsóknarmenn leggja til að kjósa 7 manna n. Út af fyrir sig er ekki ástæða til að vera á móti því að kjósa n., allra sízt, ef vonir stæðu til, að hún gæti gert eitthvert gagn. Hún gæti tekið að sér að vinna verk, sem ekki væri unnið að og hefði verið vanrækt. En ég held, að það hafi enga praktíska þýðingu að kjósa n., eins og farið er fram á með þessari till., vegna þess að það er unnið að þessum málum, hefur verið unnið að þessum málum og vantar engan skilning á því að halda þessu áfram. Og eins og hv. 4. þm. Reykv. drap á áðan, hefur verið skipuð samstarfsn. af ríkisstj. Það eru fulltrúar frá Orkustofnuninni og Landsvirkjuninni, sem eiga sæti í þessari n. undir leiðsögn iðnrh. og iðnmrn., sem hefur það verkefni með höndum að benda á, hvaða orkufrekur iðnaður er hugsanlegur til þess að nýta þá orku, sem beizluð er. Og þess vegna var nauðsynlegt, að fulltrúar frá Orkustofnun og orkumálaráðuneyti tækju sæti í þessari n. til þess að hlusta á, hvaða ráðagerðir eru uppi með orkufrekan iðnað, orkufrekan kaupanda, til þess að gefa upplýsingar um, á hvaða vegi rannsóknirnar eru og hvaða líkur eru til, að ráðizt verði í virkjun. Slík samstarfsn. var alveg nauðsynleg og ég tel gott, að henni hefur verið komið á. En að þessi samstarfsn. sé til komin vegna þess, að hv. 4. þm. Reykv. og flokksbræður hans fluttu till. hér á hv. Alþ., það held ég, að sé alveg út í hött að vera að tala um. En ef hv. 4. þm. Reykv. er eitthvað ánægðari með það að geta þakkað sér það, þá skal ég ekki taka það af honum. Það er svo iðulega, sem hv. þm. og hans flokksbræður þakka sér það, sem ríkisstj. gerir og segja: Ja, þetta hefði nú bara alls ekki verið gert, nema af því að við ýttum undir. Þeir hafa jafnvel látið í það skina, að ríkisstj. þyrði ekki annað en gera það.

Út af fyrir sig skiptir þetta ekki neinu máli. Aðalatriðið er það að, að þessum málum er unnið, þessi n., sem ég minntist á, er til orðin, samstarfsn. milli rn., sem ég vænti góðs af.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um, að það væri nauðsynlegt, að hinir pólitísku flokkar ættu fulltrúa í slíkri n., en ég vil geta þess, að þessi n. er ekki pólitísk. Þetta er fagleg nefnd og ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að við höfum þarna faglega vinnu og það kemur svo vitanlega til Alþ. á öðru stígi málsins að ákveða um það, hvort það skuli framkvæmt, sem hin faglega athugun hefur talið, að væri æskilegt að gera. Þess vegna tel ég þessa till. algerlega óþarfa, vegna þess að það er verið að vinna að þessum málum í þeim anda, sem till. gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að svo komnu máli.