18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (3360)

157. mál, embættaveitingar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. sagði, að ég hefði blandað saman algerlega óskyldum hlutum, þar sem væru atvinnumálan. annars vegar og stjórn atvinnumálastofnunar hins vegar, sem við framsóknarmenn höfðum flutt till. um. Röksemdafærsla hans er á þá leið, að atvinnumálan. hafi almennan mælikvarða eftir að fara. Þær hafi þann mælikvarða eftir að fara, að þær framkvæmdir, sem þær láni í eða veiti styrki til, skuli vera arðvænlegar. Ég verð nú að segja, að mér þykir sá mælikvarði dálítið matskenndur. Og ég er hræddur um, að sínum augum geti nú hver litið á það, hvort einhver tiltekin framkvæmd sé arðvænleg eða ekki. Ég býst við því, að það væri ósköp auðvelt að setja einhvern hliðstæðan mælikvarða varðandi t.d. stjórn á gjaldeyris- og innflutningsmálum, t.d. segja, að ekki mætti veita innflutning fyrir vöru nema hún væri nauðsynleg. Er það ekki mælikvarði? Það er mælikvarði á borð við að segja, að einhver framkvæmd sé arðvænleg. En það er þó ekki aðalatriðið. Auk þess sagði hann, að þessu mætti nú ekki jafna saman, úthlutun gjaldeyris– og innflutningsleyfa og úthlutun fjár, því að þegar um úthlutun fjár væri að ræða, væri við almennan mælikvarða að styðjast og hann nefndi þetta um atvinnumálan., en nefndi líka banka og það verð ég að segja, að það er að talsverðu leyti nýtt fyrir mér, að bankastjórar hafi einhvern almennan mælikvarða eftir að fara, þegar þeir taka ákvörðun um það, hvort þessi víxillinn eða hinn skuli keyptur. Það er sjálfsagt svo, að yfirleitt er það alveg útilokað, að þar komi til greina einhver kunningsskapur eða pólitík. En þó hygg ég, að það sé ekki algerlega girt fyrir, að það geti átt sér stað og heyrzt hefur deilt á banka ekki síður heldur en á stjórn gjaldeyris– og innflutningsmála.

Það, sem var aðalatriðið, var, að hv. þm. gekk alveg framhjá höfuðatriðinu. Hann talaði og bar saman úthlutun gjaldeyrisleyfa og úthlutun á fé til einstakra framkvæmda og gaf þar með það í skyn, að okkar till. gengju út á úthlutun innflutnings– og gjaldeyrisleyfa. En það er skýrt tekið fram, að okkar till. ganga einmitt fyrst og fremst út á að setja almennar reglur, en hitt viljum við forðast, eftir því sem hægt er, að það verði tekið upp leyfakerfi í þeim gamla stíl. Þetta höfum við margtekið fram. Hvers vegna er þá hv. þm. að tala um þetta, eins og hann hafi aldrei heyrt þetta? Það er þetta, sem er aðalatriðið í þessu, að það er ekki sérstaklega um neitt leyfakerfi samkvæmt okkar till. að tefla, heldur fyrst og fremst setningu almennra reglna. Auk þess er auðvitað atvinnumálastofnuninni fyrst og fremst og það er tekið fram í frv. okkar, ætlað það verkefni að vinna að atvinnuuppbyggingu, eflingu atvinnulífsins og gerð framkvæmdaáætlana eftir almennum reglum.

Ég skal ekki eyða fleiri orðum að þessu og þetta, sem hér hefur verið sagt, kemur auðvitað ekkert við því máli, sem hér er til umr., þáltill. um embættaveitingar, en vegna þess að hv. þm. kom með þetta innskot í umr., vildi ég ekki láta það framhjá mér fara án þess að andmæla hans málflutningi og sýna fram á, á hve röngum forsendum hann var byggður.