18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í D-deild Alþingistíðinda. (3441)

184. mál, rannsóknarstofnun í áfengismálum

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 1. þm. Vestf., Sigurvin Einarssyni, till. til þál. um rannsóknarstofnun í áfengismálum, sem hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að koma upp rannsóknarstofnun í áfengismálum, er hafi það hlutverk að vinna að vísindalegum rannsóknum á áfengismálum, félagslegum og læknisfræðilegum. — Kannaðir verði í þessu sambandi möguleikar á samstarfi við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina, og höfð verði, eftir því sem ástæður þykja til, hliðsjón af áfengismálarannsóknum á Norðurlöndum. — Verja skal til starfsemi þessarar og henni til undirbúnings, að svo miklu leyti sem til hrekkur, þeim hluta af tekjum gæzluvistarsjóðs, er ætlaður er til rannsókna á orsökum, eðli og meðferð drykkjusýki samkvæmt 17. gr. laga nr. 39/ 1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Að öðru leyti kostar ríkissjóður starfsemi þessa af ágóða sínum af einkasölu á áfengi.“

Það er upphaf þessa máls, að vorið 1964 kaus Alþ. samkvæmt þál. nefnd 7 alþm. til þess að rannsaka svo sem verða mætti ástandið í áfengismálum þjóðarinnar. Þáltill. þá, sem að þessu laut, hafði Magnús Jónsson, núv. fjmrh., flutt, enda var hann kjörinn formaður umræddrar þmn. Auk formannsins, Magnúsar Jónssonar, áttum við flm. þessarar till. sæti í n. og einnig alþm. Alfreð Gíslason læknir, Axel Jónsson, Einar Ingimundarson, núv. bæjarfógeti í Hafnarfirði, og Jón Þorsteinsson. N. þessi skilaði skýrslu til ríkisstj. um mitt ár 1966 ásamt till. um tilteknar breytingar á áfengislögum og ýmsar ábendingar aðrar, sem verða mættu til úrbóta í áfengismálum. Auk þess fylgdu skýrslunni ýmis bréf og grg., sem n. höfðu borizt og telja mátti að hefðu þýðingu eða upplýsingagildi fyrir það mikla málefni, sem n. var falið að fjalla um.

Áfengismálanefndin setti sér það mark að leitast við að fá sem skýrasta heildarmynd af ástandi áfengismálanna í landinu. Árangur af þeirri viðleitni birtist í umræddri skýrslu, sem síðar var prentuð sem fskj. með frv. til l. um breytingu á áfengislögum á þinginu 1966–67. Einnig var skýrslan fjölrituð og send alþm. og ýmsum fleiri aðilum. Ég þori að fullyrða, að í skýrslu áfengismálanefndar voru margvíslegar og gagnlegar upplýsingar, en það er engum ljósara en þeim, sem í n. sátu, að hinu yfirgripsmikla verkefni, að kanna ástand áfengismála í landinu, voru ekki gerð nein fullnaðarskil. Til þess skorti flest skilyrði. Í fyrsta lagi var til þess ónógur tími, og í öðru lagi bjó n. við ófullkomnar aðstæður til rannsókna. N. hafði enga aðstöðu til þess að láta fara fram þær viðtæku félags- og læknisfræðilegu rannsóknir, sem eru undirstaða þess, að hægt sé að gera fullkomna grein fyrir ástandinu í áfengismálunum og finna fullgild ráð til lausnar á þeim vanda, sem misnotkun og ofneyzla áfengis hefur í för með sér, enda held ég, að því verði ekki með rökum haldið fram, að það sé á valdi leikmanna að inna slíka rannsókn af hendi, svo að viðhlítandi sé til frambúðar og þannig, að á henni mætti byggja virkar ráðstafanir til lausnar á hinum margvíslega vanda, sem stafar af ofneyzlu og misnotkun áfengis.

Hin fjölmenna þmn., sem á sínum tíma fjallaði um áfengismálin, var engan veginn sammála um alla hluti, og viðhorf nm. til áfengismála voru mismunandi í mörgum greinum. Þó urðu nm. sammála um margt. Þannig varð n. sammála um, að Íslendingar eiga við áfengisvandamál að etja í ríkum mæli, sem birtist í mörgum myndum. Athuganir n. sýndu ljóslega, að þörf er frekari rannsókna á áfengisvandamálinu og athugun á því, í hverju það er fólgið, en um það þarf ekki að villast, að ýmiss konar heimilisböl og þjóðfélagstjón hlýzt af völdum áfengisneyzlu. Þúsundir manna eru haldnar drykkjusýki. Hversu há tala drykkjusjúklinga eða ofdrykkjumanna er, er e.t.v. ekki nákvæmlega vitað. Það var a.m.k. ekki vitað á þeim tíma, sem n. starfaði, en Tómas Helgason prófessor áætlaði samkvæmt sérstökum líkindareikningi, að ofdrykkjumenn í landinu væru 2.300 og þar af eiginlegir drykkjusjúklingar, eins og hann orðaði það, 1.450 karlar og á annað hundrað konur. Sumir munu ætla, að þessar tölur séu mun hærri. Af þessu er augljóst, að drykkjusýki, sem læknar telja nú geðsjúkdóm er einn alvarlegasti sjúkdómur meðal Íslendinga. Drykkjusýki er þjóðarplága og sízt betri viðureignar en ýmsir aðrir sjúkdómar, sem mikið er um rætt, að þurfi að berjast gegn og finna ráð við.

Áfengismálanefndin reyndi að gera sér grein fyrir, hvort eitthvað væri til í þeirri staðhæfingu, að af áfengisneyzlu leiddi meira eða minna heimilisböl og fjölskylduvandræði. Í stuttu máli sagt sannfærðist n. um, að þessi staðhæfing er á rökum reist. Áfengisneyzla er algengur bölvaldur á heimilum og að áliti allra þeirra mörgu presta, sem n. ræddi við, en þeir fjalla manna mest um hjónaskilnaðarmál og orsakir þeirra, þá er drykkjuskapur annars hvors aðilans, venjulega þá eiginmannsins, algengasta orsök hjónaskilnaða og upplausnar heimila. Sannleikurinn er sá, að það er varla til sú fjölskylda í landinu, a.m.k. er varla til sú manneskja í þessu landi, sem ekki á einhvern náinn vandamann, sem haldinn er drykkjusýki eða ofdrykkjuhneigð. Það hlýtur að vera verðugt rannsóknarefni fyrir íslenzka lækna og félagsfræðinga að komast fyrir orsakir þess villimannlega drykkjuskapar, sem Íslendingar temja sér, m.a. á almannafæri.

Þá vildi ég minnast á eina hlið áfengisvandamálsins, sem er drykkjuskapur á vinnustöðum og vinnutap af völdum áfengisneyzlu. Áfengismálanefndin reyndi að gera sér grein fyrir þessu og hafði samband við fjölda aðila um þetta efni, bæði vinnuveitendur og forustumenn verkalýðsfélaga. Niðurstaðan af þessari viðleitni n. var engan veginn fullkomin og sízt af öllu óyggjandi. En það getur varla farið á milli mála, að drykkjuskapur veldur oft stórtjóni í atvinnulífinu og er talsvert áberandi í sumum greinum atvinnulífsins. Það fer t.d. ekki á milli mála, að áfengisneyzla í verstöðvum og síldarhöfnum veldur oft stórvandræðum, bæði í beinni framleiðslustarfsemi og röskun á reglu og allsherjar friði á þessum stöðum. Hér er auðvitað ekki um nýtt vandamál að ræða. Þetta er gamalt fyrirbæri og e.t.v. ekki auðleyst, því að aðstæður allar eru mjög sérstæðar í slíkum samfélögum. En ég held, að það væri mjög æskilegt að gefa þessu sérstaka vandamáli meiri gaum en hingað til hefur verið gert. Áfengismálanefndin ræddi þetta atriði í áliti sínu og ábendingum og sagði m.a., að æskilegt væri að mynda víðtæka samstöðu þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, um aðgerðir til úrbóta, svo sem lögreglu– og bæjaryfirvalda, ríkisvalds, samtaka sjómanna og vinnuveitenda auk bindindishreyfingarinnar og annarra samtaka, sem vildu láta þetta mál til sín taka. En umfram allt held ég, að þetta mál og margt fleira þurfi að rannsaka miklu betur og leitast við að grafast fyrir rætur þeirrar drykkjuómenningar, sem ríkir hér á landi og verður varla líkt við annað, en þá geðsjúku villimennsku, sem einkenndi drykkjuskap rússneska aðalsins í mörg hundruð ár og frægt er af bókum og í sögum.

Hér verður brennivíninu einu ekki um kennt. Það hlýtur að vera eitthvað bogið við geðheilsu, menningarskilning og smekk íslenzku þjóðarinnar. Þetta er að vísu persónuleg skoðun mín og ég ætla ekki að gera allar skoðanir mínar að skoðunum samflm. míns að þessari till., hv. 1. þm. Vestf. En við erum sammála um það, að þörf sé að koma upp rannsóknarstofnun í áfengismálum, og það var ein aðalábending áfengismálanefndar Alþ. á sínum tíma. Og þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, fjallar um að skora á ríkisstj. að koma slíkri rannsóknarstofnun upp. Ef hennar er einhvers staðar þörf í heiminum, er hennar þörf hér á landi.

Eins og rakið er í grg. með till., er það m.a. skoðun dr. Tómasar Helgasonar, sem er okkar fremsti sérfræðingur um lækningu drykkjusýki og varnir gegn ofdrykkju, að brýnasta verkefnið í málefnum drykkjuskaparlækninga séu vísindalegar rannsóknir á drykkjuháttum manna. Það er með drykkjusýki eins og aðra sjúkdóma, að það finnst ekki við þeim lækning, nema læknar þekki eðli þeirra og orsakir. Það er skoðun okkar flm., og það var á sínum tíma skoðun allra áfengismálanefndarmanna, að áfengismálarannsóknir yrði að efla og kosta nokkru til þeirra.

Að sönnu eiga vísindalegar rannsóknir í áfengismálum annars staðar í heiminum ekki ýkjalanga sögu að baki. Þó hefur orðið stórbreyting þar á, m.a. á Norðurlöndum s.l. tvo áratugi og vísa ég til þess, sem segir um það efni í grg. fyrir þessari till. og einnig þess, sem fram kemur í nál. áfengismálanefndar á sinni tíð. Áfengismálanefndin taldi rétt að kanna, hvort ekki mundi vera hægt að ná samvinnu við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina í Genf um slíkar áfengismálarannsóknir og við flm. þessarar till. leggjum einnig til, að þessi möguleiki verði kannaður. Slíkt gæti haft fjárhagslega þýðingu, en umfram allt vísindalegt gildi. Að öðru leyti teljum við flm. ekki áhorfsmál, að ríkissjóði beri að leggja fram fé af áfengisgróða sínum til áfengismálarannsókna. Slíkt er bæði eðlilegt mál og sjálfsagt. Ofdrykkja er áreiðanlega stórfellt vandamál hér á landi og drykkjusýki með hinum alvarlegustu sjúkdómum, sem herja á íslenzku þjóðina, hvort sem mönnum líkar betur eða verr að þurfa að viðurkenna slíkt.

Herra forseti. Ég minni enn á það í lok ræðu minnar, að till. hefur komið fram um það frá fjölmennri mþn. fyrir nokkrum árum, sem skipuð var alþm. úr öllum þingflokkum og mönnum með mismunandi viðhorf í áfengismálum, að efna þurfi til vísindalegra áfengismálarannsókna hér á landi, og rétt sé að koma á fót sérstakri rannsóknarstofnun í áfengismálum. Ég vísa því sérstaklega til þessa álits til rökstuðnings þeirri till., sem við hv. 1. þm. Vestf. stöndum hér að.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. og til hv. allshn.