19.12.1968
Efri deild: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

105. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í frv. þessu til breyt. á l. um Bjargráðasjóð Íslands felast tvær breytingar frá gildandi l., annars vegar sú breyting, að framlög sveitarfélaga og ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs verði hækkuð úr 10 kr. í 25 kr. á hvern íbúa og í öðru lagi er sjóðsstjórninni veitt heimild til þess að færa fé á milli einstakra deilda sjóðsins, en til þess hefur skort örugga lagaheimild. Ástæðurnar fyrir þessum hækkunum á framlögum til Bjargráðasjóðs eru tvenns konar. Þar er um að ræða að hækka þetta til þess að fylgja eftir hækkun verðlags og kaupgjalds, því að nú er auðvitað um að ræða smærri krónur heldur en þegar þetta 10 kr. framlag var ákveðið á sínum tíma og að hinu leytinu er svo ástæðan sú og ekki síðri, að ýmsar þungar kvaðir hafa lagzt á Bjargráðasjóð að undanförnu. Þar má sérstaklega nefna hið erfiða árferði í landbúnaðinum, kalið í túnunum og svo enn fremur hafísinn á s.l. vetri, sem olli bátaútgerðinni fyrir Norðurlandi verulegu tjóni á veiðarfærum, en Bjargráðasjóður ætlar að einhverju leyti að bæta.

Þetta frv. var sent til athugunar og umsagnar í heilbr.- og félmn. N. hefur fjallað um þetta mál og mælir einróma með því, að frv. verði samþ., svo sem sést á nál. á þskj. 199.