30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (3555)

254. mál, lánsfé vegna jarðakaupa

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er langt síðan ég vissi, að hv. 3. þm. Norðurl. v. bar mikið traust til mín og þess vegna varð hann fyrir vonbrigðum, svo sem hann segir, að ég skyldi ekki hafa útvegað veðdeildinni það fjármagn, sem hún þurfti, t.d. með því að láta sparisjóðsdeildina lána veðdeildinni. Það þurfti ekkert annað, en tala við bankastjóra Búnaðarbankans og segja þeim að gera þetta. En það er nú svo, að jafnvel hjá Búnaðarbankanum flæðir ekki út úr kassanum núna. Ég get upplýst það, að Búnaðarbankinn er í skuld við Seðlabankann og það er náttúrlega ekki æskilegt fyrir bankann og ég veit, að bankastjórar Búnaðarbankans hafa mikinn hug á því að jafna þessa skuld, en ef hagur deildarinnar væri öðruvísi og ætti eftir að batna, þá hygg ég, að það stæði ekkert á þeim að rétta nokkrar millj. til veðdeildarinnar. En það er bezt að endurtaka það og á skýrari hátt, en ég sagði áðan, að það verður ekki von á peningum í veðdeildina fyrr en á næsta ári og það verður tekið til athugunar, eins og ég sagði áðan, hvort ekki verður hægt að taka það upp á áætlun ríkisstj. til fjárfestingarsjóðanna og hv. 3. þm. Norðurl. v. er það vel að sér í fjármálum og öðru, að hann getur alveg gert sér grein fyrir því, að þegar beiðni kemur á seinni hluta ársins um útvegun fjár, liggur það ekki svo laust fyrir, sízt þegar viðskiptabankinn er í skuld við Seðlabankann.

Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson lét undrun sína í ljós yfir því, að það skyldi nú hafa verið lánuð 5.1 millj. kr. Og ég fór nú að lesa bréfið aftur og hugsaði sem svo: Getur það verið, að ég hafi lesið skakkt áðan? En það stendur hér til fyllri upplýsingar fyrir hv. þm.:

„Það, sem af er árinu, hefur deildin lánað 5.1 millj. kr. og hefur skuldin við sparisjóðsdeildina hækkað þess vegna.“

Þeir segja: Það, sem af er þessu ári. Það er eins og bréfritarinn og kannske bankastjórarnir hafi hugsað sem svo, að þetta gæti hækkað á þeim mánuðum, sem eftir eru. Og ef það yrði, mundi þetta verða ennþá betra heldur en hv. fyrirspyrjandi bjóst við. (Gripið fram í: Er þetta alveg nýskeð?) Bréfið er dagsett í dag. Það stendur ekki í bréfinu. Það er það, sem af er þessu ári og mér er ekki kunnugt um, hvenær lánin voru afgreidd.