11.11.1968
Neðri deild: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér litla brtt. við þetta frv. Hún er um það, að ný málsgr. bætist við 5. gr. frv., svo hljóðandi:

„Gengismismunur, sem myndast kann við kaup á gjaldeyri eftir gildistöku þessara laga vegna verksamninga við erlenda aðila, að því leyti sem verkin hafa verið unnin fyrir setningu þessara laga, skal færður á gengisreikning ríkissjóðs í Seðlabankanum, sbr. 4. gr.

Hliðstæð ákvæði við þetta voru í þeim lögum um ráðstafanir í sambandi víð gengisákvörðun, sem ákveðin var, eða fyrir þeim lögum, sem sett voru hér við gengisbreytinguna 1960 og aftur 1961. En þetta ákvæði féll hins vegar niður síðast, þegar lög voru hér sett um ráðstafanir í sambandi við nýja skráningu á krónunni. Ég tel alveg nauðsynlegt að taka af öll tvímæli í þessum efnum. Þeir aðilar, sem gera verksamninga við erlenda aðila í erlendri mynt, eru raunverulega að flytja út verðmæti á svipaðan hátt og þeir eru að gera, sem framleitt hafa útflutningsvöru. Þeir, sem framleitt hafa útflutningsvöru og selja hana úr landi, eiga ekki að fá að eiga þann hagnað, sem fram kemur við gengisbreytinguna, og það er vitanlega eðlilegt, að eins fari með verktaka, sem gert hafa samninga í erlendri mynt og fram kemur gengishagnaður hjá. Það sýnist vera réttmætt, að sá gengishagnaður fari sömu leiðina og gengishagnaðurinn í hinu tilfellinu af útfluttum afurðum, renni í sama sjóðinn, sem síðan er gert ráð fyrir, að verði ráðstafað með sérstakri lagasetningu hér síðar. Það er varla ætlazt til þess, að þessir verktakar eigi að hagnast að þessu leyti á gengisbreytingunni umfram það, sem venjulegir útflytjendur eiga að gera. Ég vil sem sagt með þessari till. fá úr því skorið, hvort það sé ætlunin að láta þessa verktaka hagnast á þessari breytingu og fá þarna annan rétt heldur en t.d. þá, sem standa að því að framleiða venjulega útflutningsvöru. Ég gerði um þetta fsp. á nefndarfundi og fékk það upplýst síðar frá einum af bankastjórum Seðlabankans, að þetta ákvæði hafi að vísu ekki verið sett inn núna í l. vegna þess, að það mundi ekki vera mikið um þetta að ræða. Það skal ég að vísu ekkert um segja, hversu mikið um þetta kann að vera að ræða nú, en mér sýnist þó mjög líklegt, að Aðalverktakar, sem jafnan gera samninga við hernámsyfirvöldin suður á Keflavíkurflugvelli um allmikil verk og semja venjulega í erlendri mynt, gætu fallið undir þetta. Og ekki þykir mér ólíklegt, að einhverjir innlendir aðilar kunni að hafa samið um einhver verk í sambandi við byggingu alúminíumverksmiðjunnar í Straumsvík á þessum grundvelli og þeir gætu á þennan hátt fengið þarna allverulegan gengishagnað, ef engin ákvæði eru sett um þetta í l. En þarna tel ég eðlilegt að hafa sama hátt á varðandi þessa aðila eins og er að finna í frv. um útflytjendur almennt.

Ég skal svo ekki tala hér frekar um þetta mál. Ég hef þegar rætt hér allýtarlega um það fyrr í dag og skal ekki lengja þessar umr. að þessu sinni. Ég hef lýst afstöðu minni til frv. Ég er andvígur málinu. Ég er andvígur þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem ríkisstj. nú hefur boðað, og þetta frv. er einn þáttur í þeirri aðgerð, en eigi að síður flyt ég þessa brtt. til þess að fá úr því skorið, hver meiningin er hjá þeim, sem að frv. standa, í þessum efnum.