06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í D-deild Alþingistíðinda. (3612)

260. mál, bækistöðvar Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég verð að játa minn ókunnugleika á því, hvort legufæri fyrir kafbáta eru eitthvað öðruvísi heldur en legufæri fyrir önnur skip. Mér er ekki kunnugt um það, en hitt er annað, eins og kom fram í þessum fáu orðum, sem ég hafði hér yfir áðan til svars við fsp., að eftir er að leggja út tveim legufærum, sem mér skilst, að séu aðallega fyrir þau skip, sem leggjast að bryggjunni. En ef það er misskilningur hjá mér, bið ég afsökunar á því, en ég bara veit ekki nákvæmlega, hvernig þessum legufærum verður hagað og heldur ekki hvort þau eru fyrir kafbáta eða önnur skip. Ég held nú í minni fáfræði, að það sé ekki mikill munur á þeim legufærum, sem kafbátar nota og önnur skip.

Hvað snertir almennar umr. um þetta mál, þá hafa þær farið fram ekki einu sinni heldur a.m.k. tvisvar og kannske oftar á hv. Alþ. og þar hefur málið verið rætt allýtarlega og sá aðdragandi, sem að því hefur orðið. Um almennar utanríkispólitískar umr. skal ég segja það, að ég hef ekkert á móti því, að þær fari fram, en vildi gjarnan ef til þess kæmi og þegar til þess kæmi, hafa um það samráð við hv. utanrmn.